Færsluflokkur: Menntun og skóli
18.10.2010 | 09:58
Siðferði, siðfræði og trú
Fyrir skemmstu lögðu þingmenn Hreyfingarinnar fram tillögu um að taka skyldi upp siðfræðikennslu í skólum. Virðast þingmennirnir telja að með siðfræðikennslunni muni siðferði í landinu batna.
Nú er það svo að siðfræði og siðferði eru gerólíkir hlutir. Maður getur vitað allt um siðfræði en verið með öllu siðlaus. Annar kynni svo að vera fyrirmynd um rétta breytni án þess að vita einu sinni að siðfræði er til. Og sé mið tekið af hinni, oft illvígu háskólapólitík, bendir reynslan síst til að siðleg breytni sé siðfræðikennurum efst í huga, raunar gjarna þvert á móti.
Eitt er það þó sem læra má af því að kynna sér sögu og kenningar siðfræðinnar. Það er að engum heimspekingi hefur tekist að sýna nauðsyn siðlegrar breytni án skírskotunar til æðri máttarvalda. Þó hafa margir reynt. Þessi niðurstaða kristallast kannski best í þeim orðum Friedrichs Nietsche að án guðs sé allt leyfilegt.
Nú vill hin nýja valdastétt í Reykjavík úthýsa trúarhreyfingum úr grunnskólum, banna helgileiki tengda jólum og leggja af litlu jólin eða breyta í eins konar gervihátíð án tengsla við þá kristnu arfleifð sem er grundvöllur þeirra. Einnig á að banna skólabörnum að teikna trúartengdar myndir í skólanum. Hugmyndaleg forsenda þessarar athafnasemi er mannréttindi. En þá gleymist að hugmyndin um mannréttindi verður ekki slitin frá þeirri kristnu rót hennar að hver einstaklingur sé óendanlega mikilvægur gagnvart guði. Það er eina röksemdin fyrir því að mannréttindi beri að virða.
Ennfremur má benda á að virðing hinnar nýju valdastéttar fyrir mannréttindum er ekki meiri en svo að hún hyggst ekki aðeins banna Gídeonfélaginu að gefa börnum biblíur, hvaða skaða sem það á nú að geta valdið, heldur ætlar hún líka að banna börnunum að teikna trúarlegar myndir. Vandséð er hvernig slíkt kemur heim og saman við almenn mannréttindi, en þar er tjáningarfrelsi grundvallarþáttur.
Lítill vafi er á að hnignun almenns siðferðis á stóran þátt í því efnahagslega og pólitíska hruni sem hér hefur orðið. Er þá ekki réttara að reyna að byggja upp grundvöll góðs siðferðis fremur en að brjóta hann niður?
Tillögur valda óánægju | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (89)
27.2.2008 | 09:27
Roð, fiskar, færi og net
Halldór Blöndal fjallar um nýju biblíuþýðinguna í ágætum pistli í Mogga um helgina. Sýnir hann fram á að máltilfinningu þýðingarnefndar virðist eitthvað ábótavant og tekur sem dæmi orðalagið að leggja net til fiskjar.
Þessu svarar sr. Sigurður Pálsson í blaðinu í gær. Virðist hann misskilja gagnrýni Halldórs og halda að þeim síðarnefnda finnist annkannalegt að tala um netalögn. Það er bersýnilega ekki svo:
Menn róa til fiskjar. Svo renna þeir fyrir fisk og kannski kemur fiskur aðvífandi og bítur á. Menn leggja net. En þeir leggja þau ekki til fiskanna heldur fyrir þá. Alveg eins og þeir renna færinu fyrir fiskana en ekki til þeirra. Alveg eins og við leitum að einhverju, en ekki af því.
Að skrifa texta er á margan hátt eins og að leggja net. En það net er ekki lagt fyrir fiska heldur orð. Netið er máltilfinning höfundarins. Hún fæst bara með því að lesa góðar bækur og hlusta á fólk sem hefur góða máltilfinningu. Ef netið er vel riðið raðast orðin í það fagurlega. En ekki ef það er gisið og götótt.
Eins og Halldór Blöndal bendir réttilega á er margt ankannalegt í orðfæri nýju biblíuþýðingarinnar. Netið er feyskið og textinn því eins og bögglað roð fyrir brjósti lesandans. Slíkt gerist stundum þegar nefndir skrifa.
Halldór hvetur Biblíufélagið til að prenta nýtt upplag af eldri útgáfu Biblíunnar. Ég tek undir það. Biblíufélagið á ekki að bjóða lesendum upp á ruður heldur fallegan afla veiddan með haglega gerðu neti.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 09:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.2.2008 | 10:48
Glæsilegur árangur!
Enn og aftur sýnir íslenska skylmingaliðið frábæran árangur!
Það hefur verið gaman að fylgjast með uppbyggingu ólympískra skylminga hérlendis síðastliðin ár. Að öðrum ólöstuðum má þar fyrst og fremst þakka þennan árangur Nikolay Mateev þjálfara, sem hér hefur lyft grettistaki og helgað sig uppbyggingu íþróttarinnar hérlendis af ótrúlegri fórnfýsi.
Það starf sem Nikolay og félagar vinna nú með börnum er frábært og miðað við þá alúð sem lögð er við það má vafalaust vænta enn frekari afreka í framtíðinni.
Góður árangur skylmingamanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2007 | 20:38
Ekki fleiri opin bréf, takk
Ég vonast til þess að þessum opnu bréfasendingum taki að linna. Þjóðkirkjan og Siðmennt ættu að sjá sóma sinn í því að boða frekar til ráðstefnu um þessi mál þar sem þau yrðu rædd á breiðum grundvelli og af skynsamlegu viti.
Siðmennt svarar biskup | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt 10.12.2007 kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.12.2007 | 11:04
Misráðinn hernaður
Ég held, því miður, að Siðmennt sé að gera mikil mistök með kröfu sinni um afsökunarbeiðni frá biskupi og öðrum svipuðum upphlaupum undanfarið. Nú er ég fjarri því að vera sérstaklega hrifinn af Siðmennt þar sem mér finnst þessi áhersla á að búa til einhvers konar eftirlíkingar af kristnum athöfnum frekar óspennandi.
Ég ber hins vegar mikla virðingu fyrir skoðunum trúleysingja enda hlýtur allt sanngjarnt fólk að vera sammála því að þær eiga við fullgild rök að styðjast. Það merkir hins vegar ekki að aðrir geti ekki haft aðra lífsafstöðu, grundvallaða á nákvæmlega jafngildum rökum.
Þótt margt sé gott í málflutningi Siðmenntar og gagnrýni á kirkjuna finnst mér þó nýleg upphlaup í tengslum við kristnifræðikennslu og aðkomu kirkjunnar að skólastarfi ekki samtökunum til framdráttar. Jafnvel mætti segja að þau séu tekin að koma óorði á málstað trúleysingja. Það er slæmt.
Orð biskups sem Siðmennt krefst nú afsökunarbeiðni á tengjast auðvitað þessum upphlaupum og endurspegla þá ímynd sem samtökin hafa því miður verið að gefa af sér undanfarið. Mér finnst krafan um afsökunarbeiðni líka lýsa svolítilli móðursýki. Það þarf enginn að skammast sín fyrir að vera hatrammur málflytjandi eða andstæðingur einhvers. Það er engin siðferðileg fordæming fólgin í því hugtaki!
Svo stuttlega sé komið að málflutningnum sjálfum hefur Siðmennt krafist þess að ekki sé stundað trúboð í skólum, því foreldrar eigi að ráða því sjálfir hvaða viðhorf börnum þeirra eru innrætt. Það kann að virðast sanngjörn krafa. En er það endilega víst?
Trúboð er innræting ákveðinna lífsskoðana, rétt eins og predikun trúleysis er innræting ákveðinna lífsskoðana. Innræting lífsskoðana á sér stað alls staðar í skólakerfinu. Það að boða jafnrétti, manngildi og umburðarlyndi er innræting lífsskoðana og það er alls ekki víst að allir séu sammála þeim túlkunum á þessum gildum sem þar eru lögð til grundvallar. Þess utan eru börnum beint og óbeint kenndar aðrar lífsskoðanir, sem kannski eru ekki jafn jákvæðar, svo sem áhersla á efnaleg gæði, reglan um auga fyrir auga og svo framvegis.
Fyrri spurning mín varðandi þetta er kannski þessi: Ef hafna á innrætingu lífsskoðana í skólum verður þá ekki jafnt yfir allar að ganga? Er yfirleitt hægt að forðast slíka innrætingu svo lengi sem við erum þátttakendur í samfélaginu?
Síðari spurningin er þessi: Er það eitthvað réttmætara að foreldrar stjórni því hvaða lífsskoðanir börnum eru innrættar en að það mótist af almennum viðhorfum í samfélaginu? Eru foreldrar einhvers konar einræðisherrar yfir börnum sínum sem hafa rétt til að stjórna og móta skoðanir þeirra?
Krefjast afsökunarbeiðni frá biskupi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
4.12.2007 | 18:00
Hvað læra þeir sem kenna?
Það hlýtur að skipta meginmáli við kennslu í grunnskóla að kennarinn hafi þekkingu á því námsefni sem honum er ætlað að miðla. Annars er því miður ákaflega líklegt að árangurinn verði slakur.
Ég skoðaði að gamni á vef Kennaraháskólans hvað kennaranemar þurfa að læra til að útskrifast sem grunnskólakennarar. Snöggsoðin niðurstaða er þessi:
Námið er til 90 eininga og skiptist í grunnnám og svonefnd kjörsvið.
Námsefnið í grunnnáminu er allt kennslu- og uppeldisfræði. Námsgreinarnar sem kenna á börnunum koma þar hvergi við sögu.
Kjörsviðin eru 14 talsins. Þau spanna allt frá íslensku og stærðfræði yfir í matargerð.
Íslenskunámið virðist snúast um kennslu í málfræði, bókmenntum og öðru sem ætla má að gagnist við íslenskukennslu. Þegar kjörsviðin eru skoðuð virðist íslenskan hafa nokkra sérstöðu í því, að þar er um praktískt nám í greininni að ræða. Ekki virðist það sama eiga við um mörg hinna kjörsviðanna. Sé stærðfræðinámið tekið sem dæmi snýst það um kennslufræði tengda stærðfræði. Hvergi er minnst á neina kennslu í greininni sjálfri heldur virðist námið aðallega snúast um umfjöllun um sögu stærðfræðinnar, áhrif tæknivæðingar á stærðfræðikennslu og þar fram eftir götunum. Kjörsviðið "kennsla yngstu barna í grunnskóla" virðist mest snúast um hluti á borð við þróun boðskiptahæfni, foreldrasamstarf og lestrarfræði, svo eitthvað sé nefnt.
Svo koma kjörsvið á borð við textíl, matargerð og fleira sem eðli málsins samkvæmt snúast alls ekki um grunngreinar á borð við lestur, skrift eða stærðfræði.
Það virðist því ljóst að auðvelt væri að útskrifast með fullgilt kennaranám án þess að hafa nokkru sinni lært neina undirstöðu í lestrarkennslu eða stærðfræðikennslu. Þá er ekki von að vel fari!
Nú berast af því fréttir að til standi að lengja kennaranám úr þremur í fimm ár. Kostnaður þessu samfara mun verulegur. Væri nú ekki einfaldara að endurskoða það nám sem fram fer í KHÍ og leggja áherslu á hagnýtt nám með áherslu á grunngreinar á kostnað kennslufræðanna sem allt virðist snúast um í téðum skóla? Það þarf enginn að segja mér að þrjú ár dugi ekki til þess. Þá væri kannski hægt að nota peningana til að greiða grunnskólakennurum mannsæmandi laun.
Vonsvikin með PISA-könnun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt 5.12.2007 kl. 08:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2007 | 10:42
Rosalega fyndið leikrit?
Ég las fyrst Hamskiptin eftir Kafka 16 eða 17 ára minnir mig. Það á við sjálfan mig eins og væntanlega fleiri, að mér finnst ég aldrei hafa skilið til fulls hvað höfundurinn er að fara, svo margræð er þessi saga, rétt eins og flest verk höfundarins önnur. Það var því með talsverðri eftirvæntingu sem ég fór um daginn að sjá uppfærslu Þjóðleikhússins, enda hafði hún fengið góða dóma, bæði hér og í London.
Fyrir þá sem ekki þekkja söguna fjallar hún um eftirleik þess að skrifstofumaðurinn Gregor Samsa vaknar upp og hefur þá breyst í tröllaukna bjöllu. Smátt og smátt rofna tengslin milli Gregors og fjölskyldu hans og lýkur sögunni á dauða Gregors.
"Þetta var rosalega fyndið leikrit!" heyrði ég manneskju sem sat fyrir framan okkur segja við sessunaut sinn þegar sýningunni var lokið. Það kom mér ekki á óvart, enda hafði viðkomandi persóna og sessunautar hennar, ásamt fáeinum öðrum takmörkuðum hópum í salnum, legið í nær stöðugu hláturskasti alla sýninguna. Ekki virtist þurfa mikið til að vekja kátínuna - ankannaleg eða ýkt hreyfing, ruddalegt orðaval eða eitthvað þess háttar dugði til.
Ég verð að viðurkenna að ég átti ekki auðvelt með að sjá eitthvað sérstaklega fyndið í Hamskiptunum. Að vísu fannst mér leikurinn á stundum helst til ýktur, jafnvel farsakenndur, sem ekki hjálpaði til við að koma andrúmslofti verksins til skila. En dóminn "rosalega fyndið leikrit" verð ég að viðurkenna að ég skil alls ekki.
Á undanförnum árum hafa alls konar farsar tröllriðið leikhúslífi hér á landi. Getur verið að talsverður hluti leikhúsgesta gangi orðið út frá því að leikrit séu alltaf farsar og þess vegna sé allt í þeim fyndið? Ég velti því fyrir mér hvort það sé raunin, því þetta er ekki eina dæmið sem ég hef upplifað, og fleiri sem ég hef borið þetta undir taka undir það. Og gæti jafnvel verið að leikstjórar séu farnir að gera út á þetta einkennilega viðhorf til að þóknast áhorfendum? Eða er þetta einfaldara? Á bara að láta fólk taka greindarpróf fyrst ef það ætlar að kaupa leikhúsmiða?
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.11.2007 | 21:23
Frábær hugmynd!
Þetta er snjöll hugmynd hjá Alþjóðahúsi.
Í fyrsta lagi eru svona barmmerki líkleg til að fá fólk til að hugsa út í það hvernig við komum fram við útlendinga.
Í öðru lagi gæti ég vel trúað því að þau yrðu til þess að almenningur legði sig fram um að hjálpa erlendum starfsmönnum að læra málið.
Það að hafa tækifæri til að tala erlent mál við heimamenn er líklega besta leiðin til að læra það almennilega. Ég kynntist því eitt sinn sjálfur þegar ég dvaldi í hálfan mánuð í Frakklandi. Við leigðum hús úti í sveit í Provence og húsinu "fylgdi" mikill ágætis húsvörður. Hann kom í heimsókn á tveggja til þriggja daga fresti til að athuga hvort allt væri í lagi. Þær heimsóknir tóku gjarna dáldinn tíma og þá var sest niður yfir kaffibolla og spjallað. Húsvörðurinn góði kunni lítið í ensku en var þeim mun ötulli að tala frönsku við okkur hjónin, bæði hægt og skýrt. Ég held að ég hafi lært meiri frönsku á þessum heimsóknum en öllu frönskunáminu í menntaskóla.
300.000 íslenskukennarar virkjaðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
Hitt og þetta
Bloggvinir
- agny
- graenar-lausnir
- bjarnijonsson
- bjornalexandermikli
- gattin
- dofri
- contact
- fhg
- gretaulfs
- gudni-is
- mosi
- bofs
- muggi69
- gudrunmagnea
- zeriaph
- holi
- haukurn
- diva73
- hlynurh
- ingibs
- ingolfursigurdsson
- fun
- jennystefania
- johnnybravo
- eyfeld
- jonbergsteinsson
- jonvalurjensson
- thjodarskutan
- krist
- kristjan9
- loncexter
- ludvikjuliusson
- sleggjudomarinn
- magnuss
- svarthamar
- vestskafttenor
- otti
- runaro
- joklamus
- sigurjons
- stefanjul
- summi
- saemi7
- samy
- torfusamtokin
- vestfirdir
- thorsteinn
- valli57
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 29
- Frá upphafi: 287867
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 20
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar