Mótsagnakennt

1. Þess er krafist að skattar verði ekki lækkaðir á hátekjufólk. Þá er spurningin hvað er hátekjufólk. Meðaltekjur eru um 700 þús. Skattatillögur stjórnvalda lækka skatta upp í 900 þús. ef ég skil það rétt. Er þá fólk með tekjur undir 900 þús. hátekjufólk? Það eru þá væntanlega stórir hópar félagsmanna BSRB þar innanborðs.

2. Þess er krafist að dregið verði úr tekjutengingu barnabóta. En er ekki einmitt tekjutenging barnabóta til þess gerð að meira sé til skiptanna fyrir þá tekjulægri, en minna fyrir "hátekjufólk"?

Það er nauðsynlegt þegar launþegafélög setja fram kröfur sínar, að í þeim sé eitthvert samhengi, en ekki bara slegið fram einhverjum frösum sem eru hver í mótsögn við annan. Það er erfitt að semja við þann sem vill bæði A og ekki A.


mbl.is BSRB vill hátekjuskatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er eitthvað að þessu kerfi

1. Verkalýðsfélög og atvinnurekendur geta ekki samið um kaup og kjör án þess að ríkisvaldið komi að því með tugmilljarða framlag úr vösum skattgreiðenda.

2. Lægstu laun virðast vera of lág til að fólk geti lifað á þeim nema með mikilli yfirvinnu.

3. Út á við virðast kröfur verkalýðsfélaga byggja meira á óánægju með launahækkanir fámenns hóps stjórnmálamanna, embættismanna og ríkisforstjóra en á svigrúmi til almennra launahækkana. Kröfurnar eru þar af leiðandi alveg óaðgengilegar fyrir atvinnurekendur, sér í lagi kröfur um hækkun lægstu launa.

4. Fyrirséð er að kröfurnar muni ekki ná fram að ganga enda munu fyrirtækin fremur láta sig hafa óróa á vinnumarkaði í einhvern tíma en að ganga að kröfum sem þau ráða ekki við.

5. Verkföll virðast vera eina vopn verkalýðsfélaganna þegar útséð er um að samningar náist.

6. En verkföll munu hins vegar ekki skila sér í bættum kjörum sem vega upp kostnað launamanna af verkföllum. Gleymum því ekki að verkfallssjóðir hafa að geyma fjármuni sem eru fljótir að þurrkast upp og notkun þeirra er beint tap eigendanna.

7. Verkföllin munu þó skila því að einhver fyrirtæki munu á endanum verða að fallast á launahækkanir sem þau ráða í raun ekki við. Þau munu því annað hvort hætta starfsemi eða segja upp fólki.

Kerfi sem er þannig, að það leiðir æ ofan í æ til verstu niðurstöðu fyrir báða samningsaðila, hlýtur að vera gallað.

Það er nauðsynlegt að breyta því.

En hvernig er best að gera það?

 


mbl.is Verkföll líkleg í mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankarekstur er áhættusamur

Kannski þetta sýni nú þeim sem halda því fram að ríkið eigi helst að eiga allt fjármálakerfið, að bankarekstur er áhættusamur, ekkert síður en annar atvinnurekstur. Og oftast raunar mun áhættusamari. Það þarf ekki meira en að stórir viðskiptavinir lendi í vandræðum til að hagnaður hrynji.


mbl.is Minni hagnaður og hærri laun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið væri nú gott ...

... ef allt það velviljaða fólk sem langar í alvöru til að bæta heiminn, en er blindað af hatri og tortryggni í garð Vesturlanda, og hleypur því eftir öllum fáanlegum samsæriskenningum um stöðu þessarar hrjáðu og kúguðu þjóðar, opnaði augun. Svona einu sinni!


mbl.is „Fólk er að deyja eins og flugur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipta siðferðileg álitaefni máli?

Leiðari Fréttablaðsins þriðjudaginn 29. janúar fjallar um fóstureyðingar. Þar segir: "Umræðan um fóstureyðingar snýst [...] um ákveðna grunnþjónustu í okkar samfélagi og hvernig við veitum hana með skilvirkum og skynsamlegum hætti þar sem við virðum sjálfsákvörðunarrétt verðandi mæðra og, umfram allt, treystum dómgreind þeirra."

Um leið verður hins vegar ekki annað séð en höfundurinn telji fóstureyðingar siðferðilegt álitamál: "Sem álitamál á það erindi í upplýsta umræðu um hvenær líf raunverulega kviknar [...] hver réttur ófædds barns er og önnur margslungin siðferðileg álitaefni. Baráttufólk fyrir sjálfsákvörðunarrétti kvenna sem og þau sem eru á öndverðum meiði ættu að vera óhrædd við að ræða þessar mikilvægu spurningar. [...] Þau sem raunverulega hafa áhuga á að hjálpa til munu yfirgefa skotgrafirnar, viðurkenna sjálfsákvörðunarrétt kvenna og stuðla að upplýstri ákvarðanatöku.“ Þarna eru sumsé siðferðisspurningar, og þær ekki af smærri endanum. Spurningar um rétt til lífs og um hvenær líf kviknar.

En greinarhöfundur virðist hins vegar ekki telja þessar grundvallarspurningar skipta neinu þegar rætt er um löggjöfina. Það má ræða þær, en umræðan á ekki að hafa nein áhrif á ákvarðanatöku. Með öðrum orðum, siðferði skiptir ekki máli.

Hver er grundvallarspurningin?

Þessi jaðarsetning siðferðilegrar umræðu stenst auðvitað enga skoðun: Öll löggjöf og reglur grundvallast á endanum á siðferðilegum viðmiðum, því hvað við teljum rétt og hvað rangt. Af því leiðir að séu siðferðileg álitamál til staðar þegar rætt er um breytingu á lögum, þá hljóta niðurstöðurnar um þau álitamál að hafa bein og afgerandi áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru.

Þegar að þessu tiltekna álitaefni kemur snúast spurningarnar um það, hvort fóstur sé lifandi vera, og ef svo er, hvort það eigi rétt til lífs, og hvort sá réttur sé þá jafn, eða gangi skemur en réttur hinna sem fæddir eru.

Hafi fóstrið rétt til lífs, og sé það siðferðilega óréttlætanlegt að taka líf einhvers sem á rétt til lífs, þá er bersýnilega óréttlætanlegt að taka líf fóstursins. Og komi rétturinn til lífs jafnframt á undan öðrum réttindum, líkt og hann hlýtur að gera, þá hlýtur lífsréttur fóstursins að ganga framar öllum vangaveltum um réttindi kvenna til að fjarlægja það úr líkama sínum eða réttindi foreldra til að velja, hvort hið ófædda barn verði hluti af framtíð þeirra eða ekki. Þá er auðvitað tómt mál að tala um sjálfræði foreldranna til að deyða barn sitt.

Hafi fóstrið hins vegar ekki rétt til lífs, er það ekki siðferðilega rangt í sjálfu sér að taka líf þess. Og þá er út af fyrir sig engin ástæða til að setja neinar takmarkanir á fóstureyðingar, nema ef vera kynni af einhverjum hreinum öryggisástæðum. Sé þetta raunin er ákvörðunin alfarið foreldranna.

Það hvers eðlis nákvæmlega réttur fóstursins er, ef hann er yfirleitt til staðar, hvenær hann myndast, og hvernig hann er veginn gagnvart rétti móðurinnar, hefur svo vitanlega áhrif á það hvort fóstureyðing er réttlætanleg undir einhverjum tilteknum kringumstæðum eða ekki. En spurningin er ávallt siðferðilegs eðlis og svörin við henni ráða mestu um hvernig löggjöfin á að vera.

Siðferði er ekki stofustáss

Spurningin um réttinn til lífs er í raun eina ástæða þess að deilt er um fóstureyðingar, og eina ástæða þess að samfélagið telur sig þess umkomið að takmarka þær með þeim hætti sem gert er. Ef þessari spurningu væri ekki ósvarað, væri ekki um neitt að deila. En þótt enn hafi ekki tekist að svara spurningunni um lífsrétt fóstursins á fullnægjandi hátt, er það ekki gild afsökun fyrir því að skauta framhjá henni. Ábyrgar ákvarðanir í þessu efni verða að byggja á skilyrðislausri auðmýkt gagnvart þeirri erfiðu staðreynd, að við vitum í rauninni ekkert um það, hvort fóstureyðing er manndráp, eða bara sambærileg við brottnám líffæris.

Siðferði er grundvallaratriði þegar við tökum ákvarðanir. Erfiðar spurningar eigum við ekki að reyna að þagga niður, heldur horfast í augu við þær af heiðarleika og kjarki, jafnvel þótt það kunni á stundum að vera óþægilegt.


Hvers vegna tré?

Hvers vegna ekki að ganga lengra og hafa þróaðri lífverur í þessum hylkjum?

(Þær eyða þá kannski ekki neinum pening heldur meðan þær eru þar)

Screenshot 2019-01-30 at 09.53.07


mbl.is „Í hvaða heimi lifir Hjálmar Sveinsson?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótsagnakennt - en hún er ekki ein um það

Biskup segist styðja það að konur taki sjálfar ákvörðun um fóstureyðingu.

Jafnframt segir biskup að fóstur kunni að hafa rétt til lífs.

En þarna verður ekki bæði sleppt og haldið:

Sé rétturinn til lífs til staðar, þá er fóstureyðingin alveg sambærileg við manndráp. En telur biskup að það eigi að vera hverjum og einum í sjálfsvald sett að drepa fólk? Ég efast um það.

Sé rétturinn til lífs hins vegar ekki til staðar er auðvitað engin ástæða til að setja neinar takmarkanir.

Biskup segir að lokum að breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu séu til þess fallnar að vekja upp grundvallarspurningar í huga fólks. Henni virðist þykja það neikvætt að fólk velti fyrir sér grundvallarspurningum. Hún vill fremur að þær gleymist. Það finnst mér mjög athyglivert.

 


mbl.is Biskup gagnrýnir frumvarp um þungunarrof
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkharður þriðji

Ég hafði nú einmitt ætlað mér að skrifa hér um frábæra uppsetningu Borgarleikhússins á Ríkharði þriðja sem ég sá á generalprufu í lok desember.

Nú hefur Björn Bjarnason skrifað um sýninguna á bloggi sínu og segir meðal annars:

"Í verkum sínum fjallar Shakespeare (1564 -1616) um efni sinnar tíðar á þann hátt að það textinn er hafinn yfir stað og tíma. Oft er uppsetning og texti verkanna á þann veg að þau verða þung og fjarlæg. Ekkert slíkt háir þessari sýningu. Leikin er ný þýðing. Kristjáns Þórðar Hrafnssonar. Hún á ríkan þátt í tengslunum sem skapast milli áhorfanda og grimma höfuðpaursins. Með fagurgala tekst honum að fá áhorfendur á sitt band eins og fórnarlömb sín á sviðinu."

Hér hittir Björn naglann á höfuðið. Fyrir utan frábæran leik, sérstaklega stórkostlega frammistöðu Hjartar Jóhanns Jónssonar í aðalhlutverkinu, vakti sérstaka athygli mína hve snilldarleg þýðing Kristjáns Hrafnssonar var. Það er ekki auðvelt að þýða Shakespeare, en hér tókst Kristjáni að koma frumtextanum frábærlega til skila á einstaklega áreynslulausu og eðlilegu máli, þótt bundið sé. Það er meira en að segja það.


Fjármálaeftirlit verður að rannsaka

Það að viðskiptasaga skuli glatast þegar reikningi er lokað er verulegt áhyggjuefni. Ef þannig er merkir það að ekki er hægt að treysta þeim kerfum sem bankinn notar til að halda utan um upplýsingar um inneignir og skuldir viðskiptavina sinna. Fjármálaeftirlitið hlýtur að grípa inn í og rannsaka þetta mál tafarlaust, sé það starfi sínu vaxið.


mbl.is Reikningur barns tæmdur vegna mistaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seðlabanki sýnir úrkynjaða list

Það er vel við hæfi á þessum tímum að Seðlabankinn standi fyrir sýningu á því sem yfirmenn hans hafa nú skilgreint sem úrkynjaða list. Þeir komast þá á stall með Hriflu-Jónasi og fyrirmyndum hans erlendis, sem settu upp slíkar sýningar undir miðbik síðustu aldar.


mbl.is Verða sýndar á Safnanótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 288142

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband