Villa Hannesar

Hannes H. Gissurarson á þakkir skildar fyrir góða grein um kvótakerfið í Morgunblaðinu um daginn þar sem hann rökstyður að kerfið sé hagkvæmt og réttlátt.

Ég deili ekki við Hannes um hagkvæmni kvótakerfis í sjávarútvegi. Hún er held ég hafin yfir vafa.

En hvað réttlætið varðar hefur Hannes einfaldlega rangt fyrir sér. Rök Hannesar fyrir réttlæti kvótaúthlutunarinnar eru þau, að vegna þess að áður en kvótakerfi var sett á hafi arður af sjávarútvegi enginn verið, geti enginn hafa tapað á að sumum en öðrum ekki hafi verið úthlutað kvótunum. Hér liggur villan. Um leið og veiðirétturinn var takmarkaður með kvótasetningu hafði ríkisvaldið búið til verðmæti sem ekki voru til áður. Veiðirétturinn var orðinn verðmætur. Með því að úthluta þessum verðmætum til sumra en ekki annarra báru þeir sem ekki fengu þau að sjálfsögðu skarðan hlut frá borði.

Hugsunarvilla Hannesar liggur í því að hann áttar sig ekki á muninum á kerfisbreytingunni sjálfri annars vegar og úthlutuninni hins vegar. Kvótaúthlutunin var alls ekki bein eða nauðsynleg afleiðing kerfisbreytingarinnar. Auðvelt hefði verið að breyta kerfinu og búa þannig til verðmæti úr veiðiheimildunum en selja þessi verðmæti síðan á frjálsum markaði. Ef frjálshyggjumenn hefðu verið við völd þegar kvótakerfið var sett á hefði þetta auðvitað verið gert. Þá hefði mátt fullyrða að kvótaúthlutunin væri réttlát.

En þegar ríkisvaldið býr til verðmæti með því að skerða réttindi sumra og afhendir þau svo öðrum er ekki um neitt réttlæti að ræða. Slíkt er sambærilegt við það þegar flokksbroddar kommúnista hirtu eignir fólks í austantjaldslöndunum forðum til eigin afnota.

Það fyrsta sem borgaralega þenkjandi stjórnvöld í austantjaldsríkjunum gerðu eftir hrun kommúnismans var að afhenda réttum eigendum eignirnar að nýju. Komist frjálshyggjumenn einhvern tíma til valda á Íslandi munu þeir með sama hætti byrja á að afhenda almenningi að nýju réttinn sem af honum var tekinn með úthlutun veiðheimildanna til sumra en ekki annarra.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er hinn argasti misskilningur að kvóta hafi verið úthlutað til sumra, á kostnað einhverra annarra.
Kvóta var úthlutað m.t.t. veiðireynslu síðustu tveggja ára áður en kerfið var innleitt. Öll skip sem höfðu veiðireynslu fengu úthlutað. Engum var mismunað, sama regla fyrir alla.

Og það er líka rangt að þarna hefðu verið búin til verðmæti. Staðreyndin var sú, að vegna ofveiði og allt of mikillar sóknar, m.a. vegna allt of margra skipa, var afli takmarkaður við magn sem var umtalsvert minna en nam sókn þessara tveggja undangenginna ára. Að óbreyttu þýddi þetta minni tekjur fyrir útgerðir.
Verðmætin urðu til vegna aðgerða útgerðinnar sjálfrar, og sú verðmætaaukning varð m.a. til vegna kostnaðarauka. Menn hagræddu, bættu meðferð afla, keyptu hagkvæmari veiðafæri, breyttu skipum o.sv.frv., auk þess sem þeir keyptu upp aðrar útgerðir, sameinuðu kvóta og úreltu skip.

Allir voru undir sama hatti. Menn gátu keypt og selt skip, og þar með aflaheimildir, og þessi réttur er við lýði enn þann dag í dag. Enda hafa 95% kvóta skipt um hendur frá því að kvótakerfið var sett á laggirnar.
Árangurinn af kvótakerfinu getur verið mældur á marga vegu, án sá mest sláandi er sú staðreynd, að Ísland er eina ríkið í OECD sem ekki niðurgreiðir fiskveiðar með skatttekjum.
Það er svolítið magnað, að hægt skuli vera að reka sjávarútveg með hagnaði, mismiklum þó eftir árferði, í samkeppni við útgerðir sem eru niðurgreiddar.
Og það er kommúnismi, að nota skatttekjur til að niðurgreiða atvinnugreinar.

Hilmar (IP-tala skráð) 31.5.2015 kl. 22:18

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Takk fyrir innleggið Hilmar. Þú hefur samt ekki rétt fyrir þér:

1. Þar til kvótakerfi var tekið upp höfðu allir Íslendingar rétt til að veiða í lögsögu landsins. Með úthlutuninni var rétturinn takmarkaður við þá eina sem höfðu stundað veiðar síðustu þrjú ár (ekki tvö) áður. Það eru ekki allir, heldur sumir.

2. Verðmætin urðu ekki til vegna aðgerða útgerðarinnar sjálfrar. Þau urðu til vegna þess að sóknin var takmörkuð. Með alveg sama hætti gætir þú gert réttinn til að skoða Þingvelli verðmætan með því að takmarka aðsóknina. Það væri allt í lagi þar til þú gengir í að úthluta kvótanum til þeirra rútufyrirtækja sem hafa farið þangað með túrista síðustu þrjú árin.

3. Það er kommúnismi að nota skattekjur til að niðurgreiða atvinnugreinar. Það er hárrétt. Það er líka kommúnismi að niðurgreiða hráefnið til þeirra eins og nú er gert.

Þorsteinn Siglaugsson, 31.5.2015 kl. 22:41

3 identicon

Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Fiskurinn var að verða uppurinn á Íslandsmiðum, útgerðir meira og minna gjaldþrota, og bankar höfðu ekki bolmagn og ekki vilja til að halda áfram að lána í sjávarútveg.

Á þessum tíma sá sjávarútvegur okkur fyrir 75-80% af gjaldeyristekjum, og kvótakerfið var eina skynsamlega lausnin úr þessum vanda.
Með því að taka upp gjaldtöku á þessum árum fyrir aflaheimildir, þá hefðum við kvittað undir dauðadóm útgerðar, það var, og er, einfaldur útreikningur.
Skuldugar útgerðir sem þurftu að taka á sig aflaskerðingu höfðu nákvæmlega engar forsendur til þess að greiða aukalegan kostnað vegna aflaheimilda.

Það er ágætt að menn séu frjálshyggjumenn, en óábyrg frjálshyggja hefði leitt okkur í fullkmonar ógöngur. Þess vegna er gott að vera íhaldsmaður í bland við frjálshyggjuna.
Við getum líka sagt með sanni, að frjálshyggjan lifi góðu lífi í kvótakerfinu, menn sem hafa áhuga og fjárhagslegt bolmagn geta keypt sér kvóta.

Tap ríkisins, og okkar, er ekkert. Ríkið innheimti aldrei fyrir sölu aflaheimilda fyrir daga kvótakerfisins, og þegar engar tekjur eru, þá er ekki hægt að tapa þeim.
Að það sé hægt að skattleggja eitthvað, sem ekki er gert, þýðir ekki tap.
Hagnaður okkar felst í vel reknu kerfi sem skilar okkur gríðarlegum tekjum.

Útboð er engin trygging fyrir sanngjörnu kerfi.
Útgerðir verða að hafa tryggar tekjur, tryggan afla, sem er forsenda þess að þær geti endurbætt búnað, lagt í fjárfestingu á nýjum búnaði, og fengið til þess fyrirgreiðslu banka.
Skip og búnaður er lítils virði, ef ekki fylgir afli, og því væri veðhæfni útgerða lítil sem engin, og engin lán að fá.
Uppboð, eða aðrar aðferðir við að skattlegja veiðiheimildir, hefði lagt margar útgerðir á hliðina árin 2000-2009, þegar mikið tap varð á útgerð.
Flestum tókst að sigla í gegnum þann skafl, en ef ekki, þá hefðum við verið í djúpum ef engin útgerð hefði verið til þess að draga okkur í gegnum kreppuna.

Hilmar (IP-tala skráð) 31.5.2015 kl. 23:11

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ekkert af þessu breytir neinu um meginatriði málsins, Hilmar. Prófaðu að stilla dæminu upp og miða við ferðaþjónustu í dag og ferðamannastaði þar sem ágangur er að verða kominn út yfir öll mörk. Spyrðu svo sjálfan þig hvort eðlilegt væri að afhenda þeim sem nú stunda ferðamannaútgerð réttinn til að heimsækja þessa staði, án þess að greiðsla komi fyrir, og útiloka jafnframt aðra frá því að heimsækja þá.

Þorsteinn Siglaugsson, 31.5.2015 kl. 23:29

5 identicon

Ef að því kemur, að takmarka þurfi aðgang að ferðamannastöðum, þá verður sett upp einhverskonar kvótakerfi.
Ástæðan fyrir þvi kvótakerfi yrði hinsvegar allt allt önnur en í kvótakerfi fiskveiða.
Í því seinna þurfti að tryggja að hér yrði útgerð áfram. Takmarkaður aðgangur að ferðamannastöðum yrði vegna þess að "of" vel gengi í ferðamennskunni.
Sem sagt, lúxusvandamál. Kvótakerfi fiskveiða var nauðvörn þjóðfélagsins.

Mismunur á þessu tvennu breytir samt ekki þeirri staðreynd, að í hvoru tveggja, kvótakerfi í fiskveiðum og kvótakerfi í ferðamannaiðnaði, getur (gæti) hver sem er keypt sig inn í kerfið, og selt sig út. Bara spurning um framboð og eftirspurn á hverjum tíma, og hvernig reksturinn gengur.

Eitt er þó nokkuð öruggt, að óhófleg skattlagning á ferðamannastaði gengur aldrei. Þrátt fyrir allt, þá á ferðamnnaiðnaðurinn í samkeppni við önnur ferðamannalönd.
Á sama hátt getur skattlagning í óhófi aldrei gengið upp í útgerð, því ofan á samkeppni á afurðum, eiga íslenskar útgerðir í samkeppni við niðurgreiðslur í öðrum ríkjum.

En það sem skiptir kannski hvað mestu máli er, að útgerðir hafa fjárfest gríðarlega. Það er grundvöllur samkeppnishæfni. Skuldirnar eru líka umtalsverðar, en menn hafa líka óhikað fest eigið fé í reksturinn. Ef kippa á grundvellinum undan þessum fjárfestingum, breyta handvirkt þeim forsendum sem liggja að baki fjárfestingunumm, þá jafngildir það eignaupptöku. Og grunnurinn að frjálshyggju og íhaldsstefnu er einmitt eignarétturinn. Þú platar ekki fólk til að leggja fé og vinnu í að byggja eitthvað upp, bara til að hirða það síðan frá þeim þegar vel gengur.

Hilmar (IP-tala skráð) 1.6.2015 kl. 00:41

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég held ekki að það sé rétt hjá þér að útgerð hefði lagst af hér ef kvótakerfi hefði ekki verið komið á. Það hefði einfaldlega þurft að beita öðrum aðferðum til að takmarka veiðina.

Yrði kvótum komið á ferðamannastaði væri ástæðan sú sama, að takmarka aðsókn.

Það hvort menn geta keypt sig inn í kvótakerfi eða ekki skiptir nákvæmlega engu máli þegar rætt er um réttlæti í úthlutun kvótanna. Þá gæti ég eins hirt af þér húsið þitt og sagt svo: Hafðu engar áhyggjur, þú getur alltaf keypt húsið þitt aftur.

Það getur vel verið að erfitt sé að breyta kerfinu nú þegar búið er að festa það í sessi. (Þó hljótum við að álykta að þeir sem fjárfest hafa í útgerð hafi ávallt tekið með í reikninginn möguleikann á því að kerfinu kunni að verða breytt.) En það breytir nákvæmlega engu um þá staðreynd að úthlutun kvótans var ekki réttlát.

Þorsteinn Siglaugsson, 1.6.2015 kl. 09:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 287738

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband