Ekki missa af Fórn í Borgarleikhúsinu

Það er ekki oft sem okkur hér á klakanum gefst tækifæri til að sjá stórfenglega listviðburði. En einn slíkur er nú í gangi í Borgarleikhúsinu. Fórn eftir Ernu Ómarsdóttur, Valdimar Jóhannsson, Matthew Barney, Ragnar Kjartansson, Margréti Björnsdóttur og Gabríelu Friðriksdóttur er eitthvað það magnaðasta sem sést hefur hér á landi. Viðburðurinn samanstendur af fjórum sýningum, blöndu tónlistar, balletts og kvikmyndalistar, hverri annarri betri, og nær hámarki í hinni stórkostlega frumlegu kvikmynd Barney, Ernu og Valdimars, “Union of the North”.

Fórn er einhver metnaðarfyllsti listviðburður sem sést hefur hérlendis og verður lengi í minnum hafður. Ég hvet alla sem hafa áhuga á framsækinni listsköpun til að láta Fórn ekki framhjá sér fara.


Spillingarmálin eru víða

Ég efast ekki um það eitt andartak að flestöll fyrirtæki sem eiga viðskipti að einhverju ráði við stjórnvöld í spilltum einræðisríkjum greiði mútur. Þau eru bara misflink að fela það.

Ég held líka að Íslendingar geti tæpast sett sig á háan hest þegar kemur að slíku. Hér felst spillingin í atkvæðakaupum stjórnmálamanna fyrir almannafé. Hvað eru Vaðlaheiðargöng og Kárahnjúkavirkjun annað en stórvaxin spillingarmál af slíkum toga.

Mér finnst ekki að ég eigi að þurfa að hafa af því sérstakar áhyggjur hverjir eiga banka og hverjir ekki. Stjórnmálamenn eiga ekki að þurfa að hafa af því áhyggjur heldur. Bankarekstur á einfaldlega að lúta sömu lögmálum og annar rekstur. Sá sem leggur fé sitt í banka á að gera það á eigin ábyrgð. Það á ekki að vera hægt að ganga í fjármuni skattgreiðenda ef illa fer í bankarekstrinum, en sú slæma venja er meginástæða þess að eigendur og starfsmenn banka græða þegar vel gengur, en þegar illa gengur lendir tapið á skattgreiðendum.


mbl.is Nýir eigendur í spillingarmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verð og arður hanga saman

Það er undarleg hagfræði að halda að þegar maður selur eitthvað sé það eina sem breytist það, að arðurinn af því hætti að renna til manns.

Auðvitað er það svo að söluverð á fyrirtæki eða annarri eign ræðst af því hver arðurinn af eigninni er. Kaupandinn fær vissulega í sínar hendur framtíðararðinn. En, surprise, surprise (fyrir menn eins og Frosta) ... seljandinn fær kaupverðið greitt frá kaupandanum!

Þessu þurfa sumir að fara að reyna að átta sig á.


mbl.is Vaxtagreiðslur heimilanna úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísindi?

Það er svo sannarlega athygliverð rannsóknaraðferð að skoða þrjú lönd af tæplega 200 löndum í veröldinni og draga svo af þeirri athugun þá ályktun að með þessu sé sýnt fram á samhengi milli fyrirkomulags áfengissölu og þess hversu algengir tilteknir sjúkdómar eru.

Þetta er álíka vísindalegt og að spyrja þrjá íbúa í 200 manna þorpi um stjórnmálaskoðanir þeirra og draga af því ályktun um skoðanir allra þorpsbúanna.


mbl.is Aukið aðgengi eykur skaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnuskapandi?

Það er eflaust atvinnuskapandi fyrir kontórista að krefjast þess að fólk fái vottorð frá Heilbrigðiseftirlitinu til að geta leigt út íbúðina sína, en þvílíkur yfirgengilegur kjánaskapur er þetta nú!


mbl.is Kostar 77.560 að skrá heimagistingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstaklingsmiðuð samræmd próf?

Eitthvað hljómar það nú einkennilega að tala um að samræmd próf geti verið einstaklingsmiðuð. Hvað merkir það? Að prófin séu þannig hönnuð að allir fái sömu einkunn, læsir sem ólæsir, þeir sem eitthvað kunna og þeir sem ekkert kunna?

Kannski er það hin fullkomna leið til að koma endanlega í veg fyrir að nokkurn tíma verði tekið á því sívaxandi metnaðarleysi sem einkennir íslenskt grunnskólakerfi.

Svo er bara að passa að prófin verði einstaklingsmiðuð líka í framhaldsskólum og háskólum - og setja svo í lög að fyrirtækjum sé óheimilt að mismuna starfsmönnum eftir getu, hvort sem er við launaákvarðanir eða ráðningar.

Þá er björninn unninn.


mbl.is Aðdragandi prófsins ýtti undir kvíða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hótelgeirinn þarf á endurnýjun að halda

Ég hef efasemdir um að bann við Airbnb sé skynsamlegt. Það er auðvitað sjálfsagt að takmarka slíka útleigu þannig að hún verði ekki úr hófi truflandi fyrir íbúa í vinsælustu hverfunum, en eftirspurnin eftir gistirými hverfur ekki neitt þótt skammtímaútleiga verði bönnuð í vinsælum hverfum. Hún færist aðeins í önnur hverfi, húsnæðisskorturinn eykst á þar, og allt situr við það sama. Þetta er nú eiginlega morgunljóst.

Vandi húsnæðismarkaðarins er í raun og veru sá hversu sveiflukennd uppbyggingin virðist ávallt vera. Ekkert er byggt árum saman, síðan kemur uppsveifla og allt of mikið er byggt á skömmum tíma. Sökin á þessu er auðvitað fyrst og fremst sveitarfélaganna. Ef samhæfing væri milli sveitarfélaga um að skipuleggja nýtt byggingarland jafnt og þétt í takt við fjölgun íbúa myndi þessi ríkisbrestur hætta að hafa þau áhrif sem hann hefur nú.

Airbnb er annars merkilegt fyrirbrigði. Staðreyndin er nefnilega sú að fólk sækir í síauknum mæli eftir að leigja sér íbúðir í stað hótelherbergja þegar það er á ferðalögum. Og ástæðan er alls ekki aðeins sú að það sé ódýrara. Það er það nefnilega alls ekki alltaf. Ástæðan er miklu fremur sú að mörgum finnst einfaldlega þægilegra og afslappaðra að dvelja í íbúð og hafa þar sína hentisemi. Plássið er meira, staðsetningin oft betri, nálægðin meiri við daglegt líf íbúa og engin þörf á að borða sífellt á veitingahúsum sem er bæði dýrt og getur orðið þreytandi kvöð til lengdar. Á meðan þessi nýi markaður vex virðist hótelgeirinn standa í stað. Það verður ekki fyrr en hótelin taka við sér og laga þjónustuframboðið að þessum nýuppgötvuðu þörfum að eftirspurn eftir íbúðaleigu tekur að dala.

 


mbl.is Bann við Airbnb lausn á vandanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórriddarakross?

Ef hægt er að veita látnum manni stórriddarakross finnst mér að hann ætti að veita Sævari Ciesielski. Fáir hafa með baráttu sinni orðið íslensku réttarkerfi að meira gagni.

Hafi einhverjum af úrhrökunum sem stóðu að réttarmorðinu á Sævari og þeim hinum á sínum tíma fengið slíkar orður ætti jafnframt að afturkalla þær orðuveitingar.


mbl.is „Þetta er andleg píning“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilgangurinn með samræmdum prófum

Tilgangur með samræmdum prófum er tvíþættur. Annars vegar eru prófin til þess að kennarar og nemendur geri sér grein fyrir stöðu mála og geti þá gert ráðstafanir ef hún er ekki nógu góð.

Hins vegar eiga prófin að geta nýst framhaldsskólum til að velja inn nemendur. Það er sjálfsagt og eðlilegt að þau séu notuð til þess, og í raun fráleitt að svo sé ekki, enda sýnir reynslan að því fer fjarri að hægt sé að treysta á innri einkunnagjöf skólanna sjálfra þegar að þessu kemur, svo ólík er hún.


mbl.is Öll prófin jafnþung
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 288156

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband