Betur heima setið ...

... en af stað farið hefði nú einhver sagt: Hér er stór hluti launa einfaldlega falinn sem yfirvinnugreiðslur.

Það segir sig auðvitað sjálft að ríkisfyrirtækin keppa í mörgum tilfellum við einkafyrirtæki um hæfa stjórnendur. Því er ekki hægt að borga þeim hvað sem er.

Hefði ekki verið skynsamlegra að sleppa einfaldlega þessum kjánalegu yfirlýsingum um að stjórnendur hjá ríkinu ættu að lækka í launum í stað þess að standa í svona skrípaleik? þetta verður til þess eins að skaða trúverðugleika forsætisráðherra því það sýnir svart á hvítu að ekkert er að marka yfirlýsingar hennar - sama hversu ábúðarfull hún er á svip þegar hún lætur þær frá sér fara.


mbl.is Laun 22 forstjóra lækkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hvað með það?

Ekki hef ég hugmynd um hver Margrét þessi er. Og ekki fæ ég séð að einhverjar tölvuraunir þessarar manneskju komi mér eða öðrum nokkurn skapaðan hlut við.

En þessi frétt er sú fjórða mest lesna á mbl.is í dag. Gaman að fólk skuli hafa aðalatriðin á hreinu!


mbl.is Margréti Erlu hent út af Fésbók
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hvað með það?

Eru Alþingismenn virkilega að sóa tíma sínum og annarra í vangaveltur um hvað eitthvert fólk fái í kaup?

Fyrst Eygló Harðardóttur þingmanni finnst þetta svona mikilvægt liggur beinast við að spyrja hvað hún fái sjálf greitt frá skattgreiðendum og hvað hún geri í vinnutímanum.

Í alvöru talað, er ekki kominn tími til að hætta svona rugli?


mbl.is Anne Sibert með 2.000 pund í laun á mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skiptir ekki máli hvort vextir eru fastir eða breytilegir

Ef tilboðið snýst einungis um að vextir verði breytilegir en ekki fastir ætti það í sjálfu sér ekki að hafa nein áhrif á kjörin sem slík. Fastir vextir grundvallast á væntingum um þróun breytilegra vaxta. Almenna samhengið er að núvirði láns á föstum vöxtum sé jafnt núvirði láns á breytilegum vöxtum að öðru óbreyttu. Til skamms tíma má vera að nokkuð tryggt sé að breytilegir vextir verði lágir. Lánið er hins vegar til langs tíma og því erfitt að sjá að neinn ávinningur sé af því að breyta vaxtaákvæði með þessum hætti.


mbl.is Erfitt að meta nýtt tilboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýr atvinnubótavinna?

Tvennt stendur upp úr í þessari frétt:

1. Á þessu ári verður framkvæmt fyrir 600-800 milljónir króna. Svo segir: "Takist samningar um orkusölu..." verður haldið áfram með framkvæmdina. Það veit sumsé enginn hvort orkan muni seljast.

2. Uppsett afl virkjunarinnar er 80 MW. Til samanburðar er Kárahnjúkavirkjun 690 MW. Á sínum tíma var áætlaður kostnaður við Kárahnjúkavirkjun 100 milljarðar eða 1,45 milljarðar á MW. Áætlaður kostnaður við Búðarhálsvirkjun er 26,5 milljarðar og kostnaður á MW því 3,3 milljarðar, eða meira en tvöfalt hærri.

Orkan frá Búðarhálsvirkjun verður þannig amk. tvöfalt dýrari en orka frá Kárahnjúkavirkjun. Ekki er vitað til að í sjónmáli séu neinir kaupendur að svo dýrri orku.

Það skiptir hins vegar væntanlega litlu fyrir sósíalista allra flokka sem nú sameinast um "uppbyggingu atvinnulífs" sem snýst í grunninn um að láta nógu marga menn styðja sig við skóflur einhvers staðar svo það líti út fyrir að þeir hafi eitthvað að gera.

Svo fá skattgreiðendur að blæða sem aldrei fyrr!


mbl.is Útboð vegna Búðarhálsvirkjunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lánið til tryggingasjóðsins?

Viðskiptasnilld breskra stjórnvalda er greinilega fordæmalaus. Fyrst eru peningarnir teknir út úr þrotabúi Landsbankans með handafli og engir vextir greiddir af þeim. Svo eru þeir lánaðir íslenska tryggingasjóðnum með 5,55% vöxtum. Þannig tekst bresku ríkisstjórninni að græða 11 milljarða strax á fyrsta ári á Icesave málinu.

Íslensku útrásarvíkingarnir eru greinilega bara smábörn við hliðina á Gordon Brown og klíku hans!

---------------------------

Eru það ekki einmitt svona mál sem ættu að rata í heimspressuna nú þegar fyrir liggur að fara eigi í nýjar samningaviðræður. Hvernig ætli breskur almenningur taki því ef upp kemst að ríkisstjórn landsins sé fyrst og fremst umhugað um að græða sem mest á óförum Íslands og það með ránum og gripdeildum?


mbl.is Afborganir í Bretlandi enn á vaxtalausum reikningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háskólanum hefur verið fengur að henni þessari!

Af fréttum að dæma voru uppi grunsemdir um að stuðningsmenn Sóleyjar Tómasdóttur hefðu haft rangt við í prófkjöri VG í Reykjavík og umrædd Silja Bára átt hluta heiðursins af þeirri framgöngu.

En bíðum nú við. Auðvitað snýst málið ekkert um óvönduð vinnubrögð í prófkjöri. Vitanlega snýst það aðeins um stjórnmálaskoðanir annars frambjóðandans og aldur og kyn hins.

Við hljótum að óska Háskólanum innilega til hamingju með að fá að njóta starfskrafta slíks vitrings sem með fáeinum vel völdum orðum leiðir okkur fávísum fyrir sjónir kjarna þessa máls!


mbl.is Moldviðri vegna þess að róttækur femínisti lagði miðaldra mann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varasamar uppgjörsaðferðir

Sú aðferð að verðmeta samninga af þessum toga til hækkunar eða lækkunar í bókhaldi hefur rutt sér mjög til rúms á undanförnum árum. Þá er í raun litið á samninginn sem eign og endurmatið snýst um að verðmeta þessa eign.

Þessu fylgja hins vegar umtalsverðir vankantar. Sá helsti er að niðurstöður mats af þessum toga geta verið afar tilviljanakenndar. Hér er verið að reyna að spá fyrir um þróun sem enginn veit í raun fyrirfram hvernig verður. Hérlendis eru oftast innlend endurskoðunar- eða ráðgjafarfyrirtæki fengin til að vinna matið. Þessi fyrirtæki hafa sjaldnast neina sérþekkingu á mörkuðunum sem um er að ræða, byggja mat sitt á afar takmörkuðum upplýsingum og ef miða á við þau möt sem sést hafa er gjarna kastað mjög til höndum í greiningunni. En jafnvel þótt leitað sé til sérhæfðra alþjóðlegra greiningaraðila er mönnum líka vandi á höndum. Staðreyndin er nefnilega sú að langtímaspár um verðþróun á hrávörumarkaði hafa afar sterka tilhneigingu til að standast alls ekki.

Svona endurmat eigna er í sjálfu sér skaðlaust svo lengi sem það er aðeins tala á blaði í bókhaldi fyrirtækisins. Í lántökum og viðskiptum með hlutabréf getur það hins vegar veitt bönkum og fjárfestum falskt öryggi og þannig leitt til rangra ákvarðana sem kannski væru ekki teknar væru þeir fyllilega meðvitaðir um þá miklu óvissu sem ávallt er uppi þegar meta á arðsemi langtímasamninga af þessum toga.


mbl.is Endurmat á samningum skilar HS Orku milljörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Próf í hverju eiginlega?

Það kemur vissulega ekki á óvart þótt það sé "til skoðunar í ráðuneytinu" að láta þá sem vilja vinna við ráðgjöf í banka taka próf. Hér er auðvitað kjörið tækifæri til að bæta við svo sem eins og einni stjórn og einni stofnun. Ekki veitir af í atvinnuleysinu!

En í hverju á að prófa fjármálaráðgjafana? Eins og sumir vita var meginástæða þess að hugmyndir ráðgjafanna, og raunar flestra annarra, um framtíðina stóðust ekki sú að allt fjármálakerfi heimsins lenti í skyndilegri kreppu sem enginn gat í rauninni séð fyrir. Svo kom á daginn að staða íslensku bankanna var líklega langtum verri en nokkur vissi. Þar á meðal var íslenska fjármálaeftirlitið.

Í hverju á nú að prófa fjármálaráðgjafana svo almenningur geti treyst spám þeirra? Á að kenna þeim að spá í bolla? Eða spá í spil? Eða koma innýfli fugla eða stjörnuspeki að betri notum?

Í hverju á að prófa fjármálaráðgjafana? Kannski í að taka próf? Er einhver annar sem finnst þetta hljóma eins og brandari?


mbl.is Hver sem vill má veita fjármálaráðgjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þriðjungur í vexti af Icesave

Samkvæmt Icesave-samningnum nemur heildarskuldbindingin um 750 milljörðum með vöxtum frá 1. janúar 2009. Ársvextir eru 5,55%.

Verði vöruskiptajöfnuður hagstæður um 10 milljarða á mánuði gerir það 120 milljarða á þessu ári.

Vaxtakostnaður vegna Icesave samningsins verður 750*5,55% = 41 milljarður á árinu. Það nemur þriðjungi vöruskiptajöfnuðarins.

-----------------------------

Formælendur Icesave samninganna bera gjarna greiðslubyrði og vexti saman við landsframleiðslu og fá þá út lágar prósentutölur. Slíkt er aðeins gert til að blekkja almenning.

Eini raunhæfi samanburðurinn í þessu máli felst í að skoða kostnaðinn sem hlutfall af þeim afgangi sem viðskipti við útlönd skilar.

Þetta er ágætt að bera saman við heimilisrekstur og velta fyrir sér hvað verður um fjölskylduna þurfi hún skyndilega að taka á sig aukakostnað sem nemur þriðjungnum af mismuni tekna og útgjalda - áður en greitt hefur verið af húsnæðislánum, bílalánum, yfirdrætti og öðrum skuldum.


mbl.is Afgangur af vöruskiptum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Feb. 2010
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28            

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.10.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 288238

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband