Færsluflokkur: Heimspeki
25.2.2022 | 14:26
Svar Agambens
Leyf þeim að klóra sér sem klæjar!
heldur, hvers vegna þagðir þú?
sýndu ljóslega allt sem þú hefur séð,
leyf svo þeim að klóra sér sem klæjar!
Því þó rödd þín sé beisk við fyrsta bragð,
þá mun hún síðar gefa góða næringu,
ef henni er rennt niður og hún melt.
Heimspeki | Breytt 28.2.2022 kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2019 | 12:51
Skipta siðferðileg álitaefni máli?
Leiðari Fréttablaðsins þriðjudaginn 29. janúar fjallar um fóstureyðingar. Þar segir: "Umræðan um fóstureyðingar snýst [...] um ákveðna grunnþjónustu í okkar samfélagi og hvernig við veitum hana með skilvirkum og skynsamlegum hætti þar sem við virðum sjálfsákvörðunarrétt verðandi mæðra og, umfram allt, treystum dómgreind þeirra."
Um leið verður hins vegar ekki annað séð en höfundurinn telji fóstureyðingar siðferðilegt álitamál: "Sem álitamál á það erindi í upplýsta umræðu um hvenær líf raunverulega kviknar [...] hver réttur ófædds barns er og önnur margslungin siðferðileg álitaefni. Baráttufólk fyrir sjálfsákvörðunarrétti kvenna sem og þau sem eru á öndverðum meiði ættu að vera óhrædd við að ræða þessar mikilvægu spurningar. [...] Þau sem raunverulega hafa áhuga á að hjálpa til munu yfirgefa skotgrafirnar, viðurkenna sjálfsákvörðunarrétt kvenna og stuðla að upplýstri ákvarðanatöku. Þarna eru sumsé siðferðisspurningar, og þær ekki af smærri endanum. Spurningar um rétt til lífs og um hvenær líf kviknar.
En greinarhöfundur virðist hins vegar ekki telja þessar grundvallarspurningar skipta neinu þegar rætt er um löggjöfina. Það má ræða þær, en umræðan á ekki að hafa nein áhrif á ákvarðanatöku. Með öðrum orðum, siðferði skiptir ekki máli.
Hver er grundvallarspurningin?
Þessi jaðarsetning siðferðilegrar umræðu stenst auðvitað enga skoðun: Öll löggjöf og reglur grundvallast á endanum á siðferðilegum viðmiðum, því hvað við teljum rétt og hvað rangt. Af því leiðir að séu siðferðileg álitamál til staðar þegar rætt er um breytingu á lögum, þá hljóta niðurstöðurnar um þau álitamál að hafa bein og afgerandi áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru.
Þegar að þessu tiltekna álitaefni kemur snúast spurningarnar um það, hvort fóstur sé lifandi vera, og ef svo er, hvort það eigi rétt til lífs, og hvort sá réttur sé þá jafn, eða gangi skemur en réttur hinna sem fæddir eru.
Hafi fóstrið rétt til lífs, og sé það siðferðilega óréttlætanlegt að taka líf einhvers sem á rétt til lífs, þá er bersýnilega óréttlætanlegt að taka líf fóstursins. Og komi rétturinn til lífs jafnframt á undan öðrum réttindum, líkt og hann hlýtur að gera, þá hlýtur lífsréttur fóstursins að ganga framar öllum vangaveltum um réttindi kvenna til að fjarlægja það úr líkama sínum eða réttindi foreldra til að velja, hvort hið ófædda barn verði hluti af framtíð þeirra eða ekki. Þá er auðvitað tómt mál að tala um sjálfræði foreldranna til að deyða barn sitt.
Hafi fóstrið hins vegar ekki rétt til lífs, er það ekki siðferðilega rangt í sjálfu sér að taka líf þess. Og þá er út af fyrir sig engin ástæða til að setja neinar takmarkanir á fóstureyðingar, nema ef vera kynni af einhverjum hreinum öryggisástæðum. Sé þetta raunin er ákvörðunin alfarið foreldranna.
Það hvers eðlis nákvæmlega réttur fóstursins er, ef hann er yfirleitt til staðar, hvenær hann myndast, og hvernig hann er veginn gagnvart rétti móðurinnar, hefur svo vitanlega áhrif á það hvort fóstureyðing er réttlætanleg undir einhverjum tilteknum kringumstæðum eða ekki. En spurningin er ávallt siðferðilegs eðlis og svörin við henni ráða mestu um hvernig löggjöfin á að vera.
Siðferði er ekki stofustáss
Spurningin um réttinn til lífs er í raun eina ástæða þess að deilt er um fóstureyðingar, og eina ástæða þess að samfélagið telur sig þess umkomið að takmarka þær með þeim hætti sem gert er. Ef þessari spurningu væri ekki ósvarað, væri ekki um neitt að deila. En þótt enn hafi ekki tekist að svara spurningunni um lífsrétt fóstursins á fullnægjandi hátt, er það ekki gild afsökun fyrir því að skauta framhjá henni. Ábyrgar ákvarðanir í þessu efni verða að byggja á skilyrðislausri auðmýkt gagnvart þeirri erfiðu staðreynd, að við vitum í rauninni ekkert um það, hvort fóstureyðing er manndráp, eða bara sambærileg við brottnám líffæris.
Siðferði er grundvallaratriði þegar við tökum ákvarðanir. Erfiðar spurningar eigum við ekki að reyna að þagga niður, heldur horfast í augu við þær af heiðarleika og kjarki, jafnvel þótt það kunni á stundum að vera óþægilegt.
9.12.2011 | 11:37
Einstaklingshyggja Ayn Rand
Fyrir rúmlega 20 árum þýddi ég skáldsögu rússnesk-bandaríska rithöfundarins og heimspekingsins Ayn Rand, The Fountainhead, sem gefin var út af Fjölsýn forlagi 1991.
Nú nýverið kom bókin út í endurskoðaðri þýðingu á vegum Almenna bókafélagsins, undir heitinu Uppsprettan.
Aðalsöguhetja Uppsprettunnar er arkitektinn Howard Roark, módernisti og hugsjónamaður sem neitar að gera málamiðlanir gagnvart list sinni. Sagan er grípandi og söguhetjurnar margar hverjar stórbrotnar.
Ayn Rand fæddist í Rússlandi árið 1905. Hún nam sögu og heimspeki í St. Pétursborg, en flúði til Bandaríkjanna rúmlega tvítug, árið 1926, og bjó þar síðan. Hún varð þar vinsæll rithöfundur og áhrifamikill heimspekingur og stjórnmálahugsuður.
Uppsprettan var fyrsta skáldsaga Rand sem náði verulegum vinsældum. Bókin kom út í miðri heimsstyrjöldinni, 1943 eftir að 12 útgefendur höfðu áður hafnað henni. Hún hlaut litla markaðssetningu og blendnar viðtökur gagnrýnenda. Öllum að óvörum varð Uppsprettan þó metsölubók sem enn rennur út í bílförmum og hefur verið þýdd á fjölda tungumála.
Ekki er vafi á að það er ekki aðeins grípandi söguþráður sem veldur vinsældum þessarar bókar heldur sá heimspekilegi undirtónn sem þar er að finna. Í Uppsprettunni tekur Rand til kostanna siðfræðihugmyndir sínar, sem um margt eru nýstárlegar, og prófar þær í þeim söguheimi sem hún skapar.
Í stuttu máli snýst heimspeki Rand um mjög róttæka einstaklingshyggju sem grundvallast á frumsetningum heimspekikerfis hennar, objektivismans, sem þýða mætti sem hluthyggju á íslensku. Forsenda siðferðisins, samkvæmt Rand, er að maðurinn þarf að viðhalda eigin lífi. Af þessu leiðir hún að öll siðferðisgildi hljóti að miða að þessu marki. Því sé ósiðlegt að einstaklingurinn fórni sér fyrir aðra og einnig ósiðlegt að hann geri kröfu um að aðrir fórni sér fyrir hann. Rand endurskilgreinir egoismann, eða sjálfselskuna, og telur hina sönnu sjálfselsku, sem sé grunnur alls siðferðis, vera að lifa og starfa sem sjálfstæð hugsandi vera, forðast að nota aðra og forðast að láta aðra nota sig. Egoisti Rand er þannig maður sem lifir aðeins sjálfum sér. Hann sækist ekki eftir völdum yfir öðru fólki, ekki eftir peningum peninganna vegna, heldur aðeins því að lifa eins heilsteyptu, heiðarlegu og skapandi lífi og honum er unnt.
Ayn Rand varð kannski þekktust fyrir stjórnmálaheimspeki sína, en hún grundvallast á siðfræðikenningu hennar. Rand áleit kapítalismann vera eina stjórnskipulagið sem væri siðferðilega réttlætanlegt því það væri það eina sem gerði manninum kleift að breyta siðlega. Hún áleit hins vegar að sá hreini kapítalismi sem hún aðhylltist hefði hvergi verið til og raunar óvíst að hann yrði nokkurn tíma til. Hún er að þessu leyti ólík hefðbundnum hægrimönnum sem gjarna álíta kapítalismann gallaðan en þó illskástan þess sem í boði er, enda gagnrýndi Rand gjarna bandaríska hægrimenn og frjálshyggjumenn, sem þó vilja margir tengja hugmyndafræði sína kenningum hennar. Enn meira fór þó fyrir gagnrýni hennar á samhyggju og alræðisstefnur á borð við kommúnisma, fasisma og nasisma, enda gengju slíkar stefnur þvert gegn möguleika mannsins til siðlegs lífs.
Heimspeki Ayn Rand vakti litla athygli í fræðaheiminum lengi framan af, kannski meðal annars vegna stjórnmálaskoðana hennar, en einnig vegna þess hve brotakennt höfundarverk hennar er og erfitt að staðsetja hana innan meginstrauma heimspekinnar. Á síðustu árum hefur áhugi á kenningum hennar hin vegar farið vaxandi og hafa nokkrar áhugaverðar bækur komið út um Rand undanfarið. Það er vel, enda er Ayn Rand afar áhugaverður heimspekingur og mikið verk óunnið í rannsóknum á kenningum hennar og tengslum við aðrar heimspekistefnur. Meðal annars má benda á "Ayn Rand, the Russian Radical" eftir Chris Matthew Sciabarra, sem kom út 1995 ef ég man rétt og gefur afar glögga mynd af heimspeki Rand og tengslum við stefnur og strauma á 19. og 20. öld.
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.10.2010 | 09:58
Siðferði, siðfræði og trú
Fyrir skemmstu lögðu þingmenn Hreyfingarinnar fram tillögu um að taka skyldi upp siðfræðikennslu í skólum. Virðast þingmennirnir telja að með siðfræðikennslunni muni siðferði í landinu batna.
Nú er það svo að siðfræði og siðferði eru gerólíkir hlutir. Maður getur vitað allt um siðfræði en verið með öllu siðlaus. Annar kynni svo að vera fyrirmynd um rétta breytni án þess að vita einu sinni að siðfræði er til. Og sé mið tekið af hinni, oft illvígu háskólapólitík, bendir reynslan síst til að siðleg breytni sé siðfræðikennurum efst í huga, raunar gjarna þvert á móti.
Eitt er það þó sem læra má af því að kynna sér sögu og kenningar siðfræðinnar. Það er að engum heimspekingi hefur tekist að sýna nauðsyn siðlegrar breytni án skírskotunar til æðri máttarvalda. Þó hafa margir reynt. Þessi niðurstaða kristallast kannski best í þeim orðum Friedrichs Nietsche að án guðs sé allt leyfilegt.
Nú vill hin nýja valdastétt í Reykjavík úthýsa trúarhreyfingum úr grunnskólum, banna helgileiki tengda jólum og leggja af litlu jólin eða breyta í eins konar gervihátíð án tengsla við þá kristnu arfleifð sem er grundvöllur þeirra. Einnig á að banna skólabörnum að teikna trúartengdar myndir í skólanum. Hugmyndaleg forsenda þessarar athafnasemi er mannréttindi. En þá gleymist að hugmyndin um mannréttindi verður ekki slitin frá þeirri kristnu rót hennar að hver einstaklingur sé óendanlega mikilvægur gagnvart guði. Það er eina röksemdin fyrir því að mannréttindi beri að virða.
Ennfremur má benda á að virðing hinnar nýju valdastéttar fyrir mannréttindum er ekki meiri en svo að hún hyggst ekki aðeins banna Gídeonfélaginu að gefa börnum biblíur, hvaða skaða sem það á nú að geta valdið, heldur ætlar hún líka að banna börnunum að teikna trúarlegar myndir. Vandséð er hvernig slíkt kemur heim og saman við almenn mannréttindi, en þar er tjáningarfrelsi grundvallarþáttur.
Lítill vafi er á að hnignun almenns siðferðis á stóran þátt í því efnahagslega og pólitíska hruni sem hér hefur orðið. Er þá ekki réttara að reyna að byggja upp grundvöll góðs siðferðis fremur en að brjóta hann niður?
Tillögur valda óánægju | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (89)
Um bloggið
Hitt og þetta
Bloggvinir
- agny
- graenar-lausnir
- bjarnijonsson
- bjornalexandermikli
- gattin
- dofri
- contact
- fhg
- gretaulfs
- gudni-is
- mosi
- bofs
- muggi69
- gudrunmagnea
- zeriaph
- holi
- haukurn
- diva73
- hlynurh
- ingibs
- ingolfursigurdsson
- fun
- jennystefania
- johnnybravo
- eyfeld
- jonbergsteinsson
- jonvalurjensson
- thjodarskutan
- krist
- kristjan9
- loncexter
- ludvikjuliusson
- sleggjudomarinn
- magnuss
- svarthamar
- vestskafttenor
- otti
- runaro
- joklamus
- sigurjons
- stefanjul
- summi
- saemi7
- samy
- torfusamtokin
- vestfirdir
- thorsteinn
- valli57
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 29
- Frá upphafi: 287867
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 20
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar