Samfylkingin í ruglinu, eins og vanalega

Tilgangurinn með þessum stuðningi er að koma í veg fyrir að fyrirtæki fari á hausinn vegna þess að þau hafa ekki efni á að greiða laun á uppsagnarfresti. Þannig verði einhver störf eftir hjá fyrirtækjunum í stað þess að allir starfsmenn missi vinnuna.

Sé fyrirtækjum gert að endurgreiða þetta er þetta ekki stuðningur heldur lán. Og fyrirtæki sem eru í þessari stöðu hafa auðvitað enga möguleika á að taka á sig slíka skuldbindingu í formi láns.

Hvað koma mánaðarlaun æðstu stjórnenda svo þessu máli við? Á að refsa þeim starfsmönnum sem að öðrum kosti myndu halda störfum sínum, fyrir það að forstjóri fyrirtækisins hafi haft þrjár milljónir í mánaðarlaun? Á það að hindra að störf þeirra séu varin?

Og hvers vegna á það að bitna á þessu sama starfsfólki ef eigandi fyrirtækisins hefur einhvern tíma "átt í fjárhagslegum samskiptum" (les: verslað við) við fyrirtæki á lágskattasvæði? Þar undir fellur til dæmis að hann hafi farið í skíðaferð til Andorra!

Og hvernig í ósköpunum dettur þessu fólki í hug að gera kröfu um að fyrirtæki sem eru aðþrengd og á leiðinni að segja megninu af starfsfólki sínu upp eigi að fara að standa í því í ofanálag að skrifa einhverjar tilgangslausar skýrslur um loftslagsmál?

Tilgangurinn með þessu er einfaldur. Hann er að koma í veg fyrir að öllum sé sagt upp og fyrirtækið fari í þrot. Það er eina markmiðið með þessari aðgerð.

Það markmið má hins vegar gagnrýna, til dæmis frá því sjónarhorni að það sé ekki endilega verra fyrir samfélagið að fyrirtæki í þessari stöðu fari bara á hausinn. Starfsmenn og stjórnendur geti þá stofnað ný fyrirtæki á rústum hinna og byggt upp þegar sjálfsmorðsárásinni á efnahagslíf heimsins lýkur. Slík gagnrýni væri málefnaleg og skynsamleg, og grundvöllur einhverrar vitrænnar umræðu.

Málefnaleg gagnrýni og vitræn umræða er hins vegar ekki sterkasta hlið þessara þingmanna. Það er bersýnilegt.


mbl.is Vilja að fyrirtæki endurgreiði uppsagnarstuðning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lækningin hættulegri en sjúkdómurinn segir Michael Levitt

Sama dag og New York Times leggur forsíðuna undir lista yfir þá sem hafa dáið úr flensunni, vitanlega í þeim eina tilgangi að ýta undir vantraust á Bandaríkjaforseta (meira og minna öll umræðan í BNA litast af væntanlegum forsetakosningum), berast af því fregnir að nóbelsverðlaunahafinn Michael Levitt, sem benti á það snemma að dánartölur sem útgöngubönnin byggðust á væru 10-12 sinnum of háar, hafi nú fært að því sterk rök að útgöngubönnin hafi valdið meira tjóni en veiran sjálf.

Um leið vex heimsendaspám ýmissa öfgamanna ásmegin. Það kemur ekki á óvart þegar tiltölulega vægur faraldur (miðað við alvöru drepóttir eins og spænsku veikina og svartadauða) hefur verið blásinn upp í eitthvað sem mörgum reynist auðvelt að tengja við plágur Egyptalands og annað af þeim toga úr trúarritunum.

Uppátæki NYT ýtir svo sannarlega undir slíkar heimsendaspár og þar með óstöðugleika í heimi sem þegar er á barmi alvarlegra uppþota og átaka. Hvar er samfélagsleg ábyrgð fjölmiðla? Er allt leyfilegt til að selja fleiri blöð eða vinna sínum frambjóðanda fylgi?


mbl.is Listi yfir látna á forsíðu: „Ólýsanlegur missir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ólöglegt að upplýsa fólk?

Formaður Flugfreyjufélagsins heldur því fram að það sé lögbrot að veita fólki upplýsingar. Þetta félag hlýtur að vera komið í ákaflega þrönga stöðu þegar gripið er til jafn fáránlegs málflutnings. Vitanlega hefur Bogi fulla heimild til að upplýsa starfsfólk félagsins um þau kjör sem því standa til boða. Skárra væri það nú!


mbl.is Boga „ljúft og skylt“ að upplýsa samstarfsfólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árangur Íslands mjög lélegur

Fyrirsögnin og þessi umfjöllun er talsvert villandi.

Markmiðið með aðgerðum er að fletja út kúrfuna, þannig að pestin gangi yfir sem hraðast en án þess að heilbrigðiskerfið hætti að ráða við hana.

En á einhverjum tímapunkti virðist þetta markmið hafa gleymst, og þess í stað hafi stjórnvöld tekið að einblína á að koma smitum niður í núll. Það leiðir það eitt af sér að pestin blossar upp aftur og til verður vítahringur hindrana og afléttinga.

Íslendingar hrósa sér af góðum árangri. En þvert á móti er árangurinn lélegur: Kúrfan hefur ekki verið flött út, heldur er hún horfin!


mbl.is Örari afléttingar verri fyrir efnahaginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi tímar!

Nú er eina leiðin fyrir Icelandair, ætli félagið að lifa af, að brjótast undan ofurvaldi og einokun stéttarfélagsins og semja við sínar flugfreyjur á eðilegum grundvelli. Það má auðvitað búast við mikilli rimmu við verkalýðsrekendur sem eru eflaust tilbúnir að teygja sig langt til að verja einokunarstöðu sína. Vonandi hefur félagið betur í þeim slag.


mbl.is Icelandair: Flugfreyjur höfnuðu „lokatilboðinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjóðfélagar stýri lífeyrissjóðum

Það er rétt að það er nauðsynlegt að losna við fulltrúa atvinnurekenda úr stjórnum lífeyrissjóða. En það er líklega enn brýnna að losna við fulltrúa verkalýðsfélaga úr stjórnum þessara sjóða.

Tilgangur lífeyrissjóða er að ávaxta sem best fjármuni sjóðfélaga. Það verður aldrei gert ef sjóðunum er beitt sem vopnum í einhverri kjarabaráttu. Eðlilegast er að sjóðfélagar sjálfir kjósi stjórnir sjóðanna milliliðalaust.


mbl.is Meta þurfi stöðu æðstu stjórnenda Icelandair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppsagnir koma í staðinn

Eftir að hlutabótakerfinu svokallaða var breytt í svartan lista yfir fyrirtæki sem nýttu sér það, er auðvitað einboðið að flest fyrirtæki reyna allt annað áður en þau setja fólk í skert starfshlutfall. Og einfaldasta leiðin er að segja fólkinu upp störfum. Það má því búast við að uppsögnum fjölgi, sér í lagi nú þegar það er að koma í ljós að valdamiklir læknar munu leggja sig í líma um að beita öllum brögðum til að þvælast fyrir áformum stjórnvalda um opnun landsins um miðjan júní.


mbl.is Spá fækkun bótaþega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný regla: Haldið kjafti!

Einn stærsti ljóðurinn á mannfólkinu er tilhneigingin til að þurfa sífellt að vera blaðrandi. Megnið af samtölum fólks eru í rauninni alveg óþörf. Nú er komið í ljós að blaðrið er ekki bara hvimleitt, heldur er það einfaldlega hættulegt. Það er því sjálfsagt að leiða í lög nýja reglu: Haldiði kjafti! Og sjálfsagt er að lögreglu verði fengnar víðtækar heimildir til að stöðva óþarfa blaður hvar sem til þess sést, og sekta blaðurskjóðurnar duglega. Eðlilegt er einnig að banna fundahöld, fjöldasamkomur og aðra atburði sem ýta undir blaður. Og vitanlega leggja niður þær stofnanir sem snúast um blaður, til dæmis þingið.


mbl.is Athyglisvert en breytir ekki stefnunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamlegast að greiða bætur

Það er miklu skynsamlegra að greiða stúdentum atvinnuleysisbætur, t.d. í tvo mánuði, en að vera að streitast við að búa til handa þeim einhver störf sem ekki hefðu orðið til annars og eru því tilgangslaus. Því fylgir alls kyns kostnaður sem ekki fylgir bótunum.


mbl.is „Neyðin er núna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna þá að stunda þetta starf?

Sé það rétt að launin séu talsvert undir lágmarkslaunum og vinnuaðstæður jafn hræðilegar og þarna er lýst, hvernig stendur þá á því að einhver sækist eftir þessu starfi?

Og svo voru víst flugfreyjur WOW með 30% lægri laun en þetta. Þær hljóta að hafa bætt kjör sín verulega þegar þær fóru á atvinnuleysisbætur.


mbl.is Sendu starfsmönnum „stórt FOKKJÚ merki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Maí 2020
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband