"Woke" - Hugmyndafræði í þjónustu alræðis?

Bræðralagið sem myndast meðal kúgaðra og ofsóttra varir aldrei, segir breski sagn- og listfræðingurinn Simon Elmer í nýrri bók sinni, „The Road to Fascism – For a Critique of the Global Biosecurity State“, (London 2022). Hann vitnar í heimspekinginn Hönnu Arendt: „Mennska hinna forsmáðu og sködduðu hefur aldrei enn lifað af stund frelsunarinnar í svo mikið sem eina mínútu. Þetta þýðir ekki að hún sé ómerkileg, því í raun gerir húnforsmán og sköddun þolanlega; en þetta þýðir að í pólitísku tilliti skiptir hún engu máli“ (231). Það sem verður að koma í stað bræðralagsins nú, segir Elmer, þegar verstu kúgunaraðgerðir Covid tímabilsins hafa hjaðnað, að minnsta kosti tímabundið, er vinátta; en þó ekki í þeim skilningi sem við nútímamenn leggjum í hana.

Elmer fullyrðir að vestræn samfélög stefni nú hratt í átt að fasísku alræði, þróun sem fjórða iðnbyltingin geri mögulega og sé drifin áfram af auðhringum og skrifræðisvaldi. Eftir fall Sovétríkjanna höfum við orðið ómeðvituð um hætturnar af alræði sem á sér uppruna hægra megin við miðju; barnalegt frjálslyndi undanfarinna áratuga hafi blindað okkur gagnvart þessari hættu. Elmer tekur undir viðvörun Hayeks í Leiðinni til ánauðar, um að hættulegasta tegund fasisma sé sá sem knúinn er áfram af yfirþjóðlegu tækniræði sem gæti„auðveldlega beitt mestu harðstjórn og ábyrgðarlausu valdi sem hægt er að hugsa sér ... Og þar sem það er varla neitt til, sem ekki er hægt að réttlæta með „tæknilegri nauðsyn“ sem enginn utanaðkomandi gæti í raun efast um – eða jafnvel með mannúðarrökum varðandi þarfir einhvers sérlega illa stadds hóps sem ekki væri hægt að hjálpa á annan hátt – þá er lítill möguleiki á að stjórna því valdi “ (143). Og höfum í huga að hér íhugar Hayek ekki einu sinni möguleikann á því nána samstarfi milli alþjóðlegs tækniræðis og einokunarauðvalds sem við sjáum á okkar tímum.

Ekkert sósíalískt við "woke"

Elmer fullyrðir að stuðningur vinstri manna við tilskipanir og reglur líföryggisríkisins byggist ekki á eðlislægri forræðishyggju þeirra eins og hægrimenn telja gjarna, heldur mun fremur á því að þeir hafi „smitast af hugmyndum af meiði nýfrjálslyndis, um pólitíska rétthugsun, sjálfsmyndarstjórnmál og nú síðast réttrúnað „woke“ hugmyndafræðinnar.“ (147). Elmer bendir réttilega á hvernig þöggun, slaufunarmenning, kvenfyrirlitning ... lögreglueftirlit með orðum og skoðunum fólks“ eigi sér alls ekki rætur í lýðfrelsisstefnu, stéttabaráttu eða jafnaðarhugsjón“; það sé í raun ekkert sósíalískt við þessi einkenni hinnar nýju alræðishyggju.

Þetta virðist í beinni andstöðu við það algenga viðhorf, að minnsta kosti meðal hægrimanna, að „woke“ hugmyndafræðin sé vinstri sinnuð í grunninn, og sé afleiðing þeirra ítaka sem sósíalistar hafi náð í vestrænum samfélögum gegnum áróður og yfirtöku grunnstofnana, í samræmi við kenningu Dusche (og Gramscii) um „hina löngu göngu gegnum stofnanirnar“.

Hver er þá rökstuðningur Elmers hér?

Elmer vitnar í einkunnarorð nasista „Kraft durch Freude“ (styrkur í gegnum gleði), og bendir á hvernig það sé„draumurinn um einingu þjóðarinnar, minningin um fallnar hetjur“ sem liggi að baki fasistakveðjunni, að bakiauðfúsri undirgefni við leiðtogann, og það sé á kitsinu sem fagurfræði alræðishyggjunnar byggi.

Á þetta hafa raunar fleiri bent: Samkvæmt listfræðingnum Monicu Kjellman-Chapin er algengt að kitsinu, vélrænni list sem auðvelt er að neyta og vekur væmnar tilfinningar, sé beitt af alræðisstjórnum sem tæki til stjórnunar og innrætingar.“ Í Óbærilegum léttleika tilverunnar (Reykjavík, 1986) segir Milan Kundera:

Kitsið kreistir fram tvö tár. Fyrra tárið segir: En hvað það er fallegt að sjá krakka hlaupa um grasflöt!

Seinna tárið segir: En hvað það er fallegt að klökkna eins og allt mannkynið við að sjá krakka hlaupa um grasflöt!

Einungis síðara tárið veldur því að kitsið er kits.

Bræðralag mannanna getur aldrei grundvallast á öðru en kitsi.“

„Woke“, segir Elmer, er jafngildi kitsins. Að „taka hnéð“, klappa fyrir heilbrigðisstarfsfólki, fylgja órökréttum tilskipunum, „í þágu heildarinnar“, eða eins og er líklega algengara, aðeins til að sýnast, er í eðli sínu það sama og að klökkna eins og allt mannkynið við að sjá krakka hlaupa um grasflöt. Og þessi samstaða, sem á endanum er fölsk samstaða, er líka drifkrafturinn þegar múgurinn snýst gegn þeim sem ekki hlýða, gegn óbólusettum, gegn þeim sem neita að „taka hnéð“, gegn þeim sem hafa hugrekki til að rugla og vekja efasemdir um hina viðteknu skoðun, til dæmis þegar svartur maður klæðist stuttermabol með slagorðinu „White lives matter“. Því í eðli sínu snýst „woke“, rétt eins og kitsið, um útilokun; þeir grimmustu eru gjarnavæmnastir allra.

Ofurróttæk afstæðishyggja

„Woke“ hugmyndafræðin sem látið er líta út fyrir að snúist um menningarlegt andóf hinna jaðarsettu og kúguðu er nú orðin opinber hugmyndafræði líföryggisríkisins, sem á grunni hennar réttlætir stöðugt eftirlit, ritskoðun og æ öflugri stýringu ríkisvaldsins á líffræðilegri tilveru okkar, segir Elmer. „Woke“ er þegar Justin Trudeau „tekur hnéð“ í mótmælum Black Lives Matter í Ottawa árið 2020 og úthúðar svo, tveimur árum síðar, þeim sem andmæla gerræðistilburðum hans, kallar þá þjófa, ofstækismenn, kynþáttahatara og gyðingahatara, kallar viðhorf þeirra óásættanleg, sakar þingmenn sem andmæla fasískri hegðun hans um að standa með hakakrossinum, og lætur loka bankareikningum þeirra sem styðja baráttuna gegn löglausu ofbeldi hans og krefjast þess að lög og stjórnarskrá séu virt. „Engin önnur hreyfing, síðan fasisminn var og hét, hefur lagt sig eins í framkróka um að skapa grundvöll fyrir lagalegar og pólitískar breytingar til að styðja við kapítalisma í dauðateygjunum“ segir Elmer (117).

Elmer bendir á hvernig mótmæli sem voru í samræmi við „woke“ hugmyndafræðina voru ekki aðeins liðin heldur litið á með velþóknun meðan samfélagið var drepið í dróma sóttvarnaraðgerða, en þeir sem mótmæltu lokunum og höftum til að verja lífsviðurværi sitt voru hundeltir, sektaðir eða fangelsaðir. Ástæðan fyrir þessu er sú, segir Elmer, að yfirvöldum stafar engin ógn af „woke“; það snýst einungis um um réttrúnað, umburðarleysi og helgisiði, það er andbyltingarsinnað, en „sér markaðinn sem eina mögulega farveg breytinga“ (120), og síðast en ekki síst skapar það tækifæri til að framfylgja og þróa enn frekar takmarkanir á málfrelsi og persónufrelsi, lykilskref á leiðinni til fasismans. „ ... Í stuttu máli, með því að auðvelda kapítalismanum að skapa alræði líföryggisríkisins  – er „woke“ ekki frjálslynt, og það er sannarlega ekki sósíalískt: „Woke“ er fasískt.“(121)

Eitt af lykileinkennum „woke“ hugmyndafræðinnar er algjört óþol gagnvart rökræðu, gagnvart röklegri hugsun, og við sjáum sömu tilhneigingu í þeim fjarstæðum, aftengingu við veruleikann og mótsagnakenndu viðhorfum sem breiðst hafa út í tengslum við kórónafaraldurinn. Fyrir þá sem aðhyllast „woke“ er það eina sem skiptir máli þeirra eigin persónulega upplifun, einkareynslan. En í heimi þar sem öll merking er einkaleg getur engin merking verið til; einkamál er ómögulegt, segir Wittgenstein, því höfundur þess getur ekki skilið það sjálfur. Í almennari skilningi gætum við litið á skilgreiningu Hönnu Arendt á almennri skynsemi sem sameiginlegri skynjun okkar á heiminum, og hvernig þessi sameiginlega skynjun grundvallast á sameiginlegu tungumáli, sameiginlegum sögum og sameiginlegri aðferð til að hugsa; án þessara grundvallarþátta er samfélagið í raun ekki lengur til.

Einangrun einstaklingsins er forsenda alræðisins

Eins og Elmer bendir á, og aðrir, þar á meðal Arendt, hafa bent á áður, er einangrun einstaklingsins ein af lykilforsendum þess að hægt sé að koma á og viðhalda alræði. Þetta skildi Stalín vel þegar hann lét leysa upp öll félög og klúbba; jafnvel skákfélög voru ekki undanskilin, því til að koma á sönnu alræði verður að einangra fólk frá hvort öðru, hindra að það myndi félagsleg tengsl. Höfnun „woke“ hugmyndafræðinnar á öllu öðru en einkareynslunni er því afar mikilvægur hornsteinn hins nýja fasisma sem Elmer óttast að sé handan við hornið. En það eru ekki aðeins hin sýnilegu ummerki einangrunarinnar, svo sem skilyrðislaus hlýðni við grímuskyldu og innilokun sem leggja þennan grundvöll, heldur ekki síður sú einangrun sem grundvallast á afneitun á sameiginlegri skynjun, sem er bein afleiðing róttækrar afstæðishyggju sem tekur ekkert sem gilt nema einstaklingsbundna huglæga reynslu. Og þar sem samfélagsbreytingar knúnar áfram af fólkinu, byltingarkenndar eða ekki, byggjast á möguleikanum til að koma saman, ræða hugmyndir og skipuleggja aðgerðir, sjáum við hversu eyðileggjandi slík hugmyndafræði er fyrir alla slíka viðleitni, jafnt á vinstri og hægri væng stjórnmálanna; hún ógnar öllu raunverulegu stjórnmálastarfi. Og það segir sig sjálft, að í samfélagi sem hafnar öllu öðru en einkareynslu - ef við getum einu sinni kallað það samfélag – getur engin löggjöf haldið velli, og þar með engin mannréttindi.

Umfjöllun Elmers um „woke“-hugmyndafræðina er miðlæg í gagnrýni hans, en um leið aðeins hluti víðfeðmrar greiningar hans á fasismanum, grundvelli hans og ummerkjum um yfirvofandi endurvakningu hans. Hann rekur greiningu Umberto Eco á einkennum hins „eilífa“ fasisma, fjallar á gagnrýninn hátt um skilgreiningu Hayeks á fasisma, fjallar um og skýrir flókinn hugmyndaramma Giorgio Agamben sem liggur til grundvallar sýn hans á stöðu nútímamannsins sem homo sacer – þess sem er útilokaður, en um leið ofurseldur valdinu - innan líföryggisríkisins, kafar ofan í tækniþróunina sem leyfir stöðugt eftirlit yfirvalda og kemst að þeirri niðurstöðu að ef ekkert er að gert séum við á leið í átt að nýrri tegund fasísks alræðis, sem sé kapítalískt í eðli sínu og sem nær ómögulegt sé að brjótast undan þegar því hefur einu sinni verið komið á. Sú staðreynd að greining hans er byggð á sósíalísku sjónarhorni fremur en hægrisinnuðu gefur henni vissulega aukið vægi; hér gæti verið kominn sá grunnur að gagnrýninni umræðu meðal vinstrisinnaðra menntamanna um atburði undanfarinna missera, sem sárlega hefur skort.

Gildi vináttunnar

Undir lok bókarinnar fjallar Elmer um forngríska vináttuhugtakið sem mögulega útgönguleið. Hjá Forngrikkjum, segir hann, var vinátta meðal borgaranna (philia) grundvallaratriði í velferð borgarríkisins (polis) og einmitt á því byggist hugmyndin um vestrænt lýðræði. Þetta vináttuhugtak er frábrugðið því sem við eigum að venjast. Við sjáum vináttu sem þá nánd sem við leitum eftir til að forðast firringuna sem stafar af stöðugri opinberun einkalífs okkar, segir Elmer. Vinátta er því aðeins til staðar í einkalífinu. En hjá Forngrikkjum voru borgararnir aðeins sameinaðir innan borgarríkisins gegnum stöðuga samræðu og rökræðu. Kjarni vináttunnar fólst í því að koma saman og ræða málefni samfélagsins, ekki aðeins í persónulegum samskiptum og samræðum um okkur sjálf við þá sem standa okkur næst, heldur í samtali sem byggir á sameiginlegum hagsmunum okkar sem þegnar og þátttakendur í samfélaginu. Að sögn Elmers er það vinátta af þessu tagi, tengslin sem myndast á milli ábyrgra virkra borgara, sem gæti og ætti að koma í stað bræðralags þeirra sem ráðist er á með þöggun, ritskoðun, innilokun og öðrum kúgunaraðferðum. Í stuttu máli, Elmer hvetur okkur til að taka alvarlega ábyrgð okkar sem samfélagsþegnar í stað þess að vera eingöngu neytendur sem láta sig stjórnmál og samfélag engu varða; að við komum að nýju saman á torginu, til að takast á um hugmyndir, þróa viðhorf okkar áfram gegnum rökræðu, en ávallt á grundvelli vináttunnar, í hinum forngríska skilningi.

Greinin birtist á https://krossgotur.is og á ensku á vef Brownstone Institute


Hnignun réttarríkisins, þöggun í Lettlandi og yfirtaka auðhringa á heilbrigðiskerfum

Krossgötur eru vefmiðill hins nýstofnaða félags Málfrelsi - samtök um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi. Í dag birtum við þrjár greinar um mikilvæg málefni sem varða okkur öll.
 
Arnar Þór Jónsson fjallar um veika stöðu réttarríkisins, sem opinberast hefur á síðustu þremur árum. Arnar segir meðal annars: "Fjöl­miðlar hafa út­varpað áróðri, ýkt hætt­una af veirunni og kæft niður um­fjöll­un um sprautuskaða, í þeim til­gangi að afla stuðnings við sótt­varnaaðgerðir. Aðgerðir þess­ar grófu und­an lýðræðis­legu stjórn­ar­fari með því að koma á fá­menn­is­stjórn þar sem hlýðni við vald­hafa yf­ir­tromp­ar sjálfræði ein­stak­lings­ins."
 
Jón Karl Stefánsson fjallar um hvernig stórfyrirtæki hafa sölsað undir sig öll völd í heilbrigðismálum gegnum svokallað "public private partnership" og hversu háðar stofnanir á borð við WHO eru nú hagsmunum slíkra fyrirtækja. Jón Karl bendir á þá sláandi staðreynd að "ójöfnuður á heimsvísu er nú sambærilegur við það sem var á hámarki nýlendutímans. Efnahagslega séð hafa heildaráhrif aðgerða vegna covid-19 verið mesti fjáraustur frá hinum fátækari til hinna ríkari sem nokkurn tímann hefur átt sér stað." Vönduð greining, studd fjölda heimilda.
 
Andri Sigurðsson skrifar um lokun sjálfstæðu sjónvarpsstöðvarinnar TV Dohzt í Lettlandi, en þessi rússneska stöð hafði flúið heimalandið vegna hafta á málfrelsi og ofsókna þar. Nú mætir hún sömu höftum í "frjálsu lýðræðissamfélagi" Lettlands. Tilefni lokunarinnar virðist tæpast í takt við viðbrögðin og samtökin Fréttamenn án landamæra hafa brugðist við og krafist þess að lettesk stjórnvöld afturkalli ákvörðun sína.
 
Frekari upplýsingar um félagið má sjá á vef þess https://krossgotur.is
Til að skrá sig í félagið má senda póst á krossgotur@proton.me

Við megum aldrei gleyma

Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum hafa höft og lokanir vegna kórónaveirunnar þegar valdið dauða hundruða þúsunda barna í þriðja heiminum. Röskun vegna lokana skóla hefur grafalvarlegar afleiðingar fyrir börn. Og eins og rannsóknir hafa þegar sýnt, höfðu þessar aðgerðir engin teljandi áhrif á dauðsföll af völdum Covid-19, en eiga eflaust stóran þátt í aukningu umframdauðsfalla af öðrum orsökum. Nú, þegar tilraunir til að hægja á eða stöðva útbreiðslu veirunnar, annað hvort með lokunum eða bólusetningu, hafa mistekist, og hún er orðin landlæg, er kominn tími til að halda áfram. En það er ekki kominn tími til að gleyma. Því ef við gleymum er hætta á að við endurtökum þessa skelfilegu tilraun.

Í stuttu máli er staðan þessi: Upplýsingar um árangursleysi og alvarlegar afleiðingar sóttvarnaraðgerða koma hægt og rólega fram. Sífellt meiri upplýsingar um hamfarirnar af völdum þeirra eru að koma upp á yfirborðið, jafnvel teknar að birtast í meginstraumsmiðlum. Fólk er farið að finna efnahagslegu afleiðingarnar á eigin skinni og tilraunir til að hengja þær allar á stríðið í Úkraínu eru dæmdar til að mistakast. Jafnvel þótt meirihluti hinna bólusettu kunni enn að halda fast í þá trú sína að bólusetningin hafi komið þeim að gagni, þá er gagnsleysi efnanna og vísbendingar um umframdánartíðni af þeirra völdum í raun of augljóst til að hægt sé að neita því. Og nú kemur jafnvel í ljós að upprunalegu fullyrðingarnar um virkni voru byggðar á fölsun gagna.

Á sama tíma hafa flestir gerst virkir þátttakendur í að ýta undir orðræðuna um gagnsemi lokana og bólusetninga. Þeir hafa endurtekið möntrurnar svo oft að þeir eru sjálfir orðnir hagaðilar; orðræðan er einnig þeirra, sem þýðir að það er erfitt að skipta um skoðun. Það er erfitt að viðurkenna að maður hafi verið blekktur, sérstaklega þegar maður hefur sjálfur tekið virkan þátt í að blekkja aðra. Og ef maður hefur gengið hart fram í að útskúfa óbólusettum vinum og ættingjum sér maður kannski enga leið til baka.

Flestir trúa enn hinni opinberu frásögn, telja þá sem efast um bóluefnin brjálaða „bólusetningarandstæðinga“ og trúin á gagnsemi lokananna grundvallast á mjög sterkri innsæisvillu sem erfitt er að komast undan. Að viðurkenna að það sem maður hefur stutt af heilum hug valdi ekki aðeins eymd og dauða um allan heim, en skaði einnig manns eigin börn fyrir lífstíð er líklega of erfitt fyrir flesta. Því loka þeir augunum.

Varnaðarorð áður en lengra er haldið: Nánast strax í upphafi áttaði ég mig á því að það var eitthvað gruggugt við frásögnina sem haldið var að okkur; það var svo mikið misræmi á milli staðreyndanna og frásagnarinnar. Reyndar hafði ég einbeitt mér að beitingu gagnrýninnar, röklegrar hugsunar í aðdragandanum, og gaf út bók um efnið rétt áður en heimsfaraldurinn skall á. Gagnrýnin hugsun var mér því ofarlega í huga á þessum tíma. Í megindráttum hafa spár mínar reynst réttar, hvort sem þær snúa að afleiðingum sóttvarnaraðgerða, árangursleysi bólusetninganna, gagnsleysi grímunotkunar og hafta til að hindra smit. En það að hafa rétt fyrir sér um eitt atriði þýðir ekki að maður hafi endilega rétt fyrir þér um önnur, og það að ég tilheyri litlum minnihlutahópi með sterkar skoðanir gæti vel spillt greiningu minni og spám.

En hvað sem því líður er mat mitt nú þetta: Ég tel að við séum að nálgast tímamót. Staðreyndirnar tala sínu máli og staðreyndir hafa þann pirrandi vana að koma á daginn; á endanum gera þær það alltaf. Við erum enn á stigi afneitunarinnar, við höldum okkur enn við rangar skoðanir okkar, við erum enn ekki fær um að skilja afleiðingar þess sem okkur var gert; sem við gerðum okkur sjálf, kannski með því að verða fjöldadáleiðslu að bráð eins og sálfræðingurinn Mattias Desmet hefur getið sér til um. En þetta stig getur ekki varað lengi; þetta er lognið á undan storminum.

Fæst gerum við okkur grein fyrir að stormurinn er að skella á. En þau sem spyrja spurninga og geta hugsað skýrt og gagnrýnið, þau sem sjá hvernig lokanir og hindranir, ásamt áður óþekktri peningaprentun hafa leitt af sér verðbólgu, truflanir í aðfangakeðjum og vöruskort, þau okkar sem botna jafnvel svolítið í sálfræði og átta sig á þeim hrikalegu afleiðingum sem lokanir skóla, grímunotkun og einangrun hefur haft á börnin okkar, þau sem hafa lesið skýrslurnar um vaxandi hungur og umframdauðsföll af völdum einangrunar og truflana í heilbrigðisþjónustunni, þau sem geta lesið og skilið læknisfræðilegar rannsóknir og skilið gögnin um virkni bóluefnanna og skýrslur um aukaverkanir af þeirra völdum, þau sjá vísbendingarnar og geta á grunni þeirra horft fram á veginn og spáð fyrir um hvert við stefnum.

Margar af langtímaafleiðingunum munu koma hægt fram. Versnandi menntun barna, sálrænn skaði; þetta opinberast hægt og orsakasambandið er flestum kannski ekki ljóst. Hungur og dauðsföll í löndum þriðja heimsins verða hunsuð á hinum velmegandi Vesturlöndum eins og venjulega, þó ekki í þeim löndum sem verða fyrir áhrifunum. Skaðinn af bólusetningarherferðunum verður sýnilegri eftir því sem tíminn líður, sérstaklega ef svartsýnustu spár um áhrifin á heilsu fólks ganga eftir. En það er hinn efnahagslegi veruleiki sem við stöndum frammi fyrir sem verður háværasta vakningin. Aukin verðbólga rýrir efnahagsstöðu fólks hratt. Margir munu missa heimili sín, lífskjör munu versna, þeir fátækustu munu svelta.

Á Íslandi, eftir fjármálahrunið 2008, þegar gengi krónunnar féll um helming og allir bankar landsins fóru á hausinn, misstu þúsundir heimili sín og atvinnuleysi stórjókst. Snemma árs 2009 urðu víðtæk mótmæli til þess að hrekja lýðræðislega kjörna ríkisstjórn frá völdum. Almenningur snerist gegn hinum áhættusæknu bankamönnum, sem allir dáðust að nokkrum mánuðum áður, í blindri trú á óbilandi hugvitssemi íslenskra fjármála- og viðskiptamanna; og auðvitað gegn stjórnmálamönnum fyrir að hafa ekki séð óveðursskýin sem voru á lofti.

Hverju verður kennt um að þessu sinni? Verður það bara Pútín? Það er ólíklegt, að minnsta kosti mun sú skýring ekki duga lengi; fólk mun leita sökudólganna í eigin nágrenni. Bandaríkjamenn, Kínverjar, Afríkubúar, Indverjar, sem margir hverjir hafa varla heyrt um Úkraínu og sjá Evrópu sem lítilvægan og hrörnandi heimshluta, hversu líklegt er að þeir kenna fjarlægum stríðsherra um, þegar þeirra eigin stjórnmálamenn hafa ekki aðeins ekki svikið loforð sín heldur logið að þeim líka í stórum stíl?

Efnahagslegar afleiðingar munu þvinga fólk til efasemda um annað sem frá stjórnvöldum kemur. Þegar fólk hefur áttað sig á því hvað veldur verðbólgu og gengisfellingu lífeyrisins, tekur það að efast um bólusetningarnar, þó ekki væri nema vegna aukins fjölda dauðsfalla og skaðlegra áhrifa sem margir upplifa. Og þegar maður hefur fundið einhvern til að kenna um eitt fylgir annað gjarna á eftir, sérstaklega ef hann hefur ekki verið alveg heiðarlegur. Þú ákvaðst að trúa þeim, jafnvel þótt þig grunaði að það sem þeir sögðu væri ekki satt; þú valdir að líta framhjá því, en núna; núna hafa þeir gert mér þetta, ég er að missa heimili mitt, ég get ekki fætt fjölskylduna, ég glími enn við langvarandi aukaverkanir síðan ég var bólusett, dóttir mín hefur verið þunglynd síðan skólunum var lokað og það fer bara versnandi; hvað ég var vitlaus að trúa þessum ræflum! Svona mun hlutunum vinda fram. Vendipunkturinn verður efnahagsáfallið. Hitt fylgir í kjölfarið.

En hvað svo? Margir af lykilmönnunum á bakvið hamfarirnar eru þegar teknir að fjarlægja sig frá fyrri áróðri sínum. Nokkrir, eins og hinn breski Mark Woolhouse virðast jafnvel sjá eftir gjörðum sínum. En þeir verða fleiri sem einskis iðrast. Fyrr á árinu sagði íslenski sóttvarnalæknirinn í viðtali að sóttvarnaraðgerðir hér hefðu ekki verið nógu strangar. Og hann sakaði þá fáu stjórnmálamenn sem létu í ljós efasemdir og höfðu áhyggjur af velferð samfélagsins í heild, um að grafa undan samstöðunni á bak við aðgerðirnar. Eins og hann væri keisarinn, stjórnmálamennirnir aðeins þjónar hans. Og hann er ekki einn um þetta. Margt af þessu fólki mun halda áfram að ýta undir frásögnina þó hún molni í kringum það. Þetta fólk verður fyrstu skotmörk reiði almennings. Svo verða það stjórnmálamenn, lyfjafyrirtæki, fjölmiðlar og tæknirisar.

Að sjálfsögðu verður barist á móti af hörku. Allra leiða verður leitað til að blekkja, þagga og afvegaleiða þegar frásögnin byrjar að molna; allt gert til að fela ósannindin og skaðann. Þrýstingur á áframhaldandi grímunotkun, endurnýjaðar lokunaraðgerðir og bólusetningaskírteini mun halda áfram um stund. Og við megum ekki gleyma því að hér eru miklir hagsmunir í húfi; fyrir vissar mjög stórar atvinnugreinar eru samfélagslokanir og einangrun guðsgjöf; mannleg samskipti eru ógn við hagsmuni þeirra. Ritskoðunin verður aukin enn frekar. En þrátt fyrir öll völdin, peningana og tæknina munu staðreyndirnar koma í ljós, sannleikurinn sigrar á endanum. Hann gerir það alltaf.

Sumir gætu sagt að ég sé of bjartsýnn, að við séum nú þegar undir stjórn samsærisafla fjölmiðla, tæknirisa og spilltra embættismanna, það sé engin leið til baka. En er það virkilega svo? Ekki er langt síðan tilraun Bandaríkjanna til að framselja fordæmalaus völd til WHO var afstýrt, sem aðallega má þakka afrískum leiðtogum og hörðum mótmælum almennings. Bólusetningapassarnir eru að hverfa og hvað mun að lokum verða úr þeim áætlunum sem enn eru til um slíkt er óljóst. En auðvitað er hættan enn fyrir hendi.

En það sem raunverulega skiptir máli er hvernig við bregðumst við þegar frásögnin molnar. Ætlum við bara að yppta öxlum og halda áfram daglegu lífi okkar, án tillits til ógnarinnar sem steðjar að frelsi okkar og mennsku? Eða munum við horfast í augu við afleiðingar þess að við höfum ekki hugsað gagnrýnið, afleiðingar trúgirni okkar og skorts á siðferðilegum heilindum, eins og þýska þjóðin neyddist til að gera eftir síðari heimsstyrjöldina, eins og Íslendingar þurftu að gera eftir árið 2008? Munum við að draga þá sem bera ábyrgðina fyrir dómstóla? Munum við læra, enn og aftur á erfiðan hátt, hvernig það eina sem getur komið í veg fyrir slíkar hörmungar í framtíðinni er að axla ábyrgð sem hugsandi einstaklingar sem efast? Og munum við loksins skilja mikilvægi þeirrar niðurstöðu Hönnu Arendt í Uppruna alræðishyggjunnar, að hversu gallað sem það kann að vera, þá er það aðeins fullvalda þjóðríki frjálsra manna, stjórnað af kjörnum fulltrúum sem taka ábyrgð sína alvarlega; eins og Færeyingar gerðu meðan faraldurinn stóð yfir; en ekki embættismenn sem enginn hefur kosið, yfirþjóðleg samtök eða risafyrirtæki; að einungis þjóðríkið er raunverulega fært um að standa vörð um almenn mannréttindi?

Við verðum að halda áfram. Við verðum að endurreisa samfélög okkar, endurreisa siðferðileg gildi okkar og réttindi, endurreisa traust á vísindum og traust milli fólks. En til að halda áfram í raun og veru verðum við fyrst að horfast í augu við, skilja og bregðast við rótum hörmunganna og taka fulla ábyrgð á því hlutverki sem hvert og eitt okkar gegndi. Þess vegna megum við ekki gleyma. Við megum aldrei gleyma.

Greinin birtist fyrst á ensku á vef Brownstone Institute í júní, 2022 og á íslensku á krossgötur.is í nóvember.


Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Des. 2022
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 287344

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband