Þegar fókusinn brenglast

"Nú er lífi, heilsu og afkomu almennings fórnað til að þjóna ofurþröngsýnni og bjagaðri markmiðasetningu, sem er rekin líkt og fleygur í þann flókna og viðkvæma vef sem mannlegt samfélag er."

Þann 19. ágúst var Íslandi í raun lokað fyrir ferðamönnum. Ferðaþjónusta hefur nánast stöðvast. Verslun og þjónusta verður fyrir miklum skakkaföllum. Fasteignafélög lenda í vanda. Bankarnir fá skuldirnar í fangið. Skatttekjur ríkisins hrynja. Getan til að halda uppi mennta- heilbrigðis- og velferðarþjónustu skerðist. Þúsundir missa vinnuna, enda stór hluti starfa háður ferðaþjónustu. Margir hafa hvatt til að aðgerðirnar verði endurskoðaðar. Viðbrögðin lofa ekki góðu:

Fyrir skömmu spurði smitsjúkdómalæknir einn hvort fólk sætti sig í alvöru við að einhver legðist á spítala vegna Covid-19. Um daginn sagði sóttvarnalæknir í ásökunartóni að þeir sem töluðu fyrir hófsamari aðgerðum á landamærunum skyldu þá bara svara því hver væri ásættanlegur fjöldi dauðsfalla! Forsætisráðherra mærir árangur aðgerðanna.

Samhengi atvinnuleysis og dauðsfalla

Það er löngu sannað að atvinnuleysi veldur dauðsföllum. Hjartasjúkdómar eru fyrirferðarmestir. Samkvæmt nýlegri rannsókn veldur 1% aukning atvinnuleysis 6% aukningu á dánarlíkum ári síðar. Fjöldi annarra rannsókna víða um heim sýnir slíkt samhengi.

Í annarri skimun á landamærum hefur 21 smit greinst. Því færri ferðamenn, því færri smit greinast. Og því færri ferðamenn, því færri störf. Það er kaldhæðnislegt að því betri sem „árangur“ aðgerðanna verður - færri ferðamenn og færri greind smit - því fleiri dregur atvinnuleysið til dauða fyrir hvert smit sem forðað er.

Þegar fókusinn brenglast

Enginn má leggjast á spítala vegna Covid-19. En enginn hefur misst vinnuna til að fækka í þeim 25.000 manna hópi sem árlega þarf að leggjast á spítala af öðrum orsökum. Enginn krefst allsherjar útgöngbanns til að fækka þeim 2.300 dauðsföllum sem verða af öðru en Covid-19.

Hvers vegna þetta hrópandi misræmi? Ástæðan er að fókusinn á það sem máli skiptir er horfinn. Eitthvað eitt fær skyndilega vægi úr öllum takti við tilefnið. Þetta er ekki í fyrsta sinn: Í galdrafárinu varð galdrakukl, sem miðaldakirkjan leit á sem hindurvitni og fæstir höfðu áhyggjur af, skyndilega undirrót alls ills. Orsök hungursneyðarinnar í Úkraínu á Stalínstímanum lá að stórum hluta í villukenningum Lýsenkós í erfðafræði, sem náðu flugi vegna þess að þær töldust „sósíalískar“, og sá merkimiði skipti öllu. Stundum eiga einstaklingar hlut að máli, líkt og þegar ofsatrúarmunkurinn Raspútín náði slíku tangarhaldi á rússnesku keisarafjölskyldunni að talið var ógna friði í Evrópu.

Þegar Covid faraldurinn hófst var talið að sjúkdómurinn væri langtum hættulegri en nú hefur komið í ljós, og því allt reynt til að hindra útbreiðsluna. Það mistókst, en samt var haldið áfram að reyna, með æ örvæntingarfyllri aðgerðum. Síðar kom á daginn að dánartölurnar voru miklu lægri en fyrst var álitið. Dánartíðni hérlendis er til dæmis 0,3%. En aðgerðirnar voru hafnar, ofsahræðslan búin að grípa um sig, og þá varð ekki aftur snúið.  Við sjáum áhrif rangra upplýsinga allt í kringum okkur. Á dögunum sýndi til dæmis könnun að Bretar teldu að fimm milljón manns hefðu látist úr veirunni. Rétta talan er fjörutíu þúsund.

Bjögun markmiða og mælikvarða

Um leið og fókusinn brenglast bjagast mælikvarðarnir. Stríðsfyrirsagnir um mikla fjölgun smita fara nú eins og eldur í sinu um heimsbyggðina. Í þessum fréttum er ekkert minnst á að dauðsföll standa ýmist í stað eða snarfækkar. Því áherslan er aðeins á fjölda smita og þá verða þau það eina sem máli skiptir. Ekki dauðsföllin. Og þaðan af síður afkoma, líf og heilsa almennings. Bara fjöldi smita.

Athugasemdum er ekki vel tekið þegar fókusinn hefur tapast. Nýlega setti íslenskur læknaprófessor fram hógværa gagnrýni á stefnu stjórnvalda og lagði á borðið nokkrar staðreyndir um faraldurinn. Hann fékk umsvifalaust yfir sig dembu óhróðurs. Árásirnar voru svo sjúklega ómálefnalegar að mann setti hljóðan. Í galdrafárinu var bannað að efast um tilvist galdra. Og hvernig ætli rússneska keisaraynjan hafi tekið þeim sem efuðust um visku Raspútíns?

Fleygur í samfélagsvefinn

Nú er lífi, heilsu og afkomu almennings fórnað til að þjóna ofurþröngsýnni og bjagaðri markmiðasetningu, sem er rekin líkt og fleygur í þann flókna og viðkvæma vef sem mannlegt samfélag er. Orð læknanna tveggja sem vitnað er til bera því glöggt vitni hvernig fókusinn hefur brenglast. Athugum að hér eru virtir vísindamenn að tala, ekki „virkir í athugasemdum“. Yfirlýsingar forsætisráðherra um meintan „árangur“ sýna hvernig stjórnmálamenn geta misst sjónar á ábyrgð sinni gagnvart heildarhagsmunum samfélagsins. Ekkert skiptir lengur máli nema fjöldi smita. Hið upphaflega markmið, að tryggja afkastagetu heilbrigðiskerfisins og verja um leið þá hópa sem viðkvæmastir eru, er löngu fokið út í veður og vind hérlendis.

Að endingu kemst fókusinn í samt lag. En hversu mikið verður búið að leggja í rúst áður en að því kemur? Hversu mörgum verður búið að fórna á altari brenglaðra markmiða?

(Birt í Morgunblaðinu 11. september 2020)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Jónsson

Prýðisgrein, sem vekur athygli á meingölluðu ákvarðanatökuferli um sóttvarnir í landinu.  Lengi vel hældu ráðherrar sér fyrir það að láta sóttvarnalækni ráða ferðinni.  Ég segi: slíkir ráðherrar eru á röngum stað á röngum tíma, því að þá skortir þá yfirsýn, sem ráðherrar þurfa að hafa.  Núverandi stjórnun sóttvarnarmála magnar vandamálið og færir það í fang unga fólkinu, sem senn mun bera uppi skatttekjur ríkisins.  Stjórnunin er ekki aðeins óboðleg; hún er ósiðleg.  Stefnan á að vera að lágmarka hið samfélagslega tjón.  Aðverðin til þess er þekkt og nefnist "beztun" (e. optimisation).  Stjórnvöld notast við tréhestafyrirkomulag í stað þess að færa sér í nyt líkanagerð, gagnasöfnun og reiknigetu.  Stjórnvöld hafa hingað til sýnt vanmátt sinn við að bregðast rétt við óvæntum atburðum.  Flestir vita, hvað það þýðir.  Geta þau og munu þau bæta ráð sitt ?

Bjarni Jónsson, 11.9.2020 kl. 09:55

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Takk fyrir Bjarni. Þú kemur einmitt inn á lykilatriði þarna: Þessi aðferð við ákvarðanatöku er gersamlega siðlaus. Ég er reyndar undrandi á að siðfræðingar skuli ekki gagnrýna þetta.

Þorsteinn Siglaugsson, 11.9.2020 kl. 11:10

3 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Frábær pistill hjá þér Þorsteinn.

Ég hef aldrei vitað til þess að sóttvarnarlæknir hafi verið

kosinn til að stjórna landinu. Ríkisstjórnin á bara að koma sér burt

ef þeir treysta sér ekki til þess sem þeir voru kosnir til.

Góð athugasemd frá Bjarna. Hann er með púlsinn á þessu eins og þú.

Sigurður Kristján Hjaltested, 11.9.2020 kl. 11:12

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Takk fyrir það Kristján. Mér fannst sóttvarnarlæknir nálgast málið af skynsemi fram eftir vori. Hvað kom fyrir manninn?

Þorsteinn Siglaugsson, 11.9.2020 kl. 12:07

5 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Takk fyrir pistil þinn Þorsteinn.

Það sem vekur athygli mína varðandi þennan faraldur er hversu stjórnvöld um heim allan fara svipaðar leiðir, eins og þeim sé ráðlagt eða öllu heldur stjórnað annarsstaðar frá. Ég sá að Svandís Svavarsdóttir hafði látið það út úr sér að það þyrfti að bólusetja alla heimsbyggðina. Þessi yfirlýsing SS er í takt við það sem Bill Gates er búinn að margsegja á undanförnum árum og espist nú allur upp þegar hann sér fram á að ná markmiðum sínum. En hver er tilgangur hans með að bólusetja alla heimsbyggðina ég tala nú ekki um þegar stór hluti mannkyns hefur orðið fyrir smiti af völdum umræddrar veiru??? Það er eitthvað bogið við þetta allt saman. BG kláraði aldrei háskólanám svo hann getur ekki verið vísindamaður á þeim sviðum sem kemur sóttvörnum við. Hann hefur aftur á móti lagt gífurlega fjármuni í að láta bólusetja börn í Afríku og reyndar víðar, bólusetningar sem hafa valdið miklum skaða á lífi og heilsu þeirra sem bólusettir hafa verið.

Mér sýnist það liggja meira undir en þessi svo kallaða kórónuveira og ættu menn að hafa augun vel opin og fylgjast með því sem er að gerast á tæknisviðinu, það er eitthvað þar sem nota á gegn mannkyninu að mínum dómi.

Mér dettur í hug orð úr Opinberunarbókinni þar sem segir í 6.kaflanum: 2Og ég sá, og sjá: Hvítur hestur, og sá sem á honum sat hafði boga, og honum var fengin kóróna og hann fór út sigrandi og til þess að sigra.

Hvítur er litur friður, friðsamlega. Hvítur hestur fer yfir heimsbyggðina án láta eða ofbeldis, og sá sem á honum sat hafði kórónu og hann fór út sigrandi og til að sigra. Hverja sigraði hann og hvaða kórónu hafði hann.?? getur það verið veiran?? hún hefur sigrað alla heimsbyggðina, allar þjóðir hafa beygt sig undir þessa veiru.

Tómas Ibsen Halldórsson, 11.9.2020 kl. 12:47

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég er nú frekar tregur í taumi þegar kemur að samsæriskenningum Tómas, en það er þó ekki hægt að líta framhjá því að það liggja gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir í því að ná að þróa og selja bóluefni á þessum skala. Og þar sem peningalegir hagsmunir eru, þar eru menn sem láta einskis ófreistað að verja þá.

Mér finnst það persónulega svolítið einkennilegt þegar fulltrúi eins þessara fyrirtækja, AmGen, er sá sem, í það minnsta samkvæmt bókinni hans Björns Inga, gengur á ráðherra ríkisstjórnarinnar einn af öðrum til að tryggja að þeir taki ákvörðun sem leiðir til þess að faraldrinum verði slegið á frest. Því lengur sem honum er slegið á frest, þeim mun stærri hlýtur markaðurinn fyrir bóluefni að vera, eða hvað?

Þorsteinn Siglaugsson, 11.9.2020 kl. 13:11

7 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Þú segir nokkuð Þorsteinn. Ég tel að meira liggi á bakvið en við fáum séð. En samsæriskenningar??? ég hef séð og heyrt BG tala við ýmis tækifæri þar sem hann orðar það blákalt að það þurfi að bólusetja alla heimsbyggðina, alla 7+ milljarða.

https://www.gavi.org/vaccineswork/bill-gates-vaccine-interview

Hann telur sig vera gera góða hluti, en ég og margir aðrir, fjöldi annarra, efast um það.

Tómas Ibsen Halldórsson, 11.9.2020 kl. 13:35

8 Smámynd: Sigurður Antonsson

Gott framlag í umræðuna sem er alltof einhliða. Í gær var grein í Fréttablaðinu eftir eðlisfræðinginn Gunnlaug Jónsson sem talar um að ríkisstjórnin hafi valið mest íþyngjandi kostinn af tilögum læknis. Heilbrigðisráðherrann ítrekar að hann fari eftir sóttvarnarlækni og hafi velferð borgara / kjósenda í fyrirrúmi?  Hversvegna að hengja alla ábyrgð á læknirinn þegar hún velur úr valkostum. Þú hefur sýnt í fyrri greinum hvernig alið er á smithræðslu.

Þá er góð grein eftir Vilhjálm Bjarnason um sjóðsstreymi í Mogga í dag. Hvernig skyldi það verða hjá ríkisbönkum og  ríkissjóði eftir nokkra mánuði? Fjármálastjórinn er kokhraustur og segir að nóg sé af aukagjaldeyri? Held að það hljóti að minnka óneitanlega þegar lífeyrissjóðir taka að kaupa erlend hlutabréf.

Sigurður Antonsson, 11.9.2020 kl. 15:02

9 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Takk fyrir þessa góðu grein. Hún er vel rökstudd og ætti að fá fólk til að hugsa málið ef það á annað borð kýs að gera það.

Ragnhildur Kolka, 11.9.2020 kl. 15:52

10 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Já, ég veitti grein Gunnlaugs athygli. Hún var mjög góð finnst mér. Og Villi er gjarna fundvís á meginatriðin enda hefur hann getu til að sjá heildarmynd hlutanna. Ég varð dálítið áhyggjufullur þegar ég sá ummæli Seðlabankastjóra um að gengið væri of lágt, því rök hans fyrir því lágu í því hvernig viðskiptajöfnuðurinn væri núna. En gengi á markaði ræðst ekki af því, heldur af hinu hverju markaðurinn á von á. Og það verður ekkert sérstaklega jákvæður viðskiptajöfnuður sem er framundan, er ég hræddur um.

Það ber allt að sama brunni: Handgerð kreppa er að hvolfa þjóðarskútunni. Og í þetta sinn verður það fátækasta fólkið og unga fólkið sem verður verst úti. Það eru til tvær tegundir af stjórnmálamönnum, alvöru stjórnmálamenn og leikfangastjórnmálamenn. Því miður eru þeir 90% íslenskra stjórnmálamanna. Leikfangastjórnmálamenn hafa enga heildarsýn og þeir hafa ekkert siðferði. Auglýsingaherferðir eru þeirra ær og kýr. Ábyrgð er mesta eitrið í beinum þeirra.

Þorsteinn Siglaugsson, 11.9.2020 kl. 15:57

11 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Takk Ragnhildur. Nú þurfa allir að leggjast á árarnar áður en það fer verr en illa.

Þorsteinn Siglaugsson, 11.9.2020 kl. 15:58

12 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir að deila vel skrifaðri og þarfri Morgunnblaðsgrein Þorsteinn.

Tek heilshugar undir með þér að heildarhagsmunir hafa verið látnir víkja fyrir fári.

Þekki því miður allt of marga persónulega sem eru í frjálsu falli með sitt vegna aðgerðanna við heimsfaraldinum. 

Það  virðist vera að þessi heimsfaraldur hafi sömu áhrif allstaðar, þess vegna eru greinar eins og þín nauðsynlegar til að rétta fókusinn áður en ver fer.

Leifi mér að benda hér á skrif eins bloggara fyrir vestan haf: 

https://www.wakingtimes.com/2020/09/10/our-system-is-crumbling-right-in-front-of-our-eyes/

Magnús Sigurðsson, 12.9.2020 kl. 07:15

13 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þetta er frábær grein Magnús. Takk fyrir að benda á hana.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.9.2020 kl. 10:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband