Auðvitað hlakkar hún til

Það verða ekki verkalýðsforkólfarnir sem missa vinnuna þegar afbókanirnar fara að hrannast inn, fyrirtækin skera niður og fólkið á gólfinu missir vinnuna.

Nei, verkalýðsforkólfarnir eru allir í efstu tekjutíundinni, öruggir með starf sitt og sitja á feitum sjóðum sem má misnota til að tryggja þeim áframhaldandi setu við kjötkatlana.


mbl.is Ekki við hæfi að hlakka til verkfalla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkföll hafa skaðlegar afleiðingar

Nú veit ég ekki nákvæmlega hvaða afskipti eða skilaboð er verið að tala um.

En það liggur auðvitað alveg fyrir að ef ferðaþjónustunni verður rústað með þessum asnaskap, mun fólkið sem vinnur hjá þessum fyrirtækjum missa störf sín. Það er bara beinhörð afleiðing.

Væri ég sjálfur útlendingur í láglaunastarfi hjá slíku fyrirtæki, og væri búið að hafa yfir mér áróður sósíalista um að verkfall hefði engar afleiðingar fyrir mig, nema bara góðar (ósannindi sumsé), yrði ég því feginn að fá vitneskju um raunverulegar afleiðingar slíks verkfalls. Og sú vitneskja væri mér jafn mikils virði ef hún kæmi frá eiganda fyrirtækisins sem ég ynni hjá, og sem af gildum ástæðum óttaðist um framtíð fyrirtækisins.

Raunin er sú að sósíalistarnir vilja ekki, að fólkið sem þeir beita nú fyrir sig, viti hvaða afleiðingar verkföllin geta haft fyrir það. Þeir blekkja þetta fólk, mestmegnis erlent verkafólk, til þátttöku í vegferð sem hefur þann eina tilgang að hlaða völdum og peningum undir forkólfana. Þeim er nákvæmlega sama um velferð félagsmannanna.


mbl.is Efling gagnrýnir óeðlileg afskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á ekki að snúast um Ísrael

Það má vissulega gagnrýna ísraelsk stjórnvöld fyrir margt. En það þýðir ekki að rétt sé að snúa þeim sterka boðskap sem finna má í lagi Hatara upp í einfeldningslegan áróður gegn Ísrael. Sér í lagi nú þegar gyðingahatur fer sívaxandi í Evrópu.

Sjálfur held ég að greining Guðmundar Steingrímssonar á atriðinu í Fréttablaðinu í morgun sé hárrétt. Hann túlkar það þannig:

"Svartsýnisspámaðurinn Matthías tekur sér stöðu á goðsagnakenndu sviði og hrópar hið fornkveðna, eins og ótal bölsýnisspámenn fyrri tíma hafa gert, að heimurinn muni kollsteypa sér í hörmungar og myrkur, að allt sé fánýtt gagnvart eyðingarmætti hatursins. Mótsöngvarinn — með hárgreiðslu sem ég reyndi einu sinni að fá mér sjálfur með ömurlegum afleiðingum — er svo táknmynd hins eilífa og viðkvæma blóms fegurðarinnar, sem er fórnað á eyðingaraltari myrkursins.

Þetta er sterk mynd. Þetta öskur hefur oft verið hrópað. Það sem blasir við í mínum huga er hins vegar sú niðurstaða, að þrátt fyrir máttugt öskur hatursins, þá mun hatrið aldrei sigra. Það má sín líka lítils, eins og fegurðin og ástin."

Þessi boðskapur er sterkur og magnaður. Hann á skilið að heyrast og hann er sérstaklega viðeigandi nú þegar öfgahreyfingum er að vaxa fiskur um hrygg.

Verði hljómsveitinni vísað úr keppni vegna misráðins áróðurs gegn gestgjafalandinu, mun hann ekki heyrast.


mbl.is Ísraelar óttast Hatara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Störfin munu hverfa hraðar

Störf þeirra sem nú efna til verkfalla eru einmitt störfin sem hverfa í fjórðu iðnbyltingunni. Afleiðing verkfallanna verður sú að þessi störf hverfa hraðar. Verslanir munu fjárfesta fyrr og hraðar í sjálfsafgreiðsluvélum, hótel munu leitast við að vélvæða þrif og önnur slík einföld störf hraðar með róbótum. Og þróun í átt að sjálfkeyrandi bílum er á fleygiferð. Rútufyrirtækin munu fylgjast grannt með henni og nýta sér um leið og færi gefst.

Afleiðing verkfallanna verður fækkun fólks í störfum sem krefjast engrar menntunar og lítillar sérhæfingar.

Og það er kannski það ósiðlegasta og ógeðslegasta við framgöngu sósíalistanna, hversu litla samúð þeir hafa í raun með fólkinu sem þeir þykjast verja. 


mbl.is Leggja til umfangsmikil verkföll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er nú ansi hart ...

... ef ekki má lengur fylgjast með fjarvistum starfsmanna án þess að sósíalistar hnupli fjarvistaskráningum og reyni að misnota þær í áróðursskyni.


mbl.is Veikindalisti hafi ekki hangið uppi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sósíalisminn í hnotskurn

Framganga Maduros sýnir sósíalismann í hnotskurn. Mannfjandsamlega stefnu sem gefur skít í velferð almennings ef hún ógnar völdum einræðisherrans, en kennir sig við mannúð og jafnrétti.

Það er hneykslanlegt að fólk skuli enn kenna sig við þennan hrylling eftir allar þær hörmungar sem hann hefur valdið.


mbl.is Brenndu trukk með nauðsynjavörum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svik verkalýðsfélaga við láglaunafólk

Nú er farið að koma á daginn í hverju kröfur verkalýðsfélaganna, sem efna nú til verkfalla, felast. Þær snúast um sömu krónutöluhækkun til allra, sama hvort þeir hafa þrjú hundruð þúsund eða þrjár milljónir í mánaðarlaun. Á sama tíma hneykslast forsvarsmenn þessara félaga yfir því að skattalækkunartillögur ríkisins séu eins upp byggðar.

Þetta fólk beitir fyrir sig láglaunafólki í áróðursskyni og lætur í veðri vaka að kröfurnar snúist allar um að þeir sem lægst hafi launin nái endum saman.

En á sama tíma er hagur þessa láglaunafólks, sem af óheilindum er beitt sem vopni til að koma hér öllu í upplausn, þessum aðilum svo sannarlega ekki efst í huga.

Staðreyndin er að vel væri hægt að bæta kjör láglaunafólks umtalsvert ef þeir sem hærri hafa launin létu sér nægja hækkanir sem efnahagslífið ræður við.

En hagur láglaunafólksins er ekki aðalatriðið. Láglaunafólkið er aðeins notað sem vopn. Og það er þetta fólk sem mun missa vinnuna þegar búið verður að rústa ferðaþjónustunni með verkföllum.

Þetta er skammarleg framganga sem grundvallast á óheilindum og blekkingum!


mbl.is Munu bíta fast þar sem þarf að bíta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýja verkó er góð viðskiptahugmynd

Yfirtaka Eflingar er fyrst og fremst frábær viðskiptahugmynd. Markmiðið er völd og fjármunir til handa eiganda Sósíalistaflokksins og meðreiðarsveinum hans.

Veðmálið nú er að það takist að koma ríkisstjórninni frá völdum og efna til kosninga. Þá getur eigandinn komið fram sem frelsandi engill og stöðvað upplausnina sem hann sjálfur hefur valdið.

Heppnist veðmálið hins vegar ekki er samt ljóst að sjóðir Eflingar eru digrir og gott að hafa aðgang að þeim fyrir menn sem ekki hafa mjög eftirsóknarverða ferilsskrá.

Screenshot 2019-02-22 at 13.35.46

 

 

 

 

 

 

 

 

Meðal meðreiðarsveinanna eru marxistar, fólk sem dreymir um að með því að skapa upplausn í samfélaginu takist að koma á sósíalískri byltingu. En það er ekki meginmarkmið eigandans sjálfs.

Í blaðaútgáfu er markmiðið að reksturinn standi undir sér. Í kjarabaráttu er markmiðið að bæta kjör umbjóðendanna. En sumum þeim sem stunda blaðaútgáfu á kostnað annarra er sama um rekstrarárangurinn. Og sumum sem komast yfir verkalýðsfélög er líka skítsama um kjör umbjóðenda sinna. Markmið þeirra eru völd og peningar sjálfum þeim til handa. Ef þeir komast yfir þessi gæði með byltingu er það allt í lagi þeirra vegna. Ef ekki er það ekkert endilega verra.

------------

Það eina sem getur hindrað að þessar fyrirætlanir nái fram að ganga er árangursríkt samtal forystu ASÍ og ríkisstjórnarinnar.


mbl.is Segir stefna í hörðustu átök í áratugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klúður stjórnvalda?

Er það í raun og veru svo að stjórnvöld hafi klúðrað aðkomu sinni að kjaraviðræðunum?

Það er því miður fleira og fleira sem bendir til þess.

Getur verið að tillögur stjórnvalda séu einfaldlega niðurstaða úr excelleikfimi einhverra skrifstofumanna, en ekki byggðar á mati reyndra stjórnmálamanna á veruleikanum?

Ef svo er þá verða stjórnmálamennirnir að taka við boltanum, ræða við ASÍ og móta tillögur sem eru líklegar til að standast betur prófraun veruleikans. Það er ekkert mikið flóknara en það.


mbl.is „Hálfgerð blekking“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú þarf samtal

Nú er þörf á að ASÍ og ríkisstjórnin vinni saman að því að yfirfara þær tillögur sem voru kynntar í gær með það að markmiði að draga enn frekar úr skattlagningu lægst launaða fólksins. Drífa nálgast þetta mál af yfirvegun og skynsemi og ætti nú að hafa tækifæri til að marka sér varanlegan sess sem leiðtogi launafólks í krafti samninga við ríkisvaldið sem geta forðað uppnámi sem engum kemur til góða. Ég held að henni sé fyllilega treystandi til að rækja það hlutverk vel.

Gleymum því ekki að fyrir hina tekjuhærri skiptir þessi boðaða skattalækkun ósköp litlu máli. Það eru miklu fremur hagsmunir þeirra að viðhalda hér stöðugleika og áframhaldandi hagvexti og forða verðbólgu og vaxtahækkunum.

Stjórnvöldum ber að mæta útspili Drífu og ganga strax og af fullum heilindum til viðræðna við ASÍ. Það verður að gera strax!


mbl.is Vildu 15.000 kr. og fjögur skattþrep
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 288142

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband