Vald eða frelsi?

Jón Þór Pétursson þjóðfræðingur andmælir, í grein hér í blaðinu þann 16. ágúst, þeirri skoðun minni að efnahagshrunið sé ekki frjálshyggju að kenna. Þar sem grein hans er um margt málefnaleg vil ég bregðast við eftir því sem ástæða er til.

Eins og Jón nefnir rek ég efnahagshrunið til ríkisafskipta, ríkisábyrgða og mistaka við efnahagsstjórn og nefni líka að reynsluleysi og spilling kunni að hafa haft nokkur áhrif. Virðist Jón álykta að þar sé létt skautað yfir af ásettu ráði til að fela meinta sekt frjáls markaðar. Svo er ekki.

Þegar greina þarf orsakir efnahagslegs umróts er meginatriði að átta sig á hagrænu hvötunum að baki. Séu hvatar til óábyrgrar hegðunar eða lögbrota sterkir verður hegðun óábyrg og lög verða brotin hvað sem öllum eftirlitskerfum líður. Sé fátækt til dæmis mikil verða glæpir tíðari en þar sem almennari velmegun ríkir. Litlu skiptir þótt löggæsla sé efld; hvatinn hverfur ekki við það. Sama á við um efnahagsvandann hér. Hinir hagrænu hvatar skipta mestu þegar skýringa er leitað.

En þótt spilling og veikburða eftirlit skýri ekki hrunið er rétt rökræðunnar vegna að skoða staðhæfingar Jóns um þetta efni nánar. Jón fullyrðir að stjórnvöld hafi kerfisbundið veikt eftirlit til að auka svigrúm athafnamanna og ályktar að kenna megi frjálshyggju um efnahagshrunið. Staðreyndirnar tala öðru máli. Fjármálaeftirlit var sett á stofn á valdatíma hinna meintu frjálshyggjumanna. Árið 2002 settu þeir ný lög um fjármálafyrirtæki sem setja starfi þeirra þröngar skorður. Þannig hefur ekki verið dregið úr regluverkinu, síður en svo. Eftirlitsstofnanir uxu vissulega ekki jafn hratt og bankakerfið síðustu árin. En slíkt er eðlilegt vegna þess hve vöxturinn var hraður og reynsla af bankastarfsemi lítil. Fráleitt er að leita skýringanna í einhverju samsæri frjálshyggjumanna sér í lagi þegar við blasir útþensla ríkisins á öllum sviðum á valdatíma þessara sömu manna.

Mestalla síðustu öld voru bankar flestir í eigu ríkisins og pólitískt stýrt. Forsenda bankaláns var rétta flokksskírteinið. Einkavæðing bankanna var síðasta skrefið í að vinda ofan af þessu og skapa greininni heilbrigt samkeppnisumhverfi á ný. Á einkavæðingunni var hins vegar sá regingalli að í raun hélt ríkisvaldið áfram að ábyrgjast rekstur bankanna. Eins hafa rök verið leidd að því að einkavæðingin hafi í einhverjum tilfellum litast af spillingu. En hvernig getur spilling í stjórnvaldsaðgerð verið frjálsum markaði að kenna?

Grunnkrafa frjálshyggjunnar er frelsi til athafna meðan þær skerða ekki sama frelsi annarra. Því er rangt hjá Jóni að frjálshyggjumenn vilji óheft frelsi án tillits til hagsmuna annarra. En hafi menn frelsi er nauðsynlegt að þeir taki sjálfir afleiðingum gerða sinna. Ekki dugar að þeir haldi gróðanum en skattgreiðendur beri tapið. Eins og ég útskýrði í grein minni er slíkt fyrirkomulag í skýrri andstöðu við grunngildi frjálshyggjunnar. Þótt það hljómi vel í eyrum einhverra sem lítt skeyta um staðreyndir að svara þessu með hártogunum um vont fólk og góða stefnu er sá hljómur holur.

Jón telur frjálshyggju öfgastefnu á borð við kommúnisma. En hér er reginmunur á. Grunnkenning kommúnismans er að efnahagsþróunin leiði til þess að manneðlið breytist og upp rísi samfélag þar sem ríkisvald er óþarft en hver starfar eftir getu og hlotnast eftir þörfum. Frjálshyggjan byggir aftur á þeirri reynsluþekkingu að maðurinn er ófullkominn, að hann er eigingjarn og að því meira vald sem honum er fært yfir öðrum því verr fer hann með það. Málsvarar takmarkaðs ríkisvalds, allt frá Locke, Burke og Mill á 18. og 19. öld, til Hayeks, Mises og Friedmans á þeirri tuttugustu, byggðu skoðanir sínar á dapurri reynslu Evrópumanna af ofríki konunga, einræðisherra og sameignarsinna. Þeir vissu að valdið spillir og gerræðisvald gerspillir. Því væri frelsi í viðskiptum vænlegast til að skapa bærilegt samfélag. Slíkt samfélag verður aldrei fullkomið eins og samfélag kommúnismans átti að verða, en skárri kost eigum við líklega ekki.

Eins og Jón nefnir réttilega eiga margir erfitt með að skipta um skoðun. Eftir að kommúnisminn hrundi hefur mörgum sameignarsinnum sviðið velgengni Vesturlanda. Um leið og eitthvað bjátar á í vestrænu hagkerfi stökkva þeir því fram allshugar fegnir með þá gömlu skýringu á reiðum höndum að nú sannist að frelsið sé hættulegt og styrk hönd valdhafans sé almenningi fyrir bestu. Það skiptir þetta fólk litlu þótt öll rök hnígi að því að rót vandans liggi í ríkisafskiptum. Og því takmarkaðri sem skilningurinn er á frjálsu hagkerfi og verkan þess því fastar er á þessu roði hangið.

Fréttablaðið 24. ágúst 2010


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 287360

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband