Til þess er málið varðar

Það er ekki oft sem maður sér mjög vel skrifaðar blaðagreinar, en hér er ein slík sem ég sá á Stundinni. Ákvað að hnupla henni og birta hér, því ég held að hún eigi erindi við moggabloggara ekki síður en aðra. Greinin er eftir Maríu Einarsdóttur, sem ég veit ekkert hver er, en mér finnst hún mjög góð:

"Til þess er málið varðar, 

Ég veit ekki hver þú ert. Þú sem, ef til þess kemur, þarft að mæta á þann stað sem fjögur egypsk börn sitja í felum frá stjórnvöldum okkar og fara með þau úr landi. Eflaust verður þú ekki einn, þú munt þurfa liðsauka til að koma fólkinu út úr húsi, hvað þá upp á flugvöll. Því við vitum öll að þau munu ekki fara sjálfviljug. Ég veit allavega að þú ert sterkur og hraustur. Það verður örugglega búið að hugsa fyrir því að líklega þurfi að bera sum barnanna út í bíl. Kannski jafnvel foreldrana. 

Ég veit ekki hver þú ert, en mig langar að tala við þig. Mig langar að spyrja þig út í nokkra hluti. 

Hefur þú hugsað út í hvernig þetta verður, ef þið finnið fjölskylduna? Hefur þú íhugað hvað þú munir segja þegar þú opnar hurðina þar sem þau eru stödd? Þegar þú horfir í augu barnanna? Eða ætlar þú kannski ekki að segja neitt? Hvað væri svosem rétt að segja við fjölskyldu sem hefur grátbeðið um vernd, um mannúð, þegar maður er kominn til að neita þeim um hana? 

Ertu byrjaður að undirbúa þig? Undirbúa þig undir að þurfa kannski að hundsa grát, jafnvel öskur, frá því að þið finnið þau þartil að komið er upp í flugvél? Ætlar þú að kveikja á útvarpinu í bílnum, eða kannski bara vera með heyrnartól? 

Hvað ætlar þú að gera eftirá? Ætlar þú beint heim til þín? Til fjölskyldu þinnar? Það væri örugglega best eftir svona erfiðan vinnudag. Að koma heim til fjölskyldunnar vitandi að saman þurfið þið ekkert að óttast. Kannski áttu börn, kannski villt þú knúsa þau þegar þú kemur heim. Alveg eins og Khedr foreldrarnir munu knúsa börnin sín í flugvélinni. 

Ég veit ekki hver þú ert, en mig langar að biðja þig um að hugsa dálítið. Mig langar að biðja þig um að hugsa um hverjum það er sem þú þjónar, þegar þú ferð með fjölskylduna úr landi. Ekki ert þú að þjóna fjölskyldunni sjálfri, það er ljóst. Ekki virðist þú vera að þjóna hinum almenna íslenska ríkisborgara heldur, miðað við orðræðuna í samfélaginu að undanförnu. Kannski ertu einfaldlega bara að vinna vinnuna þína, fylgja lögunum. En hverjum eiga lögin að þjóna, ef ekki fólkinu í landinu? Mér og þér og litlum börnum í grunnskóla sem lærðu íslensku í þeirri trú að þau væru örugg hér? 

Ég veit ekki hver þú ert, en ef þú finnur fyrir einhverskonar samúð með þessari fjölskyldu, eða vafa í garð þess hvort það sé rétt að senda þau úr landinu okkar, þá langar mig að hvetja þig til þess að vera bara heima. Vertu heima og knúsaðu börnin þín í öruggu skjóli, og leyfðu Doou og Ibrahim að gera hið sama."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 287314

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband