Færsluflokkur: Menning og listir

Fegurðin kostar

Taj Mahal er svo sannarlega stórfengleg bygging og dregur að fleiri ferðamenn en flestar slíkar. En fátæktin í Agra, þar sem Taj Mahal stendur, er hræðileg og líkt og að koma margar aldir aftur í tímann þegar ekið er inn í borgina, uxakerrur í stað vörubíla, hálfnakin vannærð börn á götunum, líkin hirt upp af götunni og borin burt á börum. Sláandi þegar komið er frá líflegum borgum Gujarat og Rajasthan.

Því þótt lúxushótelin blómstri hafa aðgerðir til að vernda Taj Mahal fyrir áhrifum mengunar orðið til þess að drepa niður aldagamlan iðnað í Agra og nágrenni, sagði mér barþjónn í Dehli í hittifyrra. Það er því ekki víst að trúardeilur einar valdi ósætti um Taj Mahal.

En sjálfum þótti mér reyndar Akshardham hofið í Nýju-Dehli miklu mikilfenglegra en Taj Mahal. Þetta stærsta hindúahof Indlands var reist á aðeins fimm árum og í leiðinni var hin gamla og deyjandi iðn steinsmiðanna endurreist þegar sex þúsund manns hlutu þjálfun í iðninni vegna byggingarinnar um síðustu aldamót.

Screen Shot 2017-10-30 at 23.40.24


mbl.is Vilja afmá Taj Mahal úr sögu Indlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Múli og Þorsteinn Ö. - og Perse

Mikið óskaplega er Ríkissjónvarpið leiðinlegt.

Nú er til dæmis verið að sýna afgamla ameríska dans og söngvamynd, líklega í tíunda sinn. Viðmiðið í kvikmyndavalinu er að öllum líkindum að höfundarrétturinn sé útrunninn þegar um bíómyndir er að ræða. Valið á heimildamyndum snýst svo um að efnið sé eins óáhugavert og hugsast getur, kvikmyndatakan þannig að helst líti út fyrir að tökumaðurinn sé drukkinn eða þaðan af verra, þulnum leiðist og leikstjórinn hafi ekki einu sinni leitt hugann að þeirri fjarstæðu að reyna að afla sér höfundarréttar á ósköpunum. Og myndirnar sænskar.

Samt held ég tryggð við þetta - hef þ.e. aldrei látið mér detta í hug að kaupa áskrift að annarri sjónvarpsstöð. Er líklega hollvinur RÚV. Þó ekki þannig að ég hafi gengið í Hollvinasamtökin sem hafa það opinbera markmið að æsa sig ef einhver komminn er rekinn, en líklega það leynilega markmið að vekja upp Jón Múla og Þorstein Ö. frá dauðum og hafa í útvarpinu, líka þótt það takist ekki alveg að vekja þá upp. Banna litasjónvarpið. Svarthvíta líka. Útvarpa svo bara á langbylgju. Tvo tíma á dag. Fréttir. Og karlakórar.

----

Annars er kannski bara ágætt að það sé leiðinlegt í sjónvarpinu.

Meðan dansmyndin kláraðist tókst mér að minnsta kosti að byrja að kynna mér einkar frumlega greiningu Carol Rigolot á Anabase eftir Saint-John Perse, en hún hefur komist að því að líklega sé Perse í kvæðinu í og með að hæðast að hugmyndum Platóns og Sókratesar um hið fullkomna ríki (enda pirraður á Platóni eins og flestir með viti). Í ríki Platóns er enginn óþarfur, en í ríki Perse er pláss fyrir bæði "þann sem hugleiðir líkama kvenna" og hinn "sem hefur ferðast og dreymir um að fara aftur".

----

(titillinn er tilraun til að sannprófa þá kenningu Sæmundar Bjarnasonar að fleiri lesi bloggið ef mannanöfn eru í titlinum (en kannski eru svosem allir búnir að gleyma jónimúla og þorsteiniö))


Til hamingju

Frábært fyrir Dill og fyrir Ísland að komast á kortið hjá Michelin. Það kemur reyndar ekki á óvart því Dill hefur um árabil verið frábær veitingastaður með gríðarlegan metnað.

Svo tek ég eftir því að veitingahúsið Matur og drykkur á Grandagarðinum er með Bib Gourmand merkingu hjá Michelin, en hún er notuð fyrir staði sem matgæðingum Michelin þykir bjóða mikil gæði á góðu verði.

Kröfur Michelin eru mjög miklar. Um þriggja stjörnu veitingastaði, en þeir eru færri en 200 talsins í heiminum, segir til dæmis: "Hér fær maður ávallt mjög góðan mat, stundum frábæran". Bara stundum!

 


mbl.is Uppbókað næstu tvo mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Roð, fiskar, færi og net

Halldór Blöndal fjallar um nýju biblíuþýðinguna í ágætum pistli í Mogga um helgina. Sýnir hann fram á að máltilfinningu þýðingarnefndar virðist eitthvað ábótavant og tekur sem dæmi orðalagið að „leggja net til fiskjar“.

Þessu svarar sr. Sigurður Pálsson í blaðinu í gær. Virðist hann misskilja gagnrýni Halldórs og halda að þeim síðarnefnda finnist annkannalegt að tala um netalögn. Það er bersýnilega ekki svo:

Menn róa til fiskjar. Svo renna þeir fyrir fisk og kannski kemur fiskur aðvífandi og bítur á. Menn leggja net. En þeir leggja þau ekki til fiskanna heldur fyrir þá. Alveg eins og þeir renna færinu fyrir fiskana en ekki til þeirra. Alveg eins og við leitum einhverju, en ekki af því.

Að skrifa texta er á margan hátt eins og að leggja net. En það net er ekki lagt fyrir fiska heldur orð. Netið er máltilfinning höfundarins. Hún fæst bara með því að lesa góðar bækur og hlusta á fólk sem hefur góða máltilfinningu. Ef netið er vel riðið raðast orðin í það fagurlega. En ekki ef það er gisið og götótt.

Eins og Halldór Blöndal bendir réttilega á er margt ankannalegt í orðfæri nýju biblíuþýðingarinnar. Netið er feyskið og textinn því eins og bögglað roð fyrir brjósti lesandans. Slíkt gerist stundum þegar nefndir skrifa.

Halldór hvetur Biblíufélagið til að prenta nýtt upplag af eldri útgáfu Biblíunnar. Ég tek undir það. Biblíufélagið á ekki að bjóða lesendum upp á ruður heldur fallegan afla veiddan með haglega gerðu neti.


Sóley bjargar sér frá heiminum!

Ég rakst áðan á nýja færslu Sóleyjar Tómasdóttur þar sem hún veltir því upp hvað Reykjavíkurborg geti gert til að menn hætti að lemja konurnar sínar. Það stendur víst fyrir dyrum feminísk ráðstefna um þetta.

Mín fyrsta hugsun var auðvitað sú að heimsækja Sóleyju og hrekkja hana smá með sniðugum hugmyndum. En viti menn, þá er hún búin að loka á athugasemdir á síðunni sinni!

Nú hef ég eiginlega alltaf litið þannig á að hluti þess að standa í þessu bloggbrölti sé að skapa umræður, sem oft verða skemmtilegar og vitrænar rökræður úr. Ég tók til dæmis þátt í mjög upplífgandi umræðum um trú og trúleysi á síðunni hans Hlyns Hallssonar fyrir örskömmu síðan og held að við öll sem þar komum að höfum gengið frá þeirri samdrykkju nokkurs vísari og með betri skilning hvert á annars viðhorfum. Hluti af þessu er svo auðvitað að alls konar apakettir geta líka slæðst inn á athugasemdasíðuna. Þá tekur maður því bara eins og maður (nú eða kona auðvitað!), hvort sem maður kýs að grínast í þeim eða leiða þá einfaldlega bara hjá sér.

Mér finnst sumsé frekar tilgangslítið að halda úti svona síðu en loka á athugasemdir og benda fólki bara á að panta tíma ef það langar að skiptast á skoðunum við mann. En þetta er kannski ný nálgun í samræðustjórnmálum hjá Sóleyju.


Rosalega fyndið leikrit?

Ég las fyrst Hamskiptin eftir Kafka 16 eða 17 ára minnir mig. Það á við sjálfan mig eins og væntanlega fleiri, að mér finnst ég aldrei hafa skilið til fulls hvað höfundurinn er að fara, svo margræð er þessi saga, rétt eins og flest verk höfundarins önnur. Það var því með talsverðri eftirvæntingu sem ég fór um daginn að sjá uppfærslu Þjóðleikhússins, enda hafði hún fengið góða dóma, bæði hér og í London.

Fyrir þá sem ekki þekkja söguna fjallar hún um eftirleik þess að skrifstofumaðurinn Gregor Samsa vaknar upp og hefur þá breyst í tröllaukna bjöllu. Smátt og smátt rofna tengslin milli Gregors og fjölskyldu hans og lýkur sögunni á dauða Gregors.

"Þetta var rosalega fyndið leikrit!" heyrði ég manneskju sem sat fyrir framan okkur segja við sessunaut sinn þegar sýningunni var lokið. Það kom mér ekki á óvart, enda hafði viðkomandi persóna og sessunautar hennar, ásamt fáeinum öðrum takmörkuðum hópum í salnum, legið í nær stöðugu hláturskasti alla sýninguna. Ekki virtist þurfa mikið til að vekja kátínuna - ankannaleg eða ýkt hreyfing, ruddalegt orðaval eða eitthvað þess háttar dugði til.

Ég verð að viðurkenna að ég átti ekki auðvelt með að sjá eitthvað sérstaklega fyndið í Hamskiptunum. Að vísu fannst mér leikurinn á stundum helst til ýktur, jafnvel farsakenndur, sem ekki hjálpaði til við að koma andrúmslofti verksins til skila. En dóminn "rosalega fyndið leikrit" verð ég að viðurkenna að ég skil alls ekki.

Á undanförnum árum hafa alls konar farsar tröllriðið leikhúslífi hér á landi. Getur verið að talsverður hluti leikhúsgesta gangi orðið út frá því að leikrit séu alltaf farsar og þess vegna sé allt í þeim fyndið? Ég velti því fyrir mér hvort það sé raunin, því þetta er ekki eina dæmið sem ég hef upplifað, og fleiri sem ég hef borið þetta undir taka undir það. Og gæti jafnvel verið að leikstjórar séu farnir að gera út á þetta einkennilega viðhorf til að þóknast áhorfendum? Eða er þetta einfaldara? Á bara að láta fólk taka greindarpróf fyrst ef það ætlar að kaupa leikhúsmiða?


Frábær hugmynd!

Þetta er snjöll hugmynd hjá Alþjóðahúsi.

Í fyrsta lagi eru svona barmmerki líkleg til að fá fólk til að hugsa út í það hvernig við komum fram við útlendinga.

Í öðru lagi gæti ég vel trúað því að þau yrðu til þess að almenningur legði sig fram um að hjálpa erlendum starfsmönnum að læra málið.

Það að hafa tækifæri til að tala erlent mál við heimamenn er líklega besta leiðin til að læra það almennilega. Ég kynntist því eitt sinn sjálfur þegar ég dvaldi í hálfan mánuð í Frakklandi. Við leigðum hús úti í sveit í Provence og húsinu "fylgdi" mikill ágætis húsvörður. Hann kom í heimsókn á tveggja til þriggja daga fresti til að athuga hvort allt væri í lagi. Þær heimsóknir tóku gjarna dáldinn tíma og þá var sest niður yfir kaffibolla og spjallað. Húsvörðurinn góði kunni lítið í ensku en var þeim mun ötulli að tala frönsku við okkur hjónin, bæði hægt og skýrt. Ég held að ég hafi lært meiri frönsku á þessum heimsóknum en öllu frönskunáminu í menntaskóla.


mbl.is 300.000 íslenskukennarar virkjaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóleyismi - köllum alla hluti réttum nöfnum!

Ég hef verið að velta því fyrir mér, í framhaldi af alræmdu þingmáli Steinunnar V. Óskarsdóttur út af ráðherrum, hvort ekki sé víðar pottur brotinn í nafngiftum.

Helstu rök Steinunnar fyrir því að konur eigi ekki að kalla ráðherra eru þau að það sé ankannalegt að kalla konur herra. Undir þetta sjónarmið hafa margir tekið, þótt einhverjir afturhaldsseggir hafi reynt að flytja fyrir því rök að orðið ráðherra þýði allt annað en titillinn herra. En það er vitanlega bara vegna þess að þeir eru afturhaldsseggir og karlmenn með karlmiðaðar skoðanir. Það sér nú hver m... einstaklingur!

Nú vill svo til að margir hlutir bera nöfn sem hljóma ankannalega. Þar á ég ekki aðeins við starfsheiti fólks heldur líka, og ekki síður, dýr og plöntur. Það getur heldur tæpast verið einhver endapunktur í jafnréttisbaráttu að nema staðar við jafnrétti meðal mannfólksins. Náttúran á vitanlega sinn rétt líka. Dýrin eiga sinn rétt og blómin og ekki má brjóta á þeim.

"Sóley" hefur hingað til þótt gott og gilt heiti á blómi einu sem fólk ber raunar misjákvæðar tilfinningar til. Sóleyjar eru einhver algengustu blóm landsins, ásamt fíflum raunar, sem hafa þann skemmtilega kost að skipta um kyn á gamals aldri og eru svo kallaðir biðukollur fram í andlátið. Það sýnir auðvitað á kaldhæðnislegan hátt hvernig karllæg viðhorf í samfélaginu smita út frá sér: Það sem er í blóma lífsins er karlkyns, en verður kvenkyns þegar það drepst!

En fíflar voru nú ekki tilefni þessa pistils heldur sóleyjar. Við sjáum nefnilega, þegar rýnt er í nafnið sóley, að það er samsett heiti, rétt eins og "ráðherra". Sól-ey. Sól og ey. Og þá veltir maður fyrir sér, í anda þingkonunnar mætu, hvort hér sé ekki eitthvað óeðlilegt á ferðinni. Er ekki einkennilegt að kalla blóm ey? Eyjar tilheyra ekki einu sinni jurtaríkinu. Ég held reyndar, að í þessari nafngift hins ágæta blóms megi greina viðhorf af svipuðum toga og það karllæga viðhorf að konur megi vel kalla herra. Ég kýs að kalla það, í þessu samhengi, "landlægt" viðhorf. Landlægt viðhorf er þegar landfræðileg hugtök smita út frá sér yfir á alls óskylda hluti, svo sem plöntur og dýr. Hvað sóleyjarnar varðar er augljóst hvað átt hefur sér stað. Og það kemur enn betur í ljós þegar litið er á fyrri hluta nafnsins, sól. Á þetta blóm eitthvað sameiginlegt með sólinni, eitthvað frekar en með eyju. Svona lúmsk er landlægni orðræðunnar nú orðin!

Ég legg því til að blóminu sóley verði fundið annað og betur viðeigandi nafn og lýsi eftir tillögum þar um. Heitin þurfa að sjálfsögðu að vera í anda róttæks sóleyisma og verður enginn fífla-gangur liðinn þar!


Jafnrétti í orði kveðnu - Ojbjakk!

Get eiginlega ekki sleppt því að bæta aðeins við færslu mína um þetta mál frá því áðan:

Þetta þingmál ber fyrst og fremst vott um hversu fjarri veruleikanum sjálfum fólk getur verið og hversu aukaatriðin geta orðið mikilsverð þegar það hendir. Að mörgu leyti minnir þetta á málflutning margra af hægri væng stjórnmálanna, sem ég vil kenna við "frjálshyggju aukaatriðanna". Frjálshyggja aukaatriðanna er sú pólitík að álykta í sífellu um mál á borð við lögleiðingu eiturlyfja, sölu ríkisútvarpsins, niðurlagningu Sinfóníuhljómsveitarinnar eða annað þess háttar, en láta nægja að gjóa blinda auganu svona í áttina þegar ríkið veður í enn einar stórframkvæmdirnar á kostnað skattgreiðenda, í skjóli blekkinga og af fullkomnu ábyrgðarleysi. Frjálshyggja aukaatriðanna fer í taugarnar á mér vegna þess að hún ber vott um óábyrga forgangsröðun. Raunverulegt frelsi lifandi fólks er aukaatriði, en það sem öllu skiptir er að láta á sér bera.

Umrætt þingmál um hvað skuli kalla ráðherra er upprunnið af hinum væng stjórnmálanna en undir nákvæmlega sömu sök selt. Um það má raunar segja meira: Það á það sammerkt með áherslunni á "málfar beggja kynja" í nýju biblíuþýðingunni, að það snýr alls ekki að veruleikanum sjálfum. Þetta er ekki þingmál sem hefur að markmiði að breyta einu eða neinu í jafnréttismálum. Hér eru það aðeins orðin sem skipta máli. Ekki aðeins orð heldur titlar. Og ekki einu sinni titlar venjulegs fólks heldur aðeins virðingartitlar! Og hvað svo með jafnrétti venjulegra kvenna? Þær eiga kannski bara að éta kökur ef þær eiga ekkert brauð!

Ojbjakk!

Þetta mál ber vott um ákaflega einkennilega forgangsröðun. Tæpast er hægt að segja að Alþingi sé skammtaður of drjúgur tími til að ræða mál sem varða raunverulega hagsmuni lifandi fólks, raunveruleg efnahagsmál eða raunveruleg jafnréttismál. Og þá leggur stjórnarþingmaður fram mál sem líklegt er til að kalla á endalaust þvarg og tímaeyðslu í þingsölum. Og til hvers? Ekki til að efla alvöru jafnrétti. Því markmiðið með svona máli snýr alls ekki að jafnrétti. Það snýr að jafnrétti í orði kveðnu!


Af því að páfinn sagði það

Þetta eru greinilega alvarlegar athugasemdir sem þarna hafa verið settar fram. Slíkri gagnrýni er hvorki nægjanlegt að svara með skætingi né vísan til menntunar þeirra sem gerðu ætluð mistök. Miðað við umræðuna undanfarið virðast hins vegar aðstandendur þýðingarinnar yfirleitt bregðast við gagnrýni á þann hátt.

Það er verulega slæmt mál ef þýðingin er svo illa unnin að virtir fræðimenn á sviði málfræði og textafræði sjái ástæðu til að gera við hana alvarlegar athugasemdir. Maður fékk á tilfinninguna þegar þessi þýðing kom út að allt væri reynt að gera til að hamla umræðu um hana og þagga niður í gagnrýnisröddum. Greinilegt að PR vinnan var vel unnin. En sé verkið gallað kemur það auðvitað í ljós á endanum.

Ég minnist þess að áður en þýðingin kom út hafði einhver gagnrýni ratað á síður blaðanna og var því meðal annars haldið fram að ekki hefði farið fram nægjanlega ítarleg umræða meðal fræðimanna til að hægt væri að segja að verkið væri tilbúið. Aðstandendur brugðust alltaf ókvæða við slíkum ábendingum og virtust taka alla gagnrýni mjög persónulega.

Í þetta verk er búið að eyða áralangri vinnu fjölda fólks og væntanlega ótöldum milljónatugum. Það er verulega alvarlegt mál ef ekki hefur tekist almennilega til.


mbl.is „Hvað heldurðu að við höfum verið að gera?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 287867

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband