Gylfaginning

Gylfi Zoega hagfræðiprófessor kom í Kastljós RÚV þriðjudaginn 30. mars til að ræða hagræn áhrif aðgerða gegn kórónaveirunni. Virtist Gylfa ekki þykja hrun ferðaþjónustunnar skipta mjög miklu máli, enda stæði sú grein aðeins fyrir um 10% landsframleiðslunnar. Því væri í lagi að fórna því sem hann nefndi „10% hagkerfið“ fyrir „90% hagkerfið“. Virtist Gylfi telja að með þessu væri hann að líta til heildarhagsmuna landsins.

Nú horfum við fram á tæplega 1200 milljarða tjón hins opinbera á árunum 2020-2023, sem nemur tekjum þess í heilt ár, meira en 20 nýjum Landspítölum, og leiðir beint af aðgerðum til að hægja á útbreiðslu pestarinnar. Afleiðingarnar verða verulega skert geta hins opinbera til að standa undir grunnþjónustu, hundruð dauðsfalla sökum þess heilsutjóns sem af atvinnuleysi leiðir, stórtjón á framtíðarmöguleikum yngstu kynslóðarinnar, alvarlegasta geðheilbrigðisvá á síðari tímum, og svo mætti lengi telja. Þessu hefði mátt afstýra með hnitmiðuðum og yfirveguðum viðbrögðum í takt við hina raunverulegu hættu. Kostnaðurinn hefði orðið örlítið brot af þessari upphæð. Og nú stefnir jafnframt í að búið verði að bólusetja þá sem þörf er á að bólusetja innan mánaðar. En jafnvel þá má ekki hætta að auka við tjónið að mati prófessorsins.

Í þessu ljósi er auðvitað fráleitt að málflutningur Gylfa grundvallist á einhverju mati á heildarhagsmunum.

En aftur að prósentuhagkerfum prófessorsins. Sé brotthvarf 10% landsframleiðslunnar jafn léttvægt og Gylfi heldur fram, myndi þá breyta svo miklu þótt hlutfallið væri aðeins hærra? Væru 15% okkur að skaðlausu? Væri það okkur þá til svo mikils tjóns þótt hinar stóru útflutningsgreinarnar yrðu einfaldlega lagðar af líka? Sjávarútvegurinn stendur ekki fyrir nema 5% landsframleiðslunnar. Og hlutur stóriðjunnar er kannski um 2%. Ferðaþjónustan var um 8% áður en hún var lögð niður. Þá eru samt um 85% hagkerfisins eftir, sé þessari byltingarkenndu aðferðafræði fylgt, og við værum bara í nokkuð góðum málum, eða hvað?

Meginhluti þjóðarinnar myndi að vísu missa vinnuna, en til hvers eru atvinnuleysisbætur? Og eftir stæði auðvitað hið opinbera: Það má lengi lifa á að kenna fólki þau merku fræði að hagkerfi sé ekki kerfi, heldur samsafn ótengdra þátta sem allir eru jafngildir og hafa engin áhrif hver á annan.

Þessa kenningu mætti kalla Gylfaginningu, höfundinum til heiðurs. 

Að vísu bærist fremur lítill gjaldeyrir til landsins, en hvað um það? Innflutninginn mætti einfaldlega leggja af líka. Þannig náum við jafnframt að tryggja landamærin endanlega, svo hingað berist alveg örugglega aldrei nein kórónaveirusmit. Því það er auðvitað það eina í öllum heiminum sem skiptir máli.

(Birt á visir.is 31. mars)


mbl.is Katrín ósammála Þórdísi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ja, Gylfa til tekna má segja að hann vinnur hjá ríkinu og þarf greinilega ekkert á framleiðsluþáttunum að halda. Gylfi og formaður Öryrkjabanalagsins eru á einu máli: "Það eru nógir peningar til" - Eva Peron vinnur hjá HÍ.

EINAR S HALFDANARSON (IP-tala skráð) 31.3.2021 kl. 21:58

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Hagfræðingurinn taldi líka að með því að samþykkja Ices­a­ve samn­ing­inn á sínum tíma smætti minnka efnahagslega óvissu.

Ég held að þú farir nokkuð nærri um það Þorsteinn, að hér er um að ræða Gylfaginningu hjá manni sem þiggur hærri laun frá því opinbera en öryrki.

Magnús Sigurðsson, 31.3.2021 kl. 22:21

3 identicon

Mér fannst Gylfi koma mjög vel fyrir, ólíkt velflestum fræðimönnum og pólítíkusum tekst honum að tala um hagfræði og dagmál á greinargóðan hátt í stað þess að japla á tæknifrösum ýmiskonar. Og ég var sammála honum með það að hefðbundið skólastarf og félagslíf innanlands vægi þyngra en hagnaðarvon hótelrekenda af þeim örfáu ferðafuglum sem eru byrjaðir að fljúga.

Jóhann Ólafur (IP-tala skráð) 31.3.2021 kl. 22:53

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Munurinn á okkur, Jóhann Ólafur, er sá, að mér er ekki nákvæmlega sama þótt tugþúsundir glati lífsviðurværinu og ríkið sé sett á hausinn.

Þorsteinn Siglaugsson, 1.4.2021 kl. 01:36

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég ætla ekki að gantast með Gylfa og örorku hér, neitt frekar en þú Magnús. Slíkt getum við gert í einrúmi þar sem enginn sér til tongue-out

Þorsteinn Siglaugsson, 1.4.2021 kl. 01:37

6 identicon

Það allra mikilvægasta er að rúmlega 50þúsund börn og ungmenni geti mætt í skólann. 

Jóhann Ólafur (IP-tala skráð) 1.4.2021 kl. 09:13

7 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er nákvæmlega engin ástæða til þess að börn og ungmenni geti ekki mætt í skólann. En hér hefur þeim ítrekað verið meinað það. Og á sama tíma hafa landamæri verið lokuð í raun fyrir erlendum ferðamönnum.

Þorsteinn Siglaugsson, 1.4.2021 kl. 10:47

8 identicon

Það ferðuðust að ég held u.þ.b. 500 ferðamenn til landsins í dag. Landamærin eru ekki lokaðri en það.
Það er óþarfi að munnhöggvast endalaust, en ég tel að þrenns konar hagsmunir takist á: Félagsstarf innanlands, ferðafrelsi milli landa og heilsufar (eldri) landsmanna. Áhrif veirusýkingar á heilsu fólks milli fimmtugs og sjötugs er ekki óveruleg, við sem samfélag hljótum að taka tillit til þess - eða hvað? Ég þykist ekki vera með töfralausn og við erum að ýmsu leiti sammála.

kveðja,

Jóhann Ólafur

Jóhann Ólafur (IP-tala skráð) 1.4.2021 kl. 18:43

9 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Já, ef landið er svona galopið, hvers vegna er þá ekki stöðugur straumur ferðamanna hingað til að fá að dvelja í sóttvarnafangelsinu? Hvers vegna er þá ferðaiðnaðurinn 1-2% af því sem hann var? Hvers vegna eru tugþúsundir atvinnulausar?

Er það bara út af einhverjum misskilningi um að hér sé de facto lokað fyrir ferðamenn?

Valið stendur milli þess að verja líf, heilsu og afkomu fólks til lengri og skemmri tíma annars vegar, og þess að reyna með yfirdrifnum og ómarkvissum aðgerðum að hægja á framgangi pestar í stað þess að leggja áherslu á að verja þá sem í raun og veru eru í hættu.

Þorsteinn Siglaugsson, 2.4.2021 kl. 11:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 287312

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband