Færsluflokkur: Dægurmál

Sannar bara hið fornkveðna ...

... að vinstrimenn eru upp til hópa letingjar og liðleskjur

... þeir sem eru hallir undir ESB eru of timbraðir af rauðvínssötri til að komast á lappir á morgnana

... fátæklingar eru latari en þeir efnameiri

... Miðflokksmenn eru duglegir að fara fram úr (þótt við vitum að þeir vaka stundum líka lengi frameftir).

 

Annars fannst mér reyndar athygliverðasta niðurstaðan sú, að einhleypir skuli vera andvígari því að seinka klukkunni en þeir sem ekki eiga maka. Þetta hlýtur þá eiginlega að eiga við um þá sem eru einhleypir en eiga samt maka, en þeir sem ekki eiga maka eru latir á morgnana, sama hvort þeir eru einhleypir eða ekki (sjá skjáskot af vef könnunarfyrirtækisins):

Screenshot 2019-01-18 at 15.20.09


mbl.is Mikill meirihluti vill seinkun klukku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju

Frábært fyrir Dill og fyrir Ísland að komast á kortið hjá Michelin. Það kemur reyndar ekki á óvart því Dill hefur um árabil verið frábær veitingastaður með gríðarlegan metnað.

Svo tek ég eftir því að veitingahúsið Matur og drykkur á Grandagarðinum er með Bib Gourmand merkingu hjá Michelin, en hún er notuð fyrir staði sem matgæðingum Michelin þykir bjóða mikil gæði á góðu verði.

Kröfur Michelin eru mjög miklar. Um þriggja stjörnu veitingastaði, en þeir eru færri en 200 talsins í heiminum, segir til dæmis: "Hér fær maður ávallt mjög góðan mat, stundum frábæran". Bara stundum!

 


mbl.is Uppbókað næstu tvo mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hestgjafinn??

Við hjónin ösnuðumst til að kaupa prufuáskrift að uppskriftablaðinu Gestgjafanum.

Misstum samt eiginlega lystina þegar okkur barst fyrsta tölublaðið, stútfullt af hestaketsuppskriftum.

Flaug þá í hug að líklega færi betur á að blaðið héti Hestgjafinn. Veltum svo fyrir okkur með nokkrum óhugnaði hvert þema næsta blaðs yrði: Hundaket, mannaket??

Við ætlum þá að senda inn uppskriftir. Til dæmis kryddlegnar auðmannalundir. Eða atvinnuleysingjasmásteik af fullorðnu! 


Glæsilegur árangur!

Enn og aftur sýnir íslenska skylmingaliðið frábæran árangur!

Það hefur verið gaman að fylgjast með uppbyggingu ólympískra skylminga hérlendis síðastliðin ár. Að öðrum ólöstuðum má þar fyrst og fremst þakka þennan árangur Nikolay Mateev þjálfara, sem hér hefur lyft grettistaki og helgað sig uppbyggingu íþróttarinnar hérlendis af ótrúlegri fórnfýsi.

Það starf sem Nikolay og félagar vinna nú með börnum er frábært og miðað við þá alúð sem lögð er við það má vafalaust vænta enn frekari afreka í framtíðinni.

 

 


mbl.is Góður árangur skylmingamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóley bjargar sér frá heiminum!

Ég rakst áðan á nýja færslu Sóleyjar Tómasdóttur þar sem hún veltir því upp hvað Reykjavíkurborg geti gert til að menn hætti að lemja konurnar sínar. Það stendur víst fyrir dyrum feminísk ráðstefna um þetta.

Mín fyrsta hugsun var auðvitað sú að heimsækja Sóleyju og hrekkja hana smá með sniðugum hugmyndum. En viti menn, þá er hún búin að loka á athugasemdir á síðunni sinni!

Nú hef ég eiginlega alltaf litið þannig á að hluti þess að standa í þessu bloggbrölti sé að skapa umræður, sem oft verða skemmtilegar og vitrænar rökræður úr. Ég tók til dæmis þátt í mjög upplífgandi umræðum um trú og trúleysi á síðunni hans Hlyns Hallssonar fyrir örskömmu síðan og held að við öll sem þar komum að höfum gengið frá þeirri samdrykkju nokkurs vísari og með betri skilning hvert á annars viðhorfum. Hluti af þessu er svo auðvitað að alls konar apakettir geta líka slæðst inn á athugasemdasíðuna. Þá tekur maður því bara eins og maður (nú eða kona auðvitað!), hvort sem maður kýs að grínast í þeim eða leiða þá einfaldlega bara hjá sér.

Mér finnst sumsé frekar tilgangslítið að halda úti svona síðu en loka á athugasemdir og benda fólki bara á að panta tíma ef það langar að skiptast á skoðunum við mann. En þetta er kannski ný nálgun í samræðustjórnmálum hjá Sóleyju.


Misráðinn hernaður

Ég held, því miður, að Siðmennt sé að gera mikil mistök með kröfu sinni um afsökunarbeiðni frá biskupi og öðrum svipuðum upphlaupum undanfarið. Nú er ég fjarri því að vera sérstaklega hrifinn af Siðmennt þar sem mér finnst þessi áhersla á að búa til einhvers konar eftirlíkingar af kristnum athöfnum frekar óspennandi.

Ég ber hins vegar mikla virðingu fyrir skoðunum trúleysingja enda hlýtur allt sanngjarnt fólk að vera sammála því að þær eiga við fullgild rök að styðjast. Það merkir hins vegar ekki að aðrir geti ekki haft aðra lífsafstöðu, grundvallaða á nákvæmlega jafngildum rökum.

Þótt margt sé gott í málflutningi Siðmenntar og gagnrýni á kirkjuna finnst mér þó nýleg upphlaup í tengslum við kristnifræðikennslu og aðkomu kirkjunnar að skólastarfi ekki samtökunum til framdráttar. Jafnvel mætti segja að þau séu tekin að koma óorði á málstað trúleysingja. Það er slæmt.

Orð biskups sem Siðmennt krefst nú afsökunarbeiðni á tengjast auðvitað þessum upphlaupum og endurspegla þá ímynd sem samtökin hafa því miður verið að gefa af sér undanfarið. Mér finnst krafan um afsökunarbeiðni líka lýsa svolítilli móðursýki. Það þarf enginn að skammast sín fyrir að vera hatrammur málflytjandi eða andstæðingur einhvers. Það er engin siðferðileg fordæming fólgin í því hugtaki!

Svo stuttlega sé komið að málflutningnum sjálfum hefur Siðmennt krafist þess að ekki sé stundað trúboð í skólum, því foreldrar eigi að ráða því sjálfir hvaða viðhorf börnum þeirra eru innrætt. Það kann að virðast sanngjörn krafa. En er það endilega víst?

Trúboð er innræting ákveðinna lífsskoðana, rétt eins og predikun trúleysis er innræting ákveðinna lífsskoðana. Innræting lífsskoðana á sér stað alls staðar í skólakerfinu. Það að boða jafnrétti, manngildi og umburðarlyndi er innræting lífsskoðana og það er alls ekki víst að allir séu sammála þeim túlkunum á þessum gildum sem þar eru lögð til grundvallar. Þess utan eru börnum beint og óbeint kenndar aðrar lífsskoðanir, sem kannski eru ekki jafn jákvæðar, svo sem áhersla á efnaleg gæði, reglan um auga fyrir auga og svo framvegis. 

Fyrri spurning mín varðandi þetta er kannski þessi: Ef hafna á innrætingu lífsskoðana í skólum verður þá ekki jafnt yfir allar að ganga? Er yfirleitt hægt að forðast slíka innrætingu svo lengi sem við erum þátttakendur í samfélaginu?

Síðari spurningin er þessi: Er það eitthvað réttmætara að foreldrar stjórni því hvaða lífsskoðanir börnum eru innrættar en að það mótist af almennum viðhorfum í samfélaginu? Eru foreldrar einhvers konar einræðisherrar yfir börnum sínum sem hafa rétt til að stjórna og móta skoðanir þeirra?


mbl.is Krefjast afsökunarbeiðni frá biskupi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað læra þeir sem kenna?

Það hlýtur að skipta meginmáli við kennslu í grunnskóla að kennarinn hafi þekkingu á því námsefni sem honum er ætlað að miðla. Annars er því miður ákaflega líklegt að árangurinn verði slakur.

Ég skoðaði að gamni á vef Kennaraháskólans hvað kennaranemar þurfa að læra til að útskrifast sem grunnskólakennarar. Snöggsoðin niðurstaða er þessi:

Námið er til 90 eininga og skiptist í grunnnám og svonefnd kjörsvið.

Námsefnið í grunnnáminu er allt kennslu- og uppeldisfræði. Námsgreinarnar sem kenna á börnunum koma þar hvergi við sögu.

Kjörsviðin eru 14 talsins. Þau spanna allt frá íslensku og stærðfræði yfir í matargerð.

Íslenskunámið virðist snúast um kennslu í málfræði, bókmenntum og öðru sem ætla má að gagnist við íslenskukennslu. Þegar kjörsviðin eru skoðuð virðist íslenskan hafa nokkra sérstöðu í því, að þar er um praktískt nám í greininni að ræða. Ekki virðist það sama eiga við um mörg hinna kjörsviðanna. Sé stærðfræðinámið tekið sem dæmi snýst það um kennslufræði tengda stærðfræði. Hvergi er minnst á neina kennslu í greininni sjálfri heldur virðist námið aðallega snúast um umfjöllun um sögu stærðfræðinnar, áhrif tæknivæðingar á stærðfræðikennslu og þar fram eftir götunum. Kjörsviðið "kennsla yngstu barna í grunnskóla" virðist mest snúast um hluti á borð við þróun boðskiptahæfni, foreldrasamstarf og lestrarfræði, svo eitthvað sé nefnt.

Svo koma kjörsvið á borð við textíl, matargerð og fleira sem eðli málsins samkvæmt snúast alls ekki um grunngreinar á borð við lestur, skrift eða stærðfræði.

Það virðist því ljóst að auðvelt væri að útskrifast með fullgilt kennaranám án þess að hafa nokkru sinni lært neina undirstöðu í lestrarkennslu eða stærðfræðikennslu. Þá er ekki von að vel fari!

Nú berast af því fréttir að til standi að lengja kennaranám úr þremur í fimm ár. Kostnaður þessu samfara mun verulegur. Væri nú ekki einfaldara að endurskoða það nám sem fram fer í KHÍ og leggja áherslu á hagnýtt nám með áherslu á grunngreinar á kostnað kennslufræðanna sem allt virðist snúast um í téðum skóla? Það þarf enginn að segja mér að þrjú ár dugi ekki til þess. Þá væri kannski hægt að nota peningana til að greiða grunnskólakennurum mannsæmandi laun.

 


mbl.is Vonsvikin með PISA-könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær hugmynd!

Þetta er snjöll hugmynd hjá Alþjóðahúsi.

Í fyrsta lagi eru svona barmmerki líkleg til að fá fólk til að hugsa út í það hvernig við komum fram við útlendinga.

Í öðru lagi gæti ég vel trúað því að þau yrðu til þess að almenningur legði sig fram um að hjálpa erlendum starfsmönnum að læra málið.

Það að hafa tækifæri til að tala erlent mál við heimamenn er líklega besta leiðin til að læra það almennilega. Ég kynntist því eitt sinn sjálfur þegar ég dvaldi í hálfan mánuð í Frakklandi. Við leigðum hús úti í sveit í Provence og húsinu "fylgdi" mikill ágætis húsvörður. Hann kom í heimsókn á tveggja til þriggja daga fresti til að athuga hvort allt væri í lagi. Þær heimsóknir tóku gjarna dáldinn tíma og þá var sest niður yfir kaffibolla og spjallað. Húsvörðurinn góði kunni lítið í ensku en var þeim mun ötulli að tala frönsku við okkur hjónin, bæði hægt og skýrt. Ég held að ég hafi lært meiri frönsku á þessum heimsóknum en öllu frönskunáminu í menntaskóla.


mbl.is 300.000 íslenskukennarar virkjaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóleyismi - köllum alla hluti réttum nöfnum!

Ég hef verið að velta því fyrir mér, í framhaldi af alræmdu þingmáli Steinunnar V. Óskarsdóttur út af ráðherrum, hvort ekki sé víðar pottur brotinn í nafngiftum.

Helstu rök Steinunnar fyrir því að konur eigi ekki að kalla ráðherra eru þau að það sé ankannalegt að kalla konur herra. Undir þetta sjónarmið hafa margir tekið, þótt einhverjir afturhaldsseggir hafi reynt að flytja fyrir því rök að orðið ráðherra þýði allt annað en titillinn herra. En það er vitanlega bara vegna þess að þeir eru afturhaldsseggir og karlmenn með karlmiðaðar skoðanir. Það sér nú hver m... einstaklingur!

Nú vill svo til að margir hlutir bera nöfn sem hljóma ankannalega. Þar á ég ekki aðeins við starfsheiti fólks heldur líka, og ekki síður, dýr og plöntur. Það getur heldur tæpast verið einhver endapunktur í jafnréttisbaráttu að nema staðar við jafnrétti meðal mannfólksins. Náttúran á vitanlega sinn rétt líka. Dýrin eiga sinn rétt og blómin og ekki má brjóta á þeim.

"Sóley" hefur hingað til þótt gott og gilt heiti á blómi einu sem fólk ber raunar misjákvæðar tilfinningar til. Sóleyjar eru einhver algengustu blóm landsins, ásamt fíflum raunar, sem hafa þann skemmtilega kost að skipta um kyn á gamals aldri og eru svo kallaðir biðukollur fram í andlátið. Það sýnir auðvitað á kaldhæðnislegan hátt hvernig karllæg viðhorf í samfélaginu smita út frá sér: Það sem er í blóma lífsins er karlkyns, en verður kvenkyns þegar það drepst!

En fíflar voru nú ekki tilefni þessa pistils heldur sóleyjar. Við sjáum nefnilega, þegar rýnt er í nafnið sóley, að það er samsett heiti, rétt eins og "ráðherra". Sól-ey. Sól og ey. Og þá veltir maður fyrir sér, í anda þingkonunnar mætu, hvort hér sé ekki eitthvað óeðlilegt á ferðinni. Er ekki einkennilegt að kalla blóm ey? Eyjar tilheyra ekki einu sinni jurtaríkinu. Ég held reyndar, að í þessari nafngift hins ágæta blóms megi greina viðhorf af svipuðum toga og það karllæga viðhorf að konur megi vel kalla herra. Ég kýs að kalla það, í þessu samhengi, "landlægt" viðhorf. Landlægt viðhorf er þegar landfræðileg hugtök smita út frá sér yfir á alls óskylda hluti, svo sem plöntur og dýr. Hvað sóleyjarnar varðar er augljóst hvað átt hefur sér stað. Og það kemur enn betur í ljós þegar litið er á fyrri hluta nafnsins, sól. Á þetta blóm eitthvað sameiginlegt með sólinni, eitthvað frekar en með eyju. Svona lúmsk er landlægni orðræðunnar nú orðin!

Ég legg því til að blóminu sóley verði fundið annað og betur viðeigandi nafn og lýsi eftir tillögum þar um. Heitin þurfa að sjálfsögðu að vera í anda róttæks sóleyisma og verður enginn fífla-gangur liðinn þar!


Jafnrétti í orði kveðnu - Ojbjakk!

Get eiginlega ekki sleppt því að bæta aðeins við færslu mína um þetta mál frá því áðan:

Þetta þingmál ber fyrst og fremst vott um hversu fjarri veruleikanum sjálfum fólk getur verið og hversu aukaatriðin geta orðið mikilsverð þegar það hendir. Að mörgu leyti minnir þetta á málflutning margra af hægri væng stjórnmálanna, sem ég vil kenna við "frjálshyggju aukaatriðanna". Frjálshyggja aukaatriðanna er sú pólitík að álykta í sífellu um mál á borð við lögleiðingu eiturlyfja, sölu ríkisútvarpsins, niðurlagningu Sinfóníuhljómsveitarinnar eða annað þess háttar, en láta nægja að gjóa blinda auganu svona í áttina þegar ríkið veður í enn einar stórframkvæmdirnar á kostnað skattgreiðenda, í skjóli blekkinga og af fullkomnu ábyrgðarleysi. Frjálshyggja aukaatriðanna fer í taugarnar á mér vegna þess að hún ber vott um óábyrga forgangsröðun. Raunverulegt frelsi lifandi fólks er aukaatriði, en það sem öllu skiptir er að láta á sér bera.

Umrætt þingmál um hvað skuli kalla ráðherra er upprunnið af hinum væng stjórnmálanna en undir nákvæmlega sömu sök selt. Um það má raunar segja meira: Það á það sammerkt með áherslunni á "málfar beggja kynja" í nýju biblíuþýðingunni, að það snýr alls ekki að veruleikanum sjálfum. Þetta er ekki þingmál sem hefur að markmiði að breyta einu eða neinu í jafnréttismálum. Hér eru það aðeins orðin sem skipta máli. Ekki aðeins orð heldur titlar. Og ekki einu sinni titlar venjulegs fólks heldur aðeins virðingartitlar! Og hvað svo með jafnrétti venjulegra kvenna? Þær eiga kannski bara að éta kökur ef þær eiga ekkert brauð!

Ojbjakk!

Þetta mál ber vott um ákaflega einkennilega forgangsröðun. Tæpast er hægt að segja að Alþingi sé skammtaður of drjúgur tími til að ræða mál sem varða raunverulega hagsmuni lifandi fólks, raunveruleg efnahagsmál eða raunveruleg jafnréttismál. Og þá leggur stjórnarþingmaður fram mál sem líklegt er til að kalla á endalaust þvarg og tímaeyðslu í þingsölum. Og til hvers? Ekki til að efla alvöru jafnrétti. Því markmiðið með svona máli snýr alls ekki að jafnrétti. Það snýr að jafnrétti í orði kveðnu!


Næsta síða »

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband