Gott hjá þeim!

Ég tek ofan fyrir þeim Hönnu Birnu og Sóleyju. Þær sýndu sáttfýsi og samstarfsvilja með því að gegna þessum stöðum. Það er rétt hjá þeim að hætta nú þegar komið er endanlega í ljós að meirihlutinn tekur hvorki tillit til sjónarmiða minnihlutans né fólksins í borginni. Þetta eru kjarnakonur sem láta ekki vaða yfir sig.


mbl.is Hættir sem forseti borgarstjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veikburða undir lokin

Greinin byrjar ágætlega, en heldur er málflutningurinn veikburða undir lokin. Í stað þess að setja fram þau rök að þar sem regluverk ESB bannar ríkisábyrgð á innstæðutryggingum komi hún ekki til greina er vælt um að líklega muni Íslendingar þurfa að taka á sig þyngri byrðar eftir dómsniðurstöðu.

Þetta er málflutningur einstaklings sem hefur lagt allt undir í máli, tapað og á nú að fara að tala máli andstæðinganna. Slíkt geta fáir gert vel, kannski enginn.

Það gengur auðvitað alls ekki að fólk í slíkri stöðu verði nú í forsvari fyrir hagsmunum Íslands. Í þeim orðum felst engin persónuleg gagnrýni á Jóhönnu eða Steingrím, aðeins raunsætt mat á því hvað er sálfræðilega mögulegt.

 


mbl.is Grein eftir Jóhönnu í Guardian
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjár fjarstæður um Icesave

Fyrsta fjarstæða: Samningurinn kostar bara 32 milljarða
Því er haldið fram að kostnaður vegna Icesave-samningsins sé aðeins 32 milljarðar króna. Þessi staðhæfing er röng því hún byggir ekki á raunverulegu gengi krónunnar heldur niðurgreiddu verði gjaldeyris, sem fæst nú í takmörkuðu magni hjá Seðlabanka Íslands. Eins og kunnugt er eru niðurgreiðslur aldrei ókeypis. Kostnaðurinn felst í mismuninum á réttu verði og niðurgreiddu verði.

Gengi gjaldmiðils er aðeins það verð sem aðilar á frjálsum markaði eru tilbúnir að greiða fyrir hann. Nú um stundir er markaðsverð einnar evru 280 krónur. Þar sem höft eru á viðskiptum með krónur tekur kaupandi þeirra þá áhættu að nokkur tími geti liðið þar til hann getur selt þær aftur. Erfitt er að meta hversu stór þessi áhættuþáttur er og því er óvíst hvert gengið yrði án haftanna.
Sé byggt á markaðsgengi er kostnaður við samninginn 540 milljarðar króna. Sé miðað við meðaltal markaðsgengis og niðurgreidds gengis er upphæðin 280 milljarðar króna. Sé miðað við að rétt gengi sé aðeins um 20% undir skráðu gengi er hún ríflega 150 milljarðar. Ef kostnaðurinn væri 32 milljarðar væri skráð gengi Seðlabanka rétt gengi. En þá þyrfti vitanlega engin gjaldeyrishöft. Tilvist þeirra er besta vísbendingin um að kostnaðaráætlun stjórnvalda er fjarri lagi.


Önnur fjarstæða: Samningurinn borgar sig upp sjálfur
Sumir segja að engin þörf sé á að fjármagna fyrirsjáanlegar vaxtagreiðslur og afborganir vegna Icesave-samningsins því með samþykkt hans verði hagvöxtur svo mikill að hann fjármagni sig í raun sjálfur. Þetta staðhæfir t.d. Tryggvi Þór Herbertsson þingmaður í nýlegri Fréttablaðsgrein. Að frátalinni þeirri kenningu að það kosti bankana ekkert að lækka öll húsnæðislán um 20%, sem Tryggvi þessi setti fram fyrir síðustu kosningar, er þekktasta dæmið um slíka töfrabragðahagfræði kenningin um brotnu rúðuna: Rúða er brotin, það skapar smiðnum tekjur sem skiptir um hana, innflytjandanum sem flytur inn glerið og verksmiðjunni sem framleiðir það. Allir eyða þeir svo tekjunum í vöru og þjónustu, seljendurnir eyða svo sínum tekjum og þannig koll af kolli. Á endanum er því bara gott að rúðan hafi verið brotin!


Mikilvægt er að kjósendur láti ekki blekkjast af slíkum málflutningi. Kostnaður við samninginn er raunverulegur og hann verður á endanum að fjármagna, með skattahækkunum eða niðurskurði . Auk þess er vitanlega rangt að Icesave málið sé einhver meginhindrun í vegi hagvaxtar hérlendis, þar eiga gjaldeyrishöft, skuldsetning og ótryggt rekstrarumhverfi mesta sök.


Þriðja fjarstæða: Já, og við erum laus við leiðindin
Verði Icesave-samningurinn samþykktur aukast erlendar nettóskuldir þjóðarbúsins umtalsvert. Það er grundvallarlögmál að aukin skuldsetning leiðir til lakari kjara og hærri vaxtagreiðslna. Nú þegar á ríkið erfitt með að fjármagna nauðsynlega þjónustu. Þó hafa skattar verið hækkaðir umtalsvert og útgjöld skorin niður. Stórauknar vaxtagreiðslur, bæði vegna hærri skulda og lakari kjara, auka enn á þörf fyrir niðurskurð og skattahækkanir. Allt dregur þetta úr fjárfestingu og neyslu, og þar með úr atvinnu. Sé vandanum aftur frestað með lántökum þurfa börnin okkar að greiða lánin. Því er það fjarstæða ein að með samþykkt samningsins verðum við laus við leiðindin, þvert á móti byrja þau þá fyrst fyrir alvöru.


mbl.is Hafa samúð með Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langvinnt aprílgabb

Íslendingar eru vissulega lottóþjóð - við sitjum og bíðum eftir að vinna í happdrætti og trúum því statt og stöðugt að við séum klárust og best í heimi - þótt við séum meira á hausnum en flest önnur lönd.

Það kitlar kjánastoltið hjá mörgum þegar einhverjir fuglar í útlöndum hrósa landi og þjóð. En er þetta nú ekki orðið einum of? Er ekki fyrsti apríl örugglega búinn, annars?


mbl.is Leita til Íslands vegna umhverfismála og andstöðu við stríð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Apríl 2011
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 288236

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband