Ljós og loft, ryk og reykur

„Lofstafi fornhelga flytjum rykinu og reyknum“

(Sigfús Daðason: Útlínur bakvið minnið)

Hinn alræmdi gluggaskattur Vilhjálms þriðja Englandskonungs, sem fyrst kom til sögunnar árið 1696, er gjarna nefndur sem dæmi um óréttláta skattlagningu sem hvetur líka til óskynsamlegra viðbragða. Upphæð skattsins réðst af fjölda glugga á húsum sem átti að endurspegla efnahag borgaranna. En byggingarlag húsa er ólíkt, sum hafa fáa stóra glugga, önnur marga litla, og munurinn segir ekki endilega neitt um efnahag, hvað þá afkomu íbúanna. Skatturinn var stundum nefndur „ljós- og loftskattur“, enda múruðu húseigendur gjarna upp í gluggana til að forðast hann, en juku í staðinn lýsingu innandyra með tilheyrandi mengun. Ljósið og loftið véku fyrir rykinu og reyknum. Ljós- og loftskatturinn var endanlega aflagður um miðja nítjándu öld.

En nú hefur borgarstjórinn í Reykjavík fundið sér fyrirmynd í Vilhjálmi þriðja. Hyggst hann leggja sérstakan ruslaskatt á suma borgarbúa, þá sem eru svo óheppnir að götuhlið húsa þeirra snýr mót sólu á daginn. Munurinn á gluggaskatti Vilhjálms konungs og ruslaskattinum nýja er þó sá að meðan skattur Vilhjálms konungs átti að vera í einhverjum tengslum við efnahag borgaranna ræðst það af tilviljun einni á hverja ruslaskattur lærisveinsins leggst.

Líkt og þegnar Vilhjálms þriðja munu þegnar borgarstjóra auðvitað reyna að forðast skattinn. Vorkoman þetta árið mun því markast af óhrjálegri tunnuþröng á gangstéttum borgarinnar, sem misþýðir vorvindarnir munu svo feykja til og frá, rottum og mávum til ánægju og ábata, en öskukörlum og íbúum til ama og tafa. Svo verður dregið fyrir og gluggum lokað fyrir skynrænum áhrifum skattsins nýja – og ljósinu og loftinu um leið.

Ábendingum um augljósa vankanta þessarar nýju skattlagningar svara hirðmenn borgarstjóra með hástemmdum moðreyk um hvílíkt framfaraspor furðuskattur þessi marki. Kannski er fyrirmynd þeirra Rómverjinn Marcus Cornelius Fronto, sem orti rykinu og reyknum lofsöng þann er Sigfús Daðason vitnar til í Síðustu bjartsýnisljóðum. En munurinn er að Fronto var að grínast – svona eins og borgarstjórinn í Reykjavík kunni einu sinni mjög vel.

(Morgunblaðið. 22 janúar 2011)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband