Er hægt að ræða af viti um fóstureyðingar?

Það er ánægjulegt að umræða um fóstureyðingar skuli nú spretta upp í framhaldi af þjóðaratkvæðagreiðslu Portúgala. Málefnið er mikilvægt. Eins og við er að búast skiptist fólk í tvö horn í þessu máli. Andstæðingar fóstureyðinga byggja afstöðu sína oftast á þeirri skoðun að fóstrið sé lifandi vera í móðurkviði ekkert síður en utan hans. Ein meginröksemdin fyrir fóstureyðingum er sú, að þar sem fóstrið geti ekki lifað utan móðurkviðar sé það hluti af líkama móðurinnar og hún hafi því rétt til að losa sig við það. Gallinn við þessa röksemdafærslu er augljóslega sá, að hana mætti heimfæra til dæmis á fatlaða, aldraða eða aðra sem kunna að vera upp á annað fólk komnir. Því held ég að í raun byggi afstaða fylgjenda fóstureyðinga á þeirri fyrirframgefnu afstöðu að fóstrið sé í raun ekki einstaklingur og njóti því ekki réttinda.

Í báðum tilfellum byggir skoðunin á fyrirfram gefinni sannfæringu. Enn hefur engum tekist að sýna fram á að fóstur sé eða sé ekki mannvera. Og ekki einfaldar það málið, að hægt er að líta mismunandi augum á fóstrið eftir því á hvaða þroskastigi það er.

Það er oft áhugavert, þegar um flókin mál er að ræða, að setja þau í samhengi við aðrar aðstæður. Þannig má oft losna við tilfinningatengingar sem valda ruglingi og skekkja mat. Til dæmis mætti horfa á fóstureyðingavandann þannig án þess að taka afstöðu til spurningarinnar um hvort fóstrið er einstaklingur eða ekki:

Hugsum okkur að við þurfum að komast yfir fljót. Til þess eru tvær leiðir. Annars vegar gætum við farið yfir brú á fljótinu. Hins vegar gætum við gengið fyrir upptök þess. Ef við gerum það gætum við orðið alla ævina á leiðinni. Brúin er því nærtæk. En vandinn er, að á brúnni miðri er stór kassi sem ekki er hægt að komast framhjá. Til að komast yfir brúna þarf að þrýsta á hnapp við brúarsporðinn og setja í gang vél sem varpar kassanum ofan í fljótið. Vandinn er, að í kassanum er kannski maður og öruggt að hann ferst ef við vörpum kassanum í fljótið. Kannski er maður í kassanum, kannski ekki. Við vitum það ekki. Hvað gerum við? Tökum við áhættuna eða göngum við fyrir upptök fljótsins?

Ég held að með því að setja málið í svona samhengi geti orðið auðveldara að ræða það án þess að trúarskoðanir, afstaða til kvennabaráttu og annað slíkt rugli okkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Smá-athugasemd (til að byrja með!), Þorsteinn. Þegar þú segir: "Enn hefur engum tekist að sýna fram á að fóstur sé eða sé ekki mannvera," hvað áttu þá nákvæmlega við? Er það t.d. afstaða þín, að það sé einhverjum efa undirorpið, hvort átta mánaða fóstur, sem bíður fæðingar, sé manneskja? Er þá t.d. vikugamalt barn, sem fæddist með fyrirburafæðingu, segjum 23ja eða 27 vikna, manneskja, meðan annað barn, sem enn er í móðurkviði, segjum 28 vikna (tæplega 7 mánaða), er ekki manneskja? Gerir það barnið að mennsku lífi, að það andi að sér súrefni gegnum lungun eða sé laust við naflastrenginn?

Jón Valur Jensson, 14.2.2007 kl. 13:15

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Annars er dæmisaga þín í næstsíðustu klausunni mjög gagnleg. Og þakkarvert er, að þú færir þessi siðferðislegu álitaefni í tal.

Jón Valur Jensson, 14.2.2007 kl. 13:17

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Takk fyrir það, Jón Valur. Varðandi fyrri athugasemdina þína þá held ég að spurningar af þessum toga endurspegli einmitt vandann. Við erum alltaf að deila um skilgreiningar á því hvað er manneskja í staðinn fyrir að leita leiða til að taka á siðferðilega vandanum.

Þorsteinn Siglaugsson, 14.2.2007 kl. 13:30

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Og annað. Afstaða mín er t.d. klárlega sú, að 8 mánaða fóstur sé manneskja. Það er samt ekki þar með sagt að það sé manneskja. Afstaða mín byggir ekki á rökum - mér finnst þetta bara. Og get ég réttlætt það að jafn mikilvægt mál sé útkljáð með einni saman vísan í hvað mér, eða einhverjum öðrum finnst bara?

Þorsteinn Siglaugsson, 14.2.2007 kl. 13:34

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

En í þessum pósti mínum var ég í raun að benda á, að nýfæddur fyrirburi er talinn manneskja, þótt hann sé jafnvel mun yngri en barn í móðurkviði, sem sumir telja sér heimilt að virða ekki sem manneskju! Annars er lagavernd áskilin fóstri í móðurlífi skv. hegningarlögunum, m.a.s. fósturvísi allt frá frjóvgun. Einu undantekningarnar eru gerðar skv. lögum sem þrengja þennan rétt fósturs og fósturvísis við tilteknar aðstæður, að uppfylltum tilteknum skilmálum. Nefnd hegningarlög hafa verið í gildi óhögguð í þessu tilliti í 67 ár, og því er ekki unnt að segja, að lagavernd fyrir hina ófæddu sé andstæð hefðbundinni afstöðu löggjafans. Refsiákvæðin ströngu, sem þar er að finna, opinbera það líka, að verið er að vernda mannlegt líf, ekki eitthvað annað, þannig að lögin þau tala skýru máli um þá eðlilegu afstöðu, að fóstur er mannlegt líf í móðurkviði, já, manneskja, ekkert minna.

Í neðanmálsgrein [4] í þessari vefgrein minni vitna ég skýrt í þessi ákvæði hegningarlaganna og vísa til heimildar.

Jón Valur Jensson, 14.2.2007 kl. 15:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband