Til hvers er stjórnarskrá?

Stjórnarskrám er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að vernda borgarana fyrir ásælni og afskiptasemi valdhafa. Meginhlutverk stjórnarskrárinnar er þannig að setja framkvæmdavaldi og löggjafarvaldi mörk. Gangi valdhafar út fyrir mörk sín geta þá dómstólar fellt ákvarðanir þeirra úr gildi með vísan til stjórnarskrár.

Í tillögu nefndarinnar að nýrri stjórnarskrá er að finna eitt atriði sem styrkir stöðu borgaranna gagnvart valdhöfum. Það er ákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég hef að vísu verulegar efasemdir um að rétt sé að skilyrða heimild til þjóðaratkvæðis við einhverjar tilteknar tegundir laga enda verða þá valdhafar fljótir að útvíkka undantekningarnar með ýmsum klækjabrögðum. Eins er ég ekki viss um að rétt sé að almenningur geti átt frumkvæði að lagasetningum - frumkvæðisrétturinn hefur verið við lýði í Kaliforníu um nokkra hríð og valdið þar margháttuðum vanda.

Mannréttindakafli stjórnarskrártillögunnar er hins vegar helsti veikleiki hennar. Yfirlýsingar á borð við að tryggja beri fjölbreytileika mannlífsins eða að allir geti lifað við mannlega reisn setja valdhöfum ekki skorður heldur færa þeim nær ótakmarkað umboð til að skipta sér af nánast hverju sem er - líkt og þeir gera gjarna í skjóli óskýrra lagaákvæða. Það að slík merkingarleysa skuli hafa ratað inn í stjórnarskrártillöguna vekur óneitanlega með manni ugg um að höfundarnir hafi ekki haft hlutverk plaggsins neitt sérstaklega vel á hreinu.


mbl.is Stjórnarskrá verði breytt umtalsvert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunhæfar leiðir?

Undanfarið hafa tilraunir til að draga úr ríkisútgjöldum fyrst og fremst snúist um að fyrirskipa stofnunum að lækka kostnað. Með slíkum aðgerðum má ná nokkrum árangri en hann verður ávallt bæði takmarkaður og tímabundinn. Skilvirkustu leiðirnar til skjóts sparnaðar eru tvær:

1. Forðast ónauðsynlegar fjárfestingar og einsskiptiskostnað. Dæmi um slíkt eru hátæknisjúkrahús (þegar læknar fást ekki vegna lágra launa), nýtt lúxusfangelsi (þegar bráðabirgðalausnir gætu nægt), dýpkun Landeyjahafnar (það vita allir út af hverju), breikkun vega (þegar umferð dregst saman), umsókn að ESB og allt annað sem ekki er beinlínis bráðnauðsynlegt. Það er vitanlega erfitt að standa í vegi fyrir alls kyns "þjóðþrifaverkum" af þessum toga, ekki síst þegar ábyrgðarlaus stjórnarandstaða fer sífellt upp á háa c-ið og kvartar og kveinar yfir skorti á atvinnubótavinnu. En framhjá slíku verður að horfa og vaða einfaldlega fram með hnífinn.

2. Leggja niður óþarfar rekstrareiningar og segja upp starfsmönnunum. Þótt fjöldi stofnana hafi verið sameinaður undanfarið hefur það yfirleitt engum sparnaði skilað, enda lækkar ekki kostnaður við nafnbreytingar. Ríkisstofnanir eru hins vegar mismikilvægar. Bráðamóttaka Landspítalans er til dæmis mjög mikilvæg en Lýðheilsustofnun er alls ekki mikilvæg í samanburðinum. Til skamms tíma má einfaldlega fara yfir og forgangsraða rekstrareiningum eftir mikilvægi þeirra og leggja síðan niður þær sem minnstu máli skipta og tryggja að þær gangi ekki aftur.

Til lengri tíma ætti svo auðvitað að greina ríkisreksturinn upp í verkefni og endurskipuleggja og hagræða á þeim grunni. Það tekur hins vegar tíma og skilar líklega ekki mjög skjótum sparnaði. Það sama á við um þessi verkefni og hin, óábyrg stjórnarandstaða flækist fyrir, líkt og gerðist til dæmis þegar sameina átti heilbrigðisstofnanir, en menn verða bara að horfa framhjá því. Ríkisstjórnin verður tæpast óvinsælli hvort sem er.

-------------------

Versta leiðin til að bæta afkomuna er hins vegar sú að hækka skatta. Ástæðan er einföld: Auknir skattar draga úr fjárfestingu í atvinnulífi en aukin fjárfesting er einmitt það sem við þurfum núna til að styrkja tekjugrunn ríkissjóðs.


mbl.is Á móti skattahækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Már Guðmundsson endurtekur leikinn

Már Guðmundsson er maðurinn sem bar höfuðábyrgð á þeirri stefnu íslenska seðlabankans að hækka í sífellu vexti til að blekkja erlenda fjárfesta til oftrúar á íslenskt efnahagslíf, sem olli allt of háu gengi og að lokum hruni krónunnar.
Það kemur því ekki á óvart að nú þegar stöðnun ríkir ætli Már Guðmundsson að reyna að endurtaka leikinn. Afleiðingin verður minnkandi kaupmáttur, aukin skuldabyrði og enn meiri samdráttur í fjárfestingum en orðinn er. Enginn erlendur fjárfestir eða lánveitandi mun hins vegar taka mark á Má Guðmundssyni - aldrei aftur.
mbl.is Líklegt að vextir hækki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margur heldur mig sig

Gylfi Arnbjörnsson lýsti yfir því í útvarpsfréttum um helgina að ákvarðanir um verð til bænda væru í raun verðsamráð á markaði. Þetta virtist vera ein meginröksemd hans gegn hækkuninni nú og litlu skipta þótt kostnaður bænda hafi hækkað um nær 200% frá hruni.
Nýlega gekk Gylfi frá kjarasamningum sem þvinga velflest fyrirtæki í landinu til að taka á sig umtalsverða aukningu launakostnaðar án þess að neinar efnahagslegar forsendur séu þar að baki. Hækkununum var náð fram m.a. í skjóli hótana um verkfallsaðgerðir.
Eins og flestir vita er kjörum bænda í megindráttum stýrt af ríkisvaldinu. Verð á afurðum þeirra tekur mið af markmiðum um launakjör þeirra. Verðsamningar bænda eru því í flestu sambærilegir kjarasamningum Gylfa og félaga.
Það er vissulega rétt að sameiginleg verðlagning á vörum heillar atvinnugreinar er samráð. En ef svo er þá er það ekkert síður samráð þegar samtök launþega knýja fram hækkanir í skjóli verkfallshótana.
Hafi fyrirtækin á móti með sér öflug samtök verður skaðinn minni af slíku samráði. En þegar einu baráttumál samtaka atvinnurekenda eru að vernda hagsmuni þeirra sem í skjóli stjórnvaldsákvarðana hafa komist yfir forn réttindi almennings til fiskveiða annars vegar og hins vegar að reyna að þvinga ríkið til að bæta enn á skuldabyrðina svo hægt sé að byggja fleiri Landeyjahafnir verður skaðinn af samráði Gylfa og félaga miklu meiri en ella. Árás hans á bændastéttina breytir engu þar um, en hittir hann sjálfan fyrir.
mbl.is „Lyktar af pólitík“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Júlí 2011
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband