Furðulegur fréttaflutningur

Það er svo sannarlega allt reynt til að gera Ásmund Friðriksson tortryggilegan. Ekkert hefur komið fram annað en að hann hafi fengið greitt fyrir akstur í samræmi við reglur þingsins þar um. Það skiptir nákvæmlega engu máli þótt fréttastofa RÚV láti reikna út að rekstrarkostnaður einhverrar tiltekinnar bifreiðar sé lægri en nemur því sem reglur þingsins kveða á um.

En ef "frétta"menn eru komnir á þennan stað í baráttu sinni við pólitíska andstæðinga, væri ekki úr vegi að ganga í að framkvæma sambærilega útreikninga gagnvart starfstengdum fríðindum og styrkjum sem starfsmenn RÚV njóta sjálfir. Nú verður spennandi að sjá hvort "fréttastofa" RÚV gerir það.

Annars er það dæmigert fyrir pólitíska umræðu hérlendis að svona mál sem engu skipta eigi athygli fjölmiðla dögum saman. Frekar væri ástæða til að fjalla um misnotkun stjórnmálamanna á milljörðum af almannafé sem fjölmiðlum virðist hins vegar mestan part alveg sama um. Ekki er langt síðan stórfé var eytt í meira og minna tilgangslausar breytingar á Miklubraut og svo kemur upp úr dúrnum að þeir sem að þeim stóðu leggja nú til að allt verið rifið upp aftur og stokkur lagður undir götuna. Ekki er langt síðan boruð voru göng í gegnum Vaðlaheiði, verkefni sem troðið var í gegn með blekkingum og kostaði milljarða króna. En þessum "fréttamönnum" er auðvitað alveg sama um slíkt. Ómaklegar árásir á einstaklinga eru þeirra ær og kýr.


mbl.is Rekstur bílsins rúmar 2 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er auðvitað bara skepnuskapur

Illa farið með dýrin að banna þeim þátttöku í stjórnmálum. Hugsa að voffi yrði ekkert verri ríkisstjóri en hver annar.

Kötturinn minn hafði mikinn áhuga á að bjóða sig fram til forseta í síðustu forsetakosningum. En hún náði því miður ekki aldurstakmarkinu. Hefði hins vegar eflaust orðið afbragðs forseti.


mbl.is Loðnir mega ekki bjóða sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæmur dagur

Þetta hefur greinilega verið slæmur dagur hjá Degi, kannski er Dagur að kveldi kominn.


mbl.is „Einn hafði ekki eins gaman að þessu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að skapa ójöfnuð

Lélegt skólakerfi er vísasta leiðin til að auka ójöfnuð í samfélaginu. Börn efnaðra foreldra sem hafa menntun í hávegum fá hvatningu og þá einkakennslu sem þarf til að ná árangri í námi. En hin, sem verða að reiða sig á skólann einan fara halloka.

Krafan um ókeypis skólagöngu kom upphaflega frá sósíalistum. Og í ríkjum sósíalista var ávallt mikil áhersla lögð á góða grunnmenntun. En þótt þeir sem ábyrgð bera á menntamálum hér séu upp til hópa vinstrisinnaðir virðast þeir engan veginn gera sér grein fyrir mikilvægi almennilegrar menntunar sem tækis til að skapa börnum jafnari tækifæri. Líklega er hugsjónin um gott almennt menntakerfi dauð hjá íslenskum sósíalistum. Í staðinn hefur komið hugsjónin um að vernda eigin vangetu gagnvart utanaðkomandi mati og mælingum. Þetta er ástæðan fyrir því að þegar fram koma vísbendingar um lélegan árangur er svarað með því að árangur skipti ekki máli svo framarlega sem börnunum líði ekki illa í skólanum. Svo fylgir auðvitað hin klassíska afsökun að fjárskorti sé um að kenna, í dýrasta skólakerfi á Norðurlöndum.


mbl.is Eitthvað annað en peningar sem er að
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðmundur Andri Thorsson

Ekki nennti ég nú að horfa á "leiðinlega þáttinn" í gærkvöldi frekar en vanalega, enda virðist þar alltaf á ferð sama yfirborslega fólkið, í örlítið breyttum útfærslum milli þátta.

En það kemur auðvitað ekki á óvart og er í stíl við málflutninginn sem maður hefur séð fram til þessa að umræddur annars flokks rithöfundur skuli nú geisa mjög yfir ferðalögum samstarfsmanns síns og það auðvitað að ástæðulausu. Heiðarleiki í málflutningi er sumu fólki áskapaður. Hjá sumum er lágkúran leiðarstefið og fá þeir lítið við það ráðið.


mbl.is „Góða fólkið er bókstaflega að ærast“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður sífellt einkennilegra

Það er ekki vafi á því, miðað við það sem gengið hefur á, að mun einfaldara hefði verið fyrir ráðherra að pressa í gegnum þingið skipun þeirra sem nefndin mælti með en að reyna að finna leið til að jafna kynjahlutföllin.

Það breytir því ekki að málsmeðferð þessarar nefndar er með ólíkindum: Gengið er í að velja nákvæmlega þann fjölda sem skipa á út frá mismun sem nemur broti úr prósenti. Á sama tíma er öllum umsækjendum gefin nákvæmlega sama einkunn í mikilvægum matsþáttum. Ofan í kaupið er excelskjalið fullt af reiknivillum. Svo kemur í ljós að fundargerðir voru aldrei gerðar, í öðru skipunarmáli neitar svo nefndin að afhenda rökstuðning.

Það kemur sumsé ekki á óvart að miðað við þessi vinnubrögð hafi ráðherra ekki þótt einsýnt að fara í einu og öllu að tillögum nefndarinnar. En ég hugsa að hún hljóti að naga sig í handarbakið nú, fyrir að hafa ekki bara farið einföldustu leiðina, jafnvel þótt hún teldi hana ekki rétta.


mbl.is Neitar að afhenda gögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða, hvaða ...

Gengur nú ekki að láta Eyþór koma í sjónvarpið að tuða þetta í honum Degi.

Veit ekki maðurinn að það er verið að vinna á fullu í að móta samráðshóp til að móta áætlun til að móta aðgerðir til að sjá um að allir lélegu skólarnir verði áfram í fararbroddi í Reykjavík...

Hefur hann enga hugmynd um að það er á teikniborðinu að það verði bráðum sett í gang samráðsverkefni um að úthluta lóðum og teikna hús sem verða kannski einhverntíma byggð...

Gerir hann sér ekki grein fyrir að það þýðir ekkert að leggja vegi því þá keyrir fólk á vegunum, að þótt Sundabraut verði lögð tryllist bara úthverfalýðurinn í Grafarvogi og keyrir sem mest hann má allan sólahringinn á brautinni til að fylla hana svo heiðarlegt fólk kemst ekki lönd eða strönd - til að fara á fund í samráðshópnum ...

 


mbl.is Býr enginn í því sem er verið að hanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver eru grundvallaratriðin?

Samkvæmt áætlunum um borgarlínu er vonast til að notkun almenningssamgangna aukist umtalsvert verði hún að veruleika. Umtalsvert er þó nokkuð tvírætt hugtak hér því notkunin er einfaldlega svo sáralítil að jafnvel þótt hún aukist umtalsvert verður hún áfram sáralítil, bara aðeins minna sáralítil.

Þetta eitt og sér þýðir auðvitað að þörfin fyrir umferðarmannvirki fyrir bíla minnkar í sjálfu sér ekki sem neinu nemur. En með því að leggja akreinar undir þessa strætisvagna, og minnka þar með rýmið fyrir bíla, verða umferðarteppurnar vitanlega verri og tíðari. 

Gjarna hefur verið talað um að fyrst hægt er að koma upp svona kerfi í Stavanger í Noregi sé það alveg eins hægt hér. En stenst þetta? Höfuðborgarsvæðið, þ.e. flatarmál allra sveitarfélaga sem tilheyra því, er um eitt þúsund ferkílómetrar. Flatarmál Stavanger er 73 ferkílómetrar. Hér eru 200 íbúar á ferkílómetra. Þar eru þeir 2000. Íbúar á ferkílómetra í Stavanger eru þannig margfalt fleiri en á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. þéttleiki byggðar, sem er grundvöllur fyrir svona verkefni, er til staðar þar, en hann er einfaldlega ekki til staðar hér.

Talsmenn borgarlínu vitna mikið til rannsóknar sem gerð var 2011 og sýnir að fylgni er milli afkastagetu vega og notkunar þeirra. Af þessu er gjarna dregin sú ályktun að þarna sé orsakasamhengi til staðar. Það er þó alls ósannað að svo sé.

En jafnvel þótt við gefum okkur að orsakasamhengið sé til staðar er það hins vegar líka til staðar þegar litið er á almenningssamgöngur. Sporvagnar, strætisvagnar og neðanjarðarlestir eru háð sama lögmálinu, að aukið framboð kalli á aukna eftirspurn. Þetta er hins vegar aldrei minnst á í umræðum um borgarlínuna.

Nú er farið að tala um áform um umfangsmikla bílastæðagerð við stöðvar borgarlínunnar í íbúðahverfum, til að fólk geti ekið þangað og tekið svo borgarlínuna. Sé þetta nauðsynlegt er auðvitað líka nauðsynlegt að gera það sama á áfangastaðnum. Verður borgarlínan þá kannski til þess að fólk þurfi að eiga tvo bíla? Annar er geymdur heima og svo skilinn eftir við stoppistöðina að morgni. Hinn er geymdur á áfangastaðnum og notaður til að aka til vinnu, því vinnustaðir fólks eru auðvitað ekki við hliðina á stoppistöðinni neitt frekar en heimili þess.

Og hver verður þá niðurstaðan? Stórfelldur kostnaður á hvert heimili við að búa til kerfi sem virkar ekki. Stóraukin bifreiðaeign og viðeigandi rekstrarkostnaður. Auknar umferðarteppur. Almenningur tapar. Verktakarnir og hönnuðirnir græða.


mbl.is Tekist á um grundvallaratriði borgarlínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða þingmaður?

Hvaða þingmaður ætlar nú að taka að sér að vera fyrstur til að bera upp tillögu um óháða úttekt á vinnubrögðum Hagstofunnar?

Eða er enginn á þingi sem hefur næga ábyrgðartilfinningu til að taka á þessu grafalvarlega máli þar sem gögn og útreikningar virðast meira og minna í einhverju rugli með þeim alvarlegu afleiðingum sem það hefur á alla ákvarðanatöku opinberra aðila og aðila vinnumarkaðarins?

Er þingmönnum alveg sama þótt hagtölur séu í vitleysu?

Eru þeir allir uppteknir af aukaatriðum sem engu máli skipta?

Er Helga Vala Helgadóttir orðin hin nýja allsherjarfyrirmynd þingmanna?


mbl.is Furða sig á skýringum Hagstofunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Musk er ekki fisjað saman

Það er eiginlega erfitt að ímynda sér eitthvað meira "kúl" en flottan sportbíl á leið til Mars með Life on Mars glymjandi í hljómtækjunum.

Elon Musk kann svo sannarlega á þetta.


mbl.is Tesla-bifreiðin komin út í geim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Feb. 2018
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28      

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband