Máttlaust, en fasískt

Ekki verður séð að miklu skipti fyrir reykingamenn hvort tóbak er aðeins selt í apótekum. Ólíklegt er hins vegar að það standist atvinnufrelsisákvæði að banna sérhæfðum tóbaksverslunum (þær eru ein hér á landi) starfsemi. Staðreyndin er sú að reykingamenn munu reykja hvað sem líður sölubönnum, áróðri og fækkun staða þar sem leyfilegt er að reykja. Eina vitræna leiðin til að útrýma reykingum er að banna þær alfarið.

Hvað þetta allt varðar er tillagan saklaus og gagnslaus líkt og aðrar slíkar. Í henni er hins vegar annað að finna og ógeðfelldara. Það er sú hugmynd að bannað verði að sýna reykjandi fólk í kvikmyndum og sjónvarpi. Slíka tillögu setur enginn fram nema sá sem engu skeytir um persónulegt og listrænt frelsi.


mbl.is Tóbak verði bara selt í apótekum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tækifæri til samkeppni - Verndargjöld

Að minnsta kosti tvö einkafyrirtæki bjóða nú upp á sorphirðu. Nú þegar hækka á sorphirðugjöld hjá helmingi borgarbúa um fjórðung ætti að vera lag fyrir þessi fyrirtæki að fara að bjóða upp á slíka þjónustu í samkeppni við borgina.

Annars vekur furðu að enginn skuli hafa gert athugasemdir við að þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar um sparnað standi ekki til að segja neinum upp hjá sorphirðunni. Því er haldið fram að helmingur tíma sorphirðumanna fari í að sækja tunnur inn á lóðir og þannig gefið í skyn að um helmingssparnað sé að ræða. Hvert barn sér vitanlega að blekkingum er beitt:

Sé það rétt að helmingurinn af tíma öskukarla fari í að labba eftir tunnum og gert ráð fyrir að með 15 metra reglunni þurfi þeir að labba fimm metrum styttri vegalengd að jafnaði þýðir það tímasparnað upp á um það bil 12%. Hins vegar verður að taka með í reikninginn að hluti af þessum tíma fer í að færa tunnurnar upp á bílinn og taka þær niður aftur. Á endanum er sparnaðurinn því vafalaust enn minni, hugsanlega milli 5 og 10% í besta falli. Og það er auðvitað ástæðan fyrir því að engum verður sagt upp.

Ábyrg stjórnarandstaða hefði bent á þetta í málsmeðferðinni, ef hún væri þarna.

En hvað er til ráða nú fyrir þá sem ekki sætta sig við að greiða gjald sem bæði er ósanngjarnt og ólögmætt og minnir helst á tolla þá sem sum samtök erlendis innheimta fyrir vernd gegn sjálfum sér? Einfaldast og áhrifaríkast er vafalaust að fórnarlömb "verndargjaldsins" færi tunnur sínar út á gangstéttar og láti þær einfaldlega velkjast þar um. Það er vafalaust fljótlegri leið til að stöðva vitleysuna en málaferli. 

 


mbl.is Mikið hringt út af sorphirðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðhækkanir og atvinnuleysi

Að jafnaði eru laun í verslun um það bil tíundi hluti teknanna. Til að mæta 20% launahækkun má því reikna með að vöruverð þurfi að hækka um 2% um það bil.

Í því árferði sem nú ríkir eiga mjög mörg fyrirtæki erfitt með að halda sjó. Verðhækkanir eru jafnframt líklegri en ella til að draga úr eftirspurn. Mörg fyrirtæki munu því bregðast við hinum nýja kjarasamningi með því að segja upp fólki og auka vinnuálag þeirra sem eftir eru.

Almennt verða launahækkanir að grundvallast á aukinni framleiðni. Séu laun hækkuð án þess að það eigi sér stoð í framleiðniaukningu skilar hækkunin sér ekki í auknum kaupmætti. Ástæðan er tvíþætt. Annars vegar hækkar vöruverð, verðbólga eykst, húsnæðislán hækka og eftirspurn eftir vöru og þjónustu minnkar því. Hins vegar eykst atvinnuleysi vegna sparnaðaraðgerða.

Þetta eru engin ný sannindi. Við bjuggum við þessar víxlhækkanir um langa hríð allt fram að þjóðarsáttarsamningunum á sínum tíma. Menn ættu því að þekkja afleiðingar þess að gera óraunhæfa kjarasamninga, en það er greinilega ekki öllum gefið að læra af reynslunni.


mbl.is 22% hærri laun í verslun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Maí 2011
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 288236

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband