17.3.2010 | 11:56
Sandkassahagfræði
Það er auðvitað gott að vextir skuli nú lækkaðir. En sú röksemd að lækkun sé möguleg vegna þess að gengið hafi hækkað er ósköp einfaldlega fáránleg:
Gjaldeyrishöft valda því að engin alvöru viðskipti með krónur eiga sér nú stað. Gengi krónunnar endurspeglar því ekki framboð og eftirspurn eftir krónum - nema þá þau sem eiga sér stað í sandkassanum stóra við Arnarhól. Því veit enginn hvað krónan kostar í alvörunni. Og hvernig á að hafa verðlag á einhverju sem enginn veit hvað kostar til viðmiðunar um nokkurn skapaðan hlut?
Fram hefur komið að sandkassamenn hafa keypt sér krónur fyrir 15 milljarða. Ekki er ólíklegt að gengishækkunin svonefnda skýrist að mestu af því.
Vaxtalækkunin á sér vitanlega aðeins eina skýringu: Pólitískan þrýsting.
Röksemd bankans er svipuð þessu:
1. Ef það kólnar inni er skynsamlegt að hækka á ofninum.
2. Ég opna gluggann.
3. Það kólnar inni og ég hækka á ofninum.
![]() |
Lækka vegna gengishækkunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.3.2010 | 09:17
Hver borgar?
Rök félagsmálaráðherra fyrir niðurfærslu bílalána eru að eðlilegt sé að lánið sé í samræmi við eignina. Nú eru bílar hins vegar með þeim ósköpum gerðir að þeir verða verðlausir með tímanum. 100% bílalán verða því yfirleitt á endanum hærri en nemur andvirði bílsins hvað sem gengisbreytingum og verðbólgu líður. Bílalán eru því í rauninni neyslulán en ekki fjárfestingalán. Því er viss hugsunarvilla í því fólgin að eitthvert samhengi eigi að vera milli verðmætis bíls og láns, jafnvel þótt bíllinn sé settur sem trygging fyrir láninu. Ef fara á þessa leið með bíla, ætti þá ekki líka að gera húsgagnaverslunum að færa niður raðgreiðslulán af dýrum sófasettum til samræmis við verðmæti þeirra?
Þetta var um forsendurnar að baki. Spurningin sem snýr að skattgreiðendum er hins vegar hver á að greiða fyrir niðurfærsluna. Það er bersýnilegt að ef sett verða lög sem skerða eignir fjármögnunarfyrirtækjanna afturvirkt eiga þau skaðabótarétt á hendur ríkinu. Það liggur því eiginlega í hlutarins eðli að það verða skattgreiðendur sem borga. Þannig mun verkakonan sem kaus að nurla saman fyrir notuðum bíl í stað þess að skuldsetja sig fyrir nýjum greiða afborganirnar fyrir hálaunamanninn sem keypti tíu milljóna jeppa. Hversu réttlátt er það?
![]() |
Lán dýrra bíla afskrifuð mest |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.3.2010 | 09:38
... með atvinnubótaverkefni á herðum sér
Tvennt öðru fremur hamlar nú uppbyggingu heilbrigðs atvinnulífs hér á landi. Hið fyrra eru gjaldeyrishöft. Gjaldeyrishöft valda því annars vegar að erlendir fjárfestar eiga erfitt með að koma fjármagni inn í íslenskt atvinnulíf og enn erfiðara með að ná hagnaði til baka. Hins vegar valda þau því að enginn veit í raun hvað íslenski gjaldmiðillinn kostar. Fáir eru tilbúnir að kaupa vöru sem þeir vita ekki hvað kostar þá á endanum.
Hin hindrunin liggur ekki í lögum eða reglum heldur í því úrelta viðhorfi að eina leiðin til efnahagslegrar uppbyggingar sé að ríkið hafi forgöngu um hana. Þetta viðhorf virðist ríkjandi meðal flestra forsvarsmanna atvinnulífsins og einnig meðal allt of margra stjórnmálamanna. Það vekur sérstaka athygli að þessi stefna, sem á sínum tíma varð banabiti kommúnistaríkjanna í austri, virðist oft eiga mestan hljómgrunn meðal þeirra stjórnmálamanna sem í orði kenna sig við hægristefnu.
Hugmynd þessara formælenda ríkisrekins atvinnulífs er að forsenda uppbyggingar hljóti annað hvort að vera sú að ríkið taki lán til að fjármagna framkvæmdir sem einkaaðilar myndu aldrei leggja fé sitt í og eru því líklega ekki arðbærar, eða þá að ríkið noti skattfé almennings og annarra fyrirtækja til að niðurgreiða starfsemi nýrra erlendra fjárfesta.
Fólk sem búið er að sannfæra um það, með gegndarlausum áróðri árum saman, að eina von atvinnulífsins felist í síauknum ríkisafskiptum, er ólíklegt til að framkvæma neitt sjálft. Það bíður bara og á meðan gerist auðvitað ekkert. Nú, þegar kreppir tímabundið að, eiga svo hinar hugmyndafræðilegu hræætur sínar bestu stundir til þessa, enda nærist stjórnlyndið ávallt á óttanum við hið óþekkta.
Ef málsvarar frelsis í efnahagsmálum gera athugasemdir við eitthvert ríkisverkefnið krefja forsjárhyggjumennirnir þá umsvifalaust svara um hvað þeir vilji eiginlega að ríkið geri í staðinn. Það að láta fólkið og fyrirtækin um málið kemur nefnilega ekki til greina. Sporgöngumönnum kommúnista er fyrirmunað að skilja að efnahagslíf byggir ekki á fimm ára áætlunum heldur á framtakssemi og drifkrafti einstaklinganna sjálfra. Þeim er fyrirmunað að skilja að hlutverk ríkisins er ekki að reka atvinnufyrirtækin eða heimta skatt af sumum þeirra til að hygla öðrum. Þeir fá ekki skilið að það er ekki hlutverk ríkisins að búa til vinnu handa fólki heldur einungis að veita því þá grunnþjónustu sem samkomulag er um að veita skuli og skapa því sem best skilyrði til að byggja upp sjálft.
-----------------------------
Ég vona svo sannarlega að gjaldeyrishöftin verði afnumin sem allra fyrst svo atvinnulíf geti tekið að blómstra hér að nýju. En ég vona líka að þorri íslenskra fyrirtækja hætti sem fyrst að láta háværa hagsmunaaðila draga sig á asnaeyrunum í endalausri baráttu fyrir þjóðnýtingu atvinnulífsins, eigrandi á mjóum fótleggjum í humátt á eftir vofu kommúnismans - með atvinnubótaverkefni á herðum sér.
![]() |
Þolinmæðin er á þrotum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.3.2010 | 09:31
Ríkið er hinn nýi útrásarvíkingur
Það kemur ekki á óvart að lífeyrissjóðir hafi tapað á fjárfestingum sínum. Þeim hefur til langs tíma ekki tekist sérlega vel upp við að græða á fjárfestingum. Því er mikilvægt að forðast að líta á þetta tiltekna tap sem einangrað fyrirbæri; það er líklega miklu frekar afleiðing af slakri stjórnun og spillingu innan sjóðanna almennt.
Nú hafa margir komist að þeirri niðurstöðu að frjálst efnahagslíf sé liðin tíð en þess í stað sé nú runninn upp tími ríkisrekstrar á sem flestum sviðum. Þingmenn og hagsmunaaðilar hamast nú í sífellu á stjórnvöldum að "gera eitthvað" til að "efla atvinnulífið" eins og það er kallað.
Með öðrum orðum er verið að kalla eftir atvinnubótavinnu í ríkum mæli.
Í grófum dráttum virðist svo hugmyndin vera sú að vegna þess að ríkinu er til allrar hamingju óheimilt að taka frekari lán til framkvæmda verði fé lífeyrissjóðanna sett í þær. Ríkið er því hinn nýi útrásarvíkingur og nú skulu lífeyrissjóðirnir fjárfesta í framkvæmdum hans.
Hver verður arður eigenda lífeyrissjóðanna af starfsemi sem snýst um það eitt að "gera eitthvað" til að "efla atvinnulífið"? Hverjar eru arðsemiskröfurnar til slíkrar starfsemi? Felast þær aðallega í reiknaðri "þjóðhagslegri arðsemi", sem til þessa hefur gjarna aðallega snúist um að tvítelja afrakstur hingað og þangað? Hver reiknar kröfuna út? Hvernig stenst hún markaðskröfu?
Mig grunar því miður að arður lífeyrissjóðanna af atvinnubótavinnunni verði í það minnsta minni en arðurinn af fjárfestingum í fyrirtækjum útrásarvíkinganna. Líklegast er að hann verði minni en enginn. Því er rétt að búa sig undir talsverða skerðingu lífeyrisréttinda í framtíðinni.
![]() |
Töpuðu hundruðum milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.3.2010 | 09:43
INSEAD er ekki í Barcelona
Það er ánægjulegt að Ísland lendi ofarlega á fleiri listum en skammarverðlaunalistum. Veitir ekki af.
Í fréttinni hér er hins vegar að finna nýsköpun af öðru tagi: INSEAD viðskiptaháskólinn er nefnilega ekki í Barcelona heldur í Fontainebleau í Frakklandi.
![]() |
Ísland fremst í nýsköpun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.2.2010 | 16:17
Betur heima setið ...
... en af stað farið hefði nú einhver sagt: Hér er stór hluti launa einfaldlega falinn sem yfirvinnugreiðslur.
Það segir sig auðvitað sjálft að ríkisfyrirtækin keppa í mörgum tilfellum við einkafyrirtæki um hæfa stjórnendur. Því er ekki hægt að borga þeim hvað sem er.
Hefði ekki verið skynsamlegra að sleppa einfaldlega þessum kjánalegu yfirlýsingum um að stjórnendur hjá ríkinu ættu að lækka í launum í stað þess að standa í svona skrípaleik? þetta verður til þess eins að skaða trúverðugleika forsætisráðherra því það sýnir svart á hvítu að ekkert er að marka yfirlýsingar hennar - sama hversu ábúðarfull hún er á svip þegar hún lætur þær frá sér fara.
![]() |
Laun 22 forstjóra lækkuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.2.2010 | 16:17
Og hvað með það?
Ekki hef ég hugmynd um hver Margrét þessi er. Og ekki fæ ég séð að einhverjar tölvuraunir þessarar manneskju komi mér eða öðrum nokkurn skapaðan hlut við.
En þessi frétt er sú fjórða mest lesna á mbl.is í dag. Gaman að fólk skuli hafa aðalatriðin á hreinu!
![]() |
Margréti Erlu hent út af Fésbók |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.2.2010 | 16:28
Og hvað með það?
Eru Alþingismenn virkilega að sóa tíma sínum og annarra í vangaveltur um hvað eitthvert fólk fái í kaup?
Fyrst Eygló Harðardóttur þingmanni finnst þetta svona mikilvægt liggur beinast við að spyrja hvað hún fái sjálf greitt frá skattgreiðendum og hvað hún geri í vinnutímanum.
Í alvöru talað, er ekki kominn tími til að hætta svona rugli?
![]() |
Anne Sibert með 2.000 pund í laun á mánuði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.2.2010 | 20:38
Skiptir ekki máli hvort vextir eru fastir eða breytilegir
Ef tilboðið snýst einungis um að vextir verði breytilegir en ekki fastir ætti það í sjálfu sér ekki að hafa nein áhrif á kjörin sem slík. Fastir vextir grundvallast á væntingum um þróun breytilegra vaxta. Almenna samhengið er að núvirði láns á föstum vöxtum sé jafnt núvirði láns á breytilegum vöxtum að öðru óbreyttu. Til skamms tíma má vera að nokkuð tryggt sé að breytilegir vextir verði lágir. Lánið er hins vegar til langs tíma og því erfitt að sjá að neinn ávinningur sé af því að breyta vaxtaákvæði með þessum hætti.
![]() |
Erfitt að meta nýtt tilboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.2.2010 | 12:01
Dýr atvinnubótavinna?
Tvennt stendur upp úr í þessari frétt:
1. Á þessu ári verður framkvæmt fyrir 600-800 milljónir króna. Svo segir: "Takist samningar um orkusölu..." verður haldið áfram með framkvæmdina. Það veit sumsé enginn hvort orkan muni seljast.
2. Uppsett afl virkjunarinnar er 80 MW. Til samanburðar er Kárahnjúkavirkjun 690 MW. Á sínum tíma var áætlaður kostnaður við Kárahnjúkavirkjun 100 milljarðar eða 1,45 milljarðar á MW. Áætlaður kostnaður við Búðarhálsvirkjun er 26,5 milljarðar og kostnaður á MW því 3,3 milljarðar, eða meira en tvöfalt hærri.
Orkan frá Búðarhálsvirkjun verður þannig amk. tvöfalt dýrari en orka frá Kárahnjúkavirkjun. Ekki er vitað til að í sjónmáli séu neinir kaupendur að svo dýrri orku.
Það skiptir hins vegar væntanlega litlu fyrir sósíalista allra flokka sem nú sameinast um "uppbyggingu atvinnulífs" sem snýst í grunninn um að láta nógu marga menn styðja sig við skóflur einhvers staðar svo það líti út fyrir að þeir hafi eitthvað að gera.
Svo fá skattgreiðendur að blæða sem aldrei fyrr!
![]() |
Útboð vegna Búðarhálsvirkjunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Hitt og þetta
Bloggvinir
-
agny
-
graenar-lausnir
-
bjarnijonsson
-
bjornalexandermikli
-
gattin
-
dofri
-
contact
-
fhg
-
gretaulfs
-
gudni-is
-
mosi
-
bofs
-
muggi69
-
gudrunmagnea
-
zeriaph
-
holi
-
haukurn
-
diva73
-
hlynurh
-
ingibs
-
ingolfursigurdsson
-
fun
-
jennystefania
-
johnnybravo
-
eyfeld
-
jonbergsteinsson
-
jonvalurjensson
-
thjodarskutan
-
krist
-
kristjan9
-
loncexter
-
ludvikjuliusson
-
sleggjudomarinn
-
magnuss
-
svarthamar
-
vestskafttenor
-
otti
-
runaro
-
joklamus
-
sigurjons
-
stefanjul
-
summi
-
saemi7
-
samy
-
torfusamtokin
-
vestfirdir
-
thorsteinn
-
valli57
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.9.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 19
- Frá upphafi: 288216
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 14
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar