Hvað um skoðanakönnun?

Ég held að það sé alveg ljóst að tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla væri gagnslítil. Ástæðan er sú að í undanfara atkvæðagreiðslu um hvort ganga skuli til samninga yrðu valkostirnir aldrei skýrir og umræðan væri því líkleg til að snúast um illa grundaðar yfirlýsingar og röfl af beggja hálfu rétt eins og hún hefur að miklu leyti gert fram til þessa.

Ég er alls ekki sannfærður um að okkur sé best borgið innan ESB. En það kemur ekki í ljós fyrr en á reynir. Og það reynir ekki á fyrr en gengið er til samninga. Þá fyrst kemur í ljós hverjir kostirnir eru, klárt og kvitt.

Það er hins vegar margt sem bendir til þess að aðild að ESB gæti verið heppileg fyrir okkur, sérstaklega eins og málum er háttað núna. Ég held því að við hljótum að þurfa að kanna kostina.

VG hafa lagt á það áherslu að þjóðin verði spurð. Mismunandi túlkanir virðast uppi innan flokksins um hvað það merkir nákvæmlega. Ég velti því fyrir mér hvort málamiðlun gæti falist í því að í stað þjóðaratkvæðagreiðslu verði gerð vönduð skoðanakönnun, sem verði undirbúin með algerlega hlutlægri upplýsingamiðlun. Jafnhliða verði lögð fram þingsályktunartillaga fyrir Alþingi um aðildarumsókn. Ef einhver slík leið gæti orðið til þess að höggva á hnútinn væri það mikilvægt. Eini raunhæfi kosturinn á öflugri ríkisstjórn nú virðist liggja í samstarfi VG og Samfylkingar. Og öflug ríkisstjórn sem tekur ábyrgð á ástandinu er okkur einfaldlega lífsnauðsyn við þær kringumstæður sem eru uppi. Þá skiptir minna máli hvort við erum sammála öllum áherslum hennar eða ekki.

Að lokum megum við ekki gleyma því að þegar samningsrammi liggur fyrir tekur þjóðin afstöðu. Þá verða kostirnir skýrir. Sú atkvæðagreiðsla getur farið á hvorn veginn sem er eins og dæmi Norðmanna sýnir.


mbl.is Deilt um þjóðaratkvæðagreiðslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsmekkurinn að ESB?

Er það tilviljun að á sama tíma og svo virðist sem sjálfstæðissinnaðir Kommónistar vorir ætli að gefast upp fyrir hinu ísmeygilega Evrópusamsæri Landsölumanna skuli Drottinn Guð senda okkur tákn - Svínaflensu - til viðvörunar og íhugunar á þessum óvissutímum.

Hvað sagði ekki Nostradamus?

Hvað sagði ekki Opinberunarbókin?

Er ekki Svínaflensan þegar landlæg í hinni spilltu Evrópu?

... og á Bessastöðum glottir Grísinn

Wink


mbl.is Ekki útilokað að flensan berist hingað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostir og gallar?

Ég hef í gegnum tíðina ekki verið sérstakur stuðningsmaður þess að við göngum í ESB. Hrun krónunnar hefur hins vegar veikt mig verulega í þeirri trú að okkur sé stætt á að halda áfram með sjálfstæðan gjaldmiðil. Ef við tökum upp evru höfum við í rauninni tekið upp bæði regluverk og gjaldmiðil ESB. Þá standa eftir rökin um yfirráð yfir auðlindunum.

Við höfum reyndar ekki farið neitt sérstaklega vel með þessar auðlindir. Veiðiheimildirnar hafa verið skuldsettar upp í rjáfur og eru í raun að miklu leyti í eigu erlendra kröfuhafa. Orkuauðlindirnar hafa verið seldar á útsölu með ábyrgð skattgreiðenda.

Við skulum samt ganga út frá því að það sé einhvers virði að ráða yfir auðlindunum fremur en deila forræði þeirra með öðrum.

Við þurfum líka að ganga út frá því að það sé einhvers virði að geta átt eðlileg viðskipti við aðrar þjóðir og að með upptöku alþjóðlegs gjaldmiðils fáum við umtalsvert meiri fjárfestingu og samkeppni inn í landið en án hans.

Hvort vegur þyngra þegar til lengri tíma er litið? Eða er það annars ekki spurningin sem svara þarf?

Ég efast um að við fáum alvöru umræðu um þessa spurningu nema við látum reyna á málið með aðildarumsókn.


mbl.is ESB-viðræður í júní?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var lagið!

Oft hefur maður saknað þess að kjörnir fulltrúar taki málin í sínar hendur þegar tiltölulega skynlausir embættismenn eru búnir að gera í sig eins og í þessu máli.

Gaman að sjá dæmi um slíkt.

En nú verður Kolbrún líka að standa við stóru orðin og klára þetta fyrir kosningar!


mbl.is Mun tryggja að Líf fái líf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

111 meðferð á dýrum

Ekki verður betur séð á vef Umhverfisstofnunar en að fuglinn sem í fréttinni segist ekki hafa ætlað að "valda neinum sárindum" með hótun sinni um að drepa gæludýr fjölskyldunnar á Sléttu, sé sérlegur sérfræðingur í dýravernd. Dýrin mega því greinilega vara sig, enda dýralæknir á ferð!

Á fyrrgreindum vef kemur líka fram að hjá þessari stofnun starfa 65 manns. Ef þarna er ekki tilvalið tækifæri til að hefjast handa við þann niðurskurð í ríkisrekstri sem fyrir liggur að ráðast verði í þá veit ég ekki hvar ætti að byrja. 

Þangað til bíðum við spennt eftir að fá að fylgjast með þegar dr. Dauði ræðst gegn hreindýrinu Líf. 


mbl.is Hóta að aflífa hreindýrskálf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Galli í nýju lögunum?

Í nýju lögunum um greiðsluaðlögun segir: "Lögin ná ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hafa borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hafa lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra."

Það er vissulega eðlilegt sjónarmið að skuldir vegna atvinnurekstrar verði ekki hluti af greiðsluaðlögun. En samkvæmt málsgreininni er ljóst að stundi einstaklingur rekstur í eigin nafni sé hann útilokaður frá því að nýta sér möguleika á greiðsluaðlögun nema hann hætti fyrst rekstrinum.

Af þessu leiðir að fjöldi fólks, t.d. iðnaðarmenn og einstaklingar sem starfa sem verktakar geta alls ekki fengið greiðsluaðlögun jafnvel þótt engar skuldir hvíli á rekstri þeirra.

Er þetta ekki brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar?


mbl.is Hliðsjón af gjaldþrotum árin 2006 og 2007
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Apríl 2009
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband