Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hver er fórnarkostnaður sóttvarnanna?

Þegar kórónafaraldurinn hófst var talið að stór hluti þeirra sem smituðust veiktust alvarlega og dæju. Því hófst víðtæk beiting sóttvarna. Síðar hefur komið í ljós að dánartíðnin er langtum lægri en í fyrstu var talið. Ástæðan er að raunveruleg smit eru margfalt fleiri en greind smit. Látnir nú miðað við greind smit eru 30 af hverjum þúsund, en ef miðað er við raunveruleg smit samkvæmt niðurstöðum mótefnaprófana um allan heim eru þeir tæplega þrír af hverjum þúsund.[i]

Helmingi fleiri undir fátæktarmörkum

Sóttvarnir draga faraldurinn á langinn, sem gæti fækkað dauðsföllum komi fram fullnægjandi og öruggt bóluefni nægilega fljótt. Upp að vissu marki eru þær líka nauðsynlegar til að draga úr álagi á heilbrigðisstofnanir, en því fer fjarri að hinar ofsafengnu ráðstafanir víða um heim séu allar nauðsynlegar til þess.

Sóttvarnir hafa líka grafalvarlegar afleiðingar, sem magnast eftir því sem lengra líður. Útgöngubönn, samkomubönn, fjarlægðarmörk og ferðabönn valda efnahagssamdrætti, auka ójöfnuð og draga úr lífsgæðum.

Fyrir þá fátækustu eru afleiðingarnar sneggstar og alvarlegastar. Samkvæmt nýlegri úttekt SÞ gætu sóttvarnaráðstafanir fjölgað fólki undir fátæktarmörkum um helming (50%). Á síðasta ári létust tæplega níu milljón manns úr hungri. Hversu mikið fjölgar þeim?

Í ríkari löndunum eru miklu færri undir fátæktarmörkum og þar eru tiltölulega skilvirk velferðarkerfi. Fólk sem missir atvinnuna fær bætur, margs konar opinber þjónusta er ókeypis eða niðurgreidd. Áhrif atvinnuleysisins eru því ekki jafn snögg og alvarleg og í þriðja heiminum.

Atvinnuleysi er lífshættulegt

En í ríkari löndum hefur atvinnuleysi svo sannarlega einnig neikvæð áhrif á heilsu fólks og lífslíkur. Ein þekktasta rannsóknin á þessu var unnin af hagfræðingunum Barry Bluestone og Bennett Harrison og birtist í bók þeirra „Corporate Flight – The Causes and Consequences of Economic Dislocation“, 1981. Niðurstaða þeirra var að 1% aukning atvinnuleysis í Bandaríkjunum leiði til 37.000 dauðsfalla. Félagsfræðingurinn Harvey Brenner, prófessor við Yale-háskóla, vann umfangsmikla skýrslu um þessi tengsl fyrir ESB árið 2016, sem sýnir afgerandi orsakasamhengi atvinnuleysis og dauðsfalla vegna hjartasjúkdóma og heilablóðfalls. Hvað Bandaríkin varðar hefur Brenner lýst svipuðum niðurstöðum og Bluestone og Harrison.

Þegar tekið er mið af breytingum á fólksfjölda og þeirri minnkun á dánarlíkum yfirleitt sem orðið hefur síðan rannsókn Bluestone og Harrison var gerð, má álykta að hlutfallið í Bandaríkjunum nú sé 47.500 dauðsföll á móti hverju einu prósenti atvinnuleysis.[ii] Fjöldi á bandarískum vinnumarkaði nú er um 160 milljónir, sem merkir að búast má við þrjátíu ótímabærum dauðsföllum á hverja þúsund sem missa vinnuna.

Sænskar og finnskar rannsóknir, þar sem velferðarkerfi eru hvað sterkust, sýna 50-100% aukningu á dánarlíkum, 5-10 dauðsföll á hverja þúsund.[iii] Munurinn kann að liggja í sterkari heilsugæslu og velferðarkerfi auk menningarlegra þátta. Fjöldi annarra rannsókna um allan heim sýnir fram á þessi tengsl og er óhætt að fullyrða að um þau ríki enginn vafi, en misjafnt eftir löndum hversu sterk þau eru.

Hver verður fórnarkostnaður aðgerðanna?

Ekki liggur fyrir hversu mörgum störfum var fórnað með lokun landsins 19. ágúst, en reikna má með að þau skipti þúsundum. Þegar þetta er ritað hafa samkvæmt covid.is greinst 18  virk smit við seinni skimun, svo smitin sem forðað er með þessari stórskaðlegu ráðstöfun eru sárafá. Á sama tíma greindust 700 smit innanlands. Hlutfall smitaðra á landamærum er 0,4% frá upphafi.

Það er líkt og stjórnvöld séu að reyna að verja hús fyrir vatni og vindum með því að þétta gluggana þegar þakið er fokið af. Árangurinn er í samræmi við fáránleikann. Nú er Ísland meðal þeirra tíu Evrópulanda þar sem nýgengi smita er mest. Langtum meira en í löndum þar sem landamæri eru opin.

Hversu mörgum mannslífum hefur lokunin í raun og veru bjargað? Og hversu mörgum mannslífum er fórnað með henni? Lesendum er látið eftir að meta það, en ég óttast að lítill vafi sé á að fórnin er umtalsvert meiri en ávinningurinn. Sér í lagi þar sem markmið lokunarinnar um eðlilegt líf innanlands hefur bersýnilega alls ekki náðst, líkt og nýjustu aðgerðir sýna.

Mistök má leiðrétta

Lokun landsins veldur dauðsföllum. Á því er ekki nokkur vafi. Þessi dauðsföll koma ekki endilega strax fram; það getur tekið mörg ár. Stjórnvöld halda ekki úti neinni vefsíðu til að tíunda þau. Þau rata ekki heldur í fjölmiðla. En þau eru raunveruleg og þau eru bein afleiðing af misráðinni ákvörðun stjórnvalda.

Það er skylda stjórnvalda að hafa líf og heilsu alls almennings í forgangi. Því verða þau að stöðva þessar gagnslausu aðgerðir áður en skaðinn verður meiri en orðið er. Þannig mætti milda mjög þann grafalvarlega vanda sem þúsundir fjölskyldna standa nú frammi fyrir.

 

[i] https://www.medrxiv.org/content/10.1101/2020.05.13.20101253v3

[ii] Sjá t.d. http://www.edhovee.com/edhblog/2020/5/6/more-deaths-from-unemployment-than-covid

[iii] Sjá t.d. https://openarchive.ki.se/xmlui/bitstream/handle/10616/40759/Thesis_Andreas_Lundin.pdf?sequence=1&isAllowed=y

 

Birt í Fréttablaðinu 8. október 2020


mbl.is Þrír ráðherrar í hópi efasemdamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tillaga að spurningu

Ef svo ólíklega skyldi vilja til að einhver blaðamaður með metnað skyldi hafa áhuga á að skoða þessi mál, þá væri til dæmis ekki úr vegi að spyrja veiruþrenninguna að því hvers vegna herða þurfi aðgerðir vegna fjölda smita í gær, svona í ljósi þess að hlutfall smitaðra af greindum sýnum er nákvæmlega það sama í gær og í fyrradag.

Í fyrradag voru tekin 2000 sýni og 59 smit greindust. 3,0%

Í gær voru tekin 3227 sýni og 99 smit greindust. 3,1%.

 


mbl.is Boða hertar aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Ívar sannspár

Fyrir nokkrum vikum skrifaði Jón Ívar fyrst um þessi mál. Hann benti á mikilvægi þess annars vegar að loka ekki landamærunum alveg og hins vegar að viðhafa öflugar sóttvarnir innanlands.

Fulltrúi lyfjaiðnaðarins sem stýrt hefur aðgerðum hérlendis réðist af þessu tilefni harkalega á Jón Ívar, ekki með rökum heldur skítkasti eins og hans er von og vísa.

Það er nú komið glöggt í ljós að varnaðarorð Jóns Ívars áttu svo sannarlega við rök að styðjast. Það verður áhugavert að sjá hvort Amgen tefli peði sínu fram gegn honum aftur núna.


mbl.is Segir tilslakanir innanlands skýra bylgju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræðslufaraldur og fréttir sem hverfa

Nú síðdegis birtist á vef Morgunblaðsins frétt af Vilhjálmi Egilssyni fyrrum þingmanni og rektor, sem staddur er í Tyrklandi, og var meðal annars haft eftir honum að hann teldi þá stefnu Tyrkja að halda landinu opnu fyrir ferðamönnum skynsamlegri en lokunarstefnu íslenskra stjórnvalda. Fréttin var þá fjórða mest lesna frétt dagsins. Nú er hún horfin af forsíðunni þótt hægt sé að finna hana með því að leita að nafni Vilhjálms á vef blaðsins.

Tvö blogg birtust um þessa frétt. Í öðru var reynt að gera lítið úr stefnu Tyrkja vegna þess að heilbrigðiskerfi Albana væri ekki gott. (Höfundi hefur líklega yfirsést að Tyrkland og Albanía eru sitthvort landið, eða kannski er honum alveg sama um það.) Hitt bloggið var frá einstaklingi sem virðist hafa tapað ráði og rænu af ofsahræðslu við flensuna og snerist málflutningurinn um að ráðast á einhverja ónafngreinda aðila á ritstjórn blaðsins fyrir að vega að sóttvörnum. Þessi aðili hefur birt mörg slík blogg undanfarið og virðist einfaldlega vilja banna alla umræðu um þessi mál nema hún ýti undir sömu ofsahræðslu og hann sjálfur er greinilega haldinn.

Ég skrifaði í gær örstutta færslu í tilefni af orðum sóttvarnalæknis um að fjöldi smita hérlendis væri nú í veldisvexti. Spurði ég hvar veldisvöxturinn væri, og birti með færslunni graf af vef covid.is sem sýndi fjölda smita eftir dögum undanfarna daga. Myndin gaf enga vísbendingu um veldisvöxt.

Hrina athugasemda barst við þessa færslu. Fyrst og fremst frá tveimur einstaklingum. Í fyrstu hélt ég að þau væru að reyna að koma á framfæri einhverri gagnrýni á efasemdir mínar um að staðhæfing sóttvarnalæknis stæðist. En ég hef nú áttað mig á að það var rangt mat. Athugasemdirnar lýsa greinilega fyrst og fremst mikilli reiði yfir því að ég skuli voga mér að draga í efa staðhæfingar læknisins. Mér finnst líklegt að rótin að þessari reiði sé af sömu rót runninn og ótti ofsatrúaðs fólks við allt sem grefur undan þeim kenningum eða einstaklingum sem það hefur gert að leiðtoga lífs síns. 

Ég hef af því áhyggjur þegar við erum komin á þann stað að sjálfsögð og rökstudd gagnrýni á yfirvöld vekur jafn mikla reiði og ofsa og athugasemd mín um ósamkvæmni í máli sóttvarnalæknis, eða athugasemd Vilhjálms um að íslensk stjórnvöld hafi kannski farið offari.

Veirufaraldur er vissulega slæmur. En óttafaraldur getur auðveldlega orðið verri. Um það eru fjölmörg dæmi í mannkynssögunni.


mbl.is Neyðarstigi almannavarna lýst yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er veldisvöxturinn?

Vitanlega sveiflast þessi greindu smit milli daga. Tal um veldisvöxt er einkennilegt, því það  er engan veldisvöxt að sjá. En panikkin ræður, að vanda. 

Screenshot 2020-10-03 at 12.32.18

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Og hlutfall smita af sýnum er heldur ekki að gefa til kynna neinn veldisvöxt, aðeins línulegan vöxt:

Screenshot 2020-10-03 at 12.42.31

 

 


mbl.is Þörf á hertum aðgerðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðin til að fjölga störfum er að hætta að fækka þeim!

Atvinnuleysið nú er manngert. Meginástæða þess er lokun landsins fyrir ferðamönnum.

Lokun landsins hefur ekki skilað þeim árangri sem lagt var upp með. Nýgengi smita hér er nú með því hæsta í Evrópu.

Einfaldasta leiðin til að fjölga störfum er að opna landið að nýju fyrir ferðamönnum. Í Þýskalandi er nýgengi smita fjórðungurinn af því sem það er hér. Samt er Þýskaland opið.

Í upphafi faraldursins sagði sóttvarnalæknir að smithætta af ferðamönnum væri almennt hverfandi. En eftir að fulltrúi lyfjaiðnaðarins komst með puttana í málið breyttist þetta. Nú er áherslan öll á að treina markaðinn fyrir lyf og bóluefni.

Leiðin til að fjölga störfum er að hætta að fækka þeim!

 


mbl.is „Nær ekkert gert til að fjölga störfum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snjöll sparnaðaraðgerð

Niðurstaðan af þessari breytingu verður sparnaður fyrir ríkið. Í fjölskyldum þar sem annað foreldrið hefur há laun en hitt meðallaun eða lág, mun foreldrið með meðallaun eða lág nýta orlofið. Hitt mun ekki nýta það. Þannig sparar ríkið fjármuni, en tekst að láta líta út fyrir að um jafnréttismál sé að ræða. Lélegir hagfræðingar staðfesta það svo, með pólitískum rökum en ekki hagfræðilegum, líkt og sést í þessari frétt.


mbl.is Sex mánuðir á hvort foreldri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig standast fullyrðingar WHO?

Á vef WHO segir svo:

"Around 1 in every 5 people who are infected with COVID-19 develop difficulty in breathing and require hospital care."

Screenshot 2020-09-27 at 11.46.01

 

 

 

 

 

 

 

 

Það er að segja, 20% þeirra sem smitast leggjast inn á spítala. Þetta eru hinar opinberu upplýsingar sem unnið er út frá.

Nú liggja fjórir á spítala hér. 450 eru greindir með virkt smit núna. Smitum hefur verið að fjölga línulega, svo ekki er raunhæft að bera saman núverandi fjölda smita og fjölda á sjúkrahúsi. Nær væri að bera fjölda á sjúkrahúsi nú saman við fjölda smitaðra fyrir viku til 10 dögum síðan. Gróflega áætlað voru kannski um 200 virk smit til staðar þá. Það merkir að hlutfallið er tvö prósent: Tvö prósent þeirra sem greindir eru með smit lenda á spítala. Ekki tuttugu prósent.

Við upplifum nú fordæmalaust, manngert samfélags- og efnahagshrun. Forsendur þeirra ákvarðana sem valda hruninu eru upplýsingar frá WHO. Eins og þetta dæmi sýnir eru þær "upplýsingar" einfaldlega fjarstæðukenndar staðhæfingar. Það er á þessum grunni sem stjórnvöld um allan heim eru að taka ákvarðanir sem eiga eftir að verða tugmilljónum manna að aldurtila. Og það er jafnvel gengið svo langt að skilgreina gagnrýni á fjarstæðukenndar staðhæfingar WHO sem "upplýsingaóreiðu". Hefur siðferði ráðamanna einhvern tíma náð dýpri lægðum? Það fer ekki hjá því að umfjöllun Arendt um "banality of evil" komi upp í hugann.


mbl.is Einn í öndunarvél og fjórir alls á spítala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öll bóluefnin eru "ósamþykkt"

Ekkert þeirra bóluefna sem nú er verið að setja á markað eða stendur til að setja á markað á næstu vikum og mánuðum er "samþykkt" miðað við þær kröfur sem hingað til hafa verið gerðar til bóluefna. Þau eru öll á undanþágu.

Þróun bóluefna tekur yfirleitt um 10 ár og ástæðan er að langvinnar prófanir þurfa að eiga sér stað til að tryggja að ekki komi fram aukaverkanir, sem oft eru mörg ár að koma í ljós.

Bóluefni er ekki lausnin við hruninu sem þessi veira hratt af stað. Eina mögulega lausnin er náttúrulegt hjarðónæmi. Til allrar hamingju er veiran nægilega hættulítil til að slíkt sé sjálfsagt markmið. En af einhverjum ástæðum má ekki stefna að því.

Að hversu miklu leyti liggur ástæða þess í hagsmunum lyfjaframleiðenda, á borð við Kára Stefánsson og fyrirtæki hans?


mbl.is Sprauta þúsundir með ósamþykktu bóluefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til þess er málið varðar

Það er ekki oft sem maður sér mjög vel skrifaðar blaðagreinar, en hér er ein slík sem ég sá á Stundinni. Ákvað að hnupla henni og birta hér, því ég held að hún eigi erindi við moggabloggara ekki síður en aðra. Greinin er eftir Maríu Einarsdóttur, sem ég veit ekkert hver er, en mér finnst hún mjög góð:

"Til þess er málið varðar, 

Ég veit ekki hver þú ert. Þú sem, ef til þess kemur, þarft að mæta á þann stað sem fjögur egypsk börn sitja í felum frá stjórnvöldum okkar og fara með þau úr landi. Eflaust verður þú ekki einn, þú munt þurfa liðsauka til að koma fólkinu út úr húsi, hvað þá upp á flugvöll. Því við vitum öll að þau munu ekki fara sjálfviljug. Ég veit allavega að þú ert sterkur og hraustur. Það verður örugglega búið að hugsa fyrir því að líklega þurfi að bera sum barnanna út í bíl. Kannski jafnvel foreldrana. 

Ég veit ekki hver þú ert, en mig langar að tala við þig. Mig langar að spyrja þig út í nokkra hluti. 

Hefur þú hugsað út í hvernig þetta verður, ef þið finnið fjölskylduna? Hefur þú íhugað hvað þú munir segja þegar þú opnar hurðina þar sem þau eru stödd? Þegar þú horfir í augu barnanna? Eða ætlar þú kannski ekki að segja neitt? Hvað væri svosem rétt að segja við fjölskyldu sem hefur grátbeðið um vernd, um mannúð, þegar maður er kominn til að neita þeim um hana? 

Ertu byrjaður að undirbúa þig? Undirbúa þig undir að þurfa kannski að hundsa grát, jafnvel öskur, frá því að þið finnið þau þartil að komið er upp í flugvél? Ætlar þú að kveikja á útvarpinu í bílnum, eða kannski bara vera með heyrnartól? 

Hvað ætlar þú að gera eftirá? Ætlar þú beint heim til þín? Til fjölskyldu þinnar? Það væri örugglega best eftir svona erfiðan vinnudag. Að koma heim til fjölskyldunnar vitandi að saman þurfið þið ekkert að óttast. Kannski áttu börn, kannski villt þú knúsa þau þegar þú kemur heim. Alveg eins og Khedr foreldrarnir munu knúsa börnin sín í flugvélinni. 

Ég veit ekki hver þú ert, en mig langar að biðja þig um að hugsa dálítið. Mig langar að biðja þig um að hugsa um hverjum það er sem þú þjónar, þegar þú ferð með fjölskylduna úr landi. Ekki ert þú að þjóna fjölskyldunni sjálfri, það er ljóst. Ekki virðist þú vera að þjóna hinum almenna íslenska ríkisborgara heldur, miðað við orðræðuna í samfélaginu að undanförnu. Kannski ertu einfaldlega bara að vinna vinnuna þína, fylgja lögunum. En hverjum eiga lögin að þjóna, ef ekki fólkinu í landinu? Mér og þér og litlum börnum í grunnskóla sem lærðu íslensku í þeirri trú að þau væru örugg hér? 

Ég veit ekki hver þú ert, en ef þú finnur fyrir einhverskonar samúð með þessari fjölskyldu, eða vafa í garð þess hvort það sé rétt að senda þau úr landinu okkar, þá langar mig að hvetja þig til þess að vera bara heima. Vertu heima og knúsaðu börnin þín í öruggu skjóli, og leyfðu Doou og Ibrahim að gera hið sama."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband