Tjáningarfrelsið stendur á krossgötum

Félagasamtökin Málfrelsi – samtök um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi, voru stofnuð af litlum en samheldnum hópi fólks sem ég tel nú meðal bestu vina minna. Við kynntumst í gegnum baráttu gegn þöggun og ritskoðun gagnvart þeim sem hafa lýst efasemdum um réttmæti margra þeirra aðgerða sem var gripið til á síðustu þremur árum. Þetta ástand opnaði augu okkar fyrir þeirri þröngu stöðu sem persónulegt frelsi og tjáningarfrelsi er komið í á Vesturlöndum og um allan heim.

Í þágu upplýstrar umræðu

Laugardaginn 7. janúar stóðum við fyrir ráðstefnu undir yfirskriftinni„Í þágu upplýstrar umræðu“. Frummælendur voru Toby Young, formaður Free Speech Union, Ögmundur Jónasson, fyrrum innanríkisráðherra og Svala Magnea Ásdísardóttir, blaðamaður og fjölmiðlafræðingur. Svala sté með stuttum fyrirvara inn í stað Kristins Hrafnssonar ritstjóra Wikileaks sem forfallaðist vegna veikinda. Við í stjórn Málfrelsis erum afar þakklát öllum sem að þessum viðburði komu og ekki síst félagsmönnum, en þeirra góði stuðningur er forsenda þess að hægt sé að halda viðburð sem þennan. Ráðstefnan var afar vel sótt og viðtökurnar sýna og sanna að þörf er á því starfi sem félagið stendur fyrir. Við erum þegar byrjuð að leiða hugann að næsta viðburði.

Frummælendur fjölluðu um tjáningar- og raunar persónufrelsi frá ýmsum og ólíkum sjónarhornum. Rauði þráðurinn í erindum þeirra var hvernig tjáningarfrelsið er í sífellt þrengri stöðu og hvernig tækni og valdasamþjöppun þrengir að upplýsingagjöf og frjálsum skoðanaskiptum.

Hér má horfa á upptöku af fundinum.

Víglínan hefur færst til

Hugtakið tjáningarfrelsi verðum við í dag að skilgreina víðar en áður hefur verið þörf á. Í dag snýst það ekki aðeins um að fólk sé ekki fangelsað fyrir skoðanir sínar. Það snýst ekki síður, og kannski enn frekar um að það sem við segjum sé ekki þaggað niður. Um leið snýst það um að aðgangur okkar að upplýsingum sé ekki hindraður, á tímum þar sem umræða hefur í yfirgnæfandi mæli flust yfir á netið, og netinu er að mestu stjórnað af stórfyrirtækjum sem njóta náttúrlegrar einokunar, og beita sér, í samvinnu við ríkisstjórnir og leyniþjónustur til að stýra því hvað við megum sjá og hvað ekki.

Víglínan hefur því færst til. Við þurfum að gera okkur fulla grein fyrir því. Og án frjálsra skoðanaskipta og upplýsingastreymis getur ekkert lýðræði þrifist, og þau eru forsenda alls annars frelsis. Frjálst lýðræðissamfélag er í húfi, flóknara er málið ekki.

Að undanförnum þremur árum liðnum er uppgjör óumflýjanlegt. Uppgjör gagnvart stjórnvöldum sem hafa látið heildarhagsmuni lönd og leið, gagnvart vísindamönnum sem hafa brugðist hlutverki sínu, gagnvart stórfyrirtækjum sem hafa lagt hönd á plóg til að þagga niður í frjálsum skoðanaskiptum og svipta okkur mannhelginni.

Við erum öll ábyrg

Við megum þó ekki gleyma því að á endanum erum við ábyrg, öll sem eitt. Við getum ekki látið okkur nægja að vera neytendur og láta okkur samfélagið í léttu rúmi liggja. Við verðum að vera samfélagsþegnar, verðum að standa vörð um frelsi okkar og réttindi og taka þátt í að móta samfélagið. Sú barátta á sér engan endapunkt. Henni linnir aldrei.

Við stöndum á krossgötum. Við getum valið hinn breiða veg hlýðninnar, í skiptum fyrir þau fallvöltu þægindi sem felast í því að láta hugsa fyrir okkur. Eða við getum valið hinn þrönga veg, látið eigin stundarhagsmuni og þægindi víkja fyrir baráttunni fyrir réttinum til að tjá okkur, réttinum til að hugsa, til að efast. Ég hvet alla sem láta sér annt um frelsi og lýðræði til að taka þátt í þeirri baráttu með okkur. Við þurfum á öllum stuðningi að halda, í hvaða formi sem hann er. Þessi barátta er erfið, og það er margt sem bendir til að hún eigi eftir að harðna. Við munum þurfa að færa fórnir. En uppgjöf er ekki í boði, því það sem er í húfi er framtíð sem er manninum samboðin. Og fyrir henni verðum við að berjast af fórnfýsi, af hugrekki, af heilindum, en umfram allt í bróðerni.

 

Birt á Vísi, 11. janúar 2023


Hugsun og efi, eða hræðsla og hlýðni?

Endurbirti hér grein mína í Morgunblaðinu í gær, en hún var skrifuð í tilefni af fundi Málfrelsis - samtaka um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi. Upptöku frá fundinum ma sjá hér.

 

Grunnur vestræns samfélags nútímans er ákvörðunarvald hins hugsandi einstakling sem efast, segir Milan Kundera í frægri grein, sem birtist í bókmenntatímaritinu Granta hið táknræna ár 1984. Nú, tæpum 40 árum síðar er margt sem bendir til að hugsun og efi eigi mjög undir högg að sækja, og ákvörðunarvaldið liggi í æ ríkari mæli hjá risafyrirtækjum og leyniþjónustum, sem ákveða hvað má segja og hvað ekki, hvaða upplýsingar almenningur má sjá, og útiloka frá umræðunni hvern þann sem leyfir sér að efast um hina opinberu línu.

Blaðamenn sem fengið hafa aðgang að skjalasafni Twitter staðfesta það sem marga hafði lengi grunað, að starfsmenn fyrirtækisins, stundum í samráði við stjórnvöld, hafa um langa hríð staðið fyrir gríðarlega umfangsmikilli ritskoðun og þöggun. Þannig var vísindamönnum sem gagnrýndu ýmsar aðgerðir stjórnvalda á síðustu þremur árum haldið í skugganum og þess gætt að sem fæstir sæju skrif þeirra, sumum var jafnvel hent út af miðlinum.

Önnur samfélagsmiðlafyrirtæki hafa hegðað sér með svipuðum hætti, og eru gögn um það smám saman að koma upp á yfirborðið í málaferlum gegn þeim og bandarískum stjórnvöldum. Almennir fjölmiðlar hafa einnig lotið stífri ritskoðun allan þennan tíma og þar leika þaulskipulögð samtök ritskoðunarfyrirtækja, svonefndra „fact-checkers“, meginhlutverk.

Mál Assange prófsteinn á tjáningarfrelsi blaðamanna

Ritskoðun og þöggun af hálfu stjórnvalda einskorðast þó ekki við veirutíma. Hinn hugrakki ástralski blaðamaður Julian Assange hefur nú setið í fangelsi í þrjú ár, og þar áður í sjálfskipaðri útlegð í sendiráði Ekvador í Lundúnum, og beðið niðurstöðu í framsalsmáli Bandaríkjastjórnar gegn honum. Glæpur Assange var sá að nýta sér tjáningarfrelsið; að birta gögn sem honum bárust um stríðsglæpi Bandaríkjastjórnar í Afganistan og Írak.

Nú líður að ögurstund í máli Assange, en ritstjóri Wikileaks, Kristinn Hrafnsson, lauk nýverið afar árangursríkri ferð um suðurhluta Ameríku til að afla málstað hans fylgis. Þrátt fyrir þau sterku tengsl sem Ísland hefur við þetta málefni hefur verið einkennilega hljótt um þetta mikilvæga verkefni Kristins í íslenskum fjölmiðlum, og er hann þó fyrrum fréttamaður Ríkisútvarpsins hér.

Málefni stríðshrjáðra minnihlutahópa sæta gjarna mikilli þöggun og ritskoðun, sér í lagi þegar tilvera þeirra og krafa um að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur ógna hagsmunum stórvelda og stórfyrirtækja.

Hugrekkið til að segja satt

Sjálfur hef ég kynnst þessu umhverfi ritskoðunar og þöggunar afar vel á síðastliðnum misserum gegnum störf mín með gagnrýnum miðlum erlendis, og hef ég jafnframt kynnst fjölda fræði- og vísindamanna sem orðið hafa fyrir atlögum vegna skoðana sinna. Sumir hafa verið ataðir auri, aðrir misst störf sín. Sök þeirra er að hugsa og efast og segja sannleikann, þótt hann komi illa við suma. Hugrekki þessa fólks og þeirra sem fært hafa fórnir til að veita því rödd er svo sannarlega aðdáunarvert.

Félagið Málfrelsi – samtök um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi, var stofnað til að vekja almenning til vitundar um þær hættur sem steðja nú að tjáningarfrelsinu og þar með að frjálsu lýðræðissamfélagi. Í dag kl. 14 stendur Málfrelsi fyrir ráðstefnu í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, þar sem meðal annars verður fjallað um þau málefni sem tæpt er á hér að ofan. Frummælendur verða Toby Young, formaður Free Speech Union, Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks og Ögmundur Jónasson fyrrum innanríkisráðherra. Upplýsingar um streymi frá ráðstefnunni má sjá á vef félagsins, krossgotur.is.

Við stöndum á krossgötum

Sé grunnur samfélags okkar, þess frelsis og lýðræðis sem við viljum búa við, ákvörðunarvald hins hugsandi einstakling sem efast, líkt og Kundera sagði á sínum tíma, þá er erfitt að álykta annað en að þetta samfélag sé nú í verulegri hættu. Það er ekki síst áhyggjuefni hversu algengt það viðhorf er orðið að sjálfsagt sé að þagga niður í þeim sem hafa skoðanir sem manni sjálfum líkar ekki við. Þetta viðhorf grundvallast á hættulegu skeytingarleysi gagnvart tjáningarfrelsinu, og það vekur óneitanlega furðu hversu algengt það er orðið meðal fjölmiðlafólks. Þar heggur sá er hlífa skyldi, en áttar sig ekki á að höggið mun á endanum slæmast í hann sjálfan; raunveruleg blaðamennska þrífst ekki í umhverfi ritskoðunar og þöggunar.

Við stöndum á krossgötum. Við getum valið hinn breiða veg hlýðninnar, í skiptum fyrir þau fallvöltu þægindi sem felast í því að láta hugsa fyrir okkur. Eða við getum valið hinn þrönga veg, látið eigin stundarhagsmuni og þægindi víkja fyrir baráttunni fyrir réttinum til að tjá okkur, réttinum til að hugsa, til að efast, til að móta í sameiningu framtíð sem er manninum samboðin. Ég hvet alla sem láta sér annt um frelsi og lýðræði til að taka þátt í þeirri baráttu með okkur.


Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Jan. 2023
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband