Hver eru grundvallaratriðin?

Samkvæmt áætlunum um borgarlínu er vonast til að notkun almenningssamgangna aukist umtalsvert verði hún að veruleika. Umtalsvert er þó nokkuð tvírætt hugtak hér því notkunin er einfaldlega svo sáralítil að jafnvel þótt hún aukist umtalsvert verður hún áfram sáralítil, bara aðeins minna sáralítil.

Þetta eitt og sér þýðir auðvitað að þörfin fyrir umferðarmannvirki fyrir bíla minnkar í sjálfu sér ekki sem neinu nemur. En með því að leggja akreinar undir þessa strætisvagna, og minnka þar með rýmið fyrir bíla, verða umferðarteppurnar vitanlega verri og tíðari. 

Gjarna hefur verið talað um að fyrst hægt er að koma upp svona kerfi í Stavanger í Noregi sé það alveg eins hægt hér. En stenst þetta? Höfuðborgarsvæðið, þ.e. flatarmál allra sveitarfélaga sem tilheyra því, er um eitt þúsund ferkílómetrar. Flatarmál Stavanger er 73 ferkílómetrar. Hér eru 200 íbúar á ferkílómetra. Þar eru þeir 2000. Íbúar á ferkílómetra í Stavanger eru þannig margfalt fleiri en á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. þéttleiki byggðar, sem er grundvöllur fyrir svona verkefni, er til staðar þar, en hann er einfaldlega ekki til staðar hér.

Talsmenn borgarlínu vitna mikið til rannsóknar sem gerð var 2011 og sýnir að fylgni er milli afkastagetu vega og notkunar þeirra. Af þessu er gjarna dregin sú ályktun að þarna sé orsakasamhengi til staðar. Það er þó alls ósannað að svo sé.

En jafnvel þótt við gefum okkur að orsakasamhengið sé til staðar er það hins vegar líka til staðar þegar litið er á almenningssamgöngur. Sporvagnar, strætisvagnar og neðanjarðarlestir eru háð sama lögmálinu, að aukið framboð kalli á aukna eftirspurn. Þetta er hins vegar aldrei minnst á í umræðum um borgarlínuna.

Nú er farið að tala um áform um umfangsmikla bílastæðagerð við stöðvar borgarlínunnar í íbúðahverfum, til að fólk geti ekið þangað og tekið svo borgarlínuna. Sé þetta nauðsynlegt er auðvitað líka nauðsynlegt að gera það sama á áfangastaðnum. Verður borgarlínan þá kannski til þess að fólk þurfi að eiga tvo bíla? Annar er geymdur heima og svo skilinn eftir við stoppistöðina að morgni. Hinn er geymdur á áfangastaðnum og notaður til að aka til vinnu, því vinnustaðir fólks eru auðvitað ekki við hliðina á stoppistöðinni neitt frekar en heimili þess.

Og hver verður þá niðurstaðan? Stórfelldur kostnaður á hvert heimili við að búa til kerfi sem virkar ekki. Stóraukin bifreiðaeign og viðeigandi rekstrarkostnaður. Auknar umferðarteppur. Almenningur tapar. Verktakarnir og hönnuðirnir græða.


mbl.is Tekist á um grundvallaratriði borgarlínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Höfuðborgarsvæðið, þ.e. flatarmál allra sveitarfélaga sem tilheyra því, er um eitt þúsund ferkílómetrar. Flatarmál Stavanger er 73 ferkílómetrar."

Hverslags þvæla er þetta eiginlega? Eg mældi byggt svæði í Reykjavík, fyrir utan Kjalarnes, með Borgarvefsjá og fékk út að það væri um 60 ferkílómetrar, en svæðið sem alls tilheyrir Reykjavík er um 273 ferkílómetrar.  Sjá: http://borgarvefsja.reykjavik.is/borgarvefsja/

Einnig reyndi ég að mæla stæð Stavanger með https://www.freemaptools.com/area-calculator.htm og fékk út 80 ferkílómetra.

Hvernig væri að reyna að hafa umræðuna ögn málefnalegri.

Jonas Kr. (IP-tala skráð) 8.2.2018 kl. 00:23

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Reykjavík er aðeins hluti höfuðborgarsvæðisins. Þú getur séð upplýsingar um þetta varðandi Stavanger t.d. á Wikipedia. Upplýsingar um stærð höfðuborgarsvæðisins getur þú skoðað á Vísindavef HÍ.

Þorsteinn Siglaugsson, 8.2.2018 kl. 09:35

3 identicon

Sæll

Þú ert ekki einn um efasemdirnar. Þar sem almenningssamgöngur eru virkilega fínar, t.d. í Kaupmannahöfn og Amsterdam er loftslag temprað. Þar getur líka venjulegt fólk notað hjól mestallt árið. Hér er ýmist snjór, frost eða rok í brekkunum, svona stórt séð. spurning hvort hægt er að fara mjög varlega af stað með svo sem eina línu?

Einar S. Hálfdánarson (IP-tala skráð) 8.2.2018 kl. 11:06

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Já, loftslagið er nú enn eitt atriðið sem skiptir máli. Í teikniforritunum sem notuð eru til að búa til auglýsingaefnið fyrir hugmyndirnar er alltaf gott veður. En á Íslandi er hins vegar næstum aldrei gott veður.

Þorsteinn Siglaugsson, 8.2.2018 kl. 11:16

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Annað í þessu er líka skipulagið. Þegar ég bjó í London notaði ég alltaf neðanjarðarlestina. Stöðin var um 7 mínútna gang að heiman. Þegar ég kom úr vinnu gat ég svo komið við og keypt í kvöldmatinn því rétt hjá lestarstöðinni voru verslanir. Hér eru hins vegar verslanirnar almennt ekki í námunda við íbúðahverfin heldur fer fólk á bíl í verslunarmiðstöðvar. Alla þessa hluti verður að taka með í reikninginn. Það er ekki tækt að fara af stað með svona verkefni á veikum forsendum og að stórum hluta aðeins vegna þess að einhverjum valdamönnum er illa við að fólk noti bíla til að komast á milli staða.

Þorsteinn Siglaugsson, 8.2.2018 kl. 11:50

6 Smámynd: Árni Davíðsson

Það er erfitt að bera saman tölur um þéttleika milli landa þar sem aðferðir eru mismunandi. Á Wikipediu virðist almennt gefið upp heildarflatarmál sveitarfélags og íbúafjöldi. Þéttleikinn verður því mjög skakkur ef sveitarfélagið er stórt og að mestu óbyggt. Það á t.d. við um Reykjavík þar sem talið er með óbyggð svæði á Kjalarnesi og upp til fjalla. Þegar þetta er skoðað nánar á Wikipediu sést að þéttbýli í Stavanger er um 43 km2 og íbúar eru 133 þús árið 2017. Þéttleikinn er því um 3090 íbúar/km2 (Wikipedia). Þéttbýli í Reykjavík er innan við 68 km2 þegar hverfaskipting borgarinanr er skoðuð á Wikipediu en er sennilega um 60 km2 eins og Jónas kemst að því sum hverfi ná út fyrir þéttbýlið og stærð þéttbýlis því líklega ofmetinn. Íbúaþéttleiki gæti því verið um 2030 íbúar/km2. Ef slegið er á stærð þéttbýlis á höfuðborgarsvæðinu kemur út tala í kringum 101 km2 og þar búa um 212 þús samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar um íbúa í "Stór-Reykjavík". Íbúaþéttleikinn á því svæði er því um 2099 íbúar/km2. Sennilega er þéttleiki í Reykjavík vanmetinn í þessuma samanburði en þéttleiki "Stór-Reykjavík" ofmetinn en niðurstaðan er ekki langt frá um 2000 íbúum/km2. Með Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2040 er stefnt að þéttingu byggðar þannig að 90% byggðar á að rísa innan við skilgreind vaxtarmörk. Það er því ljóst að þéttleikinn á eftir að vaxa á næstu áratugum og mun sá aukni þéttleiki, sem verður mestur við Borgarlínuna, verða til að auðveldara verður að reka almenningsamgöngukerfið með viðunandi hætti.

Árni Davíðsson, 8.2.2018 kl. 13:17

7 Smámynd: Árni Davíðsson

Markmiðið með svæðisskipulaginu og uppbyggingu Borgarlínu er einmitt að byggja upp blönduð hverfi næst stoppustöðvum Borgarlínu með fjölbreyttri þjónustu þannig að það sé hægt að koma við í búðinni á leiðinni heim. Valdamönnum er ekki illa við að fólk noti bíla. Það er betra að halda sig við málefnalega umræðu frekar en að fara út í skítkast og gera mönnum upp skoðanir. Öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa samþykkt svæðisskipulagið og eru sammála um að byggja upp Borgarlínu. Varla er öllum bæjarstórum og öllum sveitarstjórnarmönnum á höfuðborgarsvæðinu illa við bíla!

Árni Davíðsson, 8.2.2018 kl. 13:43

8 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Hvernig væri að einfalda málið og gera núverandi strætókerfi boðlegt?  Í mínu hverfi (R-101) er allt unga fólkið, einhleypingarnir sem leigja saman íbúðir í mínu næsta nágrenni, hvert með sinn smábíl.  Sem segir auðvitað að núverandi strætókerfi er ekki að þjóna þeim - og að auki; þau hjóla hvorki né ganga!  Sem svo aftur gerir barnafólkinu og gamalmennunum erfitt fyrir með bílastæði.

Kolbrún Hilmars, 8.2.2018 kl. 17:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 22
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 287298

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband