Kalla ein mistök á önnur?

Það er hárrétt hjá Gylfa að ríkisvaldið fór illilega framúr sér í samningum við lækna. Menn létu einfaldlega almannatengla draga sig á asnaeyrunum. Varðandi kennarana er ég ekki jafn viss því þar var um miklar breytingar á vinnufyrirkomulagi að ræða.

En þurfa ein mistök endilega að kalla á önnur? Er nauðsynlegt að þótt þessi mistök hafi verið gerð, verði nú farið fram með launahækkanir langt umfram það sem atvinnulífið getur borið og þannig anað út í verðbólgu og atvinnuleysi?

Ég vona að aðilar vinnumarkaðarins leggi sig fram um að forða þessu. En þá þurfa forystumenn ríkisstjórnarinnar líka að hætta að afneita eigin mistökum, en sýna þá auðmýkt og samstarfsvilja sem þarf.


mbl.is Útafkeyrsla við samningaborðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hárrétt hjá Brynjari

Samkvæmt úrskurði Hæstaréttar var farið fram á nálgunarbannið vegna þess að maðurinn hafði dreift einhverjum sóðalegum myndböndum sem þetta fólk hafði tekið af sjálfu sér. Bannið var fellt úr gildi vegna þess að rétturinn taldi ekki að slíkt bann hefði neitt gildi gagnvart slíku framferði. Það er nokkuð augljóst - vilji fólk dreifa subbulegum myndum sem það á af einhverjum þarf það ekkert að koma í námunda við viðkomandi til þess.

Sé lýsing málavaxta rétt í dómnum er augljóst að ákvörðun lögreglustjórans um nálgunarbann studdist ekki við nein haldbær rök.


mbl.is Fara á varlega með nálgunarbönn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhyggjuefni ef rétt er

Það er svo sannarlega áhyggjuefni fyrir alla stjórnendur og eigendur fyrirtækja sé þetta rétt hjá Birnu. Líka fyrir viðskiptavinina. Til að byrja með er sú hugmynd að fyrirtæki geti yfirleitt borið siðferðilega ábyrgð afar vafasöm - fyrirtæki eru ekki siðferðisverur. Í öðru lagi er megnið af því sem gert er til að auglýsa upp "samfélagslega ábyrgðarkennd" fyrirtækja hrein yfirborðsmennska. Sé það rétt hjá Birnu að fyrirtæki geti ekki lengur mótað og kynnt stefnu sína án þess að þurfa að sóa tíma og fjármunum í að hræra saman við hana "heitu lofti" af þessum toga er það tilefni til að hafa áhyggjur. Svo er ekki síður tilefni til að hafa áhyggjur af áhrifum slíks þvingaðs óheiðarleika á siðferði stjórnenda, eigenda og starfsmanna í víðara samhengi. Ég mæli með að fólk lesi þessa grein til að fá raunverulega innsýn í málið.


mbl.is Engin stefna án samfélagsábyrgðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á ekki að vera flókið

Það er auðvitað óásættanlegt að sex þúsund fjölskyldur búi við svo bág kjör og það á ekki að þurfa að vera mjög flókið að leysa þennan vanda.

Nú þekki ég ekki tölurnar, en ef við gerum t.d. ráð fyrir að að meðaltali vanti um 50.000 krónur á mánuði upp á til að fólk nái ásættanlegri afkomu, þá gerir það um þrjá og hálfan milljarð á ári. Það er um það bil sú tala sem við leggjum í dag fram til rekstrar Ríkisútvarpsins. Kannski þetta sé spurning um forgangsröðun?


mbl.is Einstæðir foreldrar standa hallast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfitt við að eiga

Kröfugerð um þrjú hundruð þúsund króna lágmarkslaun kemur ekki á óvart. Flestum er auðvitað ljóst að miklu skynsamlegra væri að semja um þróun kaupmáttar en miklar krónutölu- eða prósentuhækkanir. En vandinn er að það sem ávallt gerist í kjölfar almennra samninga er að einhverjir hópar sem standa utan saminganna semja um miklu meiri hækkanir eftir á. Kannski þarf að hugsa þetta skipulag allt saman upp á nýtt. Gaman væri að sjá tillögur um breytingar.


mbl.is Lægstu laun verði 300 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað segir blaðamannafélagið?

Nú er fólki auðvitað frjálst að hafa skoðanir á þjónustu fyrirtækja úti í bæ. Fólki sem starfar við blaðamennsku er þetta frjálst rétt eins og öðrum.

En þegar blaðamaður tekur að hringja í eftirlitsaðila til að etja þeim gegn fyrirtækjum sem honum er af einhverjum ástæðum í nöp við, hlýtur sú spurning að vakna hvort tími sé kominn til að setja gæsalappir utan um starfsheiti viðkomandi og skoða hvort herferð hans er í samræmi við siðareglur stéttarinnar. Það hlýtur Blaðamannafélagið nú að skoða.


mbl.is Ótilgreindir útlendingar sagðir eigendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varasöm nefndavæðing

Þessi tillaga grundvallast á þeirri hugmynd að siðferðileg álitamál megi nálgast sem einhvers konar fagleg úrlausnarefni. Þessi hugmynd er hrein og klár blekking. Siðferðileg afstaða grundvallast ekki á neins konar raunvísindum og þótt siðfræðin geti hjálpað fólki að ræða siðferðileg álitamál hrekkur hún ákaflega skammt.

Með því að nefndavæða siðferðilega umfjöllun er aðeins verið að ýta hinni siðferðilegu ábyrgð út af sviði stjórnmála og þjóðmálaumræðu, en þar á hún einmitt heima. Slíkt er sérstaklega hættulegt í landi þar sem yfirleitt þarf ákaflega mikið til að fólk nenni yfir höfuð að ræða siðferðileg álitamál.

Þetta er ábyggilega vel meint, en ekki nógu vel hugsað.


mbl.is Vilja að stofnað verði Landsiðaráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er nú eiginlega ekki frétt

Kjarninn var fullur af "fréttum" upp úr þessari meintu "greiningu" í gær, en hvergi að sjá að þarna væri um annað að ræða en skoðanir tiltekins, raunar ágæts manns, úti í bæ. Skoðanir manna úti í bæ á mönnum og málefnum eru nú því miður eiginlega ekki frétt.


mbl.is Ólafur myndi tapa fyrir Jóni Gnarr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virkilega geðslegt

Burtséð frá öllum dýraverndarsjónarmiðum verður að viðurkennast að þessi spenningur Íslendinga fyrir viðbjóðlegum mat er afar sérstakur. Hvað ætli við fáum næst? Bjór blandaðan hrossataði?


mbl.is Blæs á gagnrýnisraddir um hvalbjór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þvættingur í boði Ásmundar og RÚV

Það er raunar ábyrgðarhluti að RÚV skuli grípa upp svona þvætting og gera að helstu frétt í tveimur fréttatímum. Svona málflutningi á ekki að hampa heldur láta hann sem vind um eyru þjóta. Það að tönnlast á svona þvælu er því miður vís leið til að espa upp ofstækið þar sem það blundar.

En lykilatriði þessa máls er þetta:

Hryðjuverk af þeim toga sem hér er rætt um eiga sér rót í aðstæðum sem stundum skapast hjá vissum hópum í samfélaginu. Frönsku gettóin eru gróðrastía fyrir hatur og ofstæki því þar safnast saman fólk, kynslóð eftir kynslóð, sem hefur ekkert að lifa fyrir og sér enga leið upp úr ömurlegum aðstæðum sínum. Þetta kemur trúarbrögðum í raun og veru ekkert við, en hugmyndir ofstækismanna eiga hins vegar greiða leið að þessu fólki því þær geta fyllt upp í tómarúmið.

Svona aðstæður sjáum við ekki aðeins í París. Fátækrahverfi hvítra í Bretlandi, gróðrastía fasisma og kynþáttahaturs, eru af sama toga. Uppgangur nasismans í Þýskalandi átti sér svipaðar rætur. Ku Klux Klan sprettur upp úr sambærilegu umhverfi. Vonleysi og fátækt elur af sér hatur og glæpi.

Hér á Íslandi höfum við blessunarlega verið laus við svona þróun. Það merkir ekki að við þurfum ekki að gæta að okkur. En þá verðum við líka að líta til þeirra hópa þar sem hættan er mest. Og það eru svo sannarlega ekki þau fáu hundruð múslima sem hér búa í sátt og samlyndi við aðra, upp til hópa við efnalega og félagslega velgengni.


mbl.is Má ekki drepa sendiboðann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.8.): 3
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 288187

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband