Þegar rökhugsunin bregst

Sóttvarnalæknirinn kveður ekki skila árangri að takmarka ferðir fólks frá sýktum svæðum. Rökin eru þau, að á Ítalíu, sem er í raun eina landið í Evrópu þar sem faraldur hefur komið upp, hafi ferðatakmörkunum verið beitt.

Ef ferðatakmarkanir hefðu engin áhrif, hvernig væri þá staðan nú í Kína? Þar var svæðum lokað fljótlega eftir að veiran tók að dreifast, og nú hríðfækkar nýsmitum þar.

Röksemd læknisins heldur vitanlega alls ekki vatni. Það er bersýnilega miklu meiri smithætta af einstaklingum sem koma frá sýktum svæðum. Komi þeir til landsins er hættan á útbreiðslu hér að sjálfsögðu miklu meiri en ef þeir koma ekki til landsins. Það að ferðatakmarkanir á Ítalíu, eftir að faraldurinn kom upp þar, hafi ekki stöðvað faraldurinn segir vitanlega ekkert um hvort þessar takmarkanir hafi skilað árangri.

Svona fer þegar rökhugsunin bregst og hrapað er að einfeldningslegum ályktunum án þess að nein tilraun sé gerð til að átta sig á raunverulegu samhengi orsaka og afleiðinga.


mbl.is Ferðatakmarkanir ekki inni í myndinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk verður að átta sig á rótinni

Eflingu er stýrt af sósíalistum. Markmið sósíalista er að koma á sameignarskipulagi sem stýrt er af þeim sjálfum. Aðferðirnar til þess eru alveg þekktar og þær snúast um að valda upplausn og ringulreið í því skyni að komast til valda. Því fleiri sem missa vinnuna, missa tekjurnar, lenda í skuldasúpu og eiga ekki fyrir mat, sama hvort það eru félagsmenn Eflingar sem hafa samþykkt verkfall og bera því sinn hluta ábyrgðarinnar, eða annað fólk sem ekki á sök á vandanum, því nær takmarkinu komast sameignarsinnarnir.

Markmiðið er völd. Markmiðið er ekki kjarabætur.


mbl.is „Það er verið að koma mér í skuldasúpu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplýsingagjöfin er meginþröskuldurinn

Flest fólk hefur litla sem enga hugmynd um á hvaða grundvelli staðhæfingar um hlýnun loftslags af mannavöldum byggja. Í sjálfu sér er málið ekkert sérstaklega flókið, en það verður samt að útskýra það. Það dugar ekki að staðhæfa bara.

Takist ekki að skýra þetta mál fyrir almenningi, og gera almennilega grein fyrir alvarleika þess, munu falsfréttasmiðirnir og allir þeir sem lítið vit hafa, en þeim mun sterkari skoðanir, hafa betur í þessari umræðu.


mbl.is Helmingur telur fréttir af alvarleika hlýnunar réttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsbygging Landsbankans

Um daginn birtust af því fréttir að kostnaðaráætlanir vegna nýbyggingar Landsbankans, við hliðina á Hörpu, hefðu nú hækkað. Haft var eftir bankastjóranum að áætlað væri að sparnaður bankans vegna byggingarinnar næmi 500 milljónum árlega. Áætlaður kostnaður nú mun nema um 12 milljörðum króna. Það merkir að það tekur 24 ár að greiða fjárfestinguna til baka. Það verður að teljast ákaflega langur tími fyrir slíka fjárfestingu. (Ekki síst í ljósi þess að vitanlega er þessi áætlaði sparnaður stórlega ýktur, og byggður á óskhyggju, eins og alltaf.) Og þarna er aðeins horft á einfalda núllpunktsgreiningu. Sé fjárfestingin metin með ávöxtunarkröfu fasteignamarkaðarins eru allar líkur á að búið verði að rífa húsið áður en það hefur borgað sig upp. Jafnframt er auðvitað ljóst að bygging á þessum stað hlýtur að vera umtalsvert kostnaðarsamari en ef byggt væri á ódýrari lóð. Jafnframt virðist sem byggingin sjálf sé umtalsvert dýrari en þörf er á. Fyrir nokkrum árum var blaðafulltrúi bankans spurður hvers vegna bankinn þyrfti endilega að byggja sér höfuðstöðvar í miðbænum, þegar nóg væri að hafa af lóðum á ódýrari stöðum. "Við skilgreinum okkur sem "miðbæjarfyrirtæki"," var svarið!!!!!

Nú er Landsbankinn í eigu ríkisins. Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin, og bankasýslan, láta svona furðulega ákvarðanatöku óáreitta? Hvers konar skrípaleikur er hér á ferðinni? 


Hver skyldi vera rót vandans?

Framlög til Landspítalans aukast ár frá ári.

Fjármögnunin grundvallast á útreikningi meðalkostnaðar við meðhöndlun.

Verið er að byggja gríðarleg mannvirki fyrir stofnunina (á röngum stað reyndar).

Sjúklingar eru oft rangt greindir.

Afleiðingar rangra greininga eru ekki skráðar (fyrr en fréttir eru fluttar af afleiðingunum), hvort sem það er vísvitandi gert eða ekki.

Læknamistök eru mjög tíð, og oftast þögguð niður.

Áætlanagerð stofnunarinnar er í molum.

Kvartað er yfir undirmönnun.

Stéttarfélög starfsmanna virðast samt telja að fækkun vinnustunda komi ekki niður á afköstum.

Bráðadeild er yfirfull og gengur illa að koma sjúklingum þaðan á aðrar deildir, mikið til vegna þess að þær eru fullar af fólki sem ætti að vera á hjúkrunarheimilum.

Ávallt þegar vandinn er ræddur vilja stjórnendur stofnunarinnar rekja hann til fjárskorts, ekki innri flöskuhálsa eða skorts á góðu skipulagi og stjórnun.

-------------

Þetta eru nokkrar birtingarmyndir vandans. Að baki liggja væntanlega fáar, veigamiklar orsakir, sem ekki eru endilega sýnilegar á yfirborðinu.

Hér er um kerfislægt vandamál að ræða, og það verður ekki leyst nema með því að fá óháðan, til þess bæran aðila, til að greina vandamálið og finna rætur þess.


mbl.is Hugur forstjóra LSH hjá aðstandendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna er ekki hægt að leysa þessi mál skynsamlega?

Það er vitanlega ótækt að fólk sem hefur nánast ekkert á milli handanna verði sífellt fyrir skerðingum áskotnist því einhverjir smávegis fjármunir aukalega.

Á sama tíma er vitanlega ástæðulaust að ríkið dæli skattfé til þeirra sem nóg hafa og þurfa ekki á bótum að halda.

En hvernig í ósköpunum stendur á því gagnrýni á þetta fyrirkomulag byggi ávallt á kröfu um afnám allra tekjutenginga?

Af hverju er ekki hægt að koma þessu þannig fyrir að afnema þessar skerðingar upp að einhverju tilteknu tekjumarki, en skerðingin fari svo stighækkandi eftir það með auknum tekjum?

Bætur eru nefnilega bætur og þær eru ætlaðar þeim sem þurfa á þeim að halda, ekki hinum sem nóg hafa milli handanna.


mbl.is Betra að fá ekki jólabónusinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Teningnum kastað

Demókratar hafa nú kastað teningnum. Bréf Trumps og viðbrögðin við því sýna glöggt hvaða áhætta tekin er með þessu teningakasti, og hversu líklegt er að vopnið sé búmerang sem hittir árásarmennina sjálfa fyrir.

Hvað sem mönnum kann að finnast um Trump, er öllu bærilega skynsömu fólki, sem ekki hefur brenglaða dómgreind af hatri, ljóst, að ákærurnar standa á afar veikum grunni: Auðvelt er að skýra þær athafnir sem ákært er fyrir sem eðlilegar og sjálfsagðar. Þetta sést glöggt þegar bréf forsetans er lesið.

Að vissu leyti minnir þessi vegferð á Landsréttarmálið gegn Geir Haarde, sem allir sem þátt áttu skammast sín nú fyrir niður í tær. Munurinn er að athafnir Geirs fyrir hrun miðuðu ekki að því að afhjúpa spillingu og kúgunartilburði stjórnmálamanns, líkt og samskipti Trumps við forseta Úkraínu.


mbl.is Söguleg atkvæðagreiðsla á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð spurning

Raflínur slitna gjarna þegar vetrarveður ríða yfir.

En Landsnet virðst samt sem áður ávallt berjast af krafti gegn notkun jarðstrengja.

Samt er eiginlega augljóst að þar gæti lausn vandans legið.


mbl.is „Höfum við ekkert lært?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þið eigið að segja mér satt"

(Grein mín í Morgunblaðinu í dag)

Margir kannast við vísurnar um spurula drenginn Ara eftir Stefán Jónsson. Ari spyr þá fullorðnu um allt milli himins og jarðar og þegar honum er svarað því til að hann viti það þegar hann verður stór hallar Ari undir flatt og svarar: „Þið eigið að segja mér satt“. Ari vissi nefnilega sínu viti.

Umfjöllun um fall Berlínarmúrsins í útvarpsþættinum Krakkafréttum á RÚV hefur hlotið nokkra gagnrýni. Þar var greint frá málinu með þessum orðum m.a.: „Höfuðborg­inni í Berlín var líka skipt í tvennt og árið 1961 var reist­ur múr til að aðgreina borg­ar­hlut­ana. Það var líka gert til að koma í veg fyr­ir að fólk flytt­ist á milli, aðallega frá austri til vest­urs.“

Nú vita allir sem vilja vita það að það er ósatt að fleiri ástæður hafi verið fyrir byggingu Berlínarmúrsins en sú að hindra að íbúar Austur-Þýskalands gætu flúið vestur yfir. Og það er einnig ósatt að fólksflóttinn hafi „aðallega“ verið frá austri til vesturs. Hann var einvörðungu frá austri til vesturs.

Maður veltir því fyrir sér hvernig umsjónarmaðurinn hefði orðað frétt um útrýmingarbúðir nasista. Kannski eitthvað á þá leið að „... margt fólk hafi flust í búðir sem girtar voru af til að koma í veg fyrir að fólk færi inn og út úr þeim, aðallega út úr þeim. Því miður hafi margir sem fluttust í búðirnar látist þar.“

Miðvikudaginn 4. desember brást umsjónarmaður þáttarins við gagnrýninni með grein í Morgunblaðinu. Var á henni að skilja að erfitt væri að gera grein fyrir staðreyndum um fall Berlínarmúrsins í 130-150 orðum. Kallaði hún eftir tillögum um orðalag. Tiltók hún sérstaklega að orðalagið þyrfti að vera „pólitískt hlutlaust“. Hún kallaði hins vegar ekki sérstaklega eftir því að orðalagið væri sannleikanum samkvæmt. Hér er samt tillaga þar sem leitast er við að uppfylla það skilyrði líka. Textinn er tekinn beint upp úr grein á Vísindavefnum frá 2009, eftir Hjálmar Sveinsson dagskrárgerðarmann á RÚV:

„Í lok heimsstyrjaldarinnar síðari var Berlín, höfuðborg hins sigraða Þýskalands, skipt á milli sigurvegaranna; Austur-Berlín varð yfirráðasvæði Sovétmanna en vesturhlutinn var undir yfirráðum Breta, Frakka og Bandaríkjamanna.

...

Meginástæðan fyrir byggingu Berlínarmúrsins var stöðugur straumur fólks frá Austur-Þýskalandi til Vestur-Þýskalands. Þegar hafist var handa við að reisa múrinn 13. ágúst 1961 höfðu 2,5 milljónir manna yfirgefið Austur-Þýskaland frá því það var stofnað árið 1949. Fólksflóttinn náði hámarki 1961, fyrstu tvær vikurnar í ágúst það ár fóru 159.730 manns til Vestur-Berlínar.

...

Talið er að 136 manns hafi verið drepnir eða látið lífið við flóttatilraunir. Um það bil 200 særðust. Hundruð ef ekki þúsundir voru dæmd í fangelsi fyrir ætlaðan flótta.

...

Þann 9. nóvember 1989, eftir nokkurra vikna kröftug mótmæli gegn ráðandi öflum, var Austur-Þjóðverjum veitt leyfi til þess að fara í heimsókn yfir landamærin til Vestur-Þýskalands. Landamærastöðvar í Berlín opnuðust og íbúar gátu óhindrað farið á milli borgarhlutanna – múrinn var fallinn.“

 

Þetta er sannleikur málsins í aðeins 124 orðum. Umsjónarmaður gaf ádrátt um það í grein sinni, að vel heppnuð tillaga um orðalag kynni að verða lesin upp í þættinum. Ég legg því til að texti Hjálmars verði lesinn upp í Krakkafréttum við fyrsta tækifæri, því eins og Ari litli segir í kvæðinu, þá á að segja börnum satt.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband