Endalausir fyrirvarar!

Ef það eru ekki stjórnvöld sem flækjast fyrir er það bara eitthvað annað. Nú er búið að skylda HS orku, og líklega Orkuveituna líka, til að selja orku til Helguvíkur. Það skiptir engu máli þótt þeir hafi samið af sér og muni tapa á sölunni. Þeir eiga einfaldlega að afhenda orkuna og til þess þarf náttúrulega að virkja.

En þá kemur að fjármögnun. Hún fæst auðvitað ekki til að byggja virkjun til að selja orku undir kostnaðarverði. En hvernig á þetta eiginlega að vera? Eiga fjármagnseigendur, vogunarsjóðir og erlendir kröfuhafar semsagt að stöðva hér allar framfarir endalaust? Af hverju er ekki bara hægt að rjúka af stað og láta ríkið ábyrgjast allt heila klabbið? Er það nema dropi í hafið miðað við allar hinar skuldirnar?
Hvað segja Suðurnesjamenn við þessu?


mbl.is Eftir að fjármagna virkjanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ömurleg lífsreynsla

Ég held að tæpast sé hægt að hugsa sér ömurlegri lífsreynslu en þá sem þetta fólk lenti í. Að missa ekki aðeins alla búslóð sína heldur líka mörg af mikilvægustu listaverkum þjóðarinnar, sem auðvitað hafa miklu meira gildi en bætt verður með fé, og ekki aðeins fyrir eigendurna heldur fyrir þjóðina alla.

Ekki bætir svo úr skák að þurfa að sitja undir dylgjum og aðdróttunum ömurlegra karaktera sem hugsa um fátt annað en hvort næsti maður hafi það skárra en þeir sjálfir.


mbl.is Vont að sitja undir dylgjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

100. besti háskólinn

Maður veit eiginlega ekki hvernig maður á að vera á svipinn þegar maður les svona. Nokkrir punktar sem koma upp í hugann:

1. Er þetta ekki bara orðið ágætt, strákar mínir? Er endilega nauðsynlegt að halda áfram að rembast þegar maður hefur gert jafn rækilega í sig og þið gerðuð?

2. Hvernig fer með markmiðið um að komast í hóp 100 bestu háskóla í heimi ef 100 bestu háskólakennarar í heimi eru jafn miklir asnar og segir í yfirlýsingunni?

3. Verður næsta skref Vantrúar að kæra kennara fyrir að gera ekki glærur sem hægt er að krækja í og nota svo gegn þeim? Er það punkturinn?

4. Maður eiginlega trúir ekki þessu rugli. Kannski réttast að stofna nýtt vantrúarfélag þeirra sem trúa tæpast ruglinu sem veltur upp úr meðlimum þess gamla ;)


mbl.is Skorti fagleg vinnubrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ummerki um eind??

Það er ávallt skemmtilegt þegar blaðamenn takast á hendur að skrifa um eitthvað sem þeir botna ekkert í.

Sjálfur ætla ég ekki að setja mig á háan hest í þessu tiltekna efni, enda veit ég ekkert um eðlisfræði.

Maður hlýtur hins vegar að velta fyrir sér hvernig menn fara að því að sjá "ummerki" um eind, sem að því er virðist er sjálf ósýnileg.

Hvers konar ummerki geta það nú verið?

Skeit hún einhversstaðar?

Fannst fótspor?


mbl.is Ummerki um Higgs-bóseindina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fegnir dómarar?

Ekki ætla ég að þora að segja neitt um þetta mál, enda hefur manni skilist að málsskjölin fylli marga gáma.
En mikið ósköp hljóta dómararnir að vera fegnir að hafa náð að klára þetta.
mbl.is Refsingu frestað í skattahluta Baugsmálsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstaklingshyggja Ayn Rand

Fyrir rúmlega 20 árum þýddi ég skáldsögu rússnesk-bandaríska rithöfundarins og heimspekingsins Ayn Rand, The Fountainhead, sem gefin var út af Fjölsýn forlagi 1991.

Nú nýverið kom bókin út í endurskoðaðri þýðingu á vegum Almenna bókafélagsins, undir heitinu Uppsprettan.
Aðalsöguhetja Uppsprettunnar er arkitektinn Howard Roark, módernisti og hugsjónamaður sem neitar að gera málamiðlanir gagnvart list sinni. Sagan er grípandi og söguhetjurnar margar hverjar stórbrotnar.

Ayn Rand fæddist í Rússlandi árið 1905. Hún nam sögu og heimspeki í St. Pétursborg, en flúði til Bandaríkjanna rúmlega tvítug, árið 1926, og bjó þar síðan. Hún varð þar vinsæll rithöfundur og áhrifamikill heimspekingur og stjórnmálahugsuður.

Uppsprettan var fyrsta skáldsaga Rand sem náði verulegum vinsældum. Bókin kom út í miðri heimsstyrjöldinni, 1943 eftir að 12 útgefendur höfðu áður hafnað henni. Hún hlaut litla markaðssetningu og blendnar viðtökur gagnrýnenda. Öllum að óvörum varð Uppsprettan þó metsölubók sem enn rennur út í bílförmum og hefur verið þýdd á fjölda tungumála.

Ekki er vafi á að það er ekki aðeins grípandi söguþráður sem veldur vinsældum þessarar bókar heldur sá heimspekilegi undirtónn sem þar er að finna. Í Uppsprettunni tekur Rand til kostanna siðfræðihugmyndir sínar, sem um margt eru nýstárlegar, og prófar þær í þeim söguheimi sem hún skapar.

Í stuttu máli snýst heimspeki Rand um mjög róttæka einstaklingshyggju sem grundvallast á frumsetningum heimspekikerfis hennar, objektivismans, sem þýða mætti sem hluthyggju á íslensku. Forsenda siðferðisins, samkvæmt Rand, er að maðurinn þarf að viðhalda eigin lífi. Af þessu leiðir hún að öll siðferðisgildi hljóti að miða að þessu marki. Því sé ósiðlegt að einstaklingurinn fórni sér fyrir aðra og einnig ósiðlegt að hann geri kröfu um að aðrir fórni sér fyrir hann. Rand endurskilgreinir egoismann, eða sjálfselskuna, og telur hina sönnu sjálfselsku, sem sé grunnur alls siðferðis, vera að lifa og starfa sem sjálfstæð hugsandi vera, forðast að nota aðra og forðast að láta aðra nota sig. Egoisti Rand er þannig maður sem lifir aðeins sjálfum sér. Hann sækist ekki eftir völdum yfir öðru fólki, ekki eftir peningum peninganna vegna, heldur aðeins því að lifa eins heilsteyptu, heiðarlegu og skapandi lífi og honum er unnt.

Ayn Rand varð kannski þekktust fyrir stjórnmálaheimspeki sína, en hún grundvallast á siðfræðikenningu hennar. Rand áleit kapítalismann vera eina stjórnskipulagið sem væri siðferðilega réttlætanlegt því það væri það eina sem gerði manninum kleift að breyta siðlega. Hún áleit hins vegar að sá hreini kapítalismi sem hún aðhylltist hefði hvergi verið til og raunar óvíst að hann yrði nokkurn tíma til. Hún er að þessu leyti ólík hefðbundnum hægrimönnum sem gjarna álíta kapítalismann gallaðan en þó illskástan þess sem í boði er, enda gagnrýndi Rand gjarna bandaríska hægrimenn og frjálshyggjumenn, sem þó vilja margir tengja hugmyndafræði sína kenningum hennar. Enn meira fór þó fyrir gagnrýni hennar á samhyggju og alræðisstefnur á borð við kommúnisma, fasisma og nasisma, enda gengju slíkar stefnur þvert gegn möguleika mannsins til siðlegs lífs.

Heimspeki Ayn Rand vakti litla athygli í fræðaheiminum lengi framan af, kannski meðal annars vegna stjórnmálaskoðana hennar, en einnig vegna þess hve brotakennt höfundarverk hennar er og erfitt að staðsetja hana innan meginstrauma heimspekinnar. Á síðustu árum hefur áhugi á kenningum hennar hin vegar farið vaxandi og hafa nokkrar áhugaverðar bækur komið út um Rand undanfarið. Það er vel, enda er Ayn Rand afar áhugaverður heimspekingur og mikið verk óunnið í rannsóknum á kenningum hennar og tengslum við aðrar heimspekistefnur. Meðal annars má benda á "Ayn Rand, the Russian Radical" eftir Chris Matthew Sciabarra, sem kom út 1995 ef ég man rétt og gefur afar glögga mynd af heimspeki Rand og tengslum við stefnur og strauma á 19. og 20. öld.


Styður nefnd sem brást

Greinargerð rannsóknarnefndarinnar sem skipuð var vegna þessa máls sýnir glögglega að siðanefnd Háskólans brást algerlega í málinu.

Því er það hneyksli að háskólarektor skuli taka upp hanskann fyrir þessa nefnd, rétt eins og ekkert hafi í skorist.

Það er einfaldlega absúrd að manneskjan skuli láta út úr sér að nefndarmenn hafi starfað "í góðri trú" þegar skýrslan bendir til að markmið þeirra hafi verið það eitt að hrekja kennarann sem kærður var úr starfi.

Rektor á að biðjast afsökunar á þessum ummælum sínum og sjá til þess að kennaranum sem siðanefndin (hvílíkt rangnefni) réðist gegn verði bættur sá skaði sem hann varð fyrir.

Rektor ætti jafnframt að velta fyrir sér hvort hún sé hæf til að gegna starfi sínu, enda hlýtur það að vera eitt mikilvægasta verkefni háskólarektors að standa vörð um akademískt frelsi innan skólans þegar að því er vegið.


mbl.is Vill að HÍ bæti mannorðstjón og kostnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland aftarlega á merinni

Við erum greinilega aftarlega á merinni hvað fæðuöryggi varðar. Hér kostar smjerið enn bara smáaura og nóg til af því. En það verður vafalaust fljótlega fært til betri vegar, því hvað er ein þjóð, hafi hún ekki fæðuöryggi - sem bítur almennilega?
mbl.is Smjörskortur í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaman væri að vita ...

... hvort hinir fjölmörgu bændur sem stutt hafa VG verði ánægðir með þessa ályktun. En það á kannski að svelta þá í hel eins og lærifaðir þessa fólks, Jósef Stalín, gerði með góðum árangri við sjálfseignarbændur austur í Sovét?
mbl.is Einkaeign á landi úr sögunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband