Kynjafræði, marxismi og almannavalsfræði

Um síðustu helgi var haldin ráðstefna um svonefnda "kynjafræði" sem virðist eiga mjög upp á pallborðið hjá ýmsum um þessar mundir. Fræðigrein þessi mun m.a. kennd við Háskóla Íslands.

Samkvæmt kynningu á vef H.Í. er kynjafræði fræðigrein þar sem "þverfaglegu og femínisku sjónarhorni beitt til að skoða stöðu kynjanna í mismunandi samfélögum og menningarsvæðum, í sögulegu samhengi og í samtímanum."

Á síðustu áratugum hefur sjónarhorn marxista átt sér mikinn hljómgrunn í fræðasamfélaginu, hvort sem litið er á sögu, samfélagsfræði eða jafnvel hagfræði. Í marxismanum er sjónum beint að stéttabaráttu og er forsendan sú að öll söguleg þróun eigi sér rætur í henni.

Nú á síðustu árum hefur svonefnd "almannavalsfræði" rutt sér mjög til rúms meðal ýmissa frjálshyggjusinnaðra hagfræðinga. Samkvæmt almannavalsfræðinni má skýra ákvarðanir og athafnir stofnana og einstaklinga innan stjórnkerfisins með vísan til eigin hagsmuna þeirra sjálfra, hvort sem er til lengri eða skemmri tíma.

Allar eiga þessar "fræðigreinar" tvennt sameiginlegt: Í fyrsta lagi er í þeim öllum gengið út frá fyrirfram gefinni forsendu um hvernig heimurinn sé. Í marxismanum er gengið út frá kenningunni um díalektíska efnishyggju - að allt megi skýra með vísan til stéttarhagsmuna. Í almannavalsfræðunum er gengið út frá forsendunni um persónulega efnahagslega hagsmuni og að allar athafnir þeirra sem sjónum er beint að megi skýra út frá þeim. Í kynjafræðinni er gengið út frá forsendunni um að söguleg og samfélagsleg þróun snúist um átök milli kynja.

Marxismi, almannavalsfræði og kynjafræði geta án vafa verið gagnlegar nálganir, eða áhugaverðar kenningar, sem vissulega geta nýst til að skilja heiminn betur. En þær eiga það allar sameiginlegt að vera kenningar, ekki fræðigreinar.

Í háskólum er kennd sagnfræði og félagsfræði, ekki marxismi. Þar er kennd hagfræði, ekki almannavalsfræði. Marxismi og kenningin um almannaval eru hins vegar mikilvægir þættir í námi í sagnfræði, félagsfræði, hagfræði og heimspeki. Og þá kemur spurningin: Hvað greinir hina svokölluðu kynjafræði frá öðrum kenningum um samfélag og sögu sem gerir að verkum að hún verðskuldi stöðu fræðigreinar, þótt hún virðist augljóslega ekki vera það?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingi Björn Sigurðsson

Mjög skemmtileg pæling... Hafði ekki séð þetta í þessu ljósi áður.

Ingi Björn Sigurðsson, 12.11.2007 kl. 22:11

2 Smámynd: Sveinn Ólafsson

Fræðigreinar hafa reyndar orðið til í áranna rás og menn hafa þá spurt líkt og Þorsteinn gerir hér í lokin. Allar byggja þær á kenningum og prófun tilgátna, ef þær eiga að teljast vísindi. Annars eru lítil takmörk fyrir því hverju maðurinn getur tekið sér fyrir hendur að skoða.

Félagsfræðin, sem hér er nefnd, varð varla til sem sérstök fræðigrein fyrr en á 19. öld. 

Hagfræði er grein sem sprettur af meiði stærðfræði, sagnfræði og fleiri fræðigreina. Adam Smith kenndi siðfræði við Glasgow- og Edinborgarháskóla.

Ég held að sagan kenni okkur að sérstakar fræðigreinar geti orðið til, ef fólk kýs svo. 

Sveinn Ólafsson, 13.11.2007 kl. 16:59

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Vissulega geta fræðigreinar orðið til. Spurningin sem ég varpa fram er hins vegar sú, hvort rétt sé að rugla saman fræðigrein annars vegar og fræðilegri kenningu hins vegar.

Enginn myndi til dæmis spyrja með þessum hætti um grein á borð við tölvunarfræði eða geimverkfræði. Fræðigrein er rammi um rannsóknir, en það er ég hræddur um að kynjafræði sé því miður ekki.

Þorsteinn Siglaugsson, 13.11.2007 kl. 17:08

4 Smámynd: Sveinn Ólafsson

Kynjafræði eru þau vísindi að skoða mannskepnuna út frá kynferði.

Kenningar sem nú eru ráðandi í kynjafræðunum gefa mjög þrönga niðurstöðu og það má fyllilega efast um það, eins og mér sýnist Þorsteinn gera, hvort þær kenningar séu fræði. Þá er átt við að ef niðurstaðan er alltaf sú sama þá er varla nein þekkingarleit í gangi, varla verið að spyrja vísindalegra spurninga, heldur virðist aðeins um að ræða stjórnmálaskoðanir klæddar í gervi fræða.

Það væri ekki í fyrsta skipti sem það gerist. Svokölluð marxísk fræði höfðu aðeins eina niðurstöðu, sem var að Marx hefði haft rétt fyrir sér. Freudistar voru á svipuðum slóðum með sinn leiðtoga.

Ef kynjafræðin vilja vera vísindi verða þau að fjalla um prófanlegar, afsannanlegar tilgátur, og niðurstöður rannsókna þar sem reynt er að renna stoðum undir eða draga í efa þessar tilgátur. Ef aðeins er um að ræða skoðanir sem nógu margir sameinast um að hafa og ræða, eru það ekki fræði heldur umræður. Þær eru ágætar fyrir sinn hatt. 

Sveinn Ólafsson, 13.11.2007 kl. 19:24

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þarna kemur þú einmitt að kjarna málsins, Sveinn. Eins og Popper benti á á sínum tíma er það frumforsenda alvöru fræðimennsku að hægt sé að hugsa sér leið til að afsanna tilgáturnar sem eru settar fram. Popper gagnrýndi einmitt marxisma og freudisma á þessum grunni, enda skýra þær kenningar allt og ekki er hægt að ímynda sér neina leið til að afsanna þær.

Þorsteinn Siglaugsson, 13.11.2007 kl. 21:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 287182

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband