31.7.2010 | 11:48
Héraðsdómurinn og ólíkir hagsmunir skuldara
Nýverið felldi Héraðsdómur Reykjavíkur þann úrskurð að skuldari bílaláns skyldi greiða óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands í stað umsaminna vaxta af láni sínu. Byggði úrskurðurinn á þeirri túlkun á nýlegum Hæstaréttardómi að fyrst gengistrygging væri úr gildi fallin væru vaxtakjörin það einnig.
Skammtímalán lækka
Líklegt er að flestir sem tekið hafa lán til skemmri tíma, svo sem bílalán, geti notið nokkurs hagræðis af því að breyta kjörum og viðmiðun lánanna úr erlendum gjaldeyri á erlendum vöxtum í innlend lán á innlendum vöxtum. Til að leggja mat á hagræði af þessu er einfaldast að líta á heildargreiðslur út lánstímann og reikna svo muninn. Í bílalánsmálinu munar þriðjungi þeirrar upphæðar sem skuldarinn hefði þurft að standa skil á annars. Það er um helmingur þess hagræðis sem hann hefði notið ef höfuðstóll hefði verið færður niður í samræmi við nýfallinn dóm Hæstaréttar en samningsvextir staðið.
En hvað um húsnæðislán?
En bankar veittu líka langtímalán í erlendri mynt. Þau voru um þriðjungur erlendra lána til einstaklinga. Meginforsenda lántakenda hér var það hagræði sem hlaust af lágum og óverðtryggðum erlendum vöxtum. Gengissveiflur skila sér ávallt inn í vísitöluna hvort sem er og áhætta lántaka til lengri tíma því engu meiri en hefði innlent lán verið tekið. Þrátt fyrir helmingslækkun krónunnar standa þessir lántakendur oftast betur að vígi þegar litið er á heildargreiðslur en þeir sem innlend lán tóku. Fullyrða má að þessi hópur bæri yfirleitt mjög skarðan hlut frá borði yrði lánunum breytt í innlend lán.
Taka má dæmi um 10 milljón króna fasteignalán með jöfnum afborgunum í svissneskum frönkum og jenum veitt til 30 ára í upphafi árs 2004, um það leyti sem bankar tóku að bjóða slík lán. Höfuðstóll væri nú tæplega 17 milljónir króna. Væri því breytt í óverðtryggt krónulán, vaxtareiknað með innlendum vöxtum en greiddir vextir og afborganir dregnar frá, væri höfuðstóllinn tæpar 16 milljónir. Kynni þá að líta út fyrir að lántakinn hefði eilítið hagræði af breytingunni.
Helmingsaukning greiðslubyrði
Þetta hagræði er hins vegar blekking. Afborganir myndu stórhækka um leið og ný vaxtaviðmiðun yrði tekin upp, bæði vegna hærri vaxta og vegna þess að við höfuðstólinn legðust þá vangreiddir vextir og vaxtavextir enda hefðu afborganir samkvæmt erlendu vöxtunum væntanlega verið talsvert lægri en ella, í það minnsta lengst framan af. Höfuðstólsbreyting ein og sér er því rangur mælikvarði. Eina leiðin til að bera saman kostnað af ólíkum lánum er nefnilega sú að líta á heildargreiðslu vaxta og afborgana yfir lánstímann allan. Sé dæmið skoðað í þessu ljósi sést að við lok lánstímans væru samanlagðar afborganir og vextir af erlenda láninu ríflega 29 milljónir króna miðað við 3% vexti út árið 2010 og 4% eftir það, raungengisþróun frá lántökudegi og óbreytt gengi héðan af. Yrði höfuðstól breytt til samræmis við nýfallinn dóm Hæstaréttar en samningsvextir látnir standa yrðu greiðslurnar ríflega 15 milljónir. Væri láninu hins vegar breytt skv. dómi Héraðsdóms yrðu greiðslurnar tæplega 43 milljónir. Þá eru framtíðarvextir eftir 2010 miðaðir við óverðtryggða vexti Seðlabankans eins og þeir hafa að meðaltali verið síðasta áratuginn. Tap lántakans af breytingunni næmi þannig tæpum 14 milljónum króna, um 47% af heildargreiðslum miðað við óbreytt kjör og gengisviðmiðun. Óhagræði af breytingunni er mest hafi lán verið tekið fljótlega eftir að bankar tóku að bjóða upp á erlend lán en minnkar sem nær dregur hruninu. Lántaki sem tók lán sitt snemma árs 2007 yrði þannig fyrir tæplega 10% kostnaðarauka samanborið við 47% hjá þeim sem tók lánið 2004. Aðeins þeir sem tekið hefðu lán rétt fyrir hrun hefðu örlítinn ávinning af breytingunni. Hann gæti þó horfið fljótt ef gengið styrkist á ný eins og margir vænta.
Tap lánþega hagnaður bankanna
Þannig er ljóst að standi héraðsdómurinn verða flestir skuldarar með erlend fasteignalán fyrir verulegu fjárhagstjóni. Að sama skapi nýtur bankinn mikils hagræðis af því að breyta umræddum lánum í krónulán, verðtryggð eða óverðtryggð. Því kemur ekki á óvart að bankar hafa nú um hríð boðið talsverða höfuðstólslækkun gegn slíkri breytingu. Nýfengin niðurstaða Héraðsdóms getur því tæpast orðið grundvöllur uppgjörs allra gengislána. Það stenst vart sjónarmið um neytendavernd að ólögleg samningsákvæði verði til þess að samningi sé breytt eftir á til verulegs óhagræðis fyrir neytandann.
(Mbl. 31.7.2010)Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.7.2010 | 00:05
Magma
Fyrir skemmstu keypti kanadíska fyrirtækið Magma meirihluta í HS orku. Með kaupunum tryggir fyrirtækið sér nýtingarrétt jarðhita á Reykjanesi til 65 ára. Þegar um svo langan tíma er að ræða er enginn munur á sölu nýtingarréttarins og sölu auðlindarinnar sjálfrar. Fá maður eina milljón króna í dag er hún einnar milljónar virði. Fái hann hana eftir 65 ár er hún aðeins tvö þúsund króna virði í dag miðað við 10% ávöxtunarkröfu. Nýtingarréttur til 65 ára jafngildir því sölu.
HS orka greiðir 2,5% orkusölutekna sinna í auðlindagjald fyrir nýtingarréttinn eða 25 krónur fyrir hverjar þúsund krónur sem selt er fyrir. Ef gert er ráð fyrir að hagnaður fyrirtækisins nemi að jafnaði um 10% af veltu greiðir það þannig fjórðung hans í auðlindagjald. Þegar litið er til þeirrar áhættu og óvissu sem nýting jarðhita felur í sér er ljóst að hér mega skattgreiðendur vel við una.
Fyrir nokkrum árum var reist stórvirkjun á Austurlandi. Samið var við eitt fyrirtæki um alla orkusölu frá virkjuninni til 20 ára. Ljóst er að ekki er um neinn annan kaupanda að ræða svo í raun jafngildir sá samningur líklega sölu á auðlindinni svipað og samningurinn við Magma. Munurinn var hins vegar sá að ríkið þurfti að leggja út gríðarlegt fé til að byggja virkjunina. Ljóst er að það fé fæst aldrei til baka heldur er tap skattgreiðenda af framkvæmdinni umtalsvert það nemur tugum milljarða króna.
Samningurinn við Magma leiðir hins vegar ekki til neinna útgjalda fyrir skattgreiðendur. Gangi starfsemi HS orku vel njóta þeir þvert á móti verulegra tekna af henni. Þetta er munurinn á samningnum við Magma og síendurteknum og misheppnuðum tilraunum orkufyrirtækja ríkisins til að hagnast á orkuframleiðslu.
Forsendan að kaupum Magma var líklega sú að fyrirtækið gat keypt krónur á aflandsgengi og notað til að kaupa hlut í HS. Annars er ólíklegt að af kaupunum hefði orðið enda er vinnsla jarðvarmaorku áhættusöm. Nefnt hefur verið að lífeyrissjóðir eða opinberir aðilar gætu keypt hlutinn af Magma. Hafi Magma greitt rétt verð fyrir hlutinn yrðu þá þessir aðilar að geta keypt á um það bil helmingi lægra verði en Magma greiddi. Þessir aðilar hafa ekki aðgang að krónum á aflandsgengi og því er óraunhæft að ætla þeim að kaupa.
Skynsamlegast er því að anda með nefinu og vonast til að vel gangi að byggja upp starfsemi HS orku. Þá hagnast skattgreiðendur.
![]() |
Vill vinda ofan af Magma máli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.7.2010 | 13:23
Hverju er fólkið að mótmæla?
Það er furðuleg árátta þegar vinstraliðið mætir að mótmæla AGS þegar vinstristjórnin tekur að prufukeyra skattahækkanir sínar. Stjórnin fékk að vísu AGS til að reikna út hvað fengist í kassann en að mæta þá og mótmæla AGS er svona svipað og taka sér mótmælastöðu hjá vasatölvunni þegar hún hefur reiknað út fyrir mann að maður eigi ekki fyrir mánaðamótunum.
Kjánaprik!
![]() |
Viðbúnaður vegna mótmæla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.7.2010 | 11:29
Nemendur misskilja tilgang skólakerfisins
Allt þetta kvart og kvein nemenda yfir að einkunnir skipti ekki lengur máli byggir á misskilningi á tilgangi skólakerfisins. Eins og flestir vita er langt síðan grunnskólar hættu að hafa að markmiði að kenna nemendum neitt. Tilgangurinn er einfaldlega sá að þeir séu á staðnum en minnstu skiptir hvort þeir hafa af því eitthvert gagn. Einkunnagjöf er illa séð og samanburður milli skóla bannorð.
Fram til þessa hafa framhaldsskólarnir verið aftarlega á merinni hvað þetta varðar. Óheft nýfrjálshyggja hefur vaðið þar uppi og lítt grillt í roðann í austri. Duglegir nemendur hafa sótt í vissa skóla umfram aðra, skólarnir hafa leitast við að sérhæfa sig og milli þeirra hefur ríkt talsverð samkeppni.
Slíkt gengur hins vegar þvert gegn því sjálfsagða félagshyggjuviðhorfi að allir skuli vera jafnir og séu þeir það ekki verði í það minnsta að hindra að það komi í ljós.
Samkvæmt nýlegri könnun er Ísland næst á undan Tyrklandi í fjölda útskrifaðra nemenda úr framhaldsnámi pr. 1000 manns. Það verður ekki lengi. Þegar menntamálaráðherra hefur tekist að leggja starf framhaldsskólanna í rúst náum við örugglega Tyrkjum og komumst vel niður fyrir þá.
Fátt getur komið í veg fyrir þessa þróun enda virðast allir íslenskir stjórnmálaflokkar í megindráttum fylgjandi sósíalískri skólastefnu.
![]() |
Nían nægði ekki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
Hitt og þetta
Bloggvinir
-
agny
-
graenar-lausnir
-
bjarnijonsson
-
bjornalexandermikli
-
gattin
-
dofri
-
contact
-
fhg
-
gretaulfs
-
gudni-is
-
mosi
-
bofs
-
muggi69
-
gudrunmagnea
-
zeriaph
-
holi
-
haukurn
-
diva73
-
hlynurh
-
ingibs
-
ingolfursigurdsson
-
fun
-
jennystefania
-
johnnybravo
-
eyfeld
-
jonbergsteinsson
-
jonvalurjensson
-
thjodarskutan
-
krist
-
kristjan9
-
loncexter
-
ludvikjuliusson
-
sleggjudomarinn
-
magnuss
-
svarthamar
-
vestskafttenor
-
otti
-
runaro
-
joklamus
-
sigurjons
-
stefanjul
-
summi
-
saemi7
-
samy
-
torfusamtokin
-
vestfirdir
-
thorsteinn
-
valli57
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (30.9.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 288237
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 11
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar