Árið þegar veröldin missti vitið

Bókin "The Year the World Went Mad" eftir Mark Woolhouse, sem er einn sérfræðinga breskra stjórnvalda sem stýrðu aðgerðum gegn kórónaveirunni, er nú komin út sem hljóðbók og kemur á prent 12. apríl. Í þessari bók viðurkennir höfundur að meira og minna allt sem hann og félagar hans lögðu til og stjórnvöld framkvæmdu hafi verið rangt.

Í þessu viðtali við Spiked-online viðurkennir Woolhouse að markviss vernd, eins og lögð var til af aðstandendum Great Barrington yfirlýsingarinnar hefði verið rétta aðferðin, og að hann og félagar hans hafi vitað það. En þau sem stóðu að Great Barrington yfirlýsingunni voru úthrópuð sem falsvísindamenn - og hverjir gerðu það? Jú, einmitt fólkið sem vissi að þau höfðu rétt fyrir sér.

Hér er brot úr viðtalinu, þar sem Woolhouse er spurður um vernd viðkvæmra hópa:

"Hvernig verndar maður þá þetta fólk? Í fyrsta lagi, þar sem það þarf að vera í einhverjum samskiptum, þá gerir maður þau samskipti eins örugg gagnvart smiti og mögulegt er. Maður gerir allar varúðarráðstafanir sem geta hjálpað, notar grímur, gætir að loftræstingu og líkamlegri fjarlægð. En þetta er ekki nóg eitt og sér Maður þarf líka að ganga úr skugga um að sá sem er í samskiptunum sé ekki sýktur og beri ekki sýkinguna til viðkvæma fólksins sem hann er í samskiptum við. Við ræddum þetta við ýmsa í ríkisstjórninni í apríl og maí 2020. En það var aldrei framkvæmt. Komst aldrei í gang. En samt er alveg ljóst miðað við okkar reynslu að þessi aðferð hefði haft veruleg áhrif. Hún nægði ekki að fullu ein og sér. Það hefði einnig þurft að hamla útbreiðslunni að vissu marki, en það hefði engin þörf verið á samfélagslegum lokunum.“

Lokanir fyrirtækja, ferðabönn lokanir skóla og allar hinar aðgerðirnar voru ekki aðeins gagnslausar heldur stórskaðlegar fyrir samfélagið. En vísindamennirnir sem stýrðu ferðinni, þar á meðal Mark Woolhouse, mæltu með þessum aðgerðum, réttlættu þær og héldu því ranglega fram að þær dygðu. Þeir gerðu lítið úr þeim sem gagnrýndu, útilokuðu þá frá umræðunni, fullyrtu að þeir færu gegn vísindunum. En það var öfugt. Því megum við aldrei gleyma.

Þessi bók er skref í rétta átt. En ég spyr mig þeirrar spurningar hvort höfundurinn hafi beðið þau afsökunar sem höfðu rétt fyrir sér allan tímann, Martin Kulldorff, Sunetru Gupta, Jay Bhattacharya og aðra heiðarlega alvöru vísindamenn sem höfðu hugrekki og siðferðisþrek til að segja sannleikann. Ef ekki þá hvet ég hann til að gera það.


Til að skilja málflutning Pútíns þarf maður að þekkja Solsjenitsín

Ég horfði áðan á brot úr nýlegri ræðu Pútíns, þar sem hann talar fyrir þjóðerniskennd og gagnrýnir af mikill hörku þá sem ekki séu þátttakendur í örlögum rússnesku þjóðarinnar. Hann kallar þá svikara og sníkjudýr. Hann talar um að hreinsa þurfi rússneskt samfélag af spillingu og óeðli.
Rússneski andófsmaðurinn Alexander Solsjenitsín varð frægur og dáður á Vesturlöndum fyrir ádeilu sína á sovéskt samfélag og stjórnarfar í hinni merku bók sinni, "Gúlag eyjaklasinn". En þetta merkir ekki að hann hafi verið fylgismaður vestrænna gilda og lýðræðishefða, heldur var hann rússneskur þjóðernissinni og leit á Rússland sem sérstakan menningarheim, sem byggði á öðrum gildum og viðhorfum en Vesturlönd. Hann var talsmaður hinnar sérrússnesku þjóðernisstefnu sem er í eðli sínu trúarleg, eiginlega í ætt við dulhyggju, fremur en veraldleg. Þar endurspeglaði hann ýmsa rithöfunda og heimspekinga 19. aldarinnar, t.d. Dostojevskí og Séstof.
Það er auðveldara að átta sig á málflutningi Pútíns og þýðingu hans ef maður skoðar hann í ljósi skrifa þessara manna.
 
Hér má sjá ræðubútinn.

Stríðið, umræðan, hugsun og efi

Var í umræðuþætti hjá Gunnari Smára í kvöld, þar sem rætt var um stríðið í Úkraínu, samfélagsleg áhrif, siðfræði, umræðu og málfrelsi og hvað er framundan. Með mér í þættinum voru Benedikt Erlingsson leikstjóri, Eyja Margrét Brynjarsdóttir og Finnur Dellsén heimspekingar og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona.

Það er ekki auðvelt að fjalla um þessa atburði sem eru svo nýhafnir, en ég held að það hafi þó tekist nokkuð vel miðað við allt og allt. Ég held að við höfum í megindráttum verið sammála um mikilvægi þess að verða ekki einhliða áróðri að bráð, að gera ekki venjulegt fólk að óvinum og að reyna að skilja forsendurnar og leita leiða til lausnar.

Ég lagði sérstaklega áherslu á nauðsyn þess að skilja mismunandi menningarbakgrunn og gera sér grein fyrir að viðhorf Vesturlandabúa eru ekki endilega upphaf og endir alls. Ég minnti einnig á hvernig kjarni hins vestræna viðhorfs, úrskurðarvald hins hugsandi einstaklings sem efast, hefur látið undan síga, sérstaklega á síðustu tveimur árum; hvernig hann hefur vikið fyrir hinum hrædda einstaklingi sem hlýðir. Þannig hefur hið vestræna viðhorf veikst og það hefur gert okkur varnarlausari gagnvart utanaðkomandi ógn; gildin sem við töldum okkur byggja á eru veikari en við héldum.

Þáttinn má sjá hér


Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Mars 2022
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband