7.12.2007 | 09:11
Aðeins brot af niðurgreiðslunum
![]() |
Niðurgreidd olía á Kárahnjúkum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.12.2007 | 08:55
Góðar fréttir eða slæmar?
Þessi vísitala mælir þrennt: Losun gróðurhúsalofttegunda vegur 30%, þróun losunar vegur 50% og stefna stjórnvalda 20%. Það er eðlilegt að Ísland standi framarlega þegar kemur að losun á mann, enda er iðnvæðing hér tiltölulega lítil. Varðandi stefnu stjórnvalda virðumst við á svipuðu róli og mjög mörg önnur ríki hér og þar á listanum. Ég hef raunar grun um að þarna ráði miklu hvort búið er að setja eitthvað niður á blað eða ekki. Þróun undanfarin ár vegur hins vegar þyngst í þessari vísitölu. Útkoma Íslands þar bendir til þess að losun hafi aukist lítið á undanförnum árum. Spurningin er hins vegar sú hvað gerist þegar stóriðjuverin sem ýmist eru að hefja starfsemi nú, eða stendur til að taki til starfa fljótlega, koma inn. Þá er líklegt að við hröpum hratt á þessum ágæta lista. Og þá er spurningin: Hvort er betra að byrja á toppnum og falla svo niður í þriðju deild, eða byrja neðarlega en hafa svigrúm til að bæta sig?
![]() |
Ísland í fremstu röð í umhverfismálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.12.2007 | 09:03
Nýtt kvótakerfi?
Þessi ábending vekur vissulega athygli. Hún er kannski fyrst og fremst til marks um það, að því fer fjarri að öll kurl séu komin til grafar í þessum málum.
Nú sitja fulltrúar ríkja heims á fundi í Balí til að ræða um loftslagsmál og losunarkvóta. Losunarkvótar eru vafalaust komnir til að vera. Þegar hefur myndast markaður með þessa kvóta og vægi hans á vafalaust eftir að aukast. Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvernig þróunin verður þegar þjóðir heims, fyrirtæki og einstaklingar fara að gera sér fulla grein fyrir því að heimildir til mengunar andrúmsloftsins eru skyndilega að verða takmörkuð gæði.
Nýverið ákvað íslenska ríkisstjórnin að úthluta ekki kvótum til nýrra stóriðjuvera sem eru á teikniborðinu. Þau stóriðjuver sem fyrir eru halda hins vegar sínum kvótum. Því fer fjarri að allir hafi verið sáttir við þau málalok. Samt voru þeir sem ekki fengu kvóta aðeins að verja hagsmuni hugsanlegra, en ekki raunverulegra fyrirtækja, sem þegar höfðu hafið rekstur.
Hér á Íslandi eigum við nýlegt dæmi um sambærilegt mál, en það var þegar fiskveiðiheimildir urðu allt í einu takmörkuð gæði sem tóku að ganga kaupum og sölum. Fá mál önnur hafa valdið jafn djúpstæðum klofningi í samfélaginu og sér raunar enn ekki fyrir endann á þeim deilum sem spruttu af því með hvaða hætti fiskveiðikvótum var úthlutað á sínum tíma.
Álitamál tengd mengunarkvótum og meðferð þeirra gætu hæglega orðið í það minnsta jafn mikilvæg pólitískt og álitamálin um kvótakerfið. Það verður mikilvægara með hverjum deginu að fá að vita hver viðhorf stjórnmálaflokkanna eru til þessa máls. Er til dæmis eðlilegt að þau fyrirtæki sem nú nýta losunarheimildir haldi þeim án þess að greiða fyrir? Hvernig verður jafnræði tryggt gagnvart nýjum mengandi fyrirtækjum? Hvaða atvinnugreinar verða fyrir áhrifum af því, þegar losun mengandi efna verður kvótabundin? Mun sjávarútvegurinn til dæmis þurfa að kaupa losunarkvóta? Og hvað með landbúnaðinn?
Þessar spurningar munu koma upp á yfirborðið fyrr en varir. Þá er mikilvægt að stjórnmálamenn hafi myndað sér rökstuddar skoðanir sem byggja á framsýni og skynsemi. Sú umræða þarf að fara að hefjast, svo ekki þurfi að grípa til hraðsoðinna og vanhugsaðra lausna þegar að því kemur að leysa málið.
![]() |
Ganga skaðlegri en akstur? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2007 | 23:14
Sóley bjargar sér frá heiminum!
Ég rakst áðan á nýja færslu Sóleyjar Tómasdóttur þar sem hún veltir því upp hvað Reykjavíkurborg geti gert til að menn hætti að lemja konurnar sínar. Það stendur víst fyrir dyrum feminísk ráðstefna um þetta.
Mín fyrsta hugsun var auðvitað sú að heimsækja Sóleyju og hrekkja hana smá með sniðugum hugmyndum. En viti menn, þá er hún búin að loka á athugasemdir á síðunni sinni!
Nú hef ég eiginlega alltaf litið þannig á að hluti þess að standa í þessu bloggbrölti sé að skapa umræður, sem oft verða skemmtilegar og vitrænar rökræður úr. Ég tók til dæmis þátt í mjög upplífgandi umræðum um trú og trúleysi á síðunni hans Hlyns Hallssonar fyrir örskömmu síðan og held að við öll sem þar komum að höfum gengið frá þeirri samdrykkju nokkurs vísari og með betri skilning hvert á annars viðhorfum. Hluti af þessu er svo auðvitað að alls konar apakettir geta líka slæðst inn á athugasemdasíðuna. Þá tekur maður því bara eins og maður (nú eða kona auðvitað!), hvort sem maður kýs að grínast í þeim eða leiða þá einfaldlega bara hjá sér.
Mér finnst sumsé frekar tilgangslítið að halda úti svona síðu en loka á athugasemdir og benda fólki bara á að panta tíma ef það langar að skiptast á skoðunum við mann. En þetta er kannski ný nálgun í samræðustjórnmálum hjá Sóleyju.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2007 | 11:04
Misráðinn hernaður
Ég held, því miður, að Siðmennt sé að gera mikil mistök með kröfu sinni um afsökunarbeiðni frá biskupi og öðrum svipuðum upphlaupum undanfarið. Nú er ég fjarri því að vera sérstaklega hrifinn af Siðmennt þar sem mér finnst þessi áhersla á að búa til einhvers konar eftirlíkingar af kristnum athöfnum frekar óspennandi.
Ég ber hins vegar mikla virðingu fyrir skoðunum trúleysingja enda hlýtur allt sanngjarnt fólk að vera sammála því að þær eiga við fullgild rök að styðjast. Það merkir hins vegar ekki að aðrir geti ekki haft aðra lífsafstöðu, grundvallaða á nákvæmlega jafngildum rökum.
Þótt margt sé gott í málflutningi Siðmenntar og gagnrýni á kirkjuna finnst mér þó nýleg upphlaup í tengslum við kristnifræðikennslu og aðkomu kirkjunnar að skólastarfi ekki samtökunum til framdráttar. Jafnvel mætti segja að þau séu tekin að koma óorði á málstað trúleysingja. Það er slæmt.
Orð biskups sem Siðmennt krefst nú afsökunarbeiðni á tengjast auðvitað þessum upphlaupum og endurspegla þá ímynd sem samtökin hafa því miður verið að gefa af sér undanfarið. Mér finnst krafan um afsökunarbeiðni líka lýsa svolítilli móðursýki. Það þarf enginn að skammast sín fyrir að vera hatrammur málflytjandi eða andstæðingur einhvers. Það er engin siðferðileg fordæming fólgin í því hugtaki!
Svo stuttlega sé komið að málflutningnum sjálfum hefur Siðmennt krafist þess að ekki sé stundað trúboð í skólum, því foreldrar eigi að ráða því sjálfir hvaða viðhorf börnum þeirra eru innrætt. Það kann að virðast sanngjörn krafa. En er það endilega víst?
Trúboð er innræting ákveðinna lífsskoðana, rétt eins og predikun trúleysis er innræting ákveðinna lífsskoðana. Innræting lífsskoðana á sér stað alls staðar í skólakerfinu. Það að boða jafnrétti, manngildi og umburðarlyndi er innræting lífsskoðana og það er alls ekki víst að allir séu sammála þeim túlkunum á þessum gildum sem þar eru lögð til grundvallar. Þess utan eru börnum beint og óbeint kenndar aðrar lífsskoðanir, sem kannski eru ekki jafn jákvæðar, svo sem áhersla á efnaleg gæði, reglan um auga fyrir auga og svo framvegis.
Fyrri spurning mín varðandi þetta er kannski þessi: Ef hafna á innrætingu lífsskoðana í skólum verður þá ekki jafnt yfir allar að ganga? Er yfirleitt hægt að forðast slíka innrætingu svo lengi sem við erum þátttakendur í samfélaginu?
Síðari spurningin er þessi: Er það eitthvað réttmætara að foreldrar stjórni því hvaða lífsskoðanir börnum eru innrættar en að það mótist af almennum viðhorfum í samfélaginu? Eru foreldrar einhvers konar einræðisherrar yfir börnum sínum sem hafa rétt til að stjórna og móta skoðanir þeirra?
![]() |
Krefjast afsökunarbeiðni frá biskupi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
4.12.2007 | 18:00
Hvað læra þeir sem kenna?
Það hlýtur að skipta meginmáli við kennslu í grunnskóla að kennarinn hafi þekkingu á því námsefni sem honum er ætlað að miðla. Annars er því miður ákaflega líklegt að árangurinn verði slakur.
Ég skoðaði að gamni á vef Kennaraháskólans hvað kennaranemar þurfa að læra til að útskrifast sem grunnskólakennarar. Snöggsoðin niðurstaða er þessi:
Námið er til 90 eininga og skiptist í grunnnám og svonefnd kjörsvið.
Námsefnið í grunnnáminu er allt kennslu- og uppeldisfræði. Námsgreinarnar sem kenna á börnunum koma þar hvergi við sögu.
Kjörsviðin eru 14 talsins. Þau spanna allt frá íslensku og stærðfræði yfir í matargerð.
Íslenskunámið virðist snúast um kennslu í málfræði, bókmenntum og öðru sem ætla má að gagnist við íslenskukennslu. Þegar kjörsviðin eru skoðuð virðist íslenskan hafa nokkra sérstöðu í því, að þar er um praktískt nám í greininni að ræða. Ekki virðist það sama eiga við um mörg hinna kjörsviðanna. Sé stærðfræðinámið tekið sem dæmi snýst það um kennslufræði tengda stærðfræði. Hvergi er minnst á neina kennslu í greininni sjálfri heldur virðist námið aðallega snúast um umfjöllun um sögu stærðfræðinnar, áhrif tæknivæðingar á stærðfræðikennslu og þar fram eftir götunum. Kjörsviðið "kennsla yngstu barna í grunnskóla" virðist mest snúast um hluti á borð við þróun boðskiptahæfni, foreldrasamstarf og lestrarfræði, svo eitthvað sé nefnt.
Svo koma kjörsvið á borð við textíl, matargerð og fleira sem eðli málsins samkvæmt snúast alls ekki um grunngreinar á borð við lestur, skrift eða stærðfræði.
Það virðist því ljóst að auðvelt væri að útskrifast með fullgilt kennaranám án þess að hafa nokkru sinni lært neina undirstöðu í lestrarkennslu eða stærðfræðikennslu. Þá er ekki von að vel fari!
Nú berast af því fréttir að til standi að lengja kennaranám úr þremur í fimm ár. Kostnaður þessu samfara mun verulegur. Væri nú ekki einfaldara að endurskoða það nám sem fram fer í KHÍ og leggja áherslu á hagnýtt nám með áherslu á grunngreinar á kostnað kennslufræðanna sem allt virðist snúast um í téðum skóla? Það þarf enginn að segja mér að þrjú ár dugi ekki til þess. Þá væri kannski hægt að nota peningana til að greiða grunnskólakennurum mannsæmandi laun.
![]() |
Vonsvikin með PISA-könnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt 5.12.2007 kl. 08:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2007 | 10:42
Rosalega fyndið leikrit?
Ég las fyrst Hamskiptin eftir Kafka 16 eða 17 ára minnir mig. Það á við sjálfan mig eins og væntanlega fleiri, að mér finnst ég aldrei hafa skilið til fulls hvað höfundurinn er að fara, svo margræð er þessi saga, rétt eins og flest verk höfundarins önnur. Það var því með talsverðri eftirvæntingu sem ég fór um daginn að sjá uppfærslu Þjóðleikhússins, enda hafði hún fengið góða dóma, bæði hér og í London.
Fyrir þá sem ekki þekkja söguna fjallar hún um eftirleik þess að skrifstofumaðurinn Gregor Samsa vaknar upp og hefur þá breyst í tröllaukna bjöllu. Smátt og smátt rofna tengslin milli Gregors og fjölskyldu hans og lýkur sögunni á dauða Gregors.
"Þetta var rosalega fyndið leikrit!" heyrði ég manneskju sem sat fyrir framan okkur segja við sessunaut sinn þegar sýningunni var lokið. Það kom mér ekki á óvart, enda hafði viðkomandi persóna og sessunautar hennar, ásamt fáeinum öðrum takmörkuðum hópum í salnum, legið í nær stöðugu hláturskasti alla sýninguna. Ekki virtist þurfa mikið til að vekja kátínuna - ankannaleg eða ýkt hreyfing, ruddalegt orðaval eða eitthvað þess háttar dugði til.
Ég verð að viðurkenna að ég átti ekki auðvelt með að sjá eitthvað sérstaklega fyndið í Hamskiptunum. Að vísu fannst mér leikurinn á stundum helst til ýktur, jafnvel farsakenndur, sem ekki hjálpaði til við að koma andrúmslofti verksins til skila. En dóminn "rosalega fyndið leikrit" verð ég að viðurkenna að ég skil alls ekki.
Á undanförnum árum hafa alls konar farsar tröllriðið leikhúslífi hér á landi. Getur verið að talsverður hluti leikhúsgesta gangi orðið út frá því að leikrit séu alltaf farsar og þess vegna sé allt í þeim fyndið? Ég velti því fyrir mér hvort það sé raunin, því þetta er ekki eina dæmið sem ég hef upplifað, og fleiri sem ég hef borið þetta undir taka undir það. Og gæti jafnvel verið að leikstjórar séu farnir að gera út á þetta einkennilega viðhorf til að þóknast áhorfendum? Eða er þetta einfaldara? Á bara að láta fólk taka greindarpróf fyrst ef það ætlar að kaupa leikhúsmiða?
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.12.2007 | 15:06
Tapið staðfest! Hver ber ábyrgðina?
Nú er ljóst að kostnaður við byggingu Kárahnjúkavirkjunar er þegar kominn 5-6% fram úr áætlun. Sé þeirri tölu bætt við upphaflega kostnaðaráætlun liggur því ljóst fyrir að sú 5-6 milljarða arðsemi sem að var stefnt er horfin. Með öðrum orðum er verðmæti eignarhlutar Landsvirkjunar ekkert þegar kostnaður hefur verið dreginn frá! Þá er samt gengið út frá því að skattgreiðendur borgi stóran hluta lánsfjárvaxtanna!
Þegar við bætist að orkusala hefur tafist umtalsvert er orðið ljóst að jafnvel þótt áhættan sé í boði skattgreiðenda er ávinningur Landsvirkjunar af framkvæmdinni þegar orðinn neikvæður miðað við upphaflega kostnaðaráætlun.
Nú er spurningin sú hver verður dreginn til ábyrgðar í þessu máli. Verður það yfirstjórn Landsvirkjunar? Verða það þeir þingmenn og ráðherrar sem að málinu stóðu eða verður það eigendanefndin sem lét sig hafa það að staðfesta útreikninga og forsendur Landsvirkjunar vitandi að þær væru fræðilega rangar?
Eða verður kannski enginn dreginn til ábyrgðar?
![]() |
Kárahnjúkavirkjun 5 til 6% yfir áætlun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Hitt og þetta
Bloggvinir
-
agny
-
graenar-lausnir
-
bjarnijonsson
-
bjornalexandermikli
-
gattin
-
dofri
-
contact
-
fhg
-
gretaulfs
-
gudni-is
-
mosi
-
bofs
-
muggi69
-
gudrunmagnea
-
zeriaph
-
holi
-
haukurn
-
diva73
-
hlynurh
-
ingibs
-
ingolfursigurdsson
-
fun
-
jennystefania
-
johnnybravo
-
eyfeld
-
jonbergsteinsson
-
jonvalurjensson
-
thjodarskutan
-
krist
-
kristjan9
-
loncexter
-
ludvikjuliusson
-
sleggjudomarinn
-
magnuss
-
svarthamar
-
vestskafttenor
-
otti
-
runaro
-
joklamus
-
sigurjons
-
stefanjul
-
summi
-
saemi7
-
samy
-
torfusamtokin
-
vestfirdir
-
thorsteinn
-
valli57
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.10.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar