Kjánaskapur

Íslensk fjármálafyrirtæki eru annars vegar í eigu ríkisins og hins vegar kröfuhafa að langmestu leyti. Það er vitanlega auðvelt fyrir ríkið að greiða kostnað vegna Icesave af sínum eigin hlut í fjármálafyrirtækjum. En það er fáránlega kjánalegt að ímynda sér að það breyti einhverju fyrir skattgreiðendur. Hvað aðra eigendur varðar, dettur fólkinu í alvöru í hug að þeir muni fallast á að taka á sig gríðarlegar skuldbindingar sem þeir hafa enga skyldu til að taka á sig?

Er nema von að Alþingi njóti lítillar virðingar?

Er ekki mál að kjánaskapnum linni?


mbl.is Skoðað hvort fjármálafyrirtæki beri kostnaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvílíkt dómadags bull!

Áratugum saman hefur RÚV verið fjármagnað með skattfé að mestu. Áður hét skatturinn afnotagjald. Það nægði yfirleitt ekki fyrir rekstrinum og því þurfti að fjármagna það sem út af stóð með öðru fé. Svo var þessu breytt og skatturinn hækkaður og þá bregður svo við að hann er hærri en á þarf að halda.

Framlag til RÚV er ákvarðað af stjórnvöldum. Ef það þarf að skera niður er það einfaldlega gert. En að það hafi einhver áhrif á "ritstjórnarlegt sjálfstæði" stofnunarinnar hvort skorið er niður með því að lækka skattinn eða nýta hluta hans til annarra þarfa er auðvitað tómt bull. Ef stjórnarmenn trúa því í alvöru ættu þeir að íhuga afsögn.


mbl.is Vegur að ritstjórnarlegu sjálfstæði RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf kannski ný samtök?

Sjávarútvegsfyrirtæki eru aðeins brot af starfandi fyrirtækjum í landinu. Erfitt er að sjá að það skipti fyrirtæki í öðrum greinum máli hvort eigendur sjávarútvegsfyrirtækja halda áfram að hafa einkarétt til að nýta aldagömul fiskveiðiréttindi borgaranna eða ekki. Því hefur verið haldið fram að ef undið verður ofan af kvótaúthlutuninni muni fyrirtæki sem þjónusta sjávarútveg skaðast stórlega. Þetta er rangt. Sjávarútvegur verður áfram stundaður hér hvort sem eigendur fyrirtækjanna þurfa að borga fyrir hráefnið eða ekki. Fari eitt fyrirtæki á hausinn vegna óábyrgrar skuldsetningar taka önnur við.

Það er raunar gaman að velta því fyrir sér, í samhengi við nýgenginn dóm vegna úthafsrækjuveiða, hvernig talsmenn kvótahafanna myndu bregðast við ef allt í einu fylltist hér allt af fiski og engra kvóta væri lengur þörf. Færu þeir í mál við sætu litlu fiskana? Wink

Kannski þarf ný samtök atvinnurekenda. Í þeim gætu verið fyrirtæki sem rekin eru á eigin forsendum og þurfa hvorki ríkisábyrgðir né sérréttindi til að standa sig.


mbl.is Furðar sig á kröfu SA í viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljós og loft, ryk og reykur

„Lofstafi fornhelga flytjum rykinu og reyknum“

(Sigfús Daðason: Útlínur bakvið minnið)

Hinn alræmdi gluggaskattur Vilhjálms þriðja Englandskonungs, sem fyrst kom til sögunnar árið 1696, er gjarna nefndur sem dæmi um óréttláta skattlagningu sem hvetur líka til óskynsamlegra viðbragða. Upphæð skattsins réðst af fjölda glugga á húsum sem átti að endurspegla efnahag borgaranna. En byggingarlag húsa er ólíkt, sum hafa fáa stóra glugga, önnur marga litla, og munurinn segir ekki endilega neitt um efnahag, hvað þá afkomu íbúanna. Skatturinn var stundum nefndur „ljós- og loftskattur“, enda múruðu húseigendur gjarna upp í gluggana til að forðast hann, en juku í staðinn lýsingu innandyra með tilheyrandi mengun. Ljósið og loftið véku fyrir rykinu og reyknum. Ljós- og loftskatturinn var endanlega aflagður um miðja nítjándu öld.

En nú hefur borgarstjórinn í Reykjavík fundið sér fyrirmynd í Vilhjálmi þriðja. Hyggst hann leggja sérstakan ruslaskatt á suma borgarbúa, þá sem eru svo óheppnir að götuhlið húsa þeirra snýr mót sólu á daginn. Munurinn á gluggaskatti Vilhjálms konungs og ruslaskattinum nýja er þó sá að meðan skattur Vilhjálms konungs átti að vera í einhverjum tengslum við efnahag borgaranna ræðst það af tilviljun einni á hverja ruslaskattur lærisveinsins leggst.

Líkt og þegnar Vilhjálms þriðja munu þegnar borgarstjóra auðvitað reyna að forðast skattinn. Vorkoman þetta árið mun því markast af óhrjálegri tunnuþröng á gangstéttum borgarinnar, sem misþýðir vorvindarnir munu svo feykja til og frá, rottum og mávum til ánægju og ábata, en öskukörlum og íbúum til ama og tafa. Svo verður dregið fyrir og gluggum lokað fyrir skynrænum áhrifum skattsins nýja – og ljósinu og loftinu um leið.

Ábendingum um augljósa vankanta þessarar nýju skattlagningar svara hirðmenn borgarstjóra með hástemmdum moðreyk um hvílíkt framfaraspor furðuskattur þessi marki. Kannski er fyrirmynd þeirra Rómverjinn Marcus Cornelius Fronto, sem orti rykinu og reyknum lofsöng þann er Sigfús Daðason vitnar til í Síðustu bjartsýnisljóðum. En munurinn er að Fronto var að grínast – svona eins og borgarstjórinn í Reykjavík kunni einu sinni mjög vel.

(Morgunblaðið. 22 janúar 2011)

En hvert er svarið við hinni spurningunni?

Það kemur ekki á óvart að meirihluti aðspurðra sé fylgjandi staðgöngumæðrun. Fólk setur málið umsvifalaust í samhengi við barnið á Indlandi sem fréttir hafa verið fluttar af undanfarið. Auk þess hafa margir tilhneigingu til að taka umhugsunarlaust undir allt sem hægt er að túlka sem einhvers konar "réttindi".

Staðgöngumæðrun er vitanlega afar þægilegur kostur fyrir þá sem njóta "afurðanna". En hvað um "framleiðandann"? Er ekki rétt að velta líka fyrir sér þeim nánu tengslum sem myndast milli móður og barns á meðgöngu og því tilfinningaumróti sem staðgöngumóðirin hlýtur að upplifa þegar hún þarf að afhenda barnið sitt (sitt, já, því tilfinningarnar spyrja nefnilega ekki um genasamsetningu) strax eftir fæðingu?

Ég legg til að MMR geri aðra könnun og spyrji: Værir þú tilbúin til að ganga með barn annars fólks?(eða samþykkja að konan þín gengi með barn annars fólks ef karl er spurður). Hvernig ætli svörin verði þá?


mbl.is Fleiri fylgjandi staðgöngumæðrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Jan. 2011
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 288237

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband