11.9.2020 | 08:39
Þegar fókusinn brenglast
"Nú er lífi, heilsu og afkomu almennings fórnað til að þjóna ofurþröngsýnni og bjagaðri markmiðasetningu, sem er rekin líkt og fleygur í þann flókna og viðkvæma vef sem mannlegt samfélag er."
Þann 19. ágúst var Íslandi í raun lokað fyrir ferðamönnum. Ferðaþjónusta hefur nánast stöðvast. Verslun og þjónusta verður fyrir miklum skakkaföllum. Fasteignafélög lenda í vanda. Bankarnir fá skuldirnar í fangið. Skatttekjur ríkisins hrynja. Getan til að halda uppi mennta- heilbrigðis- og velferðarþjónustu skerðist. Þúsundir missa vinnuna, enda stór hluti starfa háður ferðaþjónustu. Margir hafa hvatt til að aðgerðirnar verði endurskoðaðar. Viðbrögðin lofa ekki góðu:
Fyrir skömmu spurði smitsjúkdómalæknir einn hvort fólk sætti sig í alvöru við að einhver legðist á spítala vegna Covid-19. Um daginn sagði sóttvarnalæknir í ásökunartóni að þeir sem töluðu fyrir hófsamari aðgerðum á landamærunum skyldu þá bara svara því hver væri ásættanlegur fjöldi dauðsfalla! Forsætisráðherra mærir árangur aðgerðanna.
Samhengi atvinnuleysis og dauðsfalla
Það er löngu sannað að atvinnuleysi veldur dauðsföllum. Hjartasjúkdómar eru fyrirferðarmestir. Samkvæmt nýlegri rannsókn veldur 1% aukning atvinnuleysis 6% aukningu á dánarlíkum ári síðar. Fjöldi annarra rannsókna víða um heim sýnir slíkt samhengi.
Í annarri skimun á landamærum hefur 21 smit greinst. Því færri ferðamenn, því færri smit greinast. Og því færri ferðamenn, því færri störf. Það er kaldhæðnislegt að því betri sem árangur aðgerðanna verður - færri ferðamenn og færri greind smit - því fleiri dregur atvinnuleysið til dauða fyrir hvert smit sem forðað er.
Þegar fókusinn brenglast
Enginn má leggjast á spítala vegna Covid-19. En enginn hefur misst vinnuna til að fækka í þeim 25.000 manna hópi sem árlega þarf að leggjast á spítala af öðrum orsökum. Enginn krefst allsherjar útgöngbanns til að fækka þeim 2.300 dauðsföllum sem verða af öðru en Covid-19.
Hvers vegna þetta hrópandi misræmi? Ástæðan er að fókusinn á það sem máli skiptir er horfinn. Eitthvað eitt fær skyndilega vægi úr öllum takti við tilefnið. Þetta er ekki í fyrsta sinn: Í galdrafárinu varð galdrakukl, sem miðaldakirkjan leit á sem hindurvitni og fæstir höfðu áhyggjur af, skyndilega undirrót alls ills. Orsök hungursneyðarinnar í Úkraínu á Stalínstímanum lá að stórum hluta í villukenningum Lýsenkós í erfðafræði, sem náðu flugi vegna þess að þær töldust sósíalískar, og sá merkimiði skipti öllu. Stundum eiga einstaklingar hlut að máli, líkt og þegar ofsatrúarmunkurinn Raspútín náði slíku tangarhaldi á rússnesku keisarafjölskyldunni að talið var ógna friði í Evrópu.
Þegar Covid faraldurinn hófst var talið að sjúkdómurinn væri langtum hættulegri en nú hefur komið í ljós, og því allt reynt til að hindra útbreiðsluna. Það mistókst, en samt var haldið áfram að reyna, með æ örvæntingarfyllri aðgerðum. Síðar kom á daginn að dánartölurnar voru miklu lægri en fyrst var álitið. Dánartíðni hérlendis er til dæmis 0,3%. En aðgerðirnar voru hafnar, ofsahræðslan búin að grípa um sig, og þá varð ekki aftur snúið. Við sjáum áhrif rangra upplýsinga allt í kringum okkur. Á dögunum sýndi til dæmis könnun að Bretar teldu að fimm milljón manns hefðu látist úr veirunni. Rétta talan er fjörutíu þúsund.
Bjögun markmiða og mælikvarða
Um leið og fókusinn brenglast bjagast mælikvarðarnir. Stríðsfyrirsagnir um mikla fjölgun smita fara nú eins og eldur í sinu um heimsbyggðina. Í þessum fréttum er ekkert minnst á að dauðsföll standa ýmist í stað eða snarfækkar. Því áherslan er aðeins á fjölda smita og þá verða þau það eina sem máli skiptir. Ekki dauðsföllin. Og þaðan af síður afkoma, líf og heilsa almennings. Bara fjöldi smita.
Athugasemdum er ekki vel tekið þegar fókusinn hefur tapast. Nýlega setti íslenskur læknaprófessor fram hógværa gagnrýni á stefnu stjórnvalda og lagði á borðið nokkrar staðreyndir um faraldurinn. Hann fékk umsvifalaust yfir sig dembu óhróðurs. Árásirnar voru svo sjúklega ómálefnalegar að mann setti hljóðan. Í galdrafárinu var bannað að efast um tilvist galdra. Og hvernig ætli rússneska keisaraynjan hafi tekið þeim sem efuðust um visku Raspútíns?
Fleygur í samfélagsvefinn
Nú er lífi, heilsu og afkomu almennings fórnað til að þjóna ofurþröngsýnni og bjagaðri markmiðasetningu, sem er rekin líkt og fleygur í þann flókna og viðkvæma vef sem mannlegt samfélag er. Orð læknanna tveggja sem vitnað er til bera því glöggt vitni hvernig fókusinn hefur brenglast. Athugum að hér eru virtir vísindamenn að tala, ekki virkir í athugasemdum. Yfirlýsingar forsætisráðherra um meintan árangur sýna hvernig stjórnmálamenn geta misst sjónar á ábyrgð sinni gagnvart heildarhagsmunum samfélagsins. Ekkert skiptir lengur máli nema fjöldi smita. Hið upphaflega markmið, að tryggja afkastagetu heilbrigðiskerfisins og verja um leið þá hópa sem viðkvæmastir eru, er löngu fokið út í veður og vind hérlendis.
Að endingu kemst fókusinn í samt lag. En hversu mikið verður búið að leggja í rúst áður en að því kemur? Hversu mörgum verður búið að fórna á altari brenglaðra markmiða?
(Birt í Morgunblaðinu 11. september 2020)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Bloggfærslur 11. september 2020
Um bloggið
Hitt og þetta
Bloggvinir
-
agny
-
graenar-lausnir
-
bjarnijonsson
-
bjornalexandermikli
-
gattin
-
dofri
-
contact
-
fhg
-
gretaulfs
-
gudni-is
-
mosi
-
bofs
-
muggi69
-
gudrunmagnea
-
zeriaph
-
holi
-
haukurn
-
diva73
-
hlynurh
-
ingibs
-
ingolfursigurdsson
-
fun
-
jennystefania
-
johnnybravo
-
eyfeld
-
jonbergsteinsson
-
jonvalurjensson
-
thjodarskutan
-
krist
-
kristjan9
-
loncexter
-
ludvikjuliusson
-
sleggjudomarinn
-
magnuss
-
svarthamar
-
vestskafttenor
-
otti
-
runaro
-
joklamus
-
sigurjons
-
stefanjul
-
summi
-
saemi7
-
samy
-
torfusamtokin
-
vestfirdir
-
thorsteinn
-
valli57
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar