Hverjar eru alþjóðlegar skuldbindingar okkar?

Yfirlýsing ESB um að Íslendingum beri að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar er væntanlega runnin undan rifjum Breta. Almenna yfirlýsingu af þessum toga má vafalaust túlka með ýmsum hætti.

Margir hafa haft af því áhyggjur að gjaldþrot bankanna leiði sjálfkrafa til gríðarlegra skuldbindinga af hálfu ríkisins. Ég er ekki viss um að svo sé og langar að varpa fram eftirfarandi vangaveltum til umræðu:

Grundvallarreglan í félagarétti er sú, að þegar hlutafélag verður gjaldþrota geta lánveitendur gengið að eignum þess. Það er einnig grundvallarregla að ábyrgð hluthafa takmarkast við framlagt hlutafé og því er ekki hægt að ganga að öðrum eignum þeirra.

Um banka gildir, að sérstakur tryggingasjóður tryggir innistæður sparifjáreigenda, en aðeins að því marki sem fjárhagsleg staða hans leyfir

Af þessum sökum getur ábyrgð eigenda bankanna tæpast numið meiru en eignum þeirra og tryggingasjóðnum.

Vart getur verið um það að ræða að þriðji aðili, þ.e. ríkið, sé í ábyrgðum fyrir rekstri bankanna að öðru leyti en sem nemur eignum tryggingasjóðsins. Þar gildir einu þótt ríkisstjórnir hafi í sumum tilfellum ákveðið að ábyrgjast meira gagnvart sparifjáreigendum og kröfuhöfum en þeim ber, við gjaldþrot banka.

Ég velti því fyrir mér hvort vandinn sem við glímum nú við í samskiptum við Breta og aðrar þjóðir kunni að eiga sér rót í þeim neyðarlögum sem Alþingi setti og heimila ríkinu að yfirtaka innlenda starfsemi banka en skilja erlenda starfsemi eftir. Kann að vera, að skilningur margra sé sá, að með lögunum sé brotin sú grunnregla kröfuréttarins, að óheimilt sé að skjóta eignum í heild eða að hluta undan við gjaldþrot?

Rökin fyrir því að undanskilja innlenda starfsemi bankanna við gjaldþrot hafa væntanlega verið þau, að þannig yrði dregið sem mest úr tímabundnu óhagræði vegna gjaldþrotanna. Það er eðlilegt sjónarmið til skemmri tíma. 

Ég velti því þó fyrir mér hvort hugsanlegt sé, að ef stjórnvöld hefðu einfaldlega látið bankana fara í gjaldþrot í heild sinni, án þess að undanskilja innlendu starfsemina, kynni málið að horfa öðruvísi við þeim þjóðum sem við deilum nú við.

Við breytum ekki því sem þegar hefur verið gert, en það útilokar þó ekki að hægt sé að uppfylla grunnregluna um rétt lánardrottna við gjaldþrot. Það gerist með því að auk þess að kröfuhöfum sé veittur aðgangur að öllum eignum bankanna sem tilheyra þrotabúinu fá þeir aðgang að andvirði þeirra eigna sem ríkið hefur tekið yfir, en jafnframt er réttur þeirra til búanna takmarkaður við þetta.

Með þessu er sú grunnregla, að allar eignir þrotabús gangi upp í skuldir, virt, en ábyrgð ríkisins jafnframt takmörkuð. Þannig getur ríkið losnað við þær ábyrgðir sem nú er krafist. Í framhaldinu mætti svo taka um það sjálfstæða ákvörðun að nota skattfé til að bæta íslenskum innstæðueigendum tap þeirra.

Það væri áhugavert að fá fram viðbrögð lesenda við þessum vangaveltum.


mbl.is Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skil vel hvað þú ert að fara og ekki ólíklegt að þannig hefði málið horft öðru vísi við erlendum aðilum. 

En hefði það ekki þýtt "endanlega endalok" Íslands, þá næstum allt sparifé landsmanna horfið (bara 20.000 evrur eftir), og skuldir landsmanna líklega lent i höndum hrægamma eins og Green, sem hefðu getað hafið harkalegar innheimtur / vaxtahækkanir, etc, etc. 

Gátu Íslensk stjórnvöld í raun gert annað en að reyna á þessa leið? 

ASE (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 22:59

2 identicon

Heill og sæll; Þorsteinn og aðrir skrifarar og lesendur !

Þakka þér; þessa ágætu úttekt, Þorsteinn. Kom einmitt; inn á þessi mál, fyrir stundu, á minni síðu.

Með beztu kveðjum, sem jafnan /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 23:02

3 identicon

Ef ég skil þig rétt þá er það sem þú lýsir akkúrat það sem er gert.

Nýi bankinn yfirtekur allar eignir hér á landi og þær skuldir sem felast í innlánsreikningum.  Síðan er fenginn viðurkenndur aðili til þess að meta hinar yfirteknu eignir og nýi bankinn gefur út skuldabréf sem er lagt inní þrotabú gamla bankans.

Þannig fá lánadrottnar gamla bankans eðlilegan aðgang að öllum eignum gamla bankans til skiptanna.

Það má lesa nánar um þetta hér: http://fme.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=5681

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 23:03

4 Smámynd: Móðir og sonur

Nú skil ég þetta loksins. Bankarnir eru sem sagt ekki orðnir alveg gjaldþrota. Þess vegna er alltaf talað um þjóðnýtingu í erlendum fjölmiðlum.

Það er ekki á hvers manns færi að semja lagafrumvörp þannig að vel sé.

Móðir og sonur, 16.10.2008 kl. 23:03

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Takk fyrir ábendinguna, Magnús. Þetta virðist skýrt. Það hefur greinilega bara vantað að gera almennilega grein fyrir því.

Samkvæmt þessu ættum við alls ekki að þurfa að ábyrgjast neitt umfram núverandi eignir bankanna.

Þorsteinn Siglaugsson, 16.10.2008 kl. 23:10

6 Smámynd: Móðir og sonur

Nú skil ég þetta alveg alveg. Þakka ykkur Magnús og Þorsteinn.

Það þyrfti einhver að taka það sér að útskýra svonalagað fyrir peningablindu fólki eins og mér.

Móðir og sonur, 16.10.2008 kl. 23:12

7 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég hef sjálfur skrifað um þetta og kallað kennitöluflakk. Mér finnst sorglegt að ríkisstjórn og Alþingi skuli hafa með vafasamri lagasetningu valið það sem áður þótti ósiðlegt í rekstri sumra veitingahúsa (sem og annarra fyrirtækja) sem skúruðu af sér skuldir reglulega með þessum hætti.

Úr því að búið var að eyðileggja bankakerfið með stjórnunarklaufaskap í seðlabankanum og aðstoð Geirs Haarde, átti þetta að fara í hreint gjaldþrot.

Þessi flækja frá Alþingi verður dýrkeypt við úrlausn málanna og er bara rétt að byrja.

Okkur hefur orðið allt að tjóni í þessu máli og ítrekað hafa eintómar vondar ákvarðanir hafa fylgt öðrum vondum.

Haukur Nikulásson, 17.10.2008 kl. 06:44

8 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæll kæri Þorsteinn.

Fróðlegt væri að heyra frá þér í nýju bloggi um álit þitt á grein Anra Snæs í Fréttablaðinun og Kristbjörn skrifar um :

Kaffi- og veitingahús skiluðu 4 sinnum meiri gjaldeyristekjum

  • –í fyrra, en Alcoa

  • –Kaffi- og veitingahús um land allt, er stærsta
       gjaldeyristekjulind þjóðarinnar á eftir fiskinum.

  • –Áliðnaður er nánast engin gjaldeyristekjulind

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 18.10.2008 kl. 12:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 287357

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband