Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Sannar bara hið fornkveðna ...

... að vinstrimenn eru upp til hópa letingjar og liðleskjur

... þeir sem eru hallir undir ESB eru of timbraðir af rauðvínssötri til að komast á lappir á morgnana

... fátæklingar eru latari en þeir efnameiri

... Miðflokksmenn eru duglegir að fara fram úr (þótt við vitum að þeir vaka stundum líka lengi frameftir).

 

Annars fannst mér reyndar athygliverðasta niðurstaðan sú, að einhleypir skuli vera andvígari því að seinka klukkunni en þeir sem ekki eiga maka. Þetta hlýtur þá eiginlega að eiga við um þá sem eru einhleypir en eiga samt maka, en þeir sem ekki eiga maka eru latir á morgnana, sama hvort þeir eru einhleypir eða ekki (sjá skjáskot af vef könnunarfyrirtækisins):

Screenshot 2019-01-18 at 15.20.09


mbl.is Mikill meirihluti vill seinkun klukku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En fyrir fávitann?

Íslendingar hafa aldrei verið hrifnir af ofvitum, svo ekki er von að neinn sé tilbúinn að borga fyrir þá hátt verð. Fávitar fara á miklu hærri prísum hérlendis.
mbl.is 3,5 milljónir fyrir Ofvitann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki fleiri opin bréf, takk

Ég vonast til þess að þessum opnu bréfasendingum taki að linna. Þjóðkirkjan og Siðmennt ættu að sjá sóma sinn í því að boða frekar til ráðstefnu um þessi mál þar sem þau yrðu rædd á breiðum grundvelli og af skynsamlegu viti. 


mbl.is Siðmennt svarar biskup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt kvótakerfi?

Þessi ábending vekur vissulega athygli. Hún er kannski fyrst og fremst til marks um það, að því fer fjarri að öll kurl séu komin til grafar í þessum málum.

Nú sitja fulltrúar ríkja heims á fundi í Balí til að ræða um loftslagsmál og losunarkvóta. Losunarkvótar eru vafalaust komnir til að vera. Þegar hefur myndast markaður með þessa kvóta og vægi hans á vafalaust eftir að aukast. Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvernig þróunin verður þegar þjóðir heims, fyrirtæki og einstaklingar fara að gera sér fulla grein fyrir því að heimildir til mengunar andrúmsloftsins eru skyndilega að verða takmörkuð gæði.

Nýverið ákvað íslenska ríkisstjórnin að úthluta ekki kvótum til nýrra stóriðjuvera sem eru á teikniborðinu. Þau stóriðjuver sem fyrir eru halda hins vegar sínum kvótum. Því fer fjarri að allir hafi verið sáttir við þau málalok. Samt voru þeir sem ekki fengu kvóta aðeins að verja hagsmuni hugsanlegra, en ekki raunverulegra fyrirtækja, sem þegar höfðu hafið rekstur.

Hér á Íslandi eigum við nýlegt dæmi um sambærilegt mál, en það var þegar fiskveiðiheimildir urðu allt í einu takmörkuð gæði sem tóku að ganga kaupum og sölum. Fá mál önnur hafa valdið jafn djúpstæðum klofningi í samfélaginu og sér raunar enn ekki fyrir endann á þeim deilum sem spruttu af því með hvaða hætti fiskveiðikvótum var úthlutað á sínum tíma.

Álitamál tengd mengunarkvótum og meðferð þeirra gætu hæglega orðið í það minnsta jafn mikilvæg pólitískt og álitamálin um kvótakerfið. Það verður mikilvægara með hverjum deginu að fá að vita hver viðhorf stjórnmálaflokkanna eru til þessa máls. Er til dæmis eðlilegt að þau fyrirtæki sem nú nýta losunarheimildir haldi þeim án þess að greiða fyrir? Hvernig verður jafnræði tryggt gagnvart nýjum mengandi fyrirtækjum? Hvaða atvinnugreinar verða fyrir áhrifum af því, þegar losun mengandi efna verður kvótabundin? Mun sjávarútvegurinn til dæmis þurfa að kaupa losunarkvóta? Og hvað með landbúnaðinn?

Þessar spurningar munu koma upp á yfirborðið fyrr en varir. Þá er mikilvægt að stjórnmálamenn hafi myndað sér rökstuddar skoðanir sem byggja á framsýni og skynsemi. Sú umræða þarf að fara að hefjast, svo ekki þurfi að grípa til hraðsoðinna og vanhugsaðra lausna þegar að því kemur að leysa málið.


mbl.is Ganga skaðlegri en akstur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað læra þeir sem kenna?

Það hlýtur að skipta meginmáli við kennslu í grunnskóla að kennarinn hafi þekkingu á því námsefni sem honum er ætlað að miðla. Annars er því miður ákaflega líklegt að árangurinn verði slakur.

Ég skoðaði að gamni á vef Kennaraháskólans hvað kennaranemar þurfa að læra til að útskrifast sem grunnskólakennarar. Snöggsoðin niðurstaða er þessi:

Námið er til 90 eininga og skiptist í grunnnám og svonefnd kjörsvið.

Námsefnið í grunnnáminu er allt kennslu- og uppeldisfræði. Námsgreinarnar sem kenna á börnunum koma þar hvergi við sögu.

Kjörsviðin eru 14 talsins. Þau spanna allt frá íslensku og stærðfræði yfir í matargerð.

Íslenskunámið virðist snúast um kennslu í málfræði, bókmenntum og öðru sem ætla má að gagnist við íslenskukennslu. Þegar kjörsviðin eru skoðuð virðist íslenskan hafa nokkra sérstöðu í því, að þar er um praktískt nám í greininni að ræða. Ekki virðist það sama eiga við um mörg hinna kjörsviðanna. Sé stærðfræðinámið tekið sem dæmi snýst það um kennslufræði tengda stærðfræði. Hvergi er minnst á neina kennslu í greininni sjálfri heldur virðist námið aðallega snúast um umfjöllun um sögu stærðfræðinnar, áhrif tæknivæðingar á stærðfræðikennslu og þar fram eftir götunum. Kjörsviðið "kennsla yngstu barna í grunnskóla" virðist mest snúast um hluti á borð við þróun boðskiptahæfni, foreldrasamstarf og lestrarfræði, svo eitthvað sé nefnt.

Svo koma kjörsvið á borð við textíl, matargerð og fleira sem eðli málsins samkvæmt snúast alls ekki um grunngreinar á borð við lestur, skrift eða stærðfræði.

Það virðist því ljóst að auðvelt væri að útskrifast með fullgilt kennaranám án þess að hafa nokkru sinni lært neina undirstöðu í lestrarkennslu eða stærðfræðikennslu. Þá er ekki von að vel fari!

Nú berast af því fréttir að til standi að lengja kennaranám úr þremur í fimm ár. Kostnaður þessu samfara mun verulegur. Væri nú ekki einfaldara að endurskoða það nám sem fram fer í KHÍ og leggja áherslu á hagnýtt nám með áherslu á grunngreinar á kostnað kennslufræðanna sem allt virðist snúast um í téðum skóla? Það þarf enginn að segja mér að þrjú ár dugi ekki til þess. Þá væri kannski hægt að nota peningana til að greiða grunnskólakennurum mannsæmandi laun.

 


mbl.is Vonsvikin með PISA-könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóleyismi - köllum alla hluti réttum nöfnum!

Ég hef verið að velta því fyrir mér, í framhaldi af alræmdu þingmáli Steinunnar V. Óskarsdóttur út af ráðherrum, hvort ekki sé víðar pottur brotinn í nafngiftum.

Helstu rök Steinunnar fyrir því að konur eigi ekki að kalla ráðherra eru þau að það sé ankannalegt að kalla konur herra. Undir þetta sjónarmið hafa margir tekið, þótt einhverjir afturhaldsseggir hafi reynt að flytja fyrir því rök að orðið ráðherra þýði allt annað en titillinn herra. En það er vitanlega bara vegna þess að þeir eru afturhaldsseggir og karlmenn með karlmiðaðar skoðanir. Það sér nú hver m... einstaklingur!

Nú vill svo til að margir hlutir bera nöfn sem hljóma ankannalega. Þar á ég ekki aðeins við starfsheiti fólks heldur líka, og ekki síður, dýr og plöntur. Það getur heldur tæpast verið einhver endapunktur í jafnréttisbaráttu að nema staðar við jafnrétti meðal mannfólksins. Náttúran á vitanlega sinn rétt líka. Dýrin eiga sinn rétt og blómin og ekki má brjóta á þeim.

"Sóley" hefur hingað til þótt gott og gilt heiti á blómi einu sem fólk ber raunar misjákvæðar tilfinningar til. Sóleyjar eru einhver algengustu blóm landsins, ásamt fíflum raunar, sem hafa þann skemmtilega kost að skipta um kyn á gamals aldri og eru svo kallaðir biðukollur fram í andlátið. Það sýnir auðvitað á kaldhæðnislegan hátt hvernig karllæg viðhorf í samfélaginu smita út frá sér: Það sem er í blóma lífsins er karlkyns, en verður kvenkyns þegar það drepst!

En fíflar voru nú ekki tilefni þessa pistils heldur sóleyjar. Við sjáum nefnilega, þegar rýnt er í nafnið sóley, að það er samsett heiti, rétt eins og "ráðherra". Sól-ey. Sól og ey. Og þá veltir maður fyrir sér, í anda þingkonunnar mætu, hvort hér sé ekki eitthvað óeðlilegt á ferðinni. Er ekki einkennilegt að kalla blóm ey? Eyjar tilheyra ekki einu sinni jurtaríkinu. Ég held reyndar, að í þessari nafngift hins ágæta blóms megi greina viðhorf af svipuðum toga og það karllæga viðhorf að konur megi vel kalla herra. Ég kýs að kalla það, í þessu samhengi, "landlægt" viðhorf. Landlægt viðhorf er þegar landfræðileg hugtök smita út frá sér yfir á alls óskylda hluti, svo sem plöntur og dýr. Hvað sóleyjarnar varðar er augljóst hvað átt hefur sér stað. Og það kemur enn betur í ljós þegar litið er á fyrri hluta nafnsins, sól. Á þetta blóm eitthvað sameiginlegt með sólinni, eitthvað frekar en með eyju. Svona lúmsk er landlægni orðræðunnar nú orðin!

Ég legg því til að blóminu sóley verði fundið annað og betur viðeigandi nafn og lýsi eftir tillögum þar um. Heitin þurfa að sjálfsögðu að vera í anda róttæks sóleyisma og verður enginn fífla-gangur liðinn þar!


Jafnrétti í orði kveðnu - Ojbjakk!

Get eiginlega ekki sleppt því að bæta aðeins við færslu mína um þetta mál frá því áðan:

Þetta þingmál ber fyrst og fremst vott um hversu fjarri veruleikanum sjálfum fólk getur verið og hversu aukaatriðin geta orðið mikilsverð þegar það hendir. Að mörgu leyti minnir þetta á málflutning margra af hægri væng stjórnmálanna, sem ég vil kenna við "frjálshyggju aukaatriðanna". Frjálshyggja aukaatriðanna er sú pólitík að álykta í sífellu um mál á borð við lögleiðingu eiturlyfja, sölu ríkisútvarpsins, niðurlagningu Sinfóníuhljómsveitarinnar eða annað þess háttar, en láta nægja að gjóa blinda auganu svona í áttina þegar ríkið veður í enn einar stórframkvæmdirnar á kostnað skattgreiðenda, í skjóli blekkinga og af fullkomnu ábyrgðarleysi. Frjálshyggja aukaatriðanna fer í taugarnar á mér vegna þess að hún ber vott um óábyrga forgangsröðun. Raunverulegt frelsi lifandi fólks er aukaatriði, en það sem öllu skiptir er að láta á sér bera.

Umrætt þingmál um hvað skuli kalla ráðherra er upprunnið af hinum væng stjórnmálanna en undir nákvæmlega sömu sök selt. Um það má raunar segja meira: Það á það sammerkt með áherslunni á "málfar beggja kynja" í nýju biblíuþýðingunni, að það snýr alls ekki að veruleikanum sjálfum. Þetta er ekki þingmál sem hefur að markmiði að breyta einu eða neinu í jafnréttismálum. Hér eru það aðeins orðin sem skipta máli. Ekki aðeins orð heldur titlar. Og ekki einu sinni titlar venjulegs fólks heldur aðeins virðingartitlar! Og hvað svo með jafnrétti venjulegra kvenna? Þær eiga kannski bara að éta kökur ef þær eiga ekkert brauð!

Ojbjakk!

Þetta mál ber vott um ákaflega einkennilega forgangsröðun. Tæpast er hægt að segja að Alþingi sé skammtaður of drjúgur tími til að ræða mál sem varða raunverulega hagsmuni lifandi fólks, raunveruleg efnahagsmál eða raunveruleg jafnréttismál. Og þá leggur stjórnarþingmaður fram mál sem líklegt er til að kalla á endalaust þvarg og tímaeyðslu í þingsölum. Og til hvers? Ekki til að efla alvöru jafnrétti. Því markmiðið með svona máli snýr alls ekki að jafnrétti. Það snýr að jafnrétti í orði kveðnu!


Gott mál - aðeins einn blettur

Það var vel til fundið að afhenda Hr. Sigurbirni þessi verðlaun. Hann er sannarlega vel að þeim kominn. Dagskráin sem sjónvarpað var fannst mér í nærri alla staði einstaklega skemmtileg og vel unnin. Þó þótti mér nauðgun einhvers náunga í hettupeysu á Gunnarshólma ákaflega ósmekkleg og hallærisleg. Eins og tyggjóklessa á Kjarvalsmynd, eiginlega.
mbl.is Sigurbjörn Einarsson hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynjafræði, marxismi og almannavalsfræði

Um síðustu helgi var haldin ráðstefna um svonefnda "kynjafræði" sem virðist eiga mjög upp á pallborðið hjá ýmsum um þessar mundir. Fræðigrein þessi mun m.a. kennd við Háskóla Íslands.

Samkvæmt kynningu á vef H.Í. er kynjafræði fræðigrein þar sem "þverfaglegu og femínisku sjónarhorni beitt til að skoða stöðu kynjanna í mismunandi samfélögum og menningarsvæðum, í sögulegu samhengi og í samtímanum."

Á síðustu áratugum hefur sjónarhorn marxista átt sér mikinn hljómgrunn í fræðasamfélaginu, hvort sem litið er á sögu, samfélagsfræði eða jafnvel hagfræði. Í marxismanum er sjónum beint að stéttabaráttu og er forsendan sú að öll söguleg þróun eigi sér rætur í henni.

Nú á síðustu árum hefur svonefnd "almannavalsfræði" rutt sér mjög til rúms meðal ýmissa frjálshyggjusinnaðra hagfræðinga. Samkvæmt almannavalsfræðinni má skýra ákvarðanir og athafnir stofnana og einstaklinga innan stjórnkerfisins með vísan til eigin hagsmuna þeirra sjálfra, hvort sem er til lengri eða skemmri tíma.

Allar eiga þessar "fræðigreinar" tvennt sameiginlegt: Í fyrsta lagi er í þeim öllum gengið út frá fyrirfram gefinni forsendu um hvernig heimurinn sé. Í marxismanum er gengið út frá kenningunni um díalektíska efnishyggju - að allt megi skýra með vísan til stéttarhagsmuna. Í almannavalsfræðunum er gengið út frá forsendunni um persónulega efnahagslega hagsmuni og að allar athafnir þeirra sem sjónum er beint að megi skýra út frá þeim. Í kynjafræðinni er gengið út frá forsendunni um að söguleg og samfélagsleg þróun snúist um átök milli kynja.

Marxismi, almannavalsfræði og kynjafræði geta án vafa verið gagnlegar nálganir, eða áhugaverðar kenningar, sem vissulega geta nýst til að skilja heiminn betur. En þær eiga það allar sameiginlegt að vera kenningar, ekki fræðigreinar.

Í háskólum er kennd sagnfræði og félagsfræði, ekki marxismi. Þar er kennd hagfræði, ekki almannavalsfræði. Marxismi og kenningin um almannaval eru hins vegar mikilvægir þættir í námi í sagnfræði, félagsfræði, hagfræði og heimspeki. Og þá kemur spurningin: Hvað greinir hina svokölluðu kynjafræði frá öðrum kenningum um samfélag og sögu sem gerir að verkum að hún verðskuldi stöðu fræðigreinar, þótt hún virðist augljóslega ekki vera það?


Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 287867

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband