Orkugjafi framtíðarinnar

Það er dapurlegt að raforkuframleiðsla með kjarnorku skuli mæta jafn mikilli mótspyrnu og raun ber vitni. Nú undanfarið hefur maður þurft að hlýða á eintóna söng lítt gefinna pólitíkusa um að íslendingum beri skylda til að framleiða eins mikið rafmagn og kostur er vegna þess að hér sé orkuframleiðslan sjálfbær. Það er vitanlega mesta bull, ekki síst vegna þess, að forsenda sjálfbærni er sú að framleiðslan sé hagkvæm, en því er auðvitað ekki að heilsa þegar kemur að orkuöflun til stóriðju á Íslandi. Ef til er sjálfbær, umhverfisvæn og hagkvæm orkuframleiðsla er það orkuframleiðsla með kjarnorku. Hagkvæmnin er mikil, mengunin hverfandi og önnur umhverfisáhrif lítil. Vandinn er bara sá, að kjarnorka hefur fengið á sig óorð vegna slysa í úreltum og illa reknum kjarnorkuverum. Hvers vegna fá ekki bílar á sig svipað óorð vegna slysa sem lélegir bílstjórar á vondum bílum valda? Ef íslenskum pólitíkusum væri alvara með væli sínu um sjálfbæra orkuframleiðslu myndu þeir að sjálfsögðu hvetja til byggingar kjarnorkuvera hér.


mbl.is Tugþúsundir mótmæla byggingu kjarnakljúfs í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk Birgir

Mikið er ég feginn að menn sáu að sér með þetta auðlindafrumvarp. Einhvern veginn grunar mig að Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar, hafi átt mikinn þátt í að fá menn til að ná áttum.

Einkennileg röksemdafærsla

Enn og aftur hvetja Samtök iðnaðarins til aðildar að ESB. Þá kemur upp í hugann viðtal við hagfræðing samtakanna í Speglinum í gær. Þar var þessi söngur sunginn um að krónan væri ómögulegur gjaldmiðill og hagfræðingurinn búinn að reikna út milljarðakostnað af henni, sem að vísu virtist aðallega felast í vaxtakostnaði heimilanna. Þessi málflutningur er allur hálf einkennilegur. Meginorsökin fyrir þenslu og þar með háum vöxtum eru ríkisstyrktar stóriðjuframkvæmdir. En á sama tíma og SI hvetja til þess að leggja krónuna niður hvetja samtökin jafnframt eindregið til áframhaldandi ríkisframkvæmda og er ekki að heyra að hagfræðingur þeirra hafi minnsta skilning á samhenginu þarna á milli. Vandamálið er auðvitað ekki krónan sem slík, heldur óábyrg efnahagsstjórn. Maður áttar sig ekki á því hvað SI gengur til með þessum málflutningi alltaf hreint. Er þetta einhver pólitík eða þurfa samtökin að ráða sér nýjan hagfræðing? Einhvern veginn hallast ég að því að hið fyrrnefnda eigi við, þótt  hagfræðingurinn hefði eflaust gott af námskeiði í þjóðhagfræði 101 líka!


mbl.is Eðlilegt að einkafyrirtæki nýti auðlindir gegn gjaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hvers er eiginlega verið að þessu?

Fram kemur í fyrirsögn fréttarinnar að til standi að fella hugtakið þjóðareign út úr frumvarpi um að yfirlýsing um þjóðareign á auðlindum fari inn í stjórnarskrá! Það er vissulega jákvætt ef hætt verður við að setja merkingarlaust hugtak í stjórnarskrána. En hvað á að koma í staðinn? Ákvæði um að auðlindir skuli nýta þjóðinni til hagsbóta! Ég leyfi mér að spyrja: Gætu þær aðstæður mögulega komið upp að ekki væri hægt að réttlæta einhverja tiltekna ráðstöfun auðlinda með því að þær væru þjóðinni til hagsbóta? Í alvöru talað, er ekki kominn tími til að hætta einfaldlega við þessa vitleysu? Málið er stjórnarflokkunum báðum til skammar.


mbl.is Rætt um að fella hugtakið þjóðareign út úr frumvarpstexta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægur áfangi

Það er stórkostlegt að Alþingi skuli nú loks ná saman um að setja inn í stjórnarskrá eignarréttaryfirlýsingu sem hefur nákvæmlega engin áhrif á þann eignarrétt sem fyrir er. Ef einhver alvara væri á bak við þetta væri að sjálfsögðu rætt um nýtingarrétt en ekki eignarrétt. Enn sannast hið fornkveðna, að því verr gefast heimskra manna ráð sem fleiri koma saman.


mbl.is Segir frumvarp um auðlindaákvæði eiga áralangan aðdraganda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úlfur, úlfur?

Mér finnst 3-4% lækkun alls ekki hljóma óeðlilega. Kostnaður veitingastaða felst nefnilega ekki bara í hráefni, heldur vega laun, húsnæði, markaðsmál og tækjakostur þungt. 7-8% lækkun á hráefni merkir því alls ekki að eðlilegt sé að verð lækki um 7-8%.

Það er hins vegar mikilvægt fyrir veitingamenn að gefa skýringar á verðlækkuninni eftir því sem kostur er. Annars munu nefnilega alls konar aðilar fara að halda því fram að um samráð sé að ræða, hversu kjánalegt sem það nú er á markaði sem telur hundruð samkeppnisaðila.

 


mbl.is Fjármálaráðherra: Vonbrigði að veitingahúsin hafi ekki lækkað verð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgðin liggur hjá einstaklingum

Það er átakanlegt að lesa sögu Ásu Hjálmarsdóttur og sonar hennar um framkomu barnaverndarnefndar í Hafnarfirði gagnvart fjölskyldu þeirra. Ása nafngreinir nokkra einstaklinga sem komu að málum. Flestir eru þeir væntanlega komnir undir græna torfu, ef ekki dýpra, en þó er rætt við einn þeirra í blaðinu. Hann vill ekki kannast við neitt.

Vissulega eru það á endanum einstaklingar sem bera ábyrgðina - vísast oft fólk sem gengið hefur fram af miskunnarleysi undir merkjum valdhroka, sjálfumgleði og virðingarleysis gagnvart börnunum sem þeir áttu að gæta. En vandinn er sá, að málin eru vísast fyrnd og réttarkerfið á því engin úrræði gagnvart þessum "barnavinum". Kannski er eina leiðin til að draga þá til ábyrgðar sú, að nafngreina þá sem allra flesta, birta af þeim nýjar myndir og opinbera lýsingar á framferði þeirra.

En jafnvel þótt þetta sé gert í tengslum við þessi gömlu mál er mikilvægt að blekkjast ekki til að halda að svona framferði eigi sér ekki lengur stað. Því er ekki nóg að draga til ábyrgðar þá sem báru ábyrgð á barnaverndarmálum fyrir mörgum áratugum. Mikilvægt er að fara einnig ofan í saumana á því hvernig þeim málum er háttað nú, enda enginn vafi á því að hroki, sjálfumgleði og skeytingarleysi grassera enn hjá mörgum sem starfa að þessum málaflokki.


mbl.is Ása Hjálmarsdóttir segist aldrei munu fyrirgefa, ekki heldur „hinum megin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúarbrögð og nekt - ussussuss

Skrýtið, að mér datt strax í hug þegar ég sá þessa fyrirsögn að kaupstefnan væri á Íslandi. En hún er víst í Dubai. Saudi Ísland, óskalandið, ekki alveg komið víst!
mbl.is Listhús beðin um að sleppa nekt og trúarlegum tilvísunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitthvað er þetta einkennilegt!

Svo virðist sem flestir lögfræðingar séu sammála um að ekki sé hægt að skilgreina eignarrétt þjóðarinnar á fiskimiðunum. Jafnframt hefur verið bent á að erfitt sé að skilgreina eignarrétt á þeim yfirleitt. Samkvæmt þessu hafa menn einfaldlega hlaupið á sig þegar stjórnarsáttmálinn var gerður. Tilgangurinn með því að setja inn í stjórnarskrá ákvæði um "þjóðareign" á fiskimiðunum hefur væntanlega verið sá, að tryggja til frambúðar að stjórnvöld á hverjum tíma geti tekið ákvarðanir um fiskveiðistjórnun og / eða úthlutun kvóta án þess að hefðarréttur útgerðarmanna hamli því. Það er eðlilegt sjónarmið. Ég átta mig hins vegar ekki á því hvers vegna það þarf endilega að gerast með því að skilgreina fiskimiðin sem þjóðareign. Er ekki einfaldast að setja í stjórnarskrá ákvæði um að óheimilt sé að afhenda, gefa eða selja, réttinn til nýtingar fiskimiðanna - nýtingarrétt en ekki eignarrétt - til einstaklinga eða fyrirtækja til frambúðar?
mbl.is Geir segir enga niðurstöðu komna í auðlindamálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Mars 2007
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.10.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 288250

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband