Syndin sem ekki er hægt að fyrirgefa

Um daginn sagði ég vini mínum frá því hversu undrandi ég væri að sjá að 22% Bandaríkjamanna hefðu miklar áhyggjur[1] af því að börn þeirra myndu deyja eða verða fyrir alvarlegum skaða ef þau smituðust af kórónuveirunni, í ljósi þess að eins og gögn sýna er áhættan fyrir börn aðeins smávægileg[2]. Hann svaraði því til að þetta kæmi ekki endilega á óvart, því eins og hann orðaði það, þá hefðu foreldrar alltaf áhyggjur af börnum sínum. Við ræddum svo þessa áhættu í samhengi við fleira, og á endanum vorum við sammála um að þessi hræðsla ætti ekki við nein rök að styðjast; börn væru líklegri til að deyja í bílslysi, eða jafnvel bara af þvíað detta fram úr rúminu eða niður stiga heima hjá sér.

 

Versta mögulega niðurstaðan

En hvers vegna brást vinur minn við í upphafi eins og hann gerði?

Í gestakafla í nýrri bók Dr. Roberts Malone, Lies My Gov‘t Told Me[3], fjallar öryggissérfræðingurinn Gavin de Becker um hvernig ákveðnar hættur verða meira áberandi í huga okkar, einmitt vegna þess að erfitt er að átta sig á vægi þeirra; hvernig við höfum tilhneigingu til að einblína á verstu mögulegu niðurstöðuna, einhvern mjögólíklegan, en líka mjög skelfilegan möguleika. De Becker tekur dæmi úr gömlu viðtali við bandaríska sóttvarnalækninn dr. Anthony Fauci til að útskýra þetta. Viðfangsefnið er alnæmi:

„Hinn langi meðgöngutími þessa sjúkdóms sem við gætum verið að byrja að sjá, þar sem við sjáum nánast, eftir því sem mánuðirnir líða, aðra hópa sem gætu tekið að smitast, og að sjá þetta hjá börnum vekur miklar áhyggjur. .... Nú kann það að vera fjarstæðukennt í þeim skilningi að engin tilvik hafa verið staðfest enn, þar sem einstaklingar hafa eingöngu verið í nánum samskiptum við einstakling með alnæmi, og hafa til dæmis fengið alnæmi...“

Hvað er Fauci í rauninni að segja? Með orðum de Beckers: „Það hafa ekki komið upp nein tilfelli þar sem alnæmi smitast gegnum venjuleg náin samskipti. En skilningur fólks á þessum hræðsluáróðri Faucis var auðvitað allt annar: Þú getur smitast af þessum sjúkdómi jafnvel án náinna samskipta.“ Eins og við vitum öll núna voru vangaveltur Faucis algjörlega ástæðulausar, en það var hræðsluáróður eins og þessi sem dreif áfram langvarandi bylgju ótta við samkynhneigða karlmenn.

 

Greining texta og hugtaka er lykilatriði

„Hvað þýðir þetta í raun og veru?“ Þetta fyrsta spurningin sem við verðum alltaf að spyrja þegar við lesum texta eða hlustum á fólk. Orð Faucis hér að ofan fela í sér tvær fullyrðingar. Sú fyrri er yfirlýsing um staðreynd: Engin dæmi um smit gegnum venjuleg náin samskipti hafa komið upp. Sú síðari er tilgáta: Smit gæti mögulega átt sér stað gegnum venjuleg náin samskipti.

Þegar við höfum staðfest merkinguna er næsta skref að spyrja: „Er þetta satt?“ Fyrri fullyrðingin hér er studd staðreyndum, hin síðari ekki. Þetta þýðir að fyrri fullyrðingin er gild, en hin ekki. Við smitumst ekki af alnæmi með því að faðma sjúkling. Samkynhneigði frændi þinn er ekki hættulegur.

Þetta sýnir hvernig einföld greining á merkingu texta hjálpar okkur að greina á milli staðreynda og skáldskapar, byggt á því hvernig meintar staðreyndir passa við það sem við vitum nú þegar fyrir víst, hvort þær eru ísamhengi innbyrðis; hvort þær eiga við í samhenginu sem rætt er, og hvort þær grundvallast á traustum gögnum.

 

Syndin sem ekki er hægt að fyrirgefa

Skömmu áður en kórónuveiran lét á sér kræla dvaldi ég í rúman mánuð á Indlandi. Meðal annars heimsótti ég lítið þorp í Gujarat-héraði til að taka þátt í vígslu skólabókasafns sem við höfðum verið að styrkja. Allir sem ég hitti, allt frá leiguliðum úr samfélagi Dalíta til bæjarstjórans, voru sammála um eitt; mikilvægi menntunar. Nokkrum mánuðum síðar hafði þorpsskólanum verið lokað; öllum skólum á Indlandi hafði verið lokað. Fátæklingarnir, sem bjuggu í borgunum urðu að yfirgefa þær því þeim var bannað að framfleyta sér. Fjórtán ára strákurinn sem var vanur að færa okkur te á skrifstofuna fór. Við höfum ekkert heyrt frá honum síðan.

Margir fórust á leið sinni í sveitirnar, úr hungri, veikindum, örmögnun. Þeim sem komust til þorpanna var oft meinuð innganga. Ástæðan var sjúklegur ótti sem hafði gripið íbúana, rétt eins og alls staðar annars staðar í heiminum.

Þegar ég heyrði fréttirnar fyrst hugsaði ég um þennan fjórtán ára pilt, líf hans, vonir og drauma, sem lagðir voru í rúst, og hvernig örlög hans voru táknræn fyrir örlög þeirra hundruða milljóna sem fórnað var á altari örvæntingarinnar. Því óttafaraldur á þessu stigi er hættulegur, hann er eyðileggjandi. Hann leiðir til algerlega sjálfmiðaðrar hegðunar, fullkomins skeytingarleysis um aðra, í örvæntingarfullri tilraun til að vernda okkur sjálf.

Örvænting, í kristnum skilningi, er þegar maður gefur upp vonina um hjálpræði. Þess vegna er hún að mati margra guðfræðinga eina syndin sem ekki er hægt að fyrirgefa[4]. Jafnvel þótt við séum trúlaus ber þetta að sama brunni: Þegar einhver ákveður að eignast ekki börn af ótta við að heimurinn sé að líða undir lok, þá er það örvænting. Þegar einhver slítur öll tengsl við annað fólk, hættir að taka þátt í lífinu í röklausum ótta við veiru, þá er það örvænting. Örvæntingin er afneitun lífsins. Þess vegna er hún ófyrirgefanleg synd.

 

Gagnrýnin hugsun er siðferðileg skylda

Við sjáum nú glöggt siðferðilegt gildi gagnrýninnar hugsunar: Án hennar gefum við okkur á valdóttaviðbragðinu við hverju því sem dynur á okkur, hunsum allt nema okkur sjálf og viðfang óttans. Við látum undan örvæntingunni. Þess vegna er gagnrýnin hugsun ekki aðeins gagnleg; hún er siðferðileg skylda. Um þetta ættum við að hugsa í dag, þegar þrjú ár eru liðin síðan hin fjarstæðukennda tilraun til að stöðva útbreiðslu bráðsmitandi öndunarfæraveiru, þvert á öll þekkt vísindi, hófst fyrir alvöru hérlendis.

Það er í þessu ljósi sem við hljótum að dæma viðbrögð stjórnvalda um allan heim, sem hafa linnulaust dælt út hræðsluáróðri, oft vísvitandi röngum í því skyni að vekja ótta og örvæntingu, og um leið þaggað niður og ritskoðað allar tilraunir til að stuðla að skynsamlegri og heilbrigðari nálgun; stjórnvalda sem hafa markvisst kæftgagnrýna hugsun[5]. Það er einnig í þessu ljósi sem við hljótum að fordæma hörmulegar afleiðingar þessa framferðis, og hvernig það hefur fyrst og fremst skaðað þau ungu, þau fátæku; okkar minnstu systkin.

 

Þorsteinn Siglaugsson, formaður Málfrelsis – samtaka um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi. https://thorsteinnsiglaugsson.substack.com

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. mars 2023

 

[1] https://www.kff.org/coronavirus-covid-19/poll-finding/kff-covid-19-vaccine-monitor-december-2022/

[2] https://www.npr.org/sections/health-shots/2021/05/25/997467734/childrens-risk-of-serious-illness-from-covid-19-is-as-low-as-it-is-for-the-flu

[3] https://www.simonandschuster.com/books/Lies-My-Govt-Told-Me/Robert-W-Malone/Children-s-Health-Defense/9781510773240

[4] https://www.newadvent.org/cathen/04755a.htm

[5] https://twitter.com/DrJBhattacharya/status/1619504923246477313?s=20&t=QKaYLlIJMNgU1dfDn4Ea2w

 


Bloggfærslur 17. mars 2023

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 287341

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband