Þegar atburður kemur á óvart

Fyrir þremur árum hófst að nýju tímabil jarðelda á Reykjanesi eftir um 800 ára hlé. Fyrsta gosið var í Fagradalsfjalli í mars 2021 og síðan hefur hvert eldgosið rekið annað. Hraun frá nýjasta gosinu eyðilagði hitaveitulögn frá Svartsengi. Afleiðingin var skortur á vatni til húshitunar á öllum Suðurnesjum, þar sem tugþúsundir búa, nú á kaldasta tíma ársins. Ljóst er að þessi atburður kom á óvart.

Í kjölfar eldsumbrota síðastliðið haust var hafist handa við að leggja varalögn sem nú hefur verið tekin í gagnið. En hvers vegna var ekki byrjað fyrr?

Hvers vegna kom atburðurinn á óvart?

Heitavatnsskorturinn á Suðurnesjum er alvarlegur atburður sem kom á óvart. Þegar slíkur atburður verður eru viðbrögðin yfirleitt þau sömu. Við byrjum á að bregðast við og reyna að bæta skaðann. Og við byrjum strax að leita skýringa. Sú leit snýst gjarna um tvennt. Annars vegar að finna tæknilega skýringu og láta þar staðar numið. Hins vegar að finna blóraböggul. Þegar tæknileg skýring hefur komið í ljós eða blóraböggull hefur verið fundinn er hætt að leita skýringa. En um leið er tryggt að við lærum ekki af atburðinum og tryggt að við verðum jafn illa undirbúin næst þegar svipaður atburður á sér stað.

Þegar atburður kemur á óvart getur það í megindráttum átt sér þrjár skýringar. Í fyrsta lagi kunna mannleg mistök að hafa átt sér stað. Í öðru lagi kann skýringin að liggja í ófyrirsjáanlegu atviki. Í þriðja lagi kunna væntingar að hafa verið rangar, þ.e. atvikið hefði í rauninni ekki átt að koma á óvart. Þegar um er að ræða beina afleiðingu náttúruhamfara er ljóst að fyrsta skýringin á ekki við. Önnur skýringin á heldur ekki við í þessu tilviki, því eftir að jarðhræringarnar hófust var ljóst að slíkt atvik gæti átt sér stað og væri raunar fremur líklegt. Tvennt varð til þess að heitt vatn fór af Suðurnesjum. Annars vegar það að hraun rann yfir lögnina. Hins vegar það að varalögn var ekki til staðar. Þetta tvennt, saman, olli atburðinum. Eina skýringin á því að heitt vatn fór af Suðurnesjum er því á endanum sú þriðja: Við gerðum ekki ráð fyrir að jarðhræringarnar yrðu til þess að lögnin færi í sundur. Það kom okkur á óvart. Þess vegna vorum við óundirbúin. Spurningin sem spyrja þarf er því þessi: Hvers vegna kom þessi atburður á óvart? Þetta má einnig orða þannig: Hvers vegna vorum við óundirbúin, fyrst hraunrennslið hefði ekki átt að koma á óvart? Einungis með því að leita svara við þeirri spurningu getum við lært af atburðinum og þannig fundið leiðir til að forðast svipaða atburði í framtíðinni. 

Rætur óvæntra atburða oftast kerfislægar

Fyrir skemmstu stýrði ég greiningu á orsökum banaslyss sem átti sér stað í verksmiðju hjá alþjóðlegu neytendavörufyrirtæki í fjarlægri heimsálfu. Tæknileg skýring á atvikinu fannst fljótt. Vegna alvarleika málsins var ekki látið þar staðar numið, heldur leitast við að finna blóraböggul. Hann fannst líka fljótlega. En raunverulega orsökin lá hvorki í tæknilegu skýringunni né heldur hjá blórabögglinum. Hún var kerfislæg. Til að finna hana þurfti umfangsmikla og ítarlega greiningu. Blessunarlega lagði yfirstjórn fyrirtækisins áherslu á að vinna slíka greiningu. Hún leiddi í ljós að atvikið hefði ekki átt að koma á óvart og í kjölfarið var hafist handa við nauðsynlegar breytingar á öryggiseftirliti, sem vænta má að nægi til að hindra slíka atburði í framtíðinni.

Án greiningar orsaka og afleiðinga lærum við aldrei

Sú spurning hvers vegna heitt vatn fór af Suðurnesjum kallar á nákvæma og hreinskilnislega greiningu orsaka og afleiðinga. Hverjar grunnorsakirnar eru liggur ekki enn fyrir, en líklegt er að þær kunni að vera af þrennum toga. Í fyrsta lagi getur verið að hvergi liggi skýrt fyrir hvaða aðili ber ábyrgð á að bregðast við og grípa til aðgerða. Í öðru lagi kunna verkferlar að vera óskýrir. Í þriðja lagi er mögulegt að upplýsingastreymi sé ábótavant. Allt eru þetta kerfislægar orsakir, það er galli í kerfinu sem ætlað er að bregðast við þegar vísbendingar um mögulega atburði koma fram. Til að komast að því hvað brást verður vönduð greining orsaka og afleiðinga að eiga sér stað.

Verum viðbúin næst

Rannsókn af þessum toga er flókin og krefst bæði kunnáttu í röklegri greiningu og þekkingar á viðfangsefninu. En þess utan eru helstu hindranirnar í vegi slíkrar greiningar tvær tilhneigingar. Annars vegar tilhneigingin til að forðast að finna raunverulegar skýringar, því niðurstaða slíkrar greiningar kann að vera óþægileg. Hins vegar tilhneigingin til að leita blóraböggla og um leið ótti þeirra sem að málinu koma við að vera hafðir að blórabögglum. Við verðum að vera meðvituð um þessar hindranir og forðast að þær komi í veg fyrir að við lærum af atburðunum.

Við búum í landi sem er ofurselt óvægnum náttúruöflum. Stundum gera áhrif þeirra ekki boð á undan sér, en oftar gera þau það. Við þurfum að hafa traust og virkt viðbragðskerfi, ekki aðeins til að grípa inn í eftir að náttúruhamfarir eiga sér stað, heldur til að tryggja að gripið sé strax til nauðsynlegra ráðstafana þegar þeirra má vænta. Til þess verðum við að geta lært af atburðum sem koma okkur á óvart, en hefðu ekki átt að gera það. Því þetta var hvorki sá fyrsti né heldur sá síðasti.

(Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. febrúar 2024)


Yfirgefum bergmálshellana og tölum saman

"Ég segi alltaf færri og færri orð / enda hafði ég lengi á þeim illan bifur", segir skáldið Sigfús Daðason í þekktu kvæði. Þar vísar hann til þess hvílíkt ólíkindatól tungumálið er og brýnir fyrir okkur að fara varlega með orð. Þessi ljóðlína kemur gjarna upp í hugann þegar fylgst er með hatrömmum og oft heiftúðugum deilum um alvarleg mál; við höfum séð þetta glöggt á samfélagsmiðlunum undanfarnar vikur í umræðum um málefni landanna fyrir botni Miðjarðarhafsins. Stóryrðin eru ekki spöruð og við gröfum okkur æ dýpra inn í bergmálshellana. Og eins og vitur kona benti á í blaðagrein fyrir skömmu hlýtur slíkt að enda með því að við breytumst sjálf í gangandi bergmálshella.
 
Frjáls og opin umræða er hornsteinn lýðræðisins, en hún sætir nú sífellt harðnandi atlögum, ekki aðeins frá einræðisöflum, frá stórfyrirtækjum sem leitast við að draga okkur inn í bergmálshellana og hefta um leið opin skoðanaskipti, heldur einnig og ekki síður af hálfu lýðræðislega kjörinna stjórnvalda. Gagnvart málefninu sem að ofan getur sést þetta glöggt í löndunum í kringum okkur. Ekki hérlendis, í það minnsta ekki enn - síðustu tilraun stjórnvalda til að efla og festa ritskoðun í sessi var hrundið í vor. En ástæðulaust er að ætla annað en að sú tilraun verði brátt endurtekin.
 
Nú á sunnudaginn stendur Málfrelsi - samtök um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi, fyrir málfundi um deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs. Frummælendur verða Birgir Þórarinsson guðfræðingur og alþingismaður, Magnea Marinósdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur, Diljá Mist Einarsdóttir formaður utanríkismálanefndar Alþingis og Ögmundur Jónasson fyrrum alþingismaður og ráðherra. Fundinum stýrir Bogi Ágústsson fréttamaður. Fundurinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands kl. 14, þann 12. nóvember.
 
Til þessa fundar er efnt til að hittast, heyra ólík viðhorf, leitast við að skilja betur forsendur þeirra, og skiptast á skoðunum, augliti til auglitis, en ekki í gerviveröld tækninnar. Samfélagslegt gildi tjáningarfrelsisins grundvallast á því að opin skoðanaskipti eru eina leiðin sem við höfum til að skilja hvert annað, eina leið okkar út úr bergmálshellunum, eina leiðin sem við höfum til að fikra okkur nær sannleikanum. Því enginn er fyrirfram handhafi hans.
"Never say: I know" sagði stjórnunarfrömuðurinn Eliyahu M. Goldratt á sínum tíma; við eigum aldrei að nálgast mál sem handhafar hins eina og endanlega sannleika, heldur ávallt af opnum huga og vilja til að hlusta á og skilja aðra. Það er grundvöllur friðsamlegrar sambúðar okkar, hvar sem við erum og hver sem við erum. Það er í þeim anda sem boðað er til þessa fundar.

Lof lyginnar

Í háðsádeilunni Lof lyginnar eftir Þorleif Halldórsson stígur Lygin fram sér til varnar og sýnir fram á mikilvægi sitt í mannfélaginu. Án sín hefði maðurinn til dæmis aldrei komist úr aldingarðinum Eden segir hún.
Þar sem ádeilur af þessum toga voru lítt þekktar hérlendis á 18. öld sá höfundur ástæðu til að rita eftirmála þar sem hann gerir lesendum grein fyrir alvöruleysinu að baki málflutningnum og því að boðskapurinn snúi að mikilvægi gagnrýninnar og upplýstrar hugsunar.
Lof lyginnar var sumsé ekki hugsuð sem leiðbeiningarrit, þótt þær varnarræður sem margir hafa nú uppi í þágu lyginnar gefi óneitanlega til kynna að kæmi þessi bók út nú kynni henni að verða tekið þannig.


Syndin sem ekki er hægt að fyrirgefa

Um daginn sagði ég vini mínum frá því hversu undrandi ég væri að sjá að 22% Bandaríkjamanna hefðu miklar áhyggjur[1] af því að börn þeirra myndu deyja eða verða fyrir alvarlegum skaða ef þau smituðust af kórónuveirunni, í ljósi þess að eins og gögn sýna er áhættan fyrir börn aðeins smávægileg[2]. Hann svaraði því til að þetta kæmi ekki endilega á óvart, því eins og hann orðaði það, þá hefðu foreldrar alltaf áhyggjur af börnum sínum. Við ræddum svo þessa áhættu í samhengi við fleira, og á endanum vorum við sammála um að þessi hræðsla ætti ekki við nein rök að styðjast; börn væru líklegri til að deyja í bílslysi, eða jafnvel bara af þvíað detta fram úr rúminu eða niður stiga heima hjá sér.

 

Versta mögulega niðurstaðan

En hvers vegna brást vinur minn við í upphafi eins og hann gerði?

Í gestakafla í nýrri bók Dr. Roberts Malone, Lies My Gov‘t Told Me[3], fjallar öryggissérfræðingurinn Gavin de Becker um hvernig ákveðnar hættur verða meira áberandi í huga okkar, einmitt vegna þess að erfitt er að átta sig á vægi þeirra; hvernig við höfum tilhneigingu til að einblína á verstu mögulegu niðurstöðuna, einhvern mjögólíklegan, en líka mjög skelfilegan möguleika. De Becker tekur dæmi úr gömlu viðtali við bandaríska sóttvarnalækninn dr. Anthony Fauci til að útskýra þetta. Viðfangsefnið er alnæmi:

„Hinn langi meðgöngutími þessa sjúkdóms sem við gætum verið að byrja að sjá, þar sem við sjáum nánast, eftir því sem mánuðirnir líða, aðra hópa sem gætu tekið að smitast, og að sjá þetta hjá börnum vekur miklar áhyggjur. .... Nú kann það að vera fjarstæðukennt í þeim skilningi að engin tilvik hafa verið staðfest enn, þar sem einstaklingar hafa eingöngu verið í nánum samskiptum við einstakling með alnæmi, og hafa til dæmis fengið alnæmi...“

Hvað er Fauci í rauninni að segja? Með orðum de Beckers: „Það hafa ekki komið upp nein tilfelli þar sem alnæmi smitast gegnum venjuleg náin samskipti. En skilningur fólks á þessum hræðsluáróðri Faucis var auðvitað allt annar: Þú getur smitast af þessum sjúkdómi jafnvel án náinna samskipta.“ Eins og við vitum öll núna voru vangaveltur Faucis algjörlega ástæðulausar, en það var hræðsluáróður eins og þessi sem dreif áfram langvarandi bylgju ótta við samkynhneigða karlmenn.

 

Greining texta og hugtaka er lykilatriði

„Hvað þýðir þetta í raun og veru?“ Þetta fyrsta spurningin sem við verðum alltaf að spyrja þegar við lesum texta eða hlustum á fólk. Orð Faucis hér að ofan fela í sér tvær fullyrðingar. Sú fyrri er yfirlýsing um staðreynd: Engin dæmi um smit gegnum venjuleg náin samskipti hafa komið upp. Sú síðari er tilgáta: Smit gæti mögulega átt sér stað gegnum venjuleg náin samskipti.

Þegar við höfum staðfest merkinguna er næsta skref að spyrja: „Er þetta satt?“ Fyrri fullyrðingin hér er studd staðreyndum, hin síðari ekki. Þetta þýðir að fyrri fullyrðingin er gild, en hin ekki. Við smitumst ekki af alnæmi með því að faðma sjúkling. Samkynhneigði frændi þinn er ekki hættulegur.

Þetta sýnir hvernig einföld greining á merkingu texta hjálpar okkur að greina á milli staðreynda og skáldskapar, byggt á því hvernig meintar staðreyndir passa við það sem við vitum nú þegar fyrir víst, hvort þær eru ísamhengi innbyrðis; hvort þær eiga við í samhenginu sem rætt er, og hvort þær grundvallast á traustum gögnum.

 

Syndin sem ekki er hægt að fyrirgefa

Skömmu áður en kórónuveiran lét á sér kræla dvaldi ég í rúman mánuð á Indlandi. Meðal annars heimsótti ég lítið þorp í Gujarat-héraði til að taka þátt í vígslu skólabókasafns sem við höfðum verið að styrkja. Allir sem ég hitti, allt frá leiguliðum úr samfélagi Dalíta til bæjarstjórans, voru sammála um eitt; mikilvægi menntunar. Nokkrum mánuðum síðar hafði þorpsskólanum verið lokað; öllum skólum á Indlandi hafði verið lokað. Fátæklingarnir, sem bjuggu í borgunum urðu að yfirgefa þær því þeim var bannað að framfleyta sér. Fjórtán ára strákurinn sem var vanur að færa okkur te á skrifstofuna fór. Við höfum ekkert heyrt frá honum síðan.

Margir fórust á leið sinni í sveitirnar, úr hungri, veikindum, örmögnun. Þeim sem komust til þorpanna var oft meinuð innganga. Ástæðan var sjúklegur ótti sem hafði gripið íbúana, rétt eins og alls staðar annars staðar í heiminum.

Þegar ég heyrði fréttirnar fyrst hugsaði ég um þennan fjórtán ára pilt, líf hans, vonir og drauma, sem lagðir voru í rúst, og hvernig örlög hans voru táknræn fyrir örlög þeirra hundruða milljóna sem fórnað var á altari örvæntingarinnar. Því óttafaraldur á þessu stigi er hættulegur, hann er eyðileggjandi. Hann leiðir til algerlega sjálfmiðaðrar hegðunar, fullkomins skeytingarleysis um aðra, í örvæntingarfullri tilraun til að vernda okkur sjálf.

Örvænting, í kristnum skilningi, er þegar maður gefur upp vonina um hjálpræði. Þess vegna er hún að mati margra guðfræðinga eina syndin sem ekki er hægt að fyrirgefa[4]. Jafnvel þótt við séum trúlaus ber þetta að sama brunni: Þegar einhver ákveður að eignast ekki börn af ótta við að heimurinn sé að líða undir lok, þá er það örvænting. Þegar einhver slítur öll tengsl við annað fólk, hættir að taka þátt í lífinu í röklausum ótta við veiru, þá er það örvænting. Örvæntingin er afneitun lífsins. Þess vegna er hún ófyrirgefanleg synd.

 

Gagnrýnin hugsun er siðferðileg skylda

Við sjáum nú glöggt siðferðilegt gildi gagnrýninnar hugsunar: Án hennar gefum við okkur á valdóttaviðbragðinu við hverju því sem dynur á okkur, hunsum allt nema okkur sjálf og viðfang óttans. Við látum undan örvæntingunni. Þess vegna er gagnrýnin hugsun ekki aðeins gagnleg; hún er siðferðileg skylda. Um þetta ættum við að hugsa í dag, þegar þrjú ár eru liðin síðan hin fjarstæðukennda tilraun til að stöðva útbreiðslu bráðsmitandi öndunarfæraveiru, þvert á öll þekkt vísindi, hófst fyrir alvöru hérlendis.

Það er í þessu ljósi sem við hljótum að dæma viðbrögð stjórnvalda um allan heim, sem hafa linnulaust dælt út hræðsluáróðri, oft vísvitandi röngum í því skyni að vekja ótta og örvæntingu, og um leið þaggað niður og ritskoðað allar tilraunir til að stuðla að skynsamlegri og heilbrigðari nálgun; stjórnvalda sem hafa markvisst kæftgagnrýna hugsun[5]. Það er einnig í þessu ljósi sem við hljótum að fordæma hörmulegar afleiðingar þessa framferðis, og hvernig það hefur fyrst og fremst skaðað þau ungu, þau fátæku; okkar minnstu systkin.

 

Þorsteinn Siglaugsson, formaður Málfrelsis – samtaka um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi. https://thorsteinnsiglaugsson.substack.com

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. mars 2023

 

[1] https://www.kff.org/coronavirus-covid-19/poll-finding/kff-covid-19-vaccine-monitor-december-2022/

[2] https://www.npr.org/sections/health-shots/2021/05/25/997467734/childrens-risk-of-serious-illness-from-covid-19-is-as-low-as-it-is-for-the-flu

[3] https://www.simonandschuster.com/books/Lies-My-Govt-Told-Me/Robert-W-Malone/Children-s-Health-Defense/9781510773240

[4] https://www.newadvent.org/cathen/04755a.htm

[5] https://twitter.com/DrJBhattacharya/status/1619504923246477313?s=20&t=QKaYLlIJMNgU1dfDn4Ea2w

 


Eina vopnið gegn heimsendaspámönnum er gagnrýnin hugsun

Um daginn átti ég spjall við einn þeirra sem enn trúa því að hin fordæmalausa ofsahræðsla sem greip um sig vegna kórónuveirunnar hafi verið réttlætanleg. Hann spurði mig vitanlega um samsæri og um „eðlufólk“, hvort ég héldi að tölur um dánartíðni víðsvegar að úr heiminum væru falsaðar, og hvort það væri ekki kominn tími til að ég og aðrir efasemdarmenn slökuðum á í „heimsendaspám“ okkar, og vísaði þar í áhyggjur af tjáningarfrelsi og persónulegu frelsi. 

Það er ekkert nýtt fyrir mér að vera kallaður samsæriskenningasmiður og ég hef oft fengið að heyra að ég trúi á gamla góða eðlufólkið. Spurningunni um dánartíðnina fylgdi viðhengi, línurit með samanburði á dánartíðni í Ástralíu og Nýja Sjálandi annars vegar og í Svíþjóð og Bandaríkjunum hins vegar; þá „góðu“ og  þá „vondu“, bersýnilega, og tímabilið auðvitað vandlega valið. Ég er viss um að þetta átti að sýna mér hversu frábærlega fyrrnefndu löndunum tveimur hefði tekist að fást við drepsóttina ógurlegu. Ég tók hins vegar ekki eftir línuritinu fyrr en eftir að ég spurði viðmælandann hvort hann væri að vísa í fullyrðingar The Economist um að dánartíðni væri í raun þrefalt hærri en opinber gögn sýndu, þegar hann talaði um staðhæfingar um röng gögn, en það er eina dæmið um slíkt sem ég man eftir að hafi vakið verulega athygli. Ég hef ekki enn fengið svar við þessari spurningu. 

Það var hins vegar spurningin um „heimsendaspárnar“ sem mér þótti áhugaverðust. Sérstaklega með hliðsjón af línuritinu, sem greinilega var ætlað að sýna að viðeigandi viðbrögð við öndunarfæraveiru væru þau að loka fólk inni til eilífðarnóns. Það blasti sumsé við hvað ég var að fást við þennan laugardagsmorgun; það var heimsendaspámaður, og sannarlega enginn aukvisi á því sviði.

Meira á Krossgötum...


Hljóð og mynd ... og lykt

Það er vægast sagt fyndið að fylgjast með fullyrðingum Landlæknisembættisins um umframdauðsföll hérlendis, sem svo sannarlega eru út og suður og stangast hver á við aðra, rétt eins og fjörugir geithafrar á fengitíma.

Þegar Eurostat, hagstofa ESB, birti gögn um umframdauðsföll á Íslandi í janúar sl. var brugðist við með fullyrðingum um að starfsmenn hagstofunnar kynnu ekki að reikna og ofmætu umframdauðsföll hérlendis um tugi prósenta. Margoft væri búið að útskýra fyrir þeim að þeir reiknuðu rangt, en þeir tækju bara ekkert mark á útskýringunum.

Næst kom landlæknir í fjölmiðla og lýsti yfir því að dauðsföll hérlendis vegna kóvít væru líklega næstum helmingi fleiri en skráð hefði verið.

Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

 

 

Með öðrum orðum hefðu næstum tvö hundruð manns dáið úr þeim sjúkdómi sem einn hefur verið í tísku á Íslandi í þrjú ár, en án þess að heppnast hefði að skrá sjúkdóminn sem dánarmein. Þetta á svo væntanlega að nota til að skýra umframdauðsföllin, þegar í ljós kemur að Eurostat hefur rétt fyrir sér en þriðja hjólið undir þríeykinu ekki.

Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23

 

 

 

Röksemd landlæknis fyrir því að umrædd óútskýrð dauðsföll væru líklega vegna sjúkdómsins var sú að svo margir aðrir hefðu dáið úr honum á sama tíma. Með þessu hefur embættismaðurinn sett alveg nýtt viðmið í rökhugsun: Allir sem deyja á sama tíma deyja úr því sama!

Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11

 

 

Þó verður að telja henni til tekna að hún tók fram að enn væri ekki búið að greina dánarmein svo ekki lægi fyrir með óyggjandi hætti úr hverju fólkið dó.

Daginn eftir sté hins vegar stalla hennar, sóttvarnalæknir á stokk og lét ekki slík smáatriði trufla sig, heldur staðhæfði án nokkurs fyrirvara, að fyrir lægi að sjúkdómurinn ógurlegi hefði lagt að velli alla þá sem gleymst hafði að skrá úr hverju hefðu látist. Fullyrti hún jafnframt að útilokað væri að hin gagnslausu bóluefni við kóvít hefðu nein áhrif haft á þessi andlát – og munum að enn er ekki búið að gá að því úr hverju fólkið dó.

Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26

 

 

Yfirlýsingagleði sóttvarnalæknis minnir mig svolítið á það þegar forveri hennar, eða embætti hans, gekk í það fyrir rúmu ári síðan að gerbreyta opinberum gögnum eftir á, í veikburða tilraun til að fela þá staðreynd að bólusetning tvöfaldaði líkur á því að fólk smitaðist af kóvít. Hér er grein mín um þetta: Furðulegt háttalag hlutfalls um nótt

Þetta er ástæðan fyrir því að ég tel mig því miður ekki geta treyst neinum gögnum sem embætti landlæknis og sóttvarnalæknis láta frá sér fara. Eina leiðin til að gera sér grein fyrir hvað líklegt er að valdi umframdauðsföllum hérlendis er að líta til gagna í löndunum í kringum okkur. Því miður.

Eins og sjá má hér að ofan, þá fer ekki saman hljóð og mynd í staðhæfingum land- og sóttvarnalæknanna.

En lyktin er sjálfri sér lík.


Tjáningarfrelsið stendur á krossgötum

Félagasamtökin Málfrelsi – samtök um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi, voru stofnuð af litlum en samheldnum hópi fólks sem ég tel nú meðal bestu vina minna. Við kynntumst í gegnum baráttu gegn þöggun og ritskoðun gagnvart þeim sem hafa lýst efasemdum um réttmæti margra þeirra aðgerða sem var gripið til á síðustu þremur árum. Þetta ástand opnaði augu okkar fyrir þeirri þröngu stöðu sem persónulegt frelsi og tjáningarfrelsi er komið í á Vesturlöndum og um allan heim.

Í þágu upplýstrar umræðu

Laugardaginn 7. janúar stóðum við fyrir ráðstefnu undir yfirskriftinni„Í þágu upplýstrar umræðu“. Frummælendur voru Toby Young, formaður Free Speech Union, Ögmundur Jónasson, fyrrum innanríkisráðherra og Svala Magnea Ásdísardóttir, blaðamaður og fjölmiðlafræðingur. Svala sté með stuttum fyrirvara inn í stað Kristins Hrafnssonar ritstjóra Wikileaks sem forfallaðist vegna veikinda. Við í stjórn Málfrelsis erum afar þakklát öllum sem að þessum viðburði komu og ekki síst félagsmönnum, en þeirra góði stuðningur er forsenda þess að hægt sé að halda viðburð sem þennan. Ráðstefnan var afar vel sótt og viðtökurnar sýna og sanna að þörf er á því starfi sem félagið stendur fyrir. Við erum þegar byrjuð að leiða hugann að næsta viðburði.

Frummælendur fjölluðu um tjáningar- og raunar persónufrelsi frá ýmsum og ólíkum sjónarhornum. Rauði þráðurinn í erindum þeirra var hvernig tjáningarfrelsið er í sífellt þrengri stöðu og hvernig tækni og valdasamþjöppun þrengir að upplýsingagjöf og frjálsum skoðanaskiptum.

Hér má horfa á upptöku af fundinum.

Víglínan hefur færst til

Hugtakið tjáningarfrelsi verðum við í dag að skilgreina víðar en áður hefur verið þörf á. Í dag snýst það ekki aðeins um að fólk sé ekki fangelsað fyrir skoðanir sínar. Það snýst ekki síður, og kannski enn frekar um að það sem við segjum sé ekki þaggað niður. Um leið snýst það um að aðgangur okkar að upplýsingum sé ekki hindraður, á tímum þar sem umræða hefur í yfirgnæfandi mæli flust yfir á netið, og netinu er að mestu stjórnað af stórfyrirtækjum sem njóta náttúrlegrar einokunar, og beita sér, í samvinnu við ríkisstjórnir og leyniþjónustur til að stýra því hvað við megum sjá og hvað ekki.

Víglínan hefur því færst til. Við þurfum að gera okkur fulla grein fyrir því. Og án frjálsra skoðanaskipta og upplýsingastreymis getur ekkert lýðræði þrifist, og þau eru forsenda alls annars frelsis. Frjálst lýðræðissamfélag er í húfi, flóknara er málið ekki.

Að undanförnum þremur árum liðnum er uppgjör óumflýjanlegt. Uppgjör gagnvart stjórnvöldum sem hafa látið heildarhagsmuni lönd og leið, gagnvart vísindamönnum sem hafa brugðist hlutverki sínu, gagnvart stórfyrirtækjum sem hafa lagt hönd á plóg til að þagga niður í frjálsum skoðanaskiptum og svipta okkur mannhelginni.

Við erum öll ábyrg

Við megum þó ekki gleyma því að á endanum erum við ábyrg, öll sem eitt. Við getum ekki látið okkur nægja að vera neytendur og láta okkur samfélagið í léttu rúmi liggja. Við verðum að vera samfélagsþegnar, verðum að standa vörð um frelsi okkar og réttindi og taka þátt í að móta samfélagið. Sú barátta á sér engan endapunkt. Henni linnir aldrei.

Við stöndum á krossgötum. Við getum valið hinn breiða veg hlýðninnar, í skiptum fyrir þau fallvöltu þægindi sem felast í því að láta hugsa fyrir okkur. Eða við getum valið hinn þrönga veg, látið eigin stundarhagsmuni og þægindi víkja fyrir baráttunni fyrir réttinum til að tjá okkur, réttinum til að hugsa, til að efast. Ég hvet alla sem láta sér annt um frelsi og lýðræði til að taka þátt í þeirri baráttu með okkur. Við þurfum á öllum stuðningi að halda, í hvaða formi sem hann er. Þessi barátta er erfið, og það er margt sem bendir til að hún eigi eftir að harðna. Við munum þurfa að færa fórnir. En uppgjöf er ekki í boði, því það sem er í húfi er framtíð sem er manninum samboðin. Og fyrir henni verðum við að berjast af fórnfýsi, af hugrekki, af heilindum, en umfram allt í bróðerni.

 

Birt á Vísi, 11. janúar 2023


Hugsun og efi, eða hræðsla og hlýðni?

Endurbirti hér grein mína í Morgunblaðinu í gær, en hún var skrifuð í tilefni af fundi Málfrelsis - samtaka um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi. Upptöku frá fundinum ma sjá hér.

 

Grunnur vestræns samfélags nútímans er ákvörðunarvald hins hugsandi einstakling sem efast, segir Milan Kundera í frægri grein, sem birtist í bókmenntatímaritinu Granta hið táknræna ár 1984. Nú, tæpum 40 árum síðar er margt sem bendir til að hugsun og efi eigi mjög undir högg að sækja, og ákvörðunarvaldið liggi í æ ríkari mæli hjá risafyrirtækjum og leyniþjónustum, sem ákveða hvað má segja og hvað ekki, hvaða upplýsingar almenningur má sjá, og útiloka frá umræðunni hvern þann sem leyfir sér að efast um hina opinberu línu.

Blaðamenn sem fengið hafa aðgang að skjalasafni Twitter staðfesta það sem marga hafði lengi grunað, að starfsmenn fyrirtækisins, stundum í samráði við stjórnvöld, hafa um langa hríð staðið fyrir gríðarlega umfangsmikilli ritskoðun og þöggun. Þannig var vísindamönnum sem gagnrýndu ýmsar aðgerðir stjórnvalda á síðustu þremur árum haldið í skugganum og þess gætt að sem fæstir sæju skrif þeirra, sumum var jafnvel hent út af miðlinum.

Önnur samfélagsmiðlafyrirtæki hafa hegðað sér með svipuðum hætti, og eru gögn um það smám saman að koma upp á yfirborðið í málaferlum gegn þeim og bandarískum stjórnvöldum. Almennir fjölmiðlar hafa einnig lotið stífri ritskoðun allan þennan tíma og þar leika þaulskipulögð samtök ritskoðunarfyrirtækja, svonefndra „fact-checkers“, meginhlutverk.

Mál Assange prófsteinn á tjáningarfrelsi blaðamanna

Ritskoðun og þöggun af hálfu stjórnvalda einskorðast þó ekki við veirutíma. Hinn hugrakki ástralski blaðamaður Julian Assange hefur nú setið í fangelsi í þrjú ár, og þar áður í sjálfskipaðri útlegð í sendiráði Ekvador í Lundúnum, og beðið niðurstöðu í framsalsmáli Bandaríkjastjórnar gegn honum. Glæpur Assange var sá að nýta sér tjáningarfrelsið; að birta gögn sem honum bárust um stríðsglæpi Bandaríkjastjórnar í Afganistan og Írak.

Nú líður að ögurstund í máli Assange, en ritstjóri Wikileaks, Kristinn Hrafnsson, lauk nýverið afar árangursríkri ferð um suðurhluta Ameríku til að afla málstað hans fylgis. Þrátt fyrir þau sterku tengsl sem Ísland hefur við þetta málefni hefur verið einkennilega hljótt um þetta mikilvæga verkefni Kristins í íslenskum fjölmiðlum, og er hann þó fyrrum fréttamaður Ríkisútvarpsins hér.

Málefni stríðshrjáðra minnihlutahópa sæta gjarna mikilli þöggun og ritskoðun, sér í lagi þegar tilvera þeirra og krafa um að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur ógna hagsmunum stórvelda og stórfyrirtækja.

Hugrekkið til að segja satt

Sjálfur hef ég kynnst þessu umhverfi ritskoðunar og þöggunar afar vel á síðastliðnum misserum gegnum störf mín með gagnrýnum miðlum erlendis, og hef ég jafnframt kynnst fjölda fræði- og vísindamanna sem orðið hafa fyrir atlögum vegna skoðana sinna. Sumir hafa verið ataðir auri, aðrir misst störf sín. Sök þeirra er að hugsa og efast og segja sannleikann, þótt hann komi illa við suma. Hugrekki þessa fólks og þeirra sem fært hafa fórnir til að veita því rödd er svo sannarlega aðdáunarvert.

Félagið Málfrelsi – samtök um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi, var stofnað til að vekja almenning til vitundar um þær hættur sem steðja nú að tjáningarfrelsinu og þar með að frjálsu lýðræðissamfélagi. Í dag kl. 14 stendur Málfrelsi fyrir ráðstefnu í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, þar sem meðal annars verður fjallað um þau málefni sem tæpt er á hér að ofan. Frummælendur verða Toby Young, formaður Free Speech Union, Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks og Ögmundur Jónasson fyrrum innanríkisráðherra. Upplýsingar um streymi frá ráðstefnunni má sjá á vef félagsins, krossgotur.is.

Við stöndum á krossgötum

Sé grunnur samfélags okkar, þess frelsis og lýðræðis sem við viljum búa við, ákvörðunarvald hins hugsandi einstakling sem efast, líkt og Kundera sagði á sínum tíma, þá er erfitt að álykta annað en að þetta samfélag sé nú í verulegri hættu. Það er ekki síst áhyggjuefni hversu algengt það viðhorf er orðið að sjálfsagt sé að þagga niður í þeim sem hafa skoðanir sem manni sjálfum líkar ekki við. Þetta viðhorf grundvallast á hættulegu skeytingarleysi gagnvart tjáningarfrelsinu, og það vekur óneitanlega furðu hversu algengt það er orðið meðal fjölmiðlafólks. Þar heggur sá er hlífa skyldi, en áttar sig ekki á að höggið mun á endanum slæmast í hann sjálfan; raunveruleg blaðamennska þrífst ekki í umhverfi ritskoðunar og þöggunar.

Við stöndum á krossgötum. Við getum valið hinn breiða veg hlýðninnar, í skiptum fyrir þau fallvöltu þægindi sem felast í því að láta hugsa fyrir okkur. Eða við getum valið hinn þrönga veg, látið eigin stundarhagsmuni og þægindi víkja fyrir baráttunni fyrir réttinum til að tjá okkur, réttinum til að hugsa, til að efast, til að móta í sameiningu framtíð sem er manninum samboðin. Ég hvet alla sem láta sér annt um frelsi og lýðræði til að taka þátt í þeirri baráttu með okkur.


"Woke" - Hugmyndafræði í þjónustu alræðis?

Bræðralagið sem myndast meðal kúgaðra og ofsóttra varir aldrei, segir breski sagn- og listfræðingurinn Simon Elmer í nýrri bók sinni, „The Road to Fascism – For a Critique of the Global Biosecurity State“, (London 2022). Hann vitnar í heimspekinginn Hönnu Arendt: „Mennska hinna forsmáðu og sködduðu hefur aldrei enn lifað af stund frelsunarinnar í svo mikið sem eina mínútu. Þetta þýðir ekki að hún sé ómerkileg, því í raun gerir húnforsmán og sköddun þolanlega; en þetta þýðir að í pólitísku tilliti skiptir hún engu máli“ (231). Það sem verður að koma í stað bræðralagsins nú, segir Elmer, þegar verstu kúgunaraðgerðir Covid tímabilsins hafa hjaðnað, að minnsta kosti tímabundið, er vinátta; en þó ekki í þeim skilningi sem við nútímamenn leggjum í hana.

Elmer fullyrðir að vestræn samfélög stefni nú hratt í átt að fasísku alræði, þróun sem fjórða iðnbyltingin geri mögulega og sé drifin áfram af auðhringum og skrifræðisvaldi. Eftir fall Sovétríkjanna höfum við orðið ómeðvituð um hætturnar af alræði sem á sér uppruna hægra megin við miðju; barnalegt frjálslyndi undanfarinna áratuga hafi blindað okkur gagnvart þessari hættu. Elmer tekur undir viðvörun Hayeks í Leiðinni til ánauðar, um að hættulegasta tegund fasisma sé sá sem knúinn er áfram af yfirþjóðlegu tækniræði sem gæti„auðveldlega beitt mestu harðstjórn og ábyrgðarlausu valdi sem hægt er að hugsa sér ... Og þar sem það er varla neitt til, sem ekki er hægt að réttlæta með „tæknilegri nauðsyn“ sem enginn utanaðkomandi gæti í raun efast um – eða jafnvel með mannúðarrökum varðandi þarfir einhvers sérlega illa stadds hóps sem ekki væri hægt að hjálpa á annan hátt – þá er lítill möguleiki á að stjórna því valdi “ (143). Og höfum í huga að hér íhugar Hayek ekki einu sinni möguleikann á því nána samstarfi milli alþjóðlegs tækniræðis og einokunarauðvalds sem við sjáum á okkar tímum.

Ekkert sósíalískt við "woke"

Elmer fullyrðir að stuðningur vinstri manna við tilskipanir og reglur líföryggisríkisins byggist ekki á eðlislægri forræðishyggju þeirra eins og hægrimenn telja gjarna, heldur mun fremur á því að þeir hafi „smitast af hugmyndum af meiði nýfrjálslyndis, um pólitíska rétthugsun, sjálfsmyndarstjórnmál og nú síðast réttrúnað „woke“ hugmyndafræðinnar.“ (147). Elmer bendir réttilega á hvernig þöggun, slaufunarmenning, kvenfyrirlitning ... lögreglueftirlit með orðum og skoðunum fólks“ eigi sér alls ekki rætur í lýðfrelsisstefnu, stéttabaráttu eða jafnaðarhugsjón“; það sé í raun ekkert sósíalískt við þessi einkenni hinnar nýju alræðishyggju.

Þetta virðist í beinni andstöðu við það algenga viðhorf, að minnsta kosti meðal hægrimanna, að „woke“ hugmyndafræðin sé vinstri sinnuð í grunninn, og sé afleiðing þeirra ítaka sem sósíalistar hafi náð í vestrænum samfélögum gegnum áróður og yfirtöku grunnstofnana, í samræmi við kenningu Dusche (og Gramscii) um „hina löngu göngu gegnum stofnanirnar“.

Hver er þá rökstuðningur Elmers hér?

Elmer vitnar í einkunnarorð nasista „Kraft durch Freude“ (styrkur í gegnum gleði), og bendir á hvernig það sé„draumurinn um einingu þjóðarinnar, minningin um fallnar hetjur“ sem liggi að baki fasistakveðjunni, að bakiauðfúsri undirgefni við leiðtogann, og það sé á kitsinu sem fagurfræði alræðishyggjunnar byggi.

Á þetta hafa raunar fleiri bent: Samkvæmt listfræðingnum Monicu Kjellman-Chapin er algengt að kitsinu, vélrænni list sem auðvelt er að neyta og vekur væmnar tilfinningar, sé beitt af alræðisstjórnum sem tæki til stjórnunar og innrætingar.“ Í Óbærilegum léttleika tilverunnar (Reykjavík, 1986) segir Milan Kundera:

Kitsið kreistir fram tvö tár. Fyrra tárið segir: En hvað það er fallegt að sjá krakka hlaupa um grasflöt!

Seinna tárið segir: En hvað það er fallegt að klökkna eins og allt mannkynið við að sjá krakka hlaupa um grasflöt!

Einungis síðara tárið veldur því að kitsið er kits.

Bræðralag mannanna getur aldrei grundvallast á öðru en kitsi.“

„Woke“, segir Elmer, er jafngildi kitsins. Að „taka hnéð“, klappa fyrir heilbrigðisstarfsfólki, fylgja órökréttum tilskipunum, „í þágu heildarinnar“, eða eins og er líklega algengara, aðeins til að sýnast, er í eðli sínu það sama og að klökkna eins og allt mannkynið við að sjá krakka hlaupa um grasflöt. Og þessi samstaða, sem á endanum er fölsk samstaða, er líka drifkrafturinn þegar múgurinn snýst gegn þeim sem ekki hlýða, gegn óbólusettum, gegn þeim sem neita að „taka hnéð“, gegn þeim sem hafa hugrekki til að rugla og vekja efasemdir um hina viðteknu skoðun, til dæmis þegar svartur maður klæðist stuttermabol með slagorðinu „White lives matter“. Því í eðli sínu snýst „woke“, rétt eins og kitsið, um útilokun; þeir grimmustu eru gjarnavæmnastir allra.

Ofurróttæk afstæðishyggja

„Woke“ hugmyndafræðin sem látið er líta út fyrir að snúist um menningarlegt andóf hinna jaðarsettu og kúguðu er nú orðin opinber hugmyndafræði líföryggisríkisins, sem á grunni hennar réttlætir stöðugt eftirlit, ritskoðun og æ öflugri stýringu ríkisvaldsins á líffræðilegri tilveru okkar, segir Elmer. „Woke“ er þegar Justin Trudeau „tekur hnéð“ í mótmælum Black Lives Matter í Ottawa árið 2020 og úthúðar svo, tveimur árum síðar, þeim sem andmæla gerræðistilburðum hans, kallar þá þjófa, ofstækismenn, kynþáttahatara og gyðingahatara, kallar viðhorf þeirra óásættanleg, sakar þingmenn sem andmæla fasískri hegðun hans um að standa með hakakrossinum, og lætur loka bankareikningum þeirra sem styðja baráttuna gegn löglausu ofbeldi hans og krefjast þess að lög og stjórnarskrá séu virt. „Engin önnur hreyfing, síðan fasisminn var og hét, hefur lagt sig eins í framkróka um að skapa grundvöll fyrir lagalegar og pólitískar breytingar til að styðja við kapítalisma í dauðateygjunum“ segir Elmer (117).

Elmer bendir á hvernig mótmæli sem voru í samræmi við „woke“ hugmyndafræðina voru ekki aðeins liðin heldur litið á með velþóknun meðan samfélagið var drepið í dróma sóttvarnaraðgerða, en þeir sem mótmæltu lokunum og höftum til að verja lífsviðurværi sitt voru hundeltir, sektaðir eða fangelsaðir. Ástæðan fyrir þessu er sú, segir Elmer, að yfirvöldum stafar engin ógn af „woke“; það snýst einungis um um réttrúnað, umburðarleysi og helgisiði, það er andbyltingarsinnað, en „sér markaðinn sem eina mögulega farveg breytinga“ (120), og síðast en ekki síst skapar það tækifæri til að framfylgja og þróa enn frekar takmarkanir á málfrelsi og persónufrelsi, lykilskref á leiðinni til fasismans. „ ... Í stuttu máli, með því að auðvelda kapítalismanum að skapa alræði líföryggisríkisins  – er „woke“ ekki frjálslynt, og það er sannarlega ekki sósíalískt: „Woke“ er fasískt.“(121)

Eitt af lykileinkennum „woke“ hugmyndafræðinnar er algjört óþol gagnvart rökræðu, gagnvart röklegri hugsun, og við sjáum sömu tilhneigingu í þeim fjarstæðum, aftengingu við veruleikann og mótsagnakenndu viðhorfum sem breiðst hafa út í tengslum við kórónafaraldurinn. Fyrir þá sem aðhyllast „woke“ er það eina sem skiptir máli þeirra eigin persónulega upplifun, einkareynslan. En í heimi þar sem öll merking er einkaleg getur engin merking verið til; einkamál er ómögulegt, segir Wittgenstein, því höfundur þess getur ekki skilið það sjálfur. Í almennari skilningi gætum við litið á skilgreiningu Hönnu Arendt á almennri skynsemi sem sameiginlegri skynjun okkar á heiminum, og hvernig þessi sameiginlega skynjun grundvallast á sameiginlegu tungumáli, sameiginlegum sögum og sameiginlegri aðferð til að hugsa; án þessara grundvallarþátta er samfélagið í raun ekki lengur til.

Einangrun einstaklingsins er forsenda alræðisins

Eins og Elmer bendir á, og aðrir, þar á meðal Arendt, hafa bent á áður, er einangrun einstaklingsins ein af lykilforsendum þess að hægt sé að koma á og viðhalda alræði. Þetta skildi Stalín vel þegar hann lét leysa upp öll félög og klúbba; jafnvel skákfélög voru ekki undanskilin, því til að koma á sönnu alræði verður að einangra fólk frá hvort öðru, hindra að það myndi félagsleg tengsl. Höfnun „woke“ hugmyndafræðinnar á öllu öðru en einkareynslunni er því afar mikilvægur hornsteinn hins nýja fasisma sem Elmer óttast að sé handan við hornið. En það eru ekki aðeins hin sýnilegu ummerki einangrunarinnar, svo sem skilyrðislaus hlýðni við grímuskyldu og innilokun sem leggja þennan grundvöll, heldur ekki síður sú einangrun sem grundvallast á afneitun á sameiginlegri skynjun, sem er bein afleiðing róttækrar afstæðishyggju sem tekur ekkert sem gilt nema einstaklingsbundna huglæga reynslu. Og þar sem samfélagsbreytingar knúnar áfram af fólkinu, byltingarkenndar eða ekki, byggjast á möguleikanum til að koma saman, ræða hugmyndir og skipuleggja aðgerðir, sjáum við hversu eyðileggjandi slík hugmyndafræði er fyrir alla slíka viðleitni, jafnt á vinstri og hægri væng stjórnmálanna; hún ógnar öllu raunverulegu stjórnmálastarfi. Og það segir sig sjálft, að í samfélagi sem hafnar öllu öðru en einkareynslu - ef við getum einu sinni kallað það samfélag – getur engin löggjöf haldið velli, og þar með engin mannréttindi.

Umfjöllun Elmers um „woke“-hugmyndafræðina er miðlæg í gagnrýni hans, en um leið aðeins hluti víðfeðmrar greiningar hans á fasismanum, grundvelli hans og ummerkjum um yfirvofandi endurvakningu hans. Hann rekur greiningu Umberto Eco á einkennum hins „eilífa“ fasisma, fjallar á gagnrýninn hátt um skilgreiningu Hayeks á fasisma, fjallar um og skýrir flókinn hugmyndaramma Giorgio Agamben sem liggur til grundvallar sýn hans á stöðu nútímamannsins sem homo sacer – þess sem er útilokaður, en um leið ofurseldur valdinu - innan líföryggisríkisins, kafar ofan í tækniþróunina sem leyfir stöðugt eftirlit yfirvalda og kemst að þeirri niðurstöðu að ef ekkert er að gert séum við á leið í átt að nýrri tegund fasísks alræðis, sem sé kapítalískt í eðli sínu og sem nær ómögulegt sé að brjótast undan þegar því hefur einu sinni verið komið á. Sú staðreynd að greining hans er byggð á sósíalísku sjónarhorni fremur en hægrisinnuðu gefur henni vissulega aukið vægi; hér gæti verið kominn sá grunnur að gagnrýninni umræðu meðal vinstrisinnaðra menntamanna um atburði undanfarinna missera, sem sárlega hefur skort.

Gildi vináttunnar

Undir lok bókarinnar fjallar Elmer um forngríska vináttuhugtakið sem mögulega útgönguleið. Hjá Forngrikkjum, segir hann, var vinátta meðal borgaranna (philia) grundvallaratriði í velferð borgarríkisins (polis) og einmitt á því byggist hugmyndin um vestrænt lýðræði. Þetta vináttuhugtak er frábrugðið því sem við eigum að venjast. Við sjáum vináttu sem þá nánd sem við leitum eftir til að forðast firringuna sem stafar af stöðugri opinberun einkalífs okkar, segir Elmer. Vinátta er því aðeins til staðar í einkalífinu. En hjá Forngrikkjum voru borgararnir aðeins sameinaðir innan borgarríkisins gegnum stöðuga samræðu og rökræðu. Kjarni vináttunnar fólst í því að koma saman og ræða málefni samfélagsins, ekki aðeins í persónulegum samskiptum og samræðum um okkur sjálf við þá sem standa okkur næst, heldur í samtali sem byggir á sameiginlegum hagsmunum okkar sem þegnar og þátttakendur í samfélaginu. Að sögn Elmers er það vinátta af þessu tagi, tengslin sem myndast á milli ábyrgra virkra borgara, sem gæti og ætti að koma í stað bræðralags þeirra sem ráðist er á með þöggun, ritskoðun, innilokun og öðrum kúgunaraðferðum. Í stuttu máli, Elmer hvetur okkur til að taka alvarlega ábyrgð okkar sem samfélagsþegnar í stað þess að vera eingöngu neytendur sem láta sig stjórnmál og samfélag engu varða; að við komum að nýju saman á torginu, til að takast á um hugmyndir, þróa viðhorf okkar áfram gegnum rökræðu, en ávallt á grundvelli vináttunnar, í hinum forngríska skilningi.

Greinin birtist á https://krossgotur.is og á ensku á vef Brownstone Institute


Hnignun réttarríkisins, þöggun í Lettlandi og yfirtaka auðhringa á heilbrigðiskerfum

Krossgötur eru vefmiðill hins nýstofnaða félags Málfrelsi - samtök um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi. Í dag birtum við þrjár greinar um mikilvæg málefni sem varða okkur öll.
 
Arnar Þór Jónsson fjallar um veika stöðu réttarríkisins, sem opinberast hefur á síðustu þremur árum. Arnar segir meðal annars: "Fjöl­miðlar hafa út­varpað áróðri, ýkt hætt­una af veirunni og kæft niður um­fjöll­un um sprautuskaða, í þeim til­gangi að afla stuðnings við sótt­varnaaðgerðir. Aðgerðir þess­ar grófu und­an lýðræðis­legu stjórn­ar­fari með því að koma á fá­menn­is­stjórn þar sem hlýðni við vald­hafa yf­ir­tromp­ar sjálfræði ein­stak­lings­ins."
 
Jón Karl Stefánsson fjallar um hvernig stórfyrirtæki hafa sölsað undir sig öll völd í heilbrigðismálum gegnum svokallað "public private partnership" og hversu háðar stofnanir á borð við WHO eru nú hagsmunum slíkra fyrirtækja. Jón Karl bendir á þá sláandi staðreynd að "ójöfnuður á heimsvísu er nú sambærilegur við það sem var á hámarki nýlendutímans. Efnahagslega séð hafa heildaráhrif aðgerða vegna covid-19 verið mesti fjáraustur frá hinum fátækari til hinna ríkari sem nokkurn tímann hefur átt sér stað." Vönduð greining, studd fjölda heimilda.
 
Andri Sigurðsson skrifar um lokun sjálfstæðu sjónvarpsstöðvarinnar TV Dohzt í Lettlandi, en þessi rússneska stöð hafði flúið heimalandið vegna hafta á málfrelsi og ofsókna þar. Nú mætir hún sömu höftum í "frjálsu lýðræðissamfélagi" Lettlands. Tilefni lokunarinnar virðist tæpast í takt við viðbrögðin og samtökin Fréttamenn án landamæra hafa brugðist við og krafist þess að lettesk stjórnvöld afturkalli ákvörðun sína.
 
Frekari upplýsingar um félagið má sjá á vef þess https://krossgotur.is
Til að skrá sig í félagið má senda póst á krossgotur@proton.me

Næsta síða »

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband