Fagurbláar búrkur ...

... væru kannski ekki vitlaus klæðnaður fyrir okkur sjálfstæðismenn í ljósi þess ámælis sem við höfum mátt sæta undanfarið. Vona því að þingmaðurinn ætli ekki að fara að heimta að ráðherrann banni þær.

Fyrirspurn Birgittu um hina stórmerku Mannanafnanefnd lýsir góðu skopskyni.


mbl.is Spurt um búrkur og mannanafnanefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dapurleg, en dæmigerð fréttamennska

Þótt því fari fjarri að ég sé sammála Marinó um alla hluti verður ekki frá honum tekið að hann hefur á undanförnum misserum staðið vaktina fyrir skuldara með rökföstum og málefnalegum málflutningi.

Marinó hefur aldrei fallið í þá gryfju að gerast persónulegur í garð þeirra sem hann tekst á við í rökræðum. Það sýnir að hann er skynsamur og heilsteyptur maður.

Íslensk fréttamennska hefur löngum snúist mest um að endursegja það sem aðrir segja fréttamanninum án þess að nein sjálfstæð hugsun komið við sögu. Það er mikill galli og veldur því að lítt er hægt að treysta á íslenska fjölmiðla til að komast að kjarna máls.

Vandað blað sem vildi upplýsa lesendur sína um það stóra deilumál sem skuldavandi heimilanna er myndi tefla fram röksemdum með og móti mismunandi lausnum og draga fram staðreyndir til að hjálpa fólki að glöggva sig á málinu.

Þetta hafa ritstjórar Fréttatímans greinilega ekki bolmagn né karakter í að gera. Því fara þeir auðveldu leiðina, sem er það sem gjarna tekur við þegar endursögnunum sleppir í íslenskri blaðamennsku, og taka að ata auri þann mann sem í góðri trú hefur staðið hvað fastastur fyrir í vörn fyrir heimilin í landinu.

-----------------------------

Þegar áföll dynja yfir eins og verið hefur undanfarin misseri veitir ekki af að gott fólk gangi fram fyrir skjöldu og taki forystu um að leita lausna og upplýsa almenning. Þeir sem sýna það góða fordæmi eiga ekki að þurfa að óttast að óvandaðir og ábyrgðarlausir blaðasnápar sitji um þá og bíði færis að ráðast gegn þeim persónulega.

Ég skora á Marinó G. Njálsson að láta ekki deigan síga heldur draga til baka úrsögn sína úr samtökunum sem hann hefur barist fyrir af einurð og heilindum. Ég er sannfærður um að allir góðir menn styðja hann til þess - hvort sem þeir eru honum endilega sammála um alla hluti eða ekki.


mbl.is Segir sig úr stjórn vegna umfjöllunar Fréttatímans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andmælaþátt eftir útvarpsmessur

Það er auðvitað sjálfsögð krafa að allir sem vegið er að í predikunum í útvarpi fái andmælarétt. Eðlilegast væri að hafa sérstakan þátt eftir hverja útvarpsmessu þar sem þeir sem telja sig eiga harma að hefna gætu andmælt predikuninni. Þá gætu Siðmennt, mannréttindanefnd bæjarins, frjálshyggjumenn, flatskjáasalar, ríkisstjórnin, siðleysingjar, útrásarvíkingar og aðrir sem prestum verður tíðrætt um tekið til varna. Gott ef ekki væri ráð að bjóða þeim í neðra að koma stundum í þáttinn líka. Svo væri auðvitað sjálfsagt að skylda þá sem apast til að hlýða á messurnar til að hlusta líka á andmælaþáttinn. Allt í nafni mannréttinda!

Svo eru auðvitað fleiri þættir í ríkisútvarpinu. Hvers eiga nýfrjálshyggjumenn og andstæðingar náttúruverndar til dæmis að gjalda að þurfa að þola sífelldar árásir í Hljóðviljanum? Þeir þurfa auðvitað líka andmælarétt. Er svo ekki rétt að andstæðingar Evrópusambandsins fái sérstakan þátt á eftir Silfri Egils til að andmæla álitsgjöfunum sem þar koma fram? Og svo þyrfti auðvitað Davíð Oddsson að hafa alveg sérstakan daglegan þátt til að andmæla öllu sem um hann er sagt. Að ekki sé nú talað um Hannes Hólmstein.


mbl.is Siðmennt vill andmælarétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími til kominn

Heimurinn stendur í þakkarskuld við Besta flokkinn! Barna okkar bíður nú bjartari framtíð!

Þessi tillaga gengur mun lengra en tillaga sem eitt sinn var til umfjöllunar og miðaði að því að Reykjavík yrði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði. Ef ég man rétt hvatti þáverandi borgarstjóri menn til að færast ekki of mikið í fang - réttast væri að byrja kannski á Breiðholtinu og sjá svo til!


mbl.is Reykjavík styður kjarnorkuvopnalausan heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins raunhæf aðgerð!

Það er fagnaðarefni að þetta frumvarp skuli nú vera á leið til þingsins. Það er gríðarlega mikilvægt, bæði fyrir efnahagslífið og eins fyrir einstaklingana sjálfa að þeir sem eru gjaldþrota í raun geti orðið það formlega líka án þess að vera hundeltir af rukkurum alla ævi. Það er svo sannarlega tilefni til að hrósa ríkisstjórninni fyrir þetta framtak.
mbl.is Skuldir fyrnist á tveimur árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðferði, siðfræði og trú

Fyrir skemmstu lögðu þingmenn Hreyfingarinnar fram tillögu um að taka skyldi upp siðfræðikennslu í skólum. Virðast þingmennirnir telja að með siðfræðikennslunni muni siðferði í landinu batna.

Nú er það svo að siðfræði og siðferði eru gerólíkir hlutir. Maður getur vitað allt um siðfræði en verið með öllu siðlaus. Annar kynni svo að vera fyrirmynd um rétta breytni án þess að vita einu sinni að siðfræði er til. Og sé mið tekið af hinni, oft illvígu háskólapólitík, bendir reynslan síst til að siðleg breytni sé siðfræðikennurum efst í huga, raunar gjarna þvert á móti.

Eitt er það þó sem læra má af því að kynna sér sögu og kenningar siðfræðinnar. Það er að engum heimspekingi hefur tekist að sýna nauðsyn siðlegrar breytni án skírskotunar til æðri máttarvalda. Þó hafa margir reynt. Þessi niðurstaða kristallast kannski best í þeim orðum Friedrichs Nietsche að án guðs sé allt leyfilegt.

Nú vill hin nýja valdastétt í Reykjavík úthýsa trúarhreyfingum úr grunnskólum, banna helgileiki tengda jólum og leggja af litlu jólin eða breyta í eins konar gervihátíð án tengsla við þá kristnu arfleifð sem er grundvöllur þeirra. Einnig á að banna skólabörnum að teikna trúartengdar myndir í skólanum. Hugmyndaleg forsenda þessarar athafnasemi er mannréttindi. En þá gleymist að hugmyndin um mannréttindi verður ekki slitin frá þeirri kristnu rót hennar að hver einstaklingur sé óendanlega mikilvægur gagnvart guði. Það er eina röksemdin fyrir því að mannréttindi beri að virða.

Ennfremur má benda á að virðing hinnar nýju valdastéttar fyrir mannréttindum er ekki meiri en svo að hún hyggst ekki aðeins banna Gídeonfélaginu að gefa börnum biblíur, hvaða skaða sem það á nú að geta valdið, heldur ætlar hún líka að banna börnunum að teikna trúarlegar myndir. Vandséð er hvernig slíkt kemur heim og saman við almenn mannréttindi, en þar er tjáningarfrelsi grundvallarþáttur.

Lítill vafi er á að hnignun almenns siðferðis á stóran þátt í því efnahagslega og pólitíska hruni sem hér hefur orðið. Er þá ekki réttara að reyna að byggja upp grundvöll góðs siðferðis fremur en að brjóta hann niður?


mbl.is Tillögur valda óánægju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdaránstilraun?

Vafalaust er tilgangurinn með þessu aðallega að komast í fjölmiðla.

Ef svona brölt væri hins vegar tekið alvarlega yrði eiginlega að líta á það sem valdaránstilraun, enda snýst hugmyndin um að fá forsetann til að reka lýðræðislega kjörin stjórnvöld frá völdum.


mbl.is Hreyfingin vill að mynduð verði neyðarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flækjum ekki málið

Það er vissulega alveg rétt að flatar niðurfærslur eru kostnaðarsamar fyrir skattgreiðendur og lífeyrissjóði. Með þeim má segja að við séum að seilast í sparibauka barnanna okkar og hvolfa úr þeim til að bjarga okkur frá eigin klúðri.

Þetta er hins vegar á endanum pólitísk ákvörðun um millifærslu milli hópa. Kostnaðarrökin halda því í rauninni ekki heldur snýst málið í raun um hvort millifærslan er réttlát eða ekki. Sjálfur efast ég mjög um það en hlusta vitanlega á sjónarmið þeirra sem ekki eru mér sammála.

Þeir verst settu skulda miklu meira en þeir geta nokkurn tíma greitt. Niðurfærsla kemur þeim því aldrei að neinu gagni. Eina aðgerðin sem gagnast þeim er sértæk niðurfærsla skuldanna. Úrræðin sem nú er boðið upp á eru allt of flókin fyrir flesta, þjónustulund stofnunarinnar sem sér um þau er að sögn mjög takmörkuð og jafnvel þótt úrræðanna sé neytt getur það leitt hörmungar yfir ábyrgðarmenn skulda. Málið var greinilega allt vanhugsað frá byrjun.

Skásta leiðin fyrir þá verst settu er að gjaldþrot einstaklings geti gengið fyrir sig eins og gjaldþrot fyrirtækis: Eignir eru hirtar, búinu skipt og málinu þar með lokið. Þá er hægt að leggja stofnun Umboðsmanns skuldara niður og ráða í staðinn fleiri héraðsdómara til að klára þrotamálin.


mbl.is Flatur niðurskurður hjálpar ekki þeim verst stöddu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppgjöf er ekki valkostur

Guðbjartur er ekki fyrsti heilbrigðisráðherrann sem reynir að koma á hagræðingu í þessu kerfi. Eftirminnilegast er kannski þegar Sighvatur Björgvinsson hrökklaðist úr stól heilbrigðisráðherra undir linnulausum árásum vegna tilvísanakerfisins sem hann hugðist koma á í því skyni að draga úr kostnaði við sérfræðiþjónustu.

Munurinn þá og nú er að nú er ríkið óvart á hausnum og það VERÐUR að hagræða. Guðbjartur hefur því ekki þann valkost að gefast upp.

En mikið væri nú gaman ef stjórnarandstaðan sýndi þá ábyrgð að hætta að hamast á móti breytingunum.


mbl.is Er til í að milda áhrifin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunhæfar lausnir, takk!

Það vita allir sem vilja vita það að almennar skuldaniðurfærslur eru mjög kostnaðarsamar og gagnast ekki þeim sem mest þurfa á lausnum að halda.

Þegar fólk situr uppi með 50 milljóna skuld á 25 milljóna íbúð er auðvitað morgunljóst að það mun aldrei eignast neitt í þessari íbúð, alveg sama þótt skuldin sé lækkuð niður í 40 eða 45 milljónir.

Með niðurfærslu, lengingu lána, frestun eða öðru slíku er aðeins verið að lengja í hengingarólinni en ekki að leysa vandann. Eina raunhæfa lausnin er að gera fólki kleift að fara í þrot, skila húsnæðinu og bílnum til bankans og byrja að nýju með hreint borð. Til þess þarf að breyta gjaldþrotalögum þannig að við gjaldþrot afskrifist skuldir endanlega í stað þess að lánardrottnar geti elt þrotamanninn út yfir gröf og dauða.


mbl.is Skuldavandi heimilanna ræddur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband