Ekki merki um samráð

Lítill verðmunur er alls ekki merki um samráð 

Mörgum hefur orðið tíðrætt um krónumuninn á Bónus og Krónunni og talið hann merki um verðsamráð. Það er hins vegar fjarri því að vera endilega rétt skýring, því miklu nærtækara er að skýra verðmuninn þannig:

1. Bónus hefur lýst yfir þeirri stefnu að vera ávallt með lægsta verð á markaðnum.

2. Þegar verðstríð hafa komið upp hefur Bónus lagt gríðarlega áherslu á að framfylgja þessari stefnu.

3. Samkeppnisaðilar Bónuss vita því að verðlækkun hjá þeim skilar umsvifalaust verðlækkun hjá Bónus.

4. Til að hámarka framlegð og framfylgja um leið stefnu sinni reynir Bónus að hafa ávallt lægra verð, en samt aðeins nægilega lágt. Eðlilegasta útfærslan á því er að vera einni krónu lægri.

Af þessu sést, að það er hægt að skýra verðmuninn án þess að grípa til kenningarinnar um samráð. Skýringin liggur í því að stefnufesta Bónuss hefur skapað reglu á markaðnum. Slík staða myndar hins vegar forsendur fyrir svonefndu verðsamstarfi, en það grundvallast á því að samkeppnisaðilar geti spáð fyrir um viðbrögð hvers annars með miklu öryggi.

Verðsamráð er ólöglegt og að auki ósiðlegt vegna þess að með því blekkja fyrirtæki viðskiptavini sína.

Verðsamstarf er hins vegar hvorki ólöglegt né ósiðlegt heldur er það einfaldlega ástand sem leiðir af uppbyggingu markaðarins og viðleitni fyrirtækja til að hámarka hagnað sinn.

 

Fákeppni getur verið góð fyrir neytendur

Staða sem býður upp á verðsamstarf myndast mjög oft á fákeppnismörkuðum. Spurningin sem skiptir neytendur máli er hins vegar sú, hvort hagstæðara væri fyrir þá að margir litlir aðilar kepptu á markaðnum. Það er alls óvíst. Stórir aðilar ná aukinni hagkvæmni í innkaupum, birgðahaldi og almennum rekstri sem litlir aðilar myndu ekki ná. Því væri allt eins líklegt að verð á matvöru væri hærra á slíkum markaði en á fákeppnismarkaði þar sem forsendur eru fyrir verðsamstarfi. Stuðningsmenn ríkiseinkasölu á áfengi hafa til dæmis gjarna bent á þetta sem röksemd fyrir því að vegna minni hagkvæmni myndi verð hækka ef einkasalan yrði lögð af.

Auk þess er það ávallt þannig, að á fákeppnismarkaði er sú hætta alltaf fyrir hendi að nýr aðili komi inn á markaðinn og keyri niður verð. Líkurnar á því aukast í hlutfalli við hagnað fyrirtækjanna á markaðnum. Með öðrum orðum, ef verð hækkar um of endar með því að aðrir sækja í gróðann sem myndast og verðið lækkar aftur.

 

Hvers vegna er verð hærra hér?

Sú staðreynd að matvælaverð er hærra hér en í nágrannalöndunum er oft talin til marks um verðsamráð. Eins og sjá má af ofangreindu þarf það alls ekki að vera raunin. Margoft hefur hins vegar komið fram í umræðunni, að meginskýringin liggur í innflutningshöftum og tollapólitík, meðal annars gagnvart landbúnaðarvörum. Önnur skýring er svo smæð markaðarins og flutningskostnaður.


mbl.is Lítill verðmunur hjá lágvöruverslunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað segir öryggisráðið við þessu?

Það er auðvitað enginn vafi á því, að á bak við þetta er dulin ósk karlmannsins um að drottna yfir konunni og skerða frelsi hennar. Jafnvel þótt fangabúningar á konur hafi slæðst óvart inn í dótabúðina benda flestar erlendar rannsóknir til þess að rót slíkra mistaka liggi í dulvitundinni þar sem djúpstæðar duldir koma upp á yfirborðið án þess að karlmaðurinn sem á í hlut geri sér einu sinni grein fyrir því.

Það að fangabúningar á konur séu yfirleitt til sölu er svo auðvitað annað mál og enn ein sönnun þess hvílíkt hreðjatak karllæg afstaða og hugsunarháttur hefur á samfélaginu. Já, enn ein sönnun þess hversu vondir kallar eru, því varla eru búningarnir keyptir nema til að klæða konur í þá og niðurlægja á alla lund.

Ég hrópa í örvæntingu eftir skýrri og herskárri yfirlýsingu frá Öryggisráði Femínistafélagsins! Oft var þörf en nú er nauðsyn!

 


mbl.is Kynþokkafullur fangi í dótabúð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófullkomin frétt

Það er athyglivert að hægt sé að skrifa langa frétt um nýtt útrásarfyrirtæki Landsvirkjunar án þess að fjalla neitt um lykilatriði málsins: Landsvirkjun er ríkisfyrirtæki sem nýtur ríkisábyrgðar gagnvart öllum sínum framkvæmdum. Nýju útrásarfyrirtæki er ætlað að halda utan um öll áhættuverkefni fyrirtækisins og draga þannig úr áhættu Landsvirkjunar. Spurningarnar sem blaðamenn ættu að spyrja eru tvær:

1. Mun nýja fyrirtækið njóta ríkisábyrgðar gagnvart verkefnum sínum? Ef svo er merkir það einfaldlega að skattgreiðendur bera áhættuna af verkefnunum eftir sem áður, og þá þarf að spyrja annarra spurninga um tilgang gerningsins.

2. Hvaða eignum Landsvirkjunar tekur nýja félagið við? Hversu verðmætar eru þær eignir og hvernig er verð þeirra fundið?

 


mbl.is Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seint séð

Það er einkennilegt að senda út svona tilkynningu klukkan korter fyrir átta, þegar flest börn eru komin í skóla eða leikskóla. Vonandi að það geri ekki illt verra.
mbl.is Foreldrar beðnir um að halda börnum heima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morfisþingið og rétturinn til rökfærslu

Nú hafa allir flokkar nema VG samþykkt að takmarka verulega ræðutíma á Alþingi. Þingmenn VG hafa gagnrýnt nýja þingskapafrumvarpið harkalega og telja þar vegið að málfrelsi. Ég er ekki sannfærður um að sú túlkun sé rétt, enda hafa þingmenn enn rétt til að tjá sig.

Með nýju reglunum er hins vegar vegið mjög gróflega að rétti þingmanna til að færa rök fyrir máli sínu. Þegar um flókin mál er að ræða kalla þau oft á ítarlega röksemdafærslu, sem verulegur vafi er á að hægt sé að setja fram í 15 mínútna ræðu. Þar má nefna ýmiss konar efnahagsmál, þungvæg mál sem hafa í för með sér umtalsverð áhrif á samfélagsgerðina, alþjóðamál í flóknu samhengi og þannig má lengi telja.

Helsta röksemd þeirra sem talað hafa fyrir þessum reglum er sú, að tilgangur þingræðna sé sá að greina frá skoðun á tilteknu máli. Það eigi að vera auðvelt á 15 mínútum. Þessa röksemd hafa fjölmiðlar gripið á lofti. Hin röksemdin er sú, að þingmenn VG séu ómarktækir í málinu vegna þess að þeir flytji oft langar ræður.

Hver hugsandi maður sér auðvitað að slíkar röksemdir eru út í hött. Þingmenn flytja ekki ræður til að greina frá skoðunum sínum, heldur til að færa rök fyrir skoðunum sínum. Og það hvaðan andstaðan við breytingarnar kemur hefur auðvitað ekkert með röksemdirnar með og á móti að gera.

Málflutningurinn segir okkur það fyrst og fremst að í huga þeirra sem að honum standa er Alþingi aðeins afgreiðslustofnun fyrir stjórnvöld. Það er aðeins vettvangur fyrir einhvern "mér finnst" og "af því bara" málflutning. En umræður á þinginu skipta nákvæmlega engu máli!

Tvær meginástæður liggja að baki því að Alþingi hefur hnignað í áliti meðal þjóðarinnar. Í fyrsta lagi er það vegna þess að ljóst er orðið að þingið er nánast algerlega valdalaust. Í öðru lagi er það vegna þess að málflutningur þingmanna verður sífellt slakari og ber moðkenndri hugsun og þekkingarleysi æ sterkara vitni. Þingmenn virðast í síauknum mæli flytja mál sitt eins og þeir væru í ræðukeppni í unglingaskóla, þar sem rökin skipta engu, en öllu skiptir að virðast sniðugur að snúa út úr málflutningi andstæðingsins. Og nú er Morfisþingið komið til að vera!

Sjá ennfremur: http://tsiglaugsson.blog.is/blog/tsiglaugsson/entry/378951/

 


mbl.is Þingskapalög endurskoðuð eftir 3 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hærri persónuafsláttur dregur úr hagkvæmni

Það er góðra gjalda vert að ASÍ vilji hækka lægstu laun. En er best að gera það með því að auka persónuafslátt þeirra launalægstu?

Ef persónuafsláttur er hækkaður merkir það að vinnuveitendur komast af með að greiða lægri laun en annars væri. Persónuafsláttur skiptir litlu máli fyrir fyrirtæki sem ráða til sín starfsmenn á háum launum, en vegur þyngra eftir því sem neðar dregur í launastiganum.

Á endanum eru það skattgreiðendur í efri launaþrepunum, sem greiða persónuafsláttinn. Það veldur því að fyrirtæki sem greiða góð laun þurfa að greiða enn hærri laun til að standa undir persónuafslætti sem gagnast fyrst og fremst öðrum fyrirtækjum sem greiða lægri launin.

Með því að hækka persónuafslátt er því í raun verið að hygla enn frekar verr reknum fyrirtækjum eða óarðbærum atvinnugreinum á kostnað þeirra sem betur standa sig. Væri persónuafsláttur hins vegar lækkaður eða afnuminn drægi úr þessari mismunun, enda þyrftu þá fyrirtækin einfaldlega að greiða hærri laun til að fá til sín starfsfólk. Þá yrðu illa reknu og óarðbæru fyrirtækin fljót að heltast úr lestinni, en starfsfólkið flyttist til þeirra sem standa sig betur og þurfa ekki ríkisstyrk til að greiða laun.


mbl.is Vill lækka skatt tekjulágra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýringar mega ekki bíða

Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að kjörnir fulltrúar hafi staðið í einhverjum hráskinnaleik með þessar eignir. Hins vegar virðist sem ákvarðanir um sölu hafi ekki endilega lotið hreinum markaðslögmálum. Slíkt er slæmt vegna þess að það býður upp á efasemdir um heiðarleika þeirra sem hlut áttu að máli. Á hinn bóginn þarf að hafa í huga að ekki er endilega rétt að beita sömu matsaðferðum á þessar eignir og eignir á almennum húsnæðismarkaði.

Það hlýtur að vera algert forgangsverkefni að draga staðreyndir þessa máls fram í dagsljósið eins fljótt og kostur er. Ríkisendurskoðandi verður að drífa sig. Það á ekki að þurfa að taka langan tíma að klára rannsóknina.


mbl.is Eignir keyptar á hálfvirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóleyismi - taka tvö

Ég rak augun í bloggfærslu Sóleyjar Tómasdóttur um kæru feminista á hendur Visa. Hún lætur þar í veðri vaka að þeir sem gagnrýna kæru "öryggisráðs" Feministafélagsins hljóti með því að vera að "standa vörð um klámið."

Til upprifjunar snýst málið um að félagsskapur þessi hefur kært Visa fyrir að gæta þess ekki að hafna því að sjá um greiðslumiðlun í netviðskiptum ef um er að ræða viðskipti við klámsíður. Það er ekki verið að kæra klámframleiðendur. Það er heldur ekki verið að kæra klámkaupendur.

Ef um slíkt væri að ræða væri vitanlega hægt að halda því fram að gagnrýnendur kærunnar væru að standa vörð um klám. En því er bara einfaldlega ekki til að dreifa.

Aðferðin virðist því vera sú, að segja eitt og kalla þannig eftir gagnrýni á það, en halda því síðan fram að gagnrýnendurnir séu að gagnrýna eitthvað allt annað. Ég legg til að Sóley Tómasdóttir fái einkaleyfi á þessari aðferð sinni til að forðast skynsamlega umræðu! Hún gæti t.d. heitið Sóleyismi.

Ef fólk vill láta taka mark á sér í opinberri umræðu er grundvallaratriði að það sé lágmarksvit í því sem það segir. Það er líka grundvallaratriði að það segi það sem það meinar en ekki eitthvað allt annað og sýni í það minnsta viðleitni til að flytja mál sitt á heiðarlegan hátt.

Sóley Tómasdóttir og stallsystur hennar virða ekkert af þessu. Kjánalegur málflutningur þeirra að undanförnu grefur undir alvöru kvenréttindabaráttu vegna þess að hann veldur því að slík barátta öðlast neikvæða ímynd í hugum alls hugsandi fólks. Þessir einstaklingar hafa málað sig út í horn með málflutningi sínum. Það má ekki gerast að þær dragi málstað raunverulegra jafnréttissinna þangað með sér!


Visa er bara byrjunin!

Mér finnst það ákaflega góðar fréttir að Feministafélagið skuli vera búið að koma sér upp öryggisráði, svona eins og Sameinuðu þjóðirnar. Ég vona að skipuritið þróist áfram og í rétta átt. Það er til dæmis ákaflega mikilvægt að koma upp friðargæslusveitum sem hafi það hlutverk að framfylgja ályktunum öryggisráðsins. Síðan verður auðvitað að hafa stríðsglæpadómstól svo hægt verði að koma lögum yfir "vondu".

Visa, sem gerir fólki kleift að nota kreditkort til að kaupa dónó, er auðvitað bara fyrst í röðinni af "vondu". Næst þarf að taka fyrir flugfélögin sem eru "þátttakendur í glæp" með því að flytja hina vondu þangað sem hóruhúsin eru. Einnig væri rétt að kæra Seðlabankann því hann gefur út peningaseðla sem eru notaðir til að greiða fyrir vændi. Þannig mætti halda áfram. Bókabúðirnar hlýtur að þurfa að kæra líka fyrir að selja klámblöð. Svo eru auðvitað bókmenntirnar, sem sigla undir fölsku flaggi og innihalda oft dónalegar frásagnir í dulargervi. Til að taka á því dugar samt líklega ekki að líta til Sameinuðu þjóðanna. Þar eru Franco og Ahmadinedjad gagnlegri fyrirmyndir!

Sjá einnig http://tsiglaugsson.blog.is/blog/tsiglaugsson/entry/388408/

 


mbl.is Femínistafélagið kærir Vísa-klám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki fleiri opin bréf, takk

Ég vonast til þess að þessum opnu bréfasendingum taki að linna. Þjóðkirkjan og Siðmennt ættu að sjá sóma sinn í því að boða frekar til ráðstefnu um þessi mál þar sem þau yrðu rædd á breiðum grundvelli og af skynsamlegu viti. 


mbl.is Siðmennt svarar biskup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Des. 2007
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.10.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 288248

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband