Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Mikilvægt að horfa raunsætt á málið

Hér er um alveg nýja tegund bóluefnis að ræða, sem aldrei hefur verið notuð á fólk áður. Bóluefnið verkar þannig að það lætur frumur líkamans framleiða samskonar prótín og eru í veirunni. Næsta skref í þessu, eftir þriðja fasa tilraunir, er að rannsaka virkni og lengri tíma aukaverkanir á stórum hópi. Niðurstöður úr þeirri rannsókn koma eftir tvö ár. Fari bólusetningar í gang fljótlega er það á grundvelli undanþágu frá öryggisviðmiðum. Fólk þarf því sjálft að leggja mat á hvort það vill taka áhættuna. Fyrir þá sem eru í raunverulegri hættu vegna covid er það líklega vel þess virði, en fyrir ungt fólk gæti áhættan af lítt prófuðu bóluefni alveg verið umtalsvert meiri en hættan af pestinni, enda er ungt fólk í raun ekki í neinni hættu vegna hennar.

Hér er mjög upplýsandi grein um þetta sem ég hvet fólk til að kynna sér vel: Yes, the vaccine is really on its way


mbl.is „Vel í stakk búnir til að búa til þetta nammi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eina viðhorfið sem mér er unnt að hafa

"Ég get ekki einblínt á eigin hagsmuni þegar ég stend frammi fyrir þeim hörmungum sem þessi röklausi óttafaraldur er að valda heimsbyggðinni."

Ég er rúmlega fimmtugur, rétt svo innan þess aldurshóps sem er í einhverri hættu vegna Covid-19. Ef ég smitast er mögulegt að ég gæti dáið úr pestinni. Líkurnar eru ekki miklar, en þær eru til staðar.

Ég veit að útgöngubönn, samkomubönn, lokanir skóla og fjarlægðarmörk veita mér vernd, sé þeim viðhaldið eins lengi og með þarf. Ég veit að það verða 2-3 ár í það minnsta (ég reyni að forðast óskhyggju, bæði varðandi bóluefni og að tekin verði upp markviss vinnubrögð til að vernda viðkvæma hópa).

Heildarmyndin er ógnvekjandi

En ég veit líka að allar þessar aðgerðir munu án nokkurs minnsta vafa verða miklu fleira fólki að aldurtila en þær bjarga. Ég veit þetta vegna þess að ég fylgist með fréttum, kynni mér rannsóknir og afla mér upplýsinga víðsvegar úr heiminum, beint og óbeint. Og ég leitast við að setja þessar upplýsingar í samhengi.

Ég veit til dæmis að ef fólki undir hungurmörkum fjölgar um helming, líkt og Sameinuðu þjóðirnar spá nú, fyrst og fremst vegna þess að bönn og lokanir koma í veg fyrir að fátækasta fólkið geti séð sér farborða, og ef níu milljón manns dóu úr hungri á síðasta ári, þá megum við búast við að níu milljónir til viðbótar deyi úr hungri á þessu ári og því næsta.

Ég veit líka að það má búast við einhvers staðar á milli fimm og þrjátíu ótímabærum dauðsföllum fyrir hvert þúsund sem missir vinnuna. Það merkir að fyrir hverjar 100 milljónir sem verða atvinnuleysi að bráð vegna lokana og hindrana gætu hálf til þrjár milljónir manns dáið. Ég veit að menntun barna og ungmenna bíður mikinn skaða, sérstaklega þeirra sem standa höllustum fæti, að við dæmum mörg börn til óhamingju og sköðum heilsu þeirra - það vekur mér óhug að sjá ung börn þvinguð til að bera daglangt grímur sem hefta andardrátt þeirra. Og ungt fólk fær ekki störf, gefst upp á námi, glatar voninni. Og það að glata voninni dregur marga til dauða.

Samfélagsgæðum fórnað til að fresta því óumflýjanlega

Ég veit líka að þau grunnkerfi sem halda velferð okkar uppi skaðast varanlega. Við sjáum nú þegar áhrifin á heilsugæsluna, bólusetningar barna, greiningar alvarlegra sjúkdóma. Og þegar fjármagnið fer í alvöru að þverra hættum við að geta meðhöndlað fólk sem við hefðum annars getað meðhöndlað. Þannig munu milljónir deyja.

Ég veit líka að ríflega milljón manns hafa dáið úr Covid-19, og ef miðað er við nýjustu tölur um dánartíðni má búast við að 3-5 milljónir gætu dáið úr pestinni áður en yfir lýkur, að því gefnu að bóluefni stöðvi hana ekki - því pestin lýkur sínu verki, hún breiðist út, sama hvað reynt er til að tefja fyrir. En þetta verða alltaf langtum færri en þeir sem verða faraldri hins röklausa ótta að bráð á endanum.

Eina viðhorfið sem mér er unnt að hafa

Ég veit að allar þessar aðgerðir sem fylgja óttanum við pestina draga úr líkunum á að ég smitist. En þegar ég spyr mig þeirrar spurningar, vitandi það sem ég veit nú þegar, hvort ég geti yfirleitt samþykkt að allt sem hægt er sé gert til að vernda mig, er niðurstaðan sú að mér er það ómögulegt. Það er ekki vegna þess að ég sé leiður á lífinu, fjarri því. Og ég er einn þeirra heppnu. Ég er ekki meðal þeirra tugþúsunda sem misst hafa vinnuna hérlendis. Ég er ekki einn þeirra hundrað milljón jarðarbúa sem hvergi eiga heima. Ég get sinnt verkefnum mínum í fjarvinnu, og verkefnunum hefur bara fjölgað í þessu ástandi.

Vitanlega reyni ég að gæta mín eftir bestu getu.  En ég get einfaldlega ekki krafist þess að unga kynslóðin og það fólk sem stendur höllustum fæti þurfi að glata lífsviðurværinu, voninni, og jafnvel lífinu, aðeins til að vernda mig. Ég get ekki einblínt á eigin hagsmuni þegar ég stend frammi fyrir þeim hörmungum sem þessi röklausi óttafaraldur er að valda heimsbyggðinni.

Þetta er ekki vegna þess að ég sé eitthvert sérstakt góðmenni eða eitthvað sérstaklega fórnfús. Ég er ekkert betri manneskja en hver annar. En fyrir mér er þetta viðhorf einfaldlega svo eðlilegt að ég hugsa ekki einu sinni út í það: Þegar maður stendur frammi fyrir ógn við mannkynið hlýtur maður að bregðast við á grundvelli hagsmuna mannkynsins alls. Hagsmuna hinna ungu. Hagsmuna framtíðarinnar. Annað er einfaldlega óhugsandi. Það er eina skýringin sem ég hef.

Er það rétt af mér að hafa þetta viðhorf? Ég veit það ekki. En þetta er eina viðhorfið sem mér er unnt að hafa.

(Morgunblaðið 7. nóvember 2020)

 

 


Sýnir hversu grafalvarleg mistökin eru

Það að helmingur dauðsfalla á Spáni á fyrstu þremur mánuðum faraldursins hafi átt sér stað á hjúkrunarheimilum sýnir auðvitað hversu grafalvarleg þau mistök voru, að leggja ekki alla áherslu á að vernda viðkvæma hópa í stað hinna árangurslausu og ómarkvissu aðgerða sem ráðist var í.

Spánverjar, líkt og Svíar, hafa þó kannski þá afsökun að erfitt kunni að hafa reynst að valda þessu verkefni í upphafi.

Þá afsökun hafa íslensk heilbrigðisyfirvöld hins vegar ekki. Hér hófst mannfallið meðal elsta og viðkvæmasta hópsins sem átti að njóta verndar inni á Landspítala í október. Miklu meira en nægur tími hafði gefist til að tryggja þessu fólki vernd. Og það sér ekki fyrir endann á því. Þegar hefur skipulags- og ábyrgðarleysið þegar orðið sjö manns að bana. Samtals smituðust um 100 manns. Ekki er ólíklegt að alls verði dauðsföllin meðal þessa hóps 20-30.

Og viðbrögðin? Loka hárgreiðslustofum og skerða skóladag barna!


mbl.is Meira en helmingur dauðsfalla á hjúkrunarheimilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bros?

Brosið er eitt af því sem skiptir mestu máli í mannlegum samskiptum. Sérstaklega á mótunarárunum þegar við erum að læra að vera fólk. Á þessari mynd sjáum við brosandi barn með grímu. Eða hvað?

Screenshot 2020-11-05 at 22.39.41

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is „Unglingarnir eru þreyttir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin blygðunarlausa sérhyggja

Árásin sem nú er verið að gera á ungu kynslóðina, í nafni þess að vernda þá sem eldri eru fyrir pest sem fæstum gerir raunar nokkurt mein, grundvallast á blygðunarlausri sérhyggju: Svo lengi sem ég er varinn er sjálfsagt að eyðileggja líf barna, leggja framtíð ungmenna í rúst, dæma milljónatugi fátæks fólks um allan heim til hungurdauða.

Hér er Bjartur í Sumarhúsum á ferð:

Spurt hef ég tíu milljón manns
séu myrtir í gamni utanlands.
Sannlega mega þeir súpa hel
ég syrgi þá ekki, fari þeir vel.

Er það í alvöru hingað sem við erum komin?

 


mbl.is Áhrif þriðju bylgjunnar á unga fólkið hrikaleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velferðarnefnd: Spurningarnar sem brenna á okkur?

Þar til fjöldasmit kom upp á öldrunardeild LSH á Landakoti hafði einn látist í síðari bylgju faraldursins, smit voru álíka mörg og í fyrri bylgjunni, þegar tíu létust. Nú hafa sex manns til viðbótar látist á örskömmum tíma. Allt aldrað fólk. Ég votta aðstandendum allra sem látist hafa samúð mína.

Í kjölfar þessa fjöldasmits voru sóttvarnaraðgerðir hertar verulega, skólastarf sett á hliðina, verslun og þjónusta trufluð enn meira og var þó nóg samt. Lítið fór hins vegar fyrir trúverðugum sóttvarnaráðstöfunum innan spítalans, þar sem rótin lá.

Við vissum fyrir að pestin er hættuleg gömlu og veiku fólki. En skólabörnum er hún hættulaus, og raunar flestum undir 50-60 ára aldri. Væri dánarhlutfallið ekki svona hátt meðal gamla fólksins væri eflaust ekki um neinar sérstakar ráðstafanir að ræða vegna þessarar pestar.

Á morgun mun Velferðarnefnd Alþingis fjalla um málefni Landspítalans.

Munu þingmenn spyrja hversu mörg þessara dauðsfalla megi rekja til þess að smit fékk að grassera óhindrað þar sem elsta og veikasta fólkið dvaldi? Munu þeir fá svör?

Munu þeir spyrja hvaða alvöru ráðstafanir hafi verið gerðar, hvort hólfaskipting sem átti að vera til staðar sé það nú? Munu þeir sætta sig við lélegar afsakanir eða ekki?

Og munu þingmenn spyrja hvers vegna því er statt og stöðugt haldið fram að Landspítalinn ráði ekki við hlutverk sitt þegar innlagnir vegna Covid-19 hafa samtals verið tæplega 300 á árinu, meðan innlagnir á síðasta ári voru 25.000 í heild? Munu þeir fá svör við því?

 

 


mbl.is 27 innanlandssmit – 10 utan sóttkvíar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sautjánda öldin og sú tuttugasta og fyrsta - hvað hefur breyst?

Sautjánda öld:

Ef grunur um galdra er til staðar verður að brenna nornina strax. Annars gæti hún valdið stórkostlegu tjóni.

Eru galdrar til? Er eitthvað annað sem gæti hafa valdið því að kýr nágrannans dó? Það er algert aukaatriði. Það trúa því allir að galdrar séu til.

Tuttugasta og fyrsta öld:

Ef einhver er gripinn án grímu verður að handsama hann strax. Aðeins þannig náum við tökum á veirunni.

Er mögulegt að útrýma bráðsmitandi veirusjúkdómi með því að bæla hann niður tímabundið? Það er algert aukaatriði. Það trúa því allir að það sé hægt.

Það hefur ekkert breyst. Í báðum tilfellum missti fólk sjónar á náttúrulögmálunum. Og þá getur allt gerst.

 


mbl.is „Svo mikið kjaftæði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það heilsa barnanna sem verið er að hugsa um?

Það er vissulega rétt að það fer illa með heilsu barna að þurfa að bera grímu allan liðlangan daginn. 

Það fer heldur ekki vel með heilsu barna að þau komist ekki í skólann. Sérstaklega er það slæmt fyrir heilsu þeirra barna, og framtíðarmöguleika þeirra barna, sem höllustum fæti standa.

Börn eru hins vegar ekki í neinni hættu vegna kórónaveirunnar. Fyrir börn eru dánarlíkurnar svo litlar að það er nánast alveg útilokað að þau deyji úr þessum sjúkdómi. Og það er ákaflega fátítt að þau veikist alvarlega. Í versta falli fá þau flensueinkenni.

Það eru ótvíræðir hagsmunir, og ótvíræð réttindi barna að sá röklausi hræðslufaraldur sem nú er í gangi komi ekki niður á menntun þeirra. 

Eina fólkið sem er í einhverri hættu í skólunum eru kennarar sem komnir eru yfir miðjan aldur. Ef skynsamlegri stefnu væri fylgt, fengju þessir kennarar þá einfaldlega val um það að taka sér frí meðan faraldurinn gengur yfir og yngra fólk yrði fengið í þeirra stað í forfallakennslu á meðan. Það eru tuttugu þúsund manns sem hafa misst vinnuna vegna aðgerða gegn þessum veirusjúkdómi. Útilokað að ekkert af því fólki sé fært um að taka að sér tímabundna kennslu í forföllum. Börnin eiga að mæta í skóla, taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi, grímulaus og óttalaus.

Hræðslufaraldurinn hefur opinberað svo gegndarlausa sérhyggju að manni verður hreinlega óglatt. Fórnarlömbin eru yngsta kynslóðin og fátækasta fólkið.


mbl.is Kennarar óttast um heilsu barna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilefnislausar hindranir?

Fyrst, nokkrar innlendar staðreyndir um kórónaveirufaraldurinn:

Samtals greind smit eru rétt tæplega fimm þúsund. Við getum reiknað með að raunveruleg smit séu tvöfalt fleiri, eins og þau voru í vor þegar mótefnarannsókn var gerð. Smitaðir séu því tíu þúsund.

Af þessum tíu þúsund hafa 256 þurft að leggjast á spítala. Það eru 2,5% þeirra sem smitast. Það er lágt hlutfall. Fjörutíu hafa þurft meðferð á gjörgæslu.

Af þessum tíu þúsund hafa 15 látist. Það er 0,15% dánarhlutfall. Það er lágt hlutfall. Helmingi lægra en það var í vor. Nánast allir sem hafa látist var aldrað fólk.

Nú eru að greinast fáeinir tugir smita á hverjum degi. Það kom kúfur þegar smit dreifðist um öldrunardeild LSH og var dreift um landsbyggðina líka. Að öðru leyti hefur útbreiðslan verið hæg og örugg.

Innlagnir á LSH á síðasta ári voru um 25 þúsund. Fjöldi inniliggjandi sjúklinga á hverjum degi var rúmlega 600.

Samkvæmt minnisblaði forstjóra LSH sem skilað var um daginn ræður spítalinn við jafnvel svartsýnustu spár um smitfjölda. Þetta sagði forstjórinn líka í fjölmiðlum.

Af þessum staðreyndum má sjá að þær óhóflegu hindranir sem ríkisstjórnin kynnti fyrir helgi eru algerlega án nokkurs einasta tilefnis. Þær eru því ólögmætar. Fólki ber engin skylda til að hlýða þessum reglum.

Eina skynsamlega og mannúðlega leiðin til að fást við veiruna er að vernda þá sem viðkvæmir eru, en hvetja aðra til að lifa lífi sínu með sem eðlilegustum hætti. Þannig má lágmarka dauðsföll og heilsutjón til lengri tíma. Útbreiðslunni þarf að stýra þannig að álag á kerfið sé innan marka. En miðað við orð forstjóra LSH er jafnvel þarflaust að hafa áhyggjur af því.

Uppákoman á Landakoti sýnir hvað gerist þegar öfug leið er farin; ekki gætt að viðkvæmu hópunum en öll áherslan á að trufla líf þeirra sem ástæðulaust er að trufla. Það er kominn tími til að stjórnvöld geri sér grein fyrir skyldum sínum, að vernda líf og heilsu almennings, til lengri og skemmri tíma.

 


Hverjar eru staðreyndirnar?

Hver er forsenda staðhæfingar um að veiran sé meira smitandi nú? Þetta er endurtekið í sífellu en engin rök eru færð fyrir því.

Hver er forsenda staðhæfingar um að sjúkdómurinn sé "verri" nú? Þetta er líka endurtekið í sífellu. Samt sem áður hafa tvöfalt fleiri smitast í síðari bylgjunni, en einungis einn hafði látist þegar vanhæfni og óstjórn á LSH varð til þess að veirunni var dreift óhindrað meðal elstu og veikustu einstaklinganna.

Sífellt er hamrað á því að spítalar séu að yfirfyllast af covid sjúklingum. Er hverjar eru staðreyndirnar? Frá upphafi faraldursins hafa 256 manns lagst á spítala með þessa pest. Samtals 40 manns hafa legið á gjörgæslu. Á síðasta ári voru innlagnir á sérgreinadeildir LSH samtals um 25 þúsund. Það er sumsé í raun og veru ekkert sérstakt álag á spítalann, innlagnirnar ekki nema 1% af heildarfjölda innlagna á síðasta ári. 

Svo er sífellt verið að skýra hitt og þetta með tilvísun í einhverjar greiningar sem eigi að sýna hvaðan hin og þessi veira sé upprunnin. Læknir sem þekkir þetta vel hefur sagt mér að þetta sé ekkert annað en ómarktækar tilgátur, engin áreiðanleg vísindi að baki.

Upplýsingaóreiðan á sér fyrst og fremst rót hjá Kára Stefánssyni, LSH og Landlæknisembættinu. Þaðan streymir hinn röklausi hræðsluáróður og órökstuddu og ósönnu staðhæfingar. 

 


mbl.is Seinni bylgjan verri en mótefnið dofnar ekki hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.2.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband