Orkuverð OR til heimila er 7,85 kr/kwst

Ef nýting heimilanna er 55% en stóriðju 99% ætti þá verð á kwst til stóriðju að vera 4,36 kr/kwst ef þarna ætti að vera samræmi á milli.

Ég hlakka til að sjá skýrsluna sem Ragnar vitnar til. Bæði verður gaman að sjá hvernig 50-60% nýtingarhlutfallið er fundið út og eins hlýtur að vera ánægjulegt ef verð til stóriðju hefur tvöfaldast síðan síðast.


mbl.is Segir stóriðjuna borga meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðulegur málflutningur

Það er vægast sagt óábyrgt af forystumanni launþega að hafa uppi svona æsingamálflutning og hrapa að ályktunum um eitthvert samsæri fyrirtækja í landinu gegn launþegum.

Í fyrsta lagi má það vera hverjum manni ljóst að verðlagsáhrif gengishrunsins eru lengi að skila sér.

Í öðru lagi er ljóst að nýlegar skattahækkanir koma að sjálfsögðu fram í verðlagi. Stórhækkun tryggingagjalds eykur launakostnað verulega, hækkun tekjuskatts setur þrýsting á laun og svo framvegis.

Í þriðja lagi ræðst verðlag af framboði og eftirspurn. Það er út í hött að gera því í skóna að fyrirtæki hækki vörur umfram það sem markaðurinn tekur við. Það er líka út í hött að ætla að fyrirtæki verðleggi vörur sínar lægra en markaðurinn er tilbúinn að greiða fyrir þær.


mbl.is „Gagnrýnisvert hvernig fyrirtækin hegða sér"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landhreinsun að honum?

Þessi svonefndi stöðugleikasáttmáli virðist fyrst og fremst hafa gegnt því hlutverki að vera óendanleg uppspretta að þrasi, rausi og rifrildi. Ætli verði ekki bara landhreinsun að honum?

Wink


mbl.is Skötuselsfrumvarp að lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nóg komið af svo góðu

Það er mikilvægt hverju samfélagi að hafa einn eða fleiri trausta fjölmiðla sem geta haldið uppi gagnrýni á stjórnvöld.

Ég var satt að segja að vona að Morgunblaðið gæti orðið slíkur fjölmiðill. Það var það meira að segja um tíma, en það tímabil stóð stutt.

Því miður virðist blaðið nú farið í vegferð sem verður ömurlegri með hverjum deginum. Allt snýst um persónulegt skítkast og leiðindi út í hina og þessa eins og viðhengd "frétt" um fjármálaráðherra ber með sér.

Ritstjórar blaðsins eru nú tveir. Annar er traustur og reyndur blaðamaður sem hefur staðið sig vel í fyrri störfum. Hinn er gamall pólitíkus sem á harma að hefna og er síst þekktur fyrri málefnalegan málflutning. Líklega liggur vandinn þar.


mbl.is Steingrímur skiptir um skoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki einfalt mál

Hér er ég hræddur um að skjaldborgin sé pínulítið að hrynja yfir byggingameistarana: Fyrst er afskrifað til að bjarga heimilunum. Næst skríða útrásarvíkingar í skjólið. Þá verður allt vitlust. Þá er skattlagt. Þá verður allt vitlaust aftur. Þetta er nefnilega ekki einfalt mál og auðvelt að taka Ragnar Reykás á þetta:

Útrásarvíkingur fær felldar niður 50 milljónir af áhvílandi skuldum á hálfbyggðri sumarhöll á Þingvöllum. Er það sanngjarnt? Á hann ekki að borga skatt af því?

Einstæð móðir fær 20 milljóna íbúðarskuld lækkaða í 15 milljónir en berst áfram í bökkum. Er sanngjarnt að skattleggja greyið?

Með öðrum orðum kæmi ekki á óvart að viðhorfið færi eftir því hver á í hlut.

Kjarni málsins er hins vegar sá að afskriftir skulda eru ávinningur fyrir skuldarann. Því hlýtur að vera rökrétt að þessi ávinningur sé skattlagður rétt eins og hver annar. Skattlagningin veldur því auðvitað að nettóávinningurinn verður minni en ella, en það sama á við um allan annan fjárhagslegan ávinning.

Hins vegar má spyrja hvort ekki væri rökréttara að leggja fjármagnstekjuskatt á þennan ávinning en almennan tekjuskatt enda hníga ýmis rök að því að þessi ávinningur eigi meira sammerkt með arði af eignum en launatekjum.


mbl.is Afskriftir verða skattlagðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sandkassahagfræði

Það er auðvitað gott að vextir skuli nú lækkaðir. En sú röksemd að lækkun sé möguleg vegna þess að gengið hafi hækkað er ósköp einfaldlega fáránleg:

Gjaldeyrishöft valda því að engin alvöru viðskipti með krónur eiga sér nú stað. Gengi krónunnar endurspeglar því ekki framboð og eftirspurn eftir krónum - nema þá þau sem eiga sér stað í sandkassanum stóra við Arnarhól. Því veit enginn hvað krónan kostar í alvörunni. Og hvernig á að hafa verðlag á einhverju sem enginn veit hvað kostar til viðmiðunar um nokkurn skapaðan hlut?

Fram hefur komið að sandkassamenn hafa keypt sér krónur fyrir 15 milljarða. Ekki er ólíklegt að gengishækkunin svonefnda skýrist að mestu af því.

Vaxtalækkunin á sér vitanlega aðeins eina skýringu: Pólitískan þrýsting.

Röksemd bankans er svipuð þessu:

1. Ef það kólnar inni er skynsamlegt að hækka á ofninum.

2. Ég opna gluggann.

3. Það kólnar inni og ég hækka á ofninum.


mbl.is Lækka vegna gengishækkunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver borgar?

Rök félagsmálaráðherra fyrir niðurfærslu bílalána eru að eðlilegt sé að lánið sé í samræmi við eignina. Nú eru bílar hins vegar með þeim ósköpum gerðir að þeir verða verðlausir með tímanum. 100% bílalán verða því yfirleitt á endanum hærri en nemur andvirði bílsins hvað sem gengisbreytingum og verðbólgu líður. Bílalán eru því í rauninni neyslulán en ekki fjárfestingalán. Því er viss hugsunarvilla í því fólgin að eitthvert samhengi eigi að vera milli verðmætis bíls og láns, jafnvel þótt bíllinn sé settur sem trygging fyrir láninu. Ef fara á þessa leið með bíla, ætti þá ekki líka að gera húsgagnaverslunum að færa niður raðgreiðslulán af dýrum sófasettum til samræmis við verðmæti þeirra?

Þetta var um forsendurnar að baki. Spurningin sem snýr að skattgreiðendum er hins vegar hver á að greiða fyrir niðurfærsluna. Það er bersýnilegt að ef sett verða lög sem skerða eignir fjármögnunarfyrirtækjanna afturvirkt eiga þau skaðabótarétt á hendur ríkinu. Það liggur því eiginlega í hlutarins eðli að það verða skattgreiðendur sem borga. Þannig mun verkakonan sem kaus að nurla saman fyrir notuðum bíl í stað þess að skuldsetja sig fyrir nýjum greiða afborganirnar fyrir hálaunamanninn sem keypti tíu milljóna jeppa. Hversu réttlátt er það?

 


mbl.is Lán dýrra bíla afskrifuð mest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

... með atvinnubótaverkefni á herðum sér

Tvennt öðru fremur hamlar nú uppbyggingu heilbrigðs atvinnulífs hér á landi. Hið fyrra eru gjaldeyrishöft. Gjaldeyrishöft valda því annars vegar að erlendir fjárfestar eiga erfitt með að koma fjármagni inn í íslenskt atvinnulíf og enn erfiðara með að ná hagnaði til baka. Hins vegar valda þau því að enginn veit í raun hvað íslenski gjaldmiðillinn kostar. Fáir eru tilbúnir að kaupa vöru sem þeir vita ekki hvað kostar þá á endanum.

Hin hindrunin liggur ekki í lögum eða reglum heldur í því úrelta viðhorfi að eina leiðin til efnahagslegrar uppbyggingar sé að ríkið hafi forgöngu um hana. Þetta viðhorf virðist ríkjandi meðal flestra forsvarsmanna atvinnulífsins og einnig meðal allt of margra stjórnmálamanna. Það vekur sérstaka athygli að þessi stefna, sem á sínum tíma varð banabiti kommúnistaríkjanna í austri, virðist oft eiga mestan hljómgrunn meðal þeirra stjórnmálamanna sem í orði kenna sig við hægristefnu.

Hugmynd þessara formælenda ríkisrekins atvinnulífs  er að forsenda uppbyggingar hljóti annað hvort að vera sú að ríkið taki lán til að fjármagna framkvæmdir sem einkaaðilar myndu aldrei leggja fé sitt í og eru því líklega ekki arðbærar, eða þá að ríkið noti skattfé almennings og annarra fyrirtækja til að niðurgreiða starfsemi nýrra erlendra fjárfesta.

Fólk sem búið er að sannfæra um það, með gegndarlausum áróðri árum saman, að eina von atvinnulífsins felist í síauknum ríkisafskiptum, er ólíklegt til að framkvæma neitt sjálft. Það bíður bara og á meðan gerist auðvitað ekkert. Nú, þegar kreppir tímabundið að, eiga svo hinar hugmyndafræðilegu hræætur sínar bestu stundir til þessa, enda nærist stjórnlyndið ávallt á óttanum við hið óþekkta.

Ef málsvarar frelsis í efnahagsmálum gera athugasemdir við eitthvert ríkisverkefnið krefja forsjárhyggjumennirnir þá umsvifalaust svara um hvað þeir vilji eiginlega að ríkið geri í staðinn. Það að láta fólkið og fyrirtækin um málið kemur nefnilega ekki til greina. Sporgöngumönnum kommúnista er fyrirmunað að skilja að efnahagslíf byggir ekki á fimm ára áætlunum heldur á framtakssemi og drifkrafti einstaklinganna sjálfra. Þeim er fyrirmunað að skilja að hlutverk ríkisins er ekki að reka atvinnufyrirtækin eða heimta skatt af sumum þeirra til að hygla öðrum. Þeir fá ekki skilið að það er ekki hlutverk ríkisins að búa til vinnu handa fólki heldur einungis að veita því þá grunnþjónustu sem samkomulag er um að veita skuli og skapa því sem best skilyrði til að byggja upp sjálft.

-----------------------------

Ég vona svo sannarlega að gjaldeyrishöftin verði afnumin sem allra fyrst svo atvinnulíf geti tekið að blómstra hér að nýju. En ég vona líka að þorri íslenskra fyrirtækja hætti sem fyrst að láta háværa hagsmunaaðila draga sig á asnaeyrunum í endalausri baráttu fyrir þjóðnýtingu atvinnulífsins, eigrandi á mjóum fótleggjum í humátt á eftir vofu kommúnismans - með atvinnubótaverkefni á herðum sér.


mbl.is Þolinmæðin er á þrotum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið er hinn nýi útrásarvíkingur

Það kemur ekki á óvart að lífeyrissjóðir hafi tapað á fjárfestingum sínum. Þeim hefur til langs tíma ekki tekist sérlega vel upp við að græða á fjárfestingum. Því er mikilvægt að forðast að líta á þetta tiltekna tap sem einangrað fyrirbæri; það er líklega miklu frekar afleiðing af slakri stjórnun og spillingu innan sjóðanna almennt.

Nú hafa margir komist að þeirri niðurstöðu að frjálst efnahagslíf sé liðin tíð en þess í stað sé nú runninn upp tími ríkisrekstrar á sem flestum sviðum. Þingmenn og hagsmunaaðilar hamast nú í sífellu á stjórnvöldum að "gera eitthvað" til að "efla atvinnulífið" eins og það er kallað.

Með öðrum orðum er verið að kalla eftir atvinnubótavinnu í ríkum mæli.

Í grófum dráttum virðist svo hugmyndin vera sú að vegna þess að ríkinu er til allrar hamingju óheimilt að taka frekari lán til framkvæmda verði fé lífeyrissjóðanna sett í þær. Ríkið er því hinn nýi útrásarvíkingur og nú skulu lífeyrissjóðirnir fjárfesta í framkvæmdum hans.

Hver verður arður eigenda lífeyrissjóðanna af starfsemi sem snýst um það eitt að "gera eitthvað" til að "efla atvinnulífið"? Hverjar eru arðsemiskröfurnar til slíkrar starfsemi? Felast þær aðallega í reiknaðri "þjóðhagslegri arðsemi", sem til þessa hefur gjarna aðallega snúist um að tvítelja afrakstur hingað og þangað? Hver reiknar kröfuna út? Hvernig stenst hún markaðskröfu?

Mig grunar því miður að arður lífeyrissjóðanna af atvinnubótavinnunni verði í það minnsta minni en arðurinn af fjárfestingum í fyrirtækjum útrásarvíkinganna. Líklegast er að hann verði minni en enginn. Því er rétt að búa sig undir talsverða skerðingu lífeyrisréttinda í framtíðinni.


mbl.is Töpuðu hundruðum milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

INSEAD er ekki í Barcelona

Það er ánægjulegt að Ísland lendi ofarlega á fleiri listum en skammarverðlaunalistum. Veitir ekki af.

Í fréttinni hér er hins vegar að finna nýsköpun af öðru tagi: INSEAD viðskiptaháskólinn er nefnilega ekki í Barcelona heldur í Fontainebleau í Frakklandi.


mbl.is Ísland fremst í nýsköpun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Mars 2010
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband