Menntunaröryggi?

Nú þegar fæðuöryggið er tekið að bíta almennilega og veitingastaðir hættir að bjóða upp á annað en djúpfrysta sviðakjamma snúa stjórnvöld sér að því að tryggja landsmönnum menntunaröryggi.
Menntunaröryggi felst í fyrsta lagi í því að tryggja aðgang að innlendri menntun svo þjóðin verði ekki fyrir barðinu á menntunarskorti þegar landið einangrast vegna yfirvofandi styrjaldar innan Evrópusambandsins sem mun vera alveg að bresta á.

Í öðru lagi snýst það um að forðast að óhörðnuð ungmenni smitist af varasömum hugmyndum sem gjarna eru á kreiki í útlendum háskólum, beri þær hingað heim þar sem þær gætu breiðst út í íslenskum háskólum. Slíkt yrði mikill skaði enda erum við í þeirri einstæðu stöðu að hafa hér hundrað bestu háskóla í heimi miðað við höfðatölu og höfum því ekkert til útlanda að sækja í þeim efnum.

Í þriðja lagi forðar menntunaröryggi síðan því að þetta fólk kynnist alminlegu keti í útlöndum og því er menntunaröryggið líka liður í að tryggja betur að þjóðin sætti sig við fæðuöryggið.

Í fjórða lagi dregur svo menntunaröryggið mjög úr hættu á að háskólamenntað fólk ílengist erlendis við störf. Þannig tryggjum við til dæmis að áfram verði nokkrir læknar ranglandi um ganga nýja Landspítalans þegar hann verður búinn að breiða úr sér yfir mestöll Þingholtin.

------------------------------

Annars frétti ég eftir öruggum heimildum að loks væri komið á koppinn stórverkefni sem VG sættir sig við: Múr í kringum landið. Hann verður nefndur Kínamúrinn í höfuðið á vonda Kínverjanum sem fær að snuðra í kringum hann leitandi sér að smugu til að smjúga inn um í því skyni að ná tangarhaldi á siglingaleiðum veraldarinnar með því að hokra á Grímsstöðum á Fjöllum.
Stjórnarandstaðan mun alveg samstíga í þessu enda vita menn þar á bæ ekkert meira spennandi en að skapa atvinnu við að berja grjót - það eykur nebblega svo mikið hagvöxt.


mbl.is Ekki lánað til nema erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú vantar bara ...

... að VG álykti til stuðnings sýrlenskum stjórnvöldum og vari við hvers konar hernaðaríhlutun, arðráni og heimsvaldastefnu glæpastjórnanna í Noregi og Danmörku gegn þjóðfrelsi og sósíalisma alræðisstjórnar sýrlenskra öreiga.
mbl.is Skotið á sýrlenska mótmælendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðardúfa Gaddafis

Ástæða þess að Nato hóf aðgerðir í Lýbíu var að landsmenn höfðu gert uppreisn gegn gerspilltum og valdasjúkum sósíalískum byltingarleiðtoga sínum sem brást við með því að murka miskunnarlaust lífið úr almenningi. Friðarstefna VG felst þá líklega fyrst og fremst í að láta morðingja óáreitta við iðju sína. Í praxís tekur hún reyndar aðeins til morðingja sem eru skoðanabræður flokksmanna og hefja með þeim hinn rauða fána til himins til að verja alþýðu landa sinna "arðráni" með því að hirða allar eigur hennar og svipta hana frelsinu.
Manni verður einfaldlega óglatt af svona yfirlýsingum.
mbl.is VG samstiga um Líbíurannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styðja sína menn

Vitanlega er sjálfsagt að leitast við að bakka upp síðustu sósíalistaleiðtoga heimsins. Litlu skiptir þótt þeir brytji niður eigin landsmenn í vonlausri baráttu sinni fyrir að halda völdum. Svona ályktanir sýna hugarheiminn best: Manneskjan er einskis virði, lífið er einsks virði, aðeins hinn ömurlegi málstaður þessara mannhatara skiptir máli.
mbl.is Vilja rannsóknarnefnd vegna Líbíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættulegar skoðanir?

Það vita allir sem vilja vita það að íslenskt skólakerfi er frekar slappt. Lýsing borgarstjórans er ekkert einsdæmi; börn sem ekki falla að meðaltalinu eiga gjarna erfiða skólagöngu, hvort sem þau eru tossar eða námshestar. Því fer fjarri að efasemdir um réttmæti skólaskyldu séu "óábyrgt tal". Þær eiga fullan rétt á sér, rétt eins og umræða um aðrar grundvallarspurningar. Því er kjánalegt af forsvarsmönnum þessara samtaka að skamma borgarstjóra fyrir að varpa slíkum spurningum fram.
mbl.is Undrast ummæli borgarstjóra um skólamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stormur í vatnsglasi?

Nú hyggjast þingmenn eyða tíma sínum í að karpa um ástæður þess að sumum finnst leiguverð íbúðarhúsnæðis of hátt. En er leiguverð of hátt?
Samkvæmt lauslegri yfirferð á leiguhúsnæði í boði í leiguauglýsingum mbl.is virðist leiga á fermetra miðsvæðis í Reykjavík fara hæst í tæplega 3.000 kr., lægst í 1.000 kr. en að jafnaði er hún á bilinu 1.500-2.000 kr.
Algengt er að mánaðarleg greiðslubyrði lána Íbúðalánasjóðs sé um 5.500 kr. á hverja milljón. Miðað við 250 þúsund króna fermetraverð eru þetta um 1.375 kr. á fermetra. Eigið fé í fasteignarekstri þarf að bera hærri ávöxtun - að jafnaði um 10% eða um 8.000 á hverja milljón á mánuði, . Miðað við 80% skuldsetningu er þá meðalkostnaður á fermetra um 1.500 kr. Svo þarf að bæta við fasteignagjöldum og viðhaldskostnaði, hér má reikna með um 6% ofan á leiguverðið, sem þá er komið í 1.590 kr. Einnig þarf að reikna með að nýting sé ekki alveg 100% þar sem húsnæðið getur staðið autt í einhvern tíma. Ef gert er ráð fyrir 90% nýtingu er meðalkostnaður eigandans á fermetra orðinn um 1.770 kr. Þá er ekkert tillit tekið til eigin vinnu við umsjón með húsnæðinu. Sé hún tekin með í reikninginn er vafi á að umstangið borgi sig yfir höfuð.
Samkvæmt þessu verður tæpast séð að húsaleiga sé of há. Legg ég því til að þingmenn nýti tíma sinn til að ræða eitthvað annað. Af nógu er að taka.
mbl.is Íbúðum ÍLS komið í gagnið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ávallt framtakssamir

Þá hefur fangelsi bæst í hóp allra þjóðþrifaverkanna sem Suðurnesjamenn ætla að standa að. Ef öll þessi verkefni ættu ekki það eitt sameiginlegt að byggjast á stórfelldum fjárveitingum frá ríkinu mætti draga þá ályktun að forystumenn á Suðurnesjum væru einkar áræðnir og framtakssamir menn. (Eina framtakssemin sem enn hefur orðið að veruleika var hins vegar að setja þorpið á hausinn með stæl!)
En nú hefur sumsé fangelsið bæst í þennan fríða hóp. Það er einkar ánægjulegt því þá er hægt að kvarta yfir vöntun á "stuðningi ráðamanna" (les: skattfé) við enn eitt verkefnið.
mbl.is Suðurnesjamenn vilja fangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á móti skattahækkunum, en ...

Það er vissulega löngu kominn tími til að Samtök atvinnulífsins beiti sér gegn skattahækkunum. Þar hafa þau dregið lappirnar allt of lengi, væntanlega í þeirri von að ráðandi aðilar innan þeirra, verktakar og útgerðarmenn, fái í sinn hlut verkefni á kostnað ríkisins og ókeypis hráefni.

En tökum eftir einu. Tökum eftir þeim orðum Vilhjálms að "vilji ríkisstjórnin ekki koma fjárfestingum, atvinnulífinu og vegaframkvæmdum af stað þá hljóti að vera rökrétt að stilla umfang ríkisins af í stað skattahækkana." Hvað er hér á ferðinni? Jú, nú er boðið upp á skipti: Við skulum fallast á skattahækkanir ef þið lofið að skuldsetja afkomendur okkar til að útvega verktökunum verkefni. Bara ef þið viljið vera svo væn að gera það þá skulum við fallast á hvaða skattahækkanir sem er og allan þann hallarekstur á ríkissjóði sem þið viljið!

---------------------------------

Það er kominn tími á ný samtök vinnuveitenda, samtök sem standa vörð um hagsmuni alvöru fyrirtækja sem rekin eru á frjálsum markaði, sækja tekjur til einkaaðila sem vilja greiða fyrir þjónustu þeirra, og borga sjálf fyrir hráefni sitt.


mbl.is Gegn mögulegum skattahækkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skárra en margt annað, en samt...

Neysluskattar eru að mörgu leyti mun skárri skattlagningarleið en tekjuskattar. Bæði getur fólk dregið úr áhrifum þeirra með því að minnka neyslu og eins hafa þeir minni vinnuletjandi áhrif en tekjuskattar. Með því að skattleggja neyslu fremur en tekjur er jafnframt hvatt til sparnaðar.

Við þær aðstæður sem nú eru uppi - lífskjör hafa versnað hratt, skattar hafa hækkað verulega, gjaldeyrishöft og furðulegar skattareglur hamla uppbyggingu og einkarekstri - er hins vegar líklegt að hækkun neysluskatta komi verr niður á þeim sem hafa það verst en við venjulegar aðstæður enda hefur fólk þegar dregið úr neyslu eins og kostur er.
Það er því líklega rétt hjá Sigmundi Davíð að hækkun virðisaukaskatts á matvöru komi verst við þá sem síst mega við því.

Eina leiðin til að rétta af stöðu ríkisins nú er að skera niður. Það hefur ríkisstjórninni ekki tekist að neinu marki, enda kannski ekki við því að búast. Það veldur meiri áhyggjum að stjórnarandstæðingar skuli ekki gera neina tilraun til að setja fram vegvísa til samdráttar í rekstri ríkisins en eyða tíma sínum og orku í það eitt að kvabba yfir að ríkið skuli ekki skuldsetja sig enn meir en orðið er til að fjámagna alls kyns framkvæmdir sem engin nauðsyn er á. Kröfur þessar eru ávallt settar fram í nafni hagvaxtar, en það gleymist að betra er að hafa minni hagvöxt en að ná honum fram með opinberri skuldsetningu. Hagvöxtur er mælikvarði á virkni og þróun hagkerfisins, ekki markmið í sjálfu sér.


mbl.is Virðisaukaskattshækkun á mat?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líkið

Það er athyglivert að blaðamaður skuli setja gæsalappir utan um orðið lík í þessu samhengi. Hvers vegna ætli það sé? Ætli hugmyndin sé að fá lesendur til að ímynda sér að lík fósturs sé ekki raunverulegt lík? Ætli það séu þá ekki fleiri en þeir aðilar sem tilgreindir eru í fréttinni sem láta frá sér ónákvæmar upplýsingar?

Hér á landi er starfræktur sérstakur grafreitur fyrir fóstur. En aðgang að honum fá ekki öll fóstur - aðeins þau sem foreldrarnir óskuðu eftir - hin fá að liggja utan garðs í "dulunni sinni" líkt og útborna barnið forðum.

En kannski besta vernd ófæddra barna sé einmitt sú sem nefnd er í fréttinni - að aðstandendurnir fái sjálfir að losa sig við líkið.


mbl.is Óráð um fóstureyðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.9.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 288203

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband