26.8.2010 | 12:17
Skiljanleg afstaða Beatys
Ross Beaty er ekki að kaupa HS til að tapa heldur til að græða á rekstrinum. Til þess þarf hann að fá sem hæst verð fyrir orkuna. Hann lætur sér því eðlilega ekki nægja 3-5% arðsemi heildareigna líkt og lenska hefur verið hérlendis, heldur krefst hann eðlilegs arðs af fjárfestingu sinni. Annars myndi hann bara kaupa ríkisskuldabréf.
Það er ekkert nema gott um það að segja að menn á borð við Ross Beaty fjárfesti í íslenskum orkufyrirtækjum. Kannski gæti það á endanum orðið til þess að stórefla þennan atvinnuveg.
![]() |
HS-Orka vill selja orku til Helguvíkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.8.2010 | 16:13
Um trúnað
Ýmsir ráðast nú gegn sr. Geir Waage vegna þess að hann hefur lýst þeirri skoðun, að prestar séu ávallt bundnir trúnaði við sóknarbörn sín og óheimilt að upplýsa þriðja aðila um efni trúnaðarsamtala við þau, einnig þótt um brotamann sé að ræða. Grunar mig að þeir sem þessa gagnrýni hafa uppi skilji ekki þann grundvallarmun sem er á trúnaði annars vegar og þöggun samsæri um að hindra að sannleikur máls komi fram hins vegar.
Það segir sig sjálft að séu prestar ekki bundnir trúnaði, mun enginn brotamaður leita til þeirra og viðurkenna brot sitt í trúnaði. Sé trúnaðarskyldan hins vegar ótvíræð, kann brotamaðurinn að leita til prestsins, sem þá getur leiðbeint honum um breytta hegðun, verndað hugsanleg fórnarlömb hans og hvatt hann til að gefa sig fram. Sé þessi öryggisventill úr gildi numinn, getur því afleiðingin orðið sú ein að afbrotum fjölgi og líkur á að upp um þau komist minnki.
Af þessu sést að Alþingi gerði mistök í því, að undanskilja ekki presta tilkynningaskyldu, þegar barnaverndarlög voru samþykkt árið 1992. Og séu lög gölluð á ekki að hanga á þeim eins og hundur á roði, heldur færa til betri vegar. Bersýnilegt er að þessi lög þarf að lagfæra sem fyrst, svo trúnaður presta við skjólstæðinga sína geti áfram gegnt því mikilvæga félagslega hlutverki að fækka afbrotum og auka líkur á að upp um þau komist.
En í trúnaðarskyldu prests felst ekki það eitt að hann þegi um það sem honum er trúað fyrir. Hún felur líka í sér að hann noti sér ekki trúnaðartraust skjólstæðingsins í ósæmilegum tilgangi, eða bregðist honum á annan hátt, þar með talið með því að þagga niður umkvartanir sem skjólstæðingurinn óskar að komi fram. Trúnaður almennt snýst raunar ávallt um þetta tvennt og verður það ekki aðskilið. Í þessu ljósi er athyglivert að bera saman afstöðu sr. Geirs nú gagnvart þagnarskyldunni og svo hins vegar fyrir fimmtán árum, þegar hann var einn fárra presta, sem ekki sættu sig við að hin dapurlegu mál, sem nú hafa skotið upp kollinum á ný, yrðu þögguð niður. Afstaða hans nú er greinilega af sömu rót runnin og þá, grundvölluð á óskoraðri virðingu fyrir trúnaðarskyldunni í heild sinni og djúprættri andstöðu við þau óheilindi sem þöggun grundvallast ávallt á.
Það er því öfugmæli að krefjast þess að sr. Geir verði áminntur vegna skoðana sinna. Er nær að ýmsir aðrir dragi sjálfsagðan lærdóm af réttmætri ábendingu hans.
Morgunblaðið 25. ágúst 2010
![]() |
Mun hér eftir sem hingað til hlýða tilkynningaskyldu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.8.2010 | 14:01
Vald eða frelsi?
Jón Þór Pétursson þjóðfræðingur andmælir, í grein hér í blaðinu þann 16. ágúst, þeirri skoðun minni að efnahagshrunið sé ekki frjálshyggju að kenna. Þar sem grein hans er um margt málefnaleg vil ég bregðast við eftir því sem ástæða er til.
Eins og Jón nefnir rek ég efnahagshrunið til ríkisafskipta, ríkisábyrgða og mistaka við efnahagsstjórn og nefni líka að reynsluleysi og spilling kunni að hafa haft nokkur áhrif. Virðist Jón álykta að þar sé létt skautað yfir af ásettu ráði til að fela meinta sekt frjáls markaðar. Svo er ekki.
Þegar greina þarf orsakir efnahagslegs umróts er meginatriði að átta sig á hagrænu hvötunum að baki. Séu hvatar til óábyrgrar hegðunar eða lögbrota sterkir verður hegðun óábyrg og lög verða brotin hvað sem öllum eftirlitskerfum líður. Sé fátækt til dæmis mikil verða glæpir tíðari en þar sem almennari velmegun ríkir. Litlu skiptir þótt löggæsla sé efld; hvatinn hverfur ekki við það. Sama á við um efnahagsvandann hér. Hinir hagrænu hvatar skipta mestu þegar skýringa er leitað.
En þótt spilling og veikburða eftirlit skýri ekki hrunið er rétt rökræðunnar vegna að skoða staðhæfingar Jóns um þetta efni nánar. Jón fullyrðir að stjórnvöld hafi kerfisbundið veikt eftirlit til að auka svigrúm athafnamanna og ályktar að kenna megi frjálshyggju um efnahagshrunið. Staðreyndirnar tala öðru máli. Fjármálaeftirlit var sett á stofn á valdatíma hinna meintu frjálshyggjumanna. Árið 2002 settu þeir ný lög um fjármálafyrirtæki sem setja starfi þeirra þröngar skorður. Þannig hefur ekki verið dregið úr regluverkinu, síður en svo. Eftirlitsstofnanir uxu vissulega ekki jafn hratt og bankakerfið síðustu árin. En slíkt er eðlilegt vegna þess hve vöxturinn var hraður og reynsla af bankastarfsemi lítil. Fráleitt er að leita skýringanna í einhverju samsæri frjálshyggjumanna sér í lagi þegar við blasir útþensla ríkisins á öllum sviðum á valdatíma þessara sömu manna.
Mestalla síðustu öld voru bankar flestir í eigu ríkisins og pólitískt stýrt. Forsenda bankaláns var rétta flokksskírteinið. Einkavæðing bankanna var síðasta skrefið í að vinda ofan af þessu og skapa greininni heilbrigt samkeppnisumhverfi á ný. Á einkavæðingunni var hins vegar sá regingalli að í raun hélt ríkisvaldið áfram að ábyrgjast rekstur bankanna. Eins hafa rök verið leidd að því að einkavæðingin hafi í einhverjum tilfellum litast af spillingu. En hvernig getur spilling í stjórnvaldsaðgerð verið frjálsum markaði að kenna?
Grunnkrafa frjálshyggjunnar er frelsi til athafna meðan þær skerða ekki sama frelsi annarra. Því er rangt hjá Jóni að frjálshyggjumenn vilji óheft frelsi án tillits til hagsmuna annarra. En hafi menn frelsi er nauðsynlegt að þeir taki sjálfir afleiðingum gerða sinna. Ekki dugar að þeir haldi gróðanum en skattgreiðendur beri tapið. Eins og ég útskýrði í grein minni er slíkt fyrirkomulag í skýrri andstöðu við grunngildi frjálshyggjunnar. Þótt það hljómi vel í eyrum einhverra sem lítt skeyta um staðreyndir að svara þessu með hártogunum um vont fólk og góða stefnu er sá hljómur holur.
Jón telur frjálshyggju öfgastefnu á borð við kommúnisma. En hér er reginmunur á. Grunnkenning kommúnismans er að efnahagsþróunin leiði til þess að manneðlið breytist og upp rísi samfélag þar sem ríkisvald er óþarft en hver starfar eftir getu og hlotnast eftir þörfum. Frjálshyggjan byggir aftur á þeirri reynsluþekkingu að maðurinn er ófullkominn, að hann er eigingjarn og að því meira vald sem honum er fært yfir öðrum því verr fer hann með það. Málsvarar takmarkaðs ríkisvalds, allt frá Locke, Burke og Mill á 18. og 19. öld, til Hayeks, Mises og Friedmans á þeirri tuttugustu, byggðu skoðanir sínar á dapurri reynslu Evrópumanna af ofríki konunga, einræðisherra og sameignarsinna. Þeir vissu að valdið spillir og gerræðisvald gerspillir. Því væri frelsi í viðskiptum vænlegast til að skapa bærilegt samfélag. Slíkt samfélag verður aldrei fullkomið eins og samfélag kommúnismans átti að verða, en skárri kost eigum við líklega ekki.
Eins og Jón nefnir réttilega eiga margir erfitt með að skipta um skoðun. Eftir að kommúnisminn hrundi hefur mörgum sameignarsinnum sviðið velgengni Vesturlanda. Um leið og eitthvað bjátar á í vestrænu hagkerfi stökkva þeir því fram allshugar fegnir með þá gömlu skýringu á reiðum höndum að nú sannist að frelsið sé hættulegt og styrk hönd valdhafans sé almenningi fyrir bestu. Það skiptir þetta fólk litlu þótt öll rök hnígi að því að rót vandans liggi í ríkisafskiptum. Og því takmarkaðri sem skilningurinn er á frjálsu hagkerfi og verkan þess því fastar er á þessu roði hangið.
Fréttablaðið 24. ágúst 2010
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2010 | 17:36
Gylfaginning - heilræðavísa
Lygavefinn liðugt spann
lipur þing að ginna.
En fyrr en því lauk sá frómi mann
flæktist í vefnum sjálfur hann.
Varist þú slíkt að vinna.
![]() |
Gylfi situr áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.9.2020 kl. 18:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.8.2010 | 15:48
Af faglegri stjórnarskipan
Steingrím á Ara hann við til að vara
sendir nú frúin því feyskin og lúin
og farin og búin er fagmennskutrúin
![]() |
Reynt að skapa ágreining |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.8.2010 | 16:36
Vísnakeppni um herradómana!
Fyrst Spaugstofunni hefur nú verið fórnað á altari húmorsleysisins verðum við að finna aðrar leiðir til að hæðast að ráðamönnum. Legg til vísnakeppni og fyrsta framlagið er hér:
Sorgarkvæði um umboðsmann, skuldugan
Runki fór í réttirnar,
ríðandi á honum Brúnka.
Fljótt hann komst í fréttirnar,
fékk í poll að súnka.
Upp úr skreiddist óbrotinn,
en ataður saur og leðju.
Flaugst svo á við færleikinn,
fékk þann skrýddan eðju.
Í réttinni var rýrt hans kið,
réttast því að gleyma:
Úti var um embættið;
nú átti hann hvergi heima.
kræfir léku saman.
Nú er að Runka hlegið hátt,
hent að Brúnka gaman.
![]() |
Engin Spaugstofa í vetur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.8.2010 | 23:59
Eru ríkisafskiptin frjálshyggjunni að kenna?
Svavar Gestsson fer fram á það í nýlegri grein í Fréttablaðinu að Sjálfstæðisflokkurinn geri upp við frjálshyggjuna. Engin rök eru færð fram gegn frjálshyggjunni, aðeins fullyrt að hún hljóti að vera skammaryrði og því beri flokknum að hafna henni. Eftir að krónan hrundi og bankakerfið féll hefur fjöldi fólks lýst svipuðum skoðunum opinberlega. Rökstuðningurinn ber oftast vott um álíka djúpa hugsun og fyrrnefnd grein.
Hvað er frjálshyggja?
Frjálshyggjumenn telja heilbrigðara að atvinnulíf grundvallist á framtaki fólks en á skipulagningu ríkisvaldsins. Þetta fyrirkomulag kallast markaðshagkerfi. Önnur helsta röksemdin að baki því er að framleiðsla ræðst þá af þörfum neytendanna sem ekkert skipulagningarvald getur haft yfirsýn yfir. Hin er að tilraunir til skipulagningar atvinnulífsins leiði til spillingar og ófrelsis. (Nýlegar hótanir um stjórnvaldsofbeldi gagnvart bændum sem vilja selja vöru sína á frjálsum markaði eru ágætt dæmi um afleiðingar skipulagshyggjunnar.) Markaðshagkerfið grundvallast á frjálshyggjunni og hefur lengi verið við lýði í vestrænum ríkjum. Frelsið er þó mismikið og hvergi algjört. Ríkið prentar peninga, tekur oft þátt í atvinnulífi og ráðstafar gjarna talsverðum hluta þjóðarframleiðslunnar til sameiginlegra þarfa. Frjálshyggjumenn telja heppilegra að markaðsfrelsið sé meira heldur en minna enda dragi ríkisafskipti úr skilvirkni markaða og þar með úr velmegun almennings.
Er peningamálastefnan frjálshyggja?
Að frátalinni spillingu og reynsluleysi eftirlitsaðila og stjórnmálamanna eru orsakir hins sértæka efnahagsvanda Íslands í megindráttum þrjár. Í fyrsta lagi olli röng peningamálastefna og óábyrg efnahagsstjórn innstæðulausri gengishækkun þar sem fjárfestum voru send blekkjandi skilaboð með óhóflegum stýrivöxtum samhliða óhagkvæmum ríkisfjárfestingum sem ýttu undir þenslu. Á endanum kom vitanlega að skuldadögum og krónan hrundi með brauki og bramli. Þetta er meginorsök skulda- og verðbólguvandans sem heimili og atvinnulíf glíma nú við. Auðsætt er að frjálshyggja getur ekki átt sök á þessum mistökum.
Í öðru lagi olli skyndilegur aðgangur að mjög ódýru erlendu lánsfé (þar var peningamálastefnan að miklu leyti að verki líka) innstæðulausri þenslu í efnahagsreikningum bankanna ásamt eignaverðsbólu. Þegar erlendir aðilar lýstu áhyggjum af þessu brugðust stjórnvöld og eftirlitsstofnanir við með því að fullyrða að íslenska ríkið stæði að fullu að baki bönkunum. Þegar kerfið féll var staðið við þetta eftir því sem kostur var.
Eru aukin ríkisafskipti frjálshyggja?
Það þarf mikið hugmyndaflug til að ímynda sér að ríkisstuðningur af þessum toga eigi eitthvað skylt við frjálshyggju. Þvert á móti er raunin sú að frjálshyggjumenn hafa um langt árabil gagnrýnt hin miklu afskipti ríkisins af rekstri fjármálastofnana og þá ábyrgð sem skattgreiðendum er gert að sæta á starfsemi þeirra. Sterk rök hníga til þess að slík ábyrgð dragi úr möguleikum annarra fyrirtækja til að keppa um fjármagn við fjármálastofnanir og leiði þannig til lakari nýtingar þess. Eigi maður val um að ávaxta fé sitt í banka með fullri tryggingu ríkisins tekur hann vitanlega síður áhættuna af beinni fjárfestingu í atvinnurekstri. Valdið og ábyrgðin flyst frá fjárfestinum til starfsmanna og eigenda bankans sem vegna ríkisábyrgðar geta yfirleitt bara grætt á ákvörðunum sínum, en sjaldnast tapað.
Í þriðja lagi bólgnaði rekstur ríkisins út fram úr öllu hófi. Í stað þess að sýna aðhald og ráðdeild í góðærinu var fjárfest og eytt sem aldrei fyrr. Á endanum átu mögru kýrnar þær feitu og meira til. Frjálshyggjumönnum er gjarna legið á hálsi fyrir að vilja draga úr útgjöldum ríkisins. Sjaldgæfara er að þeir séu skammaðir fyrir að vilja þenja það út.
Frelsi eða valdboð?
Kenningar frjálshyggjunnar eru grundvöllur þess frelsis, framþróunar og velmegunar sem við höfum notið um langa hríð á Vesturlöndum. Þær eru grundvöllur hinna almennu mannréttinda sem réttarkerfi okkar byggir á. Valkosturinn við frjálshyggju og markaðskerfi er að fela stjórnvöldum að skipuleggja atvinnulífið í enn meira mæli. Þar með skerðist frelsi fólks til að taka sjálft ákvarðanir um hvernig það hagar lífi sínu og störfum. Valkosturinn við frjálshyggjuna er nefnilega sá að færa valdið frá fólkinu til stjórnmálamannanna. Ég efast um að margir vilji slíkt í raun, sérstaklega nú þegar við finnum á eigin skinni hvernig þeir geta farið með það.
Sjálfstæðisflokkurinn þarf vissulega að gera ýmislegt upp. En það uppgjör á ekki að vera við frjálshyggjuna heldur við athafnir sem oft samrýmdust því miður ekki grundvallarstefnu flokksins. Uppgjörið mun eflaust taka einhvern tíma, þó örugglega skemmri en hjá þeim sameignarsinnum sem enn eru við sama heygarðshornið tuttugu árum eftir hrun skipulagsins sem þeir studdu.
(Fréttablaðið, 6. ágúst 2010)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.8.2010 kl. 00:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Hitt og þetta
Bloggvinir
-
agny
-
graenar-lausnir
-
bjarnijonsson
-
bjornalexandermikli
-
gattin
-
dofri
-
contact
-
fhg
-
gretaulfs
-
gudni-is
-
mosi
-
bofs
-
muggi69
-
gudrunmagnea
-
zeriaph
-
holi
-
haukurn
-
diva73
-
hlynurh
-
ingibs
-
ingolfursigurdsson
-
fun
-
jennystefania
-
johnnybravo
-
eyfeld
-
jonbergsteinsson
-
jonvalurjensson
-
thjodarskutan
-
krist
-
kristjan9
-
loncexter
-
ludvikjuliusson
-
sleggjudomarinn
-
magnuss
-
svarthamar
-
vestskafttenor
-
otti
-
runaro
-
joklamus
-
sigurjons
-
stefanjul
-
summi
-
saemi7
-
samy
-
torfusamtokin
-
vestfirdir
-
thorsteinn
-
valli57
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (30.9.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 288237
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 11
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar