Óskhyggja og ofsahræðsla, eða yfirvegun og heildarsýn?

Eftir að ákveðið var að loka landinu í raun fyrir ferðamönnum síðastliðinn föstudag hafa margir velt fyrir sér hvort þar sé byggt á nægilega traustum grunni. Svo virðist sem til grundvallar sé lagt hagrænt mat sem unnið var af Fjármálaráðuneytinu.

Ónothæft hagrænt mat

Í þessu mati er reiknað með að ávinningur hagkerfisins af hverjum erlendum ferðamanni sé 100-120 þúsund krónur. Óljóst er hverjar forsendur þessarar niðurstöðu eru, enda enga greiningu að finna í matinu, né fylgiskjöl með útreikningum. Engin tilraun virðist heldur gerð til að leggja mat á afleidd áhrif þess að leggja ferðaþjónustuna af, mánuðum, jafnvel árum saman. Þó er ljóst að afleidd áhrif útflutningsgreina skipta hagkerfið miklu máli. Einnig er þoku hulið hverjar forsendur mats á áhrifum á innlenda eftirspurn eru, en ákvörðun stjórnvalda grundvallast þó á þeirri staðhæfingu að jákvæð áhrif þar séu meiri en nemur því sem tapast í ferðaþjónustu. Að lokum virðist ekki hafa verið reynt að meta önnur áhrif af lokun landsins. Það eru ekki einungis ferðamenn sem ferðast til og frá landinu. Hömlur á ferðir starfsmanna og tengdra aðila geta dregið umtalsvert úr samkeppnishæfni fyrirtækja og þar með haft neikvæð áhrif á afkomu þeirra.

Í mati Fjármálaráðuneytisins er gengið út frá því að 0,25% ferðamanna til landsins beri með sér smit. Reynslan eftir opnun landamæranna í júní sýnir hins vegar að þessi forsenda er fjarri öllu lagi. Ef miðað er við þá ferðamenn sem skimaðir hafa verið er hlutfallið um 0,06%. Samt kemur fram í minnisblaði vegna aðgerðanna að byggt sé á umræddu mati og þessi alranga spá er ein grundvallarforsendna þess!

Meðan ekki liggur fyrir viðunandi greining á hagrænum áhrifum ákvörðunarinnar er útilokað að taka jákvæða afstöðu til hennar út frá hagrænu sjónarmiði.

Óverjandi að stinga höfðinu í sandinn

En hagrænt mat er ekki það eina sem skiptir máli. Hérlendis hafa um 3.600 smitast samkvæmt rannsókn ÍE og tíu látist úr sjúkdómnum, ríflega tveir af hverjum þúsund. Ónæmi er nánast ekkert og má því reikna með að á endanum verði dauðsföll talsvert fleiri. En ákvörðun stjórnvalda nú er ekki án afleiðinga, heldur leiðir beint af sér verulega aukningu atvinnuleysis. Langvarandi atvinnuleysi þúsunda eða tugþúsunda hefur grafalvarlegar afleiðingar í för með sér. Fólk missir húsnæði sitt, nær ekki að framfleyta sér og því fylgir vonleysi og geðræn og líkamleg heilsufarsvandamál. Rannsóknir sýna að atvinnuleysi hefur veruleg neikvæð áhrif á lífslíkur fólks. Jafnvel getur farið svo, sé meðalhófs ekki gætt, að á endanum falli fleiri í valinn vegna tilrauna til að halda faraldrinum í skefjum en vegna sjúkdómsins sjálfs. Það er siðferðileg skylda stjórnvalda að taka þessi áhrif með í reikninginn. Ekki er hins vegar að sjá að nein tilraun hafi verið gerð til þess. Því er útilokað að styðja ákvörðunina út frá siðferðilegu sjónarmiði.

Ákvarðanir byggðar á óskhyggju og ofsahræðslu?

Fáein smit greinast meðal erlendra ferðamanna, og þá er tekin skyndiákvörðun um lokun landsins. Hvað getur legið þar að baki?

Þegar ákveðið var að hefja skimun á landamærum í júní var haft eftir sérfræðingum að opnun landsins væri ekkert áhyggjuefni. Eflaust greindust einhver smit, en heilbrigðiskerfið væri vel í stakk búið til að takast á við það. Nú greinast nokkur smit, álag á heilbrigðiskerfið er langt undir hættumörkum, og þá leggja sömu aðilar til lokun landsins. Hvað breyttist? Engin haldbær réttlæting hefur komið fram, en fyrir liggur að smitin eru langtum færri en reiknað var með í mati Fjármálaráðuneytisins, sem opnun landamæra byggðist á. Byggir ákvarðanatakan aðeins á óígrundaðri óskhyggju einn daginn og röklausri ofsahræðslu þann næsta? Og sama dag og tilkynnt var um lokun landsins var meira að segja haft eftir embættismanni að búist væri við stórauknu álagi í skimunum á landamærum!

Ákvarðanir sem grundvallast ýmist á óskhyggju eða ofsahræðslu, og skilningsleysi á samhengi orsaka og afleiðinga, er engin leið að styðja.

Krafan er yfirvegun og siðferðileg ábyrgð

Við stöndum frammi fyrir erfiðum vanda, sem er bæði af hagrænum og siðferðilegum toga. Veiran verður á kreiki næstu misseri eða ár og við því þarf að bregðast. Bóluefni kann að koma, en veruleg óvissa er um hvort og hvenær það kann að verða og hvort það gerir eitthvert gagn. Óskhyggja um slíkt má ekki ráða ákvörðunum.

Valið stendur ekki um tvær öfgar; annars vegar lokun landamæra og engar sóttvarnaráðstafanir innanlands og hins vegar opnun landamæra og útgöngubann innanlands. Sú framsetning sýnir í hnotskurn þann skort á yfirvegun og heildarsýn sem virðist hafa heltekið marga stjórnmála- og fræðimenn.

Eini raunhæfi og siðferðilega réttlætanlegi valkosturinn er að grundvalla ákvarðanir á yfirveguðu og raunsæju mati, þar sem meðalhófs er gætt, litið er til allra hliða málsins, horft til langs en ekki skamms tíma, og ekki er skorast undan siðferðilegri ábyrgð.

(Birt á frettabladid.is í gær)

 


mbl.is Tjaldsvæðinu verður lokað í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. ágúst 2020

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband