Faídon á fimmtán mínútum?

Samkvæmt nýja þingskapafrumvarpinu verður ótakmarkaður ræðutími aflagður, en hámarksræðutími þingmanna verður 15 mínútur.

Ég heyrði Helga Hjörvar segja, í umræðum um frumvarpið, að ef menn gætu ekki komið skoðun sinni á framfæri á 15 mínútum ættu þeir að fara í endurmenntun í ræðuhöldum.

Ef við rýnum aðeins í orð Helga Hjörvar virðist sem að baki þeim liggi sú afstaða, að tilgangur þingræðna sé sá einn að koma skoðunum á framfæri. En er það svo? Til hvers starfar þingið? Til hvers halda þingmenn ræður?

Ef markmiðið með ræðuhöldum á þingi er bara það að koma skoðun á framfæri mætti væntanlega að ósekju stytta ræðutímann í fimm mínútur, jafnvel eina eða hálfa mínútu. Líka mætti enn auka skilvirknina og sleppa ræðuhöldunum alveg, enda geta þingmenn auðvitað komið skoðun sinni á framfæri í atkvæðagreiðslu.

Ég vissi hins vegar ekki betur en svo, að tilgangur löggjafarsamkundunnar væri sá, að tryggja, að mál fengju vandaða umfjöllun. Að þau væru rökrædd í þaula.

Sum þingmál eru flókin. Stundum eru þingmál þess eðlis að til að hægt sé að fjalla um þau af skynsamlegu viti þarf langar ræður, því öðruvísi er ekki hægt að rekja röksemdirnar með eða á móti í samhengi, með þeim tilvísunum til gagna sem þörf er á.

Engum hefur, mér vitanlega, komið til hugar að takmarka þann tíma sem lögmenn hafa til að spyrja vitni eða flytja ræður í rétti. Ástæðan er auðvitað sú, að slíkt kemur niður á málflutningi.

Alþingi er ekki réttarsalur. En í réttinum er starfað eftir lögum sem Alþingi setur. Ef rétturinn takmarkar ekki málflutningstíma, er þá ekki enn síður ástæða til að löggjafarsamkundan, sem setur lögin sjálf, takmarki hann.

Helgi Hjörvar er gamall ræðusnillingur úr Morfis. Ræðuhöld í Morfis snúast um að höfða til tilfinninga áheyrendanna og fá þá til að snúast á sveif með ræðumanni, oft á mjög yfirborðslegum forsendum. Fyrir löngu síðan gagnrýndi Sókrates Morfismenn síns tíma, sófistana. Hann sagði ræðusnilld þeirra innantóma og spillandi, því hún leiddi athyglina frá sannleika málsins að yfirborði og aukaatriðum. Sókrates skrifaði engar bækur, en það sem eftir honum er haft fyllir margar bækur, líklega merkilegustu bækur heimspekisögunnar. Í þeim er ekki aðeins verið að „koma skoðunum á framfæri“, heldur færa fyrir þeim rök. Ég er ekki viss um að mikið vit yrði eftir í Gorgíasi eða Faídoni eftir Platón ef Helgi Hjörvar stytti þessi verk niður í fimmtán mínútna yfirlit um skoðanir Sókratesar, jafnvel þótt hann sé góður penni.

Það er vissulega rétt að stundum eiga þingmenn það til að tala lengi, bara til að tala lengi, og tala þá stundum um ekki neitt. En stundum flytja þeir líka langar ræður sem geisla af rökvísi og viti. Lausnin á vondum málflutningi er ekki sú að banna vandaðan málflutning. Hún felst í því að bæta málflutninginn.

Það er því skoðun mín, að með því frumvarpi sem nú liggur fyrir, sé verið að hefla viðinn í líkkistu þingræðisins, því verði það að lögum verður oft á tíðum einfaldlega ekki hægt að halda uppi vitrænni umræðu um flókin þingmál.

Ég hefði auðvitað getað látið duga að setja skoðun mína fram rakalaust. Það hefði orðið miklu styttri texti. Ég bið Helga Hjörvar og félaga hans afsökunar á því, að láta það ekki duga.


mbl.is VG gagnrýnir frumvarp um þingsköp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lækkið hámarkshraðann!

Það er ákaflega einkennilegt að hámarkshraði á Keilugranda skuli aðeins vera 50 km/klst. Hann ætti að vera sá sami og á öðrum meginumferðaræðum.

Hvert er markmiðið með svona kjánagangi? Snýst þetta um að fjármagna lögregluna, eða hvað?

Hvernig væri þá að lækka bara hámarkshraðann niður í 30 alls staðar? Setja svo upp myndavélar og reka ríkissjóð komplet á sektum?

Í alvöru talað. Hefur þetta blessaða fólk ekkert betra að gera en að nappa venjulega borgara fyrir að gera ekkert af sér?


mbl.is Hraðakstur á Eiðsgranda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barasta sammála Sóleyju!

Þetta er líklega í fyrsta skipti sem ég er sammála einhverju sem Sóley Tómasdóttir segir opinberlega.

Vitanlega er verslunin frjáls að því að setja upp kallahorn ef hún vill. En þetta er bara eitthvað svo óendanlega korní:

"Konur eru þannig að þær æða trylltar milli búða þar til þær detta niður dauðar."

"Karlmenn eru þannig að þeir kaupa aldrei neitt en hanga bara fyrir framan sjónvarp og í tölvuleik."

Staðalímyndir af þessum toga eru ákaflega ríkjandi af einhverjum sökum. Í einhverjum tilfellum geta þær vafalaust átt við. Sumir karlmenn eru heiladauðir og sumar konur kaupóðar. En svo getur það líka verið öfugt og þar að auki er fullt af fólki sem er hvorki heiladautt né haldið kaupæði.

Svona lagað er því pirrandi og um það get ég verið sammála Sóleyju. Smekkur okkar fer saman hvað það varðar. Hvort þetta hefur eitthvað með jafnréttismál að gera er ég hins vegar ekki svo viss um. Það væri þá helst að þessi staðalímynd kynni að ala á vantrausti í garð karlmanna, því af tvennu illu held ég að verslunarárátta hljóti nú að vera skárri en sjónvarpsfíkn.

 


mbl.is Pabbar í pössun í Hagkaupum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. nóvember 2007

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband