Þrjár fjarstæður um Icesave

Fyrsta fjarstæða: Samningurinn kostar bara 32 milljarða
Því er haldið fram að kostnaður vegna Icesave-samningsins sé aðeins 32 milljarðar króna. Þessi staðhæfing er röng því hún byggir ekki á raunverulegu gengi krónunnar heldur niðurgreiddu verði gjaldeyris, sem fæst nú í takmörkuðu magni hjá Seðlabanka Íslands. Eins og kunnugt er eru niðurgreiðslur aldrei ókeypis. Kostnaðurinn felst í mismuninum á réttu verði og niðurgreiddu verði.

Gengi gjaldmiðils er aðeins það verð sem aðilar á frjálsum markaði eru tilbúnir að greiða fyrir hann. Nú um stundir er markaðsverð einnar evru 280 krónur. Þar sem höft eru á viðskiptum með krónur tekur kaupandi þeirra þá áhættu að nokkur tími geti liðið þar til hann getur selt þær aftur. Erfitt er að meta hversu stór þessi áhættuþáttur er og því er óvíst hvert gengið yrði án haftanna.
Sé byggt á markaðsgengi er kostnaður við samninginn 540 milljarðar króna. Sé miðað við meðaltal markaðsgengis og niðurgreidds gengis er upphæðin 280 milljarðar króna. Sé miðað við að rétt gengi sé aðeins um 20% undir skráðu gengi er hún ríflega 150 milljarðar. Ef kostnaðurinn væri 32 milljarðar væri skráð gengi Seðlabanka rétt gengi. En þá þyrfti vitanlega engin gjaldeyrishöft. Tilvist þeirra er besta vísbendingin um að kostnaðaráætlun stjórnvalda er fjarri lagi.


Önnur fjarstæða: Samningurinn borgar sig upp sjálfur
Sumir segja að engin þörf sé á að fjármagna fyrirsjáanlegar vaxtagreiðslur og afborganir vegna Icesave-samningsins því með samþykkt hans verði hagvöxtur svo mikill að hann fjármagni sig í raun sjálfur. Þetta staðhæfir t.d. Tryggvi Þór Herbertsson þingmaður í nýlegri Fréttablaðsgrein. Að frátalinni þeirri kenningu að það kosti bankana ekkert að lækka öll húsnæðislán um 20%, sem Tryggvi þessi setti fram fyrir síðustu kosningar, er þekktasta dæmið um slíka töfrabragðahagfræði kenningin um brotnu rúðuna: Rúða er brotin, það skapar smiðnum tekjur sem skiptir um hana, innflytjandanum sem flytur inn glerið og verksmiðjunni sem framleiðir það. Allir eyða þeir svo tekjunum í vöru og þjónustu, seljendurnir eyða svo sínum tekjum og þannig koll af kolli. Á endanum er því bara gott að rúðan hafi verið brotin!


Mikilvægt er að kjósendur láti ekki blekkjast af slíkum málflutningi. Kostnaður við samninginn er raunverulegur og hann verður á endanum að fjármagna, með skattahækkunum eða niðurskurði . Auk þess er vitanlega rangt að Icesave málið sé einhver meginhindrun í vegi hagvaxtar hérlendis, þar eiga gjaldeyrishöft, skuldsetning og ótryggt rekstrarumhverfi mesta sök.


Þriðja fjarstæða: Já, og við erum laus við leiðindin
Verði Icesave-samningurinn samþykktur aukast erlendar nettóskuldir þjóðarbúsins umtalsvert. Það er grundvallarlögmál að aukin skuldsetning leiðir til lakari kjara og hærri vaxtagreiðslna. Nú þegar á ríkið erfitt með að fjármagna nauðsynlega þjónustu. Þó hafa skattar verið hækkaðir umtalsvert og útgjöld skorin niður. Stórauknar vaxtagreiðslur, bæði vegna hærri skulda og lakari kjara, auka enn á þörf fyrir niðurskurð og skattahækkanir. Allt dregur þetta úr fjárfestingu og neyslu, og þar með úr atvinnu. Sé vandanum aftur frestað með lántökum þurfa börnin okkar að greiða lánin. Því er það fjarstæða ein að með samþykkt samningsins verðum við laus við leiðindin, þvert á móti byrja þau þá fyrst fyrir alvöru.


mbl.is Hafa samúð með Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langvinnt aprílgabb

Íslendingar eru vissulega lottóþjóð - við sitjum og bíðum eftir að vinna í happdrætti og trúum því statt og stöðugt að við séum klárust og best í heimi - þótt við séum meira á hausnum en flest önnur lönd.

Það kitlar kjánastoltið hjá mörgum þegar einhverjir fuglar í útlöndum hrósa landi og þjóð. En er þetta nú ekki orðið einum of? Er ekki fyrsti apríl örugglega búinn, annars?


mbl.is Leita til Íslands vegna umhverfismála og andstöðu við stríð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæstaréttardómarar segi af sér

Nú hafa þau undur gerst að löggjafarvaldið hefur samþykkt að vanvirða úrskurð dómsvaldsins í samfélagi sem byggt er á þrískiptingu ríkisvalds í löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald.

Slíkt er fáheyrt í vestrænum lýðræðissamfélögum en þekkist í ríkjum þar sem lýðræðishefð er óþroskuð og tilhneiging sterk til að umbylta stjórnarfari.

Það hlýtur að vera alvarlegt umhugsunarefni fyrir Hæstarétt þegar úrskurður hans er hunsaður með þessum hætti. Ég á erfitt með að sjá að dómarar við réttinn eigi annan kost en segja af sér, allir sem einn. Ástæða afsagnarinnar: Löggjafarvaldið hefur í raun rænt völdum með því að fara inn á svið dómsvaldsins. Hæstiréttur er skipaður til að gegna ákveðnu hlutverki innan ákveðins ramma. Ramminn er ekki lengur til staðar og því getur rétturinn ekki lengur gegnt hlutverki sínu.


mbl.is Stjórnlagaráð samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott að einhver stendur vaktina!

Kommúnistar og andlegir frændur þeirra, fasistarnir, hafa löngum verið svag fyrir einræðisherrum, alræðisherrum og öðrum óþjóðalýð, sem hefur höndlað þann sannleika, að betra sé að vondir menn hafi vit fyrir þjóðunum en að þær ráði sér sjálfar. Stundum ganga slíkir kumpánar þó nógu langt til að jafnvel kommúnistum blöskri. Þó fer aldrei svo að ekki standi einhver keikur vaktina í vörn fyrir illmennið.
mbl.is Segir sig úr VG vegna Líbíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram Jóhanna!

Lítt er ég hrifinn af flestu sem forsætisráðherra vor tekur sér fyrir hendur. Í þessu stóreinkennilega skrifstofustjóramáli hlýt ég þó að styðja hana heilshugar. Ráðið var í starfið eftir að ráðuneytisstjóri og ráðgjafi höfðu yfirfarið umsóknir, tekið umsækjendur í viðtöl og komist að þeirri niðurstöðu að í hæfnismati væri maðurinn sem ráðinn var númer eitt, en konan sem kærði númer fimm. Þá kemur kærunefnd jafnréttismála og úrskurðar að þau hafi verið jafnhæf, en án þess að hafa í rauninni neinar upplýsingar til að byggja á. Sumsé, gola í vatnsglasi.

En kemur þá ekki fyrrum varaformaður Sjálfstæðisflokksins í Kastljós í gær og reynir allt hvað hún getur að blása upp mikið fárviðri í vatnsglasi þessu. Fyrst og fremst snerist málflutningurinn um hvað forsætisráðherrann hefði einhvern tíma sagt um einhver önnur svipuð mál, hin gamla ad hominem aðferð slappra pólitíkusa, enn og aftur.

Það má ýmislegt um Jóhönnu Sigurðardóttur segja, hún er sósíalisti, spilar gjarna á öfund og óánægju almennings og lítt hefur gengið hjá stjórn hennar að leysa úr ýmsum brýnum málum. En að láta sér detta í hug að hún gengi vísvitandi framhjá jafnhæfri konu til að ráða kall í djobb er einfaldlega svo fáránlegt að hver sem reynir að halda slíku fram hlýtur með því sjálfkrafa að gjöra sjálfan sig að fífli.


mbl.is Segir kærunefnd hafa mat ráðgjafa að engu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvissa og rangar upplýsingar skaða málið

Sjálfur er ég einn þeirra sem ekki eru alveg vissir um hvort skynsamlegt sé að samþykkja þetta frumvarp eða ekki. Ég viðurkenni að ég hef ekki getað gefið mér tíma til að setja mig almennilega inn í málið. Ég hef þó séð, að varasamt er að byggja á þeim upplýsingum sem málsvarar samningsins hafa sett fram. Hér eru helstu atriðin:

  • Yfirlýsingar um væntanlegar endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans eru lítt rökstuddar og alveg ógagnsæjar. Vísbendingar hafa komið fram um að einstakar eignir séu verulega ofmetnar.
  • Fyrir liggur um hvaða vexti er samið næstu fimm árin, en þegar hinir breytilegu vextir sem þá taka við eru áætlaðir er byggt á breytilegum vöxtum nú, sem eins og allir vita eru í sögulegu lágmarki. Slíkt er erfitt að kalla annað en blekkingar.
  • Eins og allir vita er skráð gengi krónunnar í Seðlabanka ekki raunverulegt gengi hennar. Það liggur einhvers staðar á milli opinbera gengisins og aflandsgengisins. Samt byggja málsvarar samningsins niðurstöður sínar á enn hærra gengi en hinu niðurgreidda Seðlabankagengi. Það er afar ótrúverðugt. Mér finnst það því eiginlega liggja í augum uppi að jafnvel þótt fullar endurheimtur náist úr þrotabúinu muni samningurinn tæpast kosta okkur minna en 100 milljarða króna.

Væri nú ekki skynsamlegra að segja bara einfaldlega satt, jafnvel þótt sannleikurinn sé ekki endilega auðveldur að kyngja? Ég myndi í það minnsta miklu fremur kjósa með málinu ef ég hefði ekki stöðugt á tilfinningunni að verið væri að reyna að plata mig.


mbl.is Mjótt á mununum um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkt hafast þau að

Eftir hrunið óskaði forseti að eigin frumkvæði eftir að laun sín yrðu lækkuð.

Eftir hrunið krafðist forsætisráðherra þess að enginn fengi hærri laun en hún.

Svo ólíkt hafast þau að.

Nú kemur á daginn að forsætisráðherra þiggur feitan bónus fyrir að vera á landinu þegar forsetinn er þar ekki. Það er ekki fyrr en fjölmiðlar taka málið upp að hún bregst við - en ekki til að afsala sér bónusnum, nei - aðeins til að samþykkja að hann breytist til samræmis við laun forsetans.

----------------------------------------------------

Mér finnst eðlilegt að skilgreina ofurlaun þannig að þar sé um að ræða of há laun miðað við ábyrgð, framlag eða getu. Samkvæmt því verður ekki annað séð en forsætisráðherra sé á ofurlaunum.

 


mbl.is Jóhanna biður um launalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kótelettuöryggið fyrir bí

Það var óheppilegt að þetta skuli nú koma á daginn einmitt í sama mund og bændur fylkja liði móti því að við getum keypt annað en bragðlausa íslenska gróðurhúsagrænmetið eða valið okkur lífræna eða séralda kjúklinga eins og nágrannaþjóðir okkar.

Nú verður að markaðssetja fæðuöryggishugmyndina alveg upp á nýtt. Ég legg til að hugtakið verði endurskilgreint þannig að það merki ekki að við höfum aðgang að nægum mat heldur að við höfum aðgang að eins miklum mat og við "þurfum", en ekki grammi meira!


mbl.is Grillkjöt gæti orðið af skornum skammti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er Steinþór að hugsa?

Bankastjóri Landsbankans ætti að hugsa sinn gang. Hvað er hann að gera á þessu skítakaupi? Hann gæti vafalaust fengið helmingi hærri laun hjá einhverju ráðgjafarfyrirtækinu :)

Annars er auðvitað frábært að fá þetta mál upp á yfirborðið nú. Við getum þá rifist vikum saman yfir því hvað eitthvert fólk fær í kaup og gleymt milljarðatugunum eða hundruðunum sem við ætlum að taka á okkur með Icesave skuldbindingunum. Frábært!


mbl.is Bankastjórarnir mættu ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöðva???

Ég veit ekki betur en fyrri stjórnendur Kaupþings hafi skammtað sér tugi eða hundruð milljóna í mánaðarlaun. Þessu hefur nú verið gerbreytt og laun nýs bankastjóra aðeins örlítið brot af launum hinna fyrri.

Því má ekki gleyma að Arion banki er einkafyrirtæki. Það er hvorki í verkahring stjórnmálamanna né verkalýðsleiðtoga að segja fyrir um hvað stjórnendur einkafyrirtækja skuli fá í laun. Persónulega finnst mér laun þessa bankastjóra síður en svo óhófleg í samanburði við kollega hans.

Græðgisvæðingin var stöðvuð þótt enn sé verið að vinda ofan af henni. En tók þá öfundarvæðingin við?

Og tók fasisminn við, hið grímulausa vald sem virðir hvorki lög né réttindi fólks, samanber yfirlýsingar forsætisráðherrans um þetta mál og framgöngu í stjórnlagaþingsmálinu eftir úrskurð Hæstaréttar?


mbl.is Segir að stöðva þurfi græðgisvæðinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband