Færsluflokkur: Mannréttindi

Svar Agambens

Ítalski heimspekingurinn Giorgio Agamben hefur verið meðal þeirra sem harðast hafa gagnrýnt viðbrögðin við kórónafaraldrinum og þá atlögu að frelsi og lýðræði sem þau hafa falið í sér. Agamben hefur í áratugi varað við því að vestræn lýðræðisríki séu smám saman að þróast í átt til alræðis á grunni meintra almannahagsmuna, ekki síst tengdra svonefndum lýðheilsusjónarmiðum.
Nýverið birti Adam Kotsko, sem verið hefur einn helsti þýðandi Agambens á enska tungu, grein sem í megindráttum er illa ígrunduð árás á hugsun og skrif Agambens um þessi mál og kemur lesendum hans mjög á óvart, en hefur verið fagnað af andstæðingum hans. Ég tók mér það bessaleyfi að þýða nýjustu bloggfærslu Agambens, sem birtist 22. janúar sl. og sem maður hlýtur að lesa með hliðsjón af uppátæki Kotskos.
 

Leyf þeim að klóra sér sem klæjar!

Þeir munu ekki segja tímarnir voru myrkir,
heldur, hvers vegna þagðir þú?
Bertholt Brecht
 
En eigi að síður, leggjum fólskuna til hliðar,
sýndu ljóslega allt sem þú hefur séð,
leyf svo þeim að klóra sér sem klæjar!
Því þó rödd þín sé beisk við fyrsta bragð,
þá mun hún síðar gefa góða næringu,
ef henni er rennt niður og hún melt.
Dante, Gleðileikurinn guðdómlegi, þýðing Erlingur E. Halldórsson
 
Einhvers staðar er blað, sem á eru rituð nöfn þeirra sem báru sannleikanum vitni, í veröld fullri af lygum. Þetta blað er til, en það er ólæsilegt. En það er annað blað með sömu nöfnum, fullkomlega læsilegt; það er í höndum lögregluforingja og blaðamanna.

Skipta siðferðileg álitaefni máli?

Leiðari Fréttablaðsins þriðjudaginn 29. janúar fjallar um fóstureyðingar. Þar segir: "Umræðan um fóstureyðingar snýst [...] um ákveðna grunnþjónustu í okkar samfélagi og hvernig við veitum hana með skilvirkum og skynsamlegum hætti þar sem við virðum sjálfsákvörðunarrétt verðandi mæðra og, umfram allt, treystum dómgreind þeirra."

Um leið verður hins vegar ekki annað séð en höfundurinn telji fóstureyðingar siðferðilegt álitamál: "Sem álitamál á það erindi í upplýsta umræðu um hvenær líf raunverulega kviknar [...] hver réttur ófædds barns er og önnur margslungin siðferðileg álitaefni. Baráttufólk fyrir sjálfsákvörðunarrétti kvenna sem og þau sem eru á öndverðum meiði ættu að vera óhrædd við að ræða þessar mikilvægu spurningar. [...] Þau sem raunverulega hafa áhuga á að hjálpa til munu yfirgefa skotgrafirnar, viðurkenna sjálfsákvörðunarrétt kvenna og stuðla að upplýstri ákvarðanatöku.“ Þarna eru sumsé siðferðisspurningar, og þær ekki af smærri endanum. Spurningar um rétt til lífs og um hvenær líf kviknar.

En greinarhöfundur virðist hins vegar ekki telja þessar grundvallarspurningar skipta neinu þegar rætt er um löggjöfina. Það má ræða þær, en umræðan á ekki að hafa nein áhrif á ákvarðanatöku. Með öðrum orðum, siðferði skiptir ekki máli.

Hver er grundvallarspurningin?

Þessi jaðarsetning siðferðilegrar umræðu stenst auðvitað enga skoðun: Öll löggjöf og reglur grundvallast á endanum á siðferðilegum viðmiðum, því hvað við teljum rétt og hvað rangt. Af því leiðir að séu siðferðileg álitamál til staðar þegar rætt er um breytingu á lögum, þá hljóta niðurstöðurnar um þau álitamál að hafa bein og afgerandi áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru.

Þegar að þessu tiltekna álitaefni kemur snúast spurningarnar um það, hvort fóstur sé lifandi vera, og ef svo er, hvort það eigi rétt til lífs, og hvort sá réttur sé þá jafn, eða gangi skemur en réttur hinna sem fæddir eru.

Hafi fóstrið rétt til lífs, og sé það siðferðilega óréttlætanlegt að taka líf einhvers sem á rétt til lífs, þá er bersýnilega óréttlætanlegt að taka líf fóstursins. Og komi rétturinn til lífs jafnframt á undan öðrum réttindum, líkt og hann hlýtur að gera, þá hlýtur lífsréttur fóstursins að ganga framar öllum vangaveltum um réttindi kvenna til að fjarlægja það úr líkama sínum eða réttindi foreldra til að velja, hvort hið ófædda barn verði hluti af framtíð þeirra eða ekki. Þá er auðvitað tómt mál að tala um sjálfræði foreldranna til að deyða barn sitt.

Hafi fóstrið hins vegar ekki rétt til lífs, er það ekki siðferðilega rangt í sjálfu sér að taka líf þess. Og þá er út af fyrir sig engin ástæða til að setja neinar takmarkanir á fóstureyðingar, nema ef vera kynni af einhverjum hreinum öryggisástæðum. Sé þetta raunin er ákvörðunin alfarið foreldranna.

Það hvers eðlis nákvæmlega réttur fóstursins er, ef hann er yfirleitt til staðar, hvenær hann myndast, og hvernig hann er veginn gagnvart rétti móðurinnar, hefur svo vitanlega áhrif á það hvort fóstureyðing er réttlætanleg undir einhverjum tilteknum kringumstæðum eða ekki. En spurningin er ávallt siðferðilegs eðlis og svörin við henni ráða mestu um hvernig löggjöfin á að vera.

Siðferði er ekki stofustáss

Spurningin um réttinn til lífs er í raun eina ástæða þess að deilt er um fóstureyðingar, og eina ástæða þess að samfélagið telur sig þess umkomið að takmarka þær með þeim hætti sem gert er. Ef þessari spurningu væri ekki ósvarað, væri ekki um neitt að deila. En þótt enn hafi ekki tekist að svara spurningunni um lífsrétt fóstursins á fullnægjandi hátt, er það ekki gild afsökun fyrir því að skauta framhjá henni. Ábyrgar ákvarðanir í þessu efni verða að byggja á skilyrðislausri auðmýkt gagnvart þeirri erfiðu staðreynd, að við vitum í rauninni ekkert um það, hvort fóstureyðing er manndráp, eða bara sambærileg við brottnám líffæris.

Siðferði er grundvallaratriði þegar við tökum ákvarðanir. Erfiðar spurningar eigum við ekki að reyna að þagga niður, heldur horfast í augu við þær af heiðarleika og kjarki, jafnvel þótt það kunni á stundum að vera óþægilegt.


Eða draugar?

Fyrst þetta var á Ströndunum finnst manni nú líklega að það hafi verið afturgöngur sem settu traktorinn í gang en mýs. En kannski hafa það verið afturgengnar mýs?

mbl.is Mýs grunaðar um að hafa startað dráttarvél
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband